Samfélagsmiðlar

Vinna og hreyfanleiki

Verulega reyndi á samfélög sem tóku á móti ferðaþyrstu fólki sumarið 2022 - þegar lífið komst í venjulegar skorður eftir kórónaveirufaraldurinn. Í ljós kom að þessi vágestur hafði ekki aðeins hindrað ferðir okkar og breytt hegðun í fjölmenni heldur voru viðhorf margra til vinnu breytt.

Óhreyfanlegur Jón Ósmann, ferjumaður, horfir vestur yfir Héraðsvötn

Lánsömustu launþegarnir uppgötvuðu í kórónaveirufaraldrinum að vinna þeirra krafðist ekki stöðugrar viðveru á tilteknum stað heldur gátu þeir vel sinnt sínum vinnuskyldum hvar sem er í heiminum – svo fremi að netsamband væri fyrir hendi. Aðrir fóru hreinlega að efast um ágæti þeirrar vinnu sem þeir höfðu sinnt, kunnu vel við lífstaktinn sem við tók eftir að heimsfaraldurinn skall á – hreinlega nenntu ekki að fara aftur í sama farið án þess a.m.k. að fá góða kjarabót. 

Staðbundnir fiskimenn og hreyfanlegir túristar í Cascais í Portúgal – MYND: ÓJ

Túristi sagði fyrr í vetur frá vaxandi áhuga stafrænna hirðingja (digital nomads) frá Bandaríkjunum á því að setjast að t.d. í Portúgal, þar sem veðrátta er góð, verðlag bærilegt og maturinn ljómandi fínn. Viðskiptamaður frá Kaliforníu sagði við tíðindamann AFP-fréttastofunnar að hann liti á vissan hátt á Portúgal sem Kaliforníu í Evrópu.

Brýningarmaður í Lissabon
Vinnustöð hreyfanlegs brýningarmanns í Lissabon – MYND: ÓJ

„Heimsfaraldurinn opnaði augu manns fyrir því að hægt væri að búa á hinum og þessum stöðum í heiminum. Það tekur mig aðeins tíu klukkustundir að ferðast hingað og þá er ég kominn í annan heim.”

Hlýtur ekki Ísland að eiga möguleika á að lokka til sín stafræna hirðingja og aðra þá sem komast upp með að afla sér lifibrauðs með óstaðbundinni vinnu?

Farþegastraumur inn og út úr landinu – MYND: ÓJ

Þessi röskun á vinnumarkaði og hugarfarsbreyting í kjölfar heimsfaraldursins leiddu til þess að víða vantaði fólk til starfa – ekki síst í margskonar vaktavinnu og þjónustustörf. Starfsemi flugvalla fór úr skorðum, víða gekk erfiðlega að manna störf í veitingahúsum og á hótelum. Þetta olli miklum töfum, niðurfellingu flugferða og lokana víða. Þá má ekki gleyma því að fólk sem hafði árin tvö á undan haldið rekstri gangandi með lágmarks viðbúnaði vegna heimsfaraldursins var margt að niðurlotum komið. 

Þéttsetinn bekkurinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar – MYND: ÓJ

Sumarið 2022 var erfitt í mörgum atvinnugreinum, ekki síst á öllum snertiflötum ferðaþjónustu. Þetta kom fram í viðtali Túrista við Rannveigu Grétarsdóttur, eiganda og framkvæmdastjóra hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar. Hún er stjórnarformaður Íslenska ferðaklasans og þekkir vel stöðuna í greininni.

Rannveig Grétarsdóttir – MYND: ÓJ

„Það alvarlegast sem hefur verið að gerast í sumar er að vegna þess hversu hratt var farið af stað eftir Covid-19 með lítinn mannafla þá höfum við hjá hvalaskoðunarfyrirtækjunum verið að keyra fólkið okkar út. Þetta hefur komið í ljós í ágúst. Maður heyrir í bransanum að fólk er sent í frí af því að sumarið var erfitt. Það var ekki létt að stíga upp úr heimsfaraldrinum, þegar þú misstir kannski vinnuna ekki einu sinni heldur tvisvar, og fara svo hratt af stað í vor. Síðasta sumar var mikið að gera í stuttan tíma en nú samfelld pressa í þrjá mánuði. Það er rosaleg þreyta í fólki.”

Afgreiðslan hjá Eldingu – MYND: ÓJ

Túristi heyrði hljóðið í fólki víða um land í sumar og haust. Allir voru harla glaðir að sjá erlenda ferðamenn að nýju eftir heimsfaraldurinn en ýmsir ræddu hversu mikilvægt væri að hafa gott fólk í vinnu. Ferðaþjónustufyrirtæki um allan heim þurftu að hafa töluvert fyrir því að fá til sín fólk. Ísland virðist þó enn njóta þess að vera spennandi í augum ungs fólks sem er tilbúið að vinna hér og þar og kynnast þannig heiminum. 

Laufey á Smyrlabjörgum – MYND: ÓJ

Laufey Helgadóttir, hótelhaldari á Smyrlabjörgum, lýsti umskiptunum frá tveimur sumrum í heimsfaraldri. Hún sagðist hafa óttast að það tæki lengri tíma að endurheimta erlenda gesti. Annað kom á daginn og ánægjulegt hafi verið að upplifa hversu glatt fólk var að geta ferðast að nýju. Hinsvegar voru sumrin tvö á undan ótrúlega erilsöm vegna þess hversu duglegir Íslendingar voru að ferðast um eigið land. Vegna óvissunnar hafi þau á Smyrlabjörgum samt ekki þorað að ráða erlent starfsfólk. Álagið lenti allt á fjölskyldunni. 

Gestir á Foss Hotel Glacier Lagoon á Hnappavöllum slaka á og njóta útsýnisins – MYND: ÓJ

Mörg ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni eru rekin af fjölskyldum og það hlýtur að reyna á þó vafalaust geti það líka verið gefandi.

„Afkomendur virðast ekki tilbúnir að taka við rekstrinum, hafa séð foreldra sína í stöðugri vinnu og eru ekki tilbúnir til þess,“ sagði Laufey Helgadóttir, sem þá var að bíða eftir fleira fólki til að létta undir. Á Smyrlabjörgum voru þá 18 manns starfandi en von var á átta til viðbótar frá Slóvakíu, Rúmeníu og Slóveníu. Laufey sagði að sér héldist vel á starfsfólki.

Sigurlaug á Brunnhóli – MYND: ÓJ

Túristi hitti líka Sigurlaugu Gissurardóttur, sem rekur gistiheimili á Brunnhóli í Hornafirði og ræddi m.a. starfsmannamálin, ekki síst skort á hæfu starfsfólki. Hún vill ekki meina að léleg launakjör hreki fólki í burtu. Mikil vinna geti skilað góðri afkomu. 

„Íslendingar vilja ekki vinna úti á landi og alls ekki í sveit, helst ekki nema í dagvinnu, og geta svo farið í frí þegar þeim dettur í hug,” sagði Sigurlaug sem hefur langa reynslu af ferðaþjónustu og félagsmálastörfum. Á Brunnhóli var sannarlega alþjóðlegur andi í sumar, þar voru 12 útlendingar við störf, frá Ungverjalandi, Slóvakíu, Tékklandi, Rúmeníu, Spáni, Portúgal og Hollandi. 

Á heldur grámyglulegum degi í ágúst lá leið Túrista í Stykkishólm. Sumarið lék ekki við hvurn sinn fingur á Snæfellsnesi. Fremur fátt ferðafólk var á stjái í Hólminum þennan dag, sumt dúðað, og það lá straumur inn á kaffihúsið í Sjávarborg, sem Sigríður Jóhannesdóttir rekur. Glaðvært, ungt fólk, af mörgu þjóðerni tók á mótum gestum í þessu húsi þar sem bæði má fá gistingu og njóta veitinga.

Sigríður á Sjávarborg tekur á móti gestum – MYND: ÓJ

„Þetta er besti hópur starfsfólks sem við höfum haft,” sagði Sigríður, sem settist niður svolitla stund með Túrista án þess að taka af sér svuntuna – enda beið vinnan.

„Þau eru frá Ítalíu, Argentínu, Póllandi og Litáen. Þetta er elsta fólkið sem við höfum haft, öll yfir þrítugt. Ég held að þetta komi með aldrinum. Það er sama hvað þau gera – setja lak utan um dýnu, skera kökusneið eða þrífa klósett. Metnaðurinn er alltaf sá sami. Þau eru svo áhugasöm og ábyrgðarfull, væru ekki að hér ef þeim þætti vinnan leiðinleg. Svo þegar ítalskur eða spænskur hópur kemur geta þau talað við fólkið. Þau koma með svo margar hugmyndir. Þetta er svo skemmtilegt fólk.”

Augnablik í eldhúsinu á Sjávarborg – MYND: ÓJ

Það þarf auðvitað ekki mikinn speking til að benda á hið sjálfsagða: Góð ferðaþjónusta verður til vegna framlags hæfs starfsfólks. Slök þjónusta spillir orðspori leiftursnöggt á öld samfélagsmiðlanna og einkunnargjafar á ferðavefum. Þetta veit allt reynt ferðaþjónustufólk. 

Ferðalangar í verslunarhugleiðingum við Geysi – MYND: ÓJ

Talandi um reynslu. Auðvitað var ekki sjálfsagt að fyrirtæki lifðu af heimsfaraldurinn. Fyrirgreiðsla stjórnvalda og bankanna fleytti fyrirtækjum í gegnum mestu erfiðleikana en það gat oltið á því hvernig reksturinn stóð fyrir faraldur hvort þau væru almennilega starfhæf eftir þrengingarnar – og af þeirri reynslu sem starfsfólk bjó yfir. Stefán Guðmundsson, eigandi hvalaskoðunarfyrirtækisins Gentle Giants á Húsavík, orðaði sína reynslu þannig:

„Það var aldrei spurning hvort við kæmumst í gegnum heimsfaraldurinn, aðeins hvernig. Nú erum við tiltölulega kát með lífið. Við höfum farið gætilega í allar fjárfestingar og uppbyggingu, reynt að átta okkur á stöðunni og haga seglum eftir vindi. Þarna kemur að gagni reynsla sem maður öðlaðist ungur og jafn mikilvægt er að við höfum haft sama kjarna starfsfólks frá upphafi. Starfsfólkið er mestu verðmætin í fyrirtækinu.” 

Stefán hjá Gentle Giants – MYND: ÓJ

Já, starfsfólkið er mestu verðmætin. Þessi staðhæfing úr munni sjóbarins Húsvíkings í ferðaþjónustu lýsir einmitt vel þeim lærdómi sem margir drógu af þeirri reynslu sem fékkst í heimsfaraldrinum og í upprisunni eftir hann.  Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, horfði yfir sviðið í sumarlok:

„Nú erum við að upplifa svipað ástand og fyrir heimsfaraldurinn: Hraðinn er mikill, alltof fátt starfsfólk, það skilar sér ekki í greinina, komin mikil þreyta.”

Ásta Kristín hjá Íslenska ferðaklasanum – MYND: ÓJ

Hún var innt álits á þeim breytingum sem væru að verða á vinnumarkaði eftir heimsfaraldur.

„Já, þetta er áhyggjuefni og alls ekki bundið við Ísland. Það eru vaxa upp kynslóðir með aðrar áherslur, ætla ekki að vinna eins og fyrri kynslóðir gerðu. Við þurfum að bregðast við þessu, t.d. auka tækni – ekki endilega til að gera störfin óþörf heldur miklu frekar áhugaverðari fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á að tengjast ferðaþjónustu.“

Ásta Kristín segir að það séu að verða hraðari breytingar á vinnumarkaði en við höfum lengi séð, ekki bara í ferðaþjónustunni heldur í mörgum öðrum greinum.

Afgreiðsla við Jökulsárlón – MYND: ÓJ

„Meiri hreyfing er á vinnuafli. Ungt fólk sér ekki endilega fyrir sér að taka að sér starf sem það síðan sinnir í áratugi, eins og við og kynslóðir á undan okkur gerðu. Fólk í dag metur lífið öðruvísi. Við vitum hinsvegar ekki hvort þetta er varanleg breyting eða skammtíma áhrif af faraldrinum.”

Ferðamanni leiðbeint í Skaftafelli – MYND: ÓJ

Nei, við vitum ekki hvort þær breytingar sem við höfum lifað á síðustu árum eru varanlegar. Hitt er nokkuð víst: Heimurinn heldur áfram að breytast. Ferðaþjónustan er næm fyrir breytingum í stjórnmálum heimsins og efnahagslífi – og auðvitað óvæntum áföllum sem snerta alla heimsbyggðina, eins og raunin varð með kórónafaraldrinum. 

Bjarnheiður, framkvæmdastjóri Kötlu DMI og formaður SAF – MYND: ÓJ

„Við þurfum að horfa lengra fram í tímann,” sagði Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF í aðventuviðtali við Túrista, og var með hugann við menntunarmál í starfsgreininni. 

„Okkur í ferðaþjónustunni vantar hundruð nýrra leiðsögumanna. Okkur vantar líka marga tugi, jafnvel hundruð, kokka og þjóna. Við sem þjóð þurfum einfaldlega að hvetja unga fólkið okkar til að læra að gegna þessum störfum. Svo vil ég fá eftirlaunaþega í leiðsögnina.”

Sara Hjörleifsdóttir í Sjávarpakkhúsinu í Stykkishólmi og Hekla dóttir hennar ræða við kokkinn Noel Bas – MYND: ÓJ

Bjarnheiður segir tíma til kominn að láta verkin tala í skólamálum, nógu lengi hafi verið talað um að nauðsynlegt sé að laga skólakerfið betur að þörfum atvinnulífsins. Hún fagnar því að ferðamálaráðherra segist vilja taka þau mál fastari tökum í þeirri stefnumótun sem unnið er að í ráðuneytinu. Ferðaþjónustan sé álitlegur vettvangur ævistarfs. Formaðurinn samsinnti staðhæfingu Túrista um að þessi grein ýtti undir frumkvæði. „Þú getur skapað svo mikið sjálfur. Það eru ótal dæmi um það að fólk sem vinnur í greininni skapar ný tækifæri. Maður heyrir nánast af nýju fyrirtæki á hverjum degi.”

Héraðsvötn á fallegum haustdegi – MYND: ÓJ

Einn sólbjartan dag í lok október renndi Túristi heim að Hólum í Hjaltadal, þessu forna skólasetri, og hitti að máli Ingibjörgu Sigurðardóttur, deildarstjóra ferðamáladeildar Háskólans á Hólum. Hún á rætur þarna í sveitinni og býr að langri reynslu af ferðaþjónustu og fræðastarfi henni tengdri. Hólaskóli er frumkvöðlaskóli.

„Alveg frá upphafi hefur hugsunin verið sú að námið sé fyrir frumkvöðla. Við kennum vöruþróun og nýsköpun. Hugsunin er alltaf sú að láta nemendur fá verkfærin. Þegar þú útskrifast ertu með verkfærin til að gera það sem þú vilt gera,” sagði Ingibjörg. Hún horfir yfir stöðu og starfssvið ferðaþjónustunnar með augum fræðikonunnar:

Ingibjörg á Hólum – MYND: ÓJ

„Framan af var þessi gríðarlegi vöxtur og þá höfðu menn ekki alltaf mikinn tíma til að staldra við. Það var vertíðarstemmning, allir uppteknir að bregðast við þeim mikla fjölda sem kom. Mér finnst að í seinni tíð sé horft meira til mikilvægis menntunar, að vera með starfsfólk sem hefur þekkingu og fengið þjálfun. Greinin er að þroskast. Ég er spennt að sjá hvernig við komum út úr Covid-19, sjá hver staðan verður eftir svona fimm ár – hverju þetta hefur breytt fyrir greinina.”

Lífið við Jökulsárlón eftir kórónaveirufaraldurinn – MYND: ÓJ

Í þessum orðum er kjarninn í þessum vangaveltum okkar: Við lifum á breytingatímum en vitum ekki alveg hvernig hlutirnir þróast. Hvenær veit maður það?

Ef Túristi leyfir sér að leggja út af orðum viðmælenda sinna á árinu, þá byggist farsæl ferðaþjónusta á góðum upplýsingum, vel þjálfuðu og menntuðu starfsfólki. Um leið gæti þurft að taka mið af breytingum sem orðið hafa á afstöðu fólks til vinnu, frítíma – og ferðafólks. Mörkin eru ekki eins skýr og áður. Möguleikarnir er óþrjótandi.

Nýtt efni

Fyrstu fimm mánuði ársins hefur verð á flugmiðum frá Íslandi til útlanda verið ódýrara en á sama tímabili í fyrra. Í maí lækkaði verðið um 5,7 prósent samkvæmt nýjum mælingum Hagstofunnar en til samanburðar hækkaði verðlag almennt um 6,2 prósent á milli ára. Verðmælingar Hagstofunnar ná til fleiri flugfélaga en þeirra íslensku en þau standa …

Þess hefur verið beðið að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti um refsitolla á innflutning kínverskra rafbíla. Kínversk stjórnvöld hafa verið sökuð um óeðlilega mikinn ríkisstuðning við innlenda framleiðendur og var þetta meðal umræðuefna í Evrópuferð forseta Kína nýverið. Ný tollheimta myndi þýða milljarða evra aukalegar álögur á kínverska rafbílaframleiðendur.  Xi-Jingping, forseti Kína - MYND: Britta Pedersen/dpa-Zentralbild/dpa/Alamy Nú …

Það er stundum margt um ferðamanninn á Skólavörðustíg og á Laugavegi. Einhverjir tuða vegna þessa, segjast vilja endurheimta miðborgina, en fleiri gera sér grein fyrir því að ferðamenn hafa glætt miðborgina nýju lífi. Það er svo annað mál að ferðamannafjöldi leiðir gjarnan til einhæfni í þjónustu: Ferðamannamenn í miðborginni - MYND: ÓJ Minjagripaverslunum fjölgar óhæfilega, …

Kynnisferðir hf. hagnaðist um rúmlega 1,3 milljarða króna á síðasta ári og tvöfaldaðist hann á milli ára. Tekjur félagsins námu 14,5 milljörðum króna og jukust um 30 prósent frá í fyrra. „Við erum afar stolt af þeim árangri sem náðist í rekstri félagsins á síðasta ári þrátt fyrir hátt vaxtastig og aðrar krefjandi ytri aðstæður. …

Joe Biden, Bandaríkjaforseti, og ríkisstjórn hans með Janet Yellen, fjármálaráðherra, fremsta í flokki, hafa nú kynnt fyrstu opinberu leiðbeiningarnar fyrir markað með kolefniseiningar þar í landi. Leiðbeininginum er ætlað auka líkurnar á því að kolefniseiningar sem ganga kaupum og sölum séu af nægilegum gæðum og að verkefnin sem liggi þeim til grundvallar skili raunverulegum árangri, …

„Fyrir þessa aðgerð voru rúmlega 800 manns í störfum sem ekki eru flugtengd og uppsagnirnar náðu eingöngu til þeirra," segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, en fyrirtækið samdi í dag um starfslok 82 starfsmanna. Uppsagnirnar náðu ekki til áhafna líkt og FF7 hafði áður greint frá. „Eins og við höfum sagt þá var árið …

Ráðuneyti viðskipta og sjávarútvegsmála í Noregi kynnti fyrir tveimur árum drög að frumvarpi um að þarlendir kjarasamningar og reglur um aðbúnað næðu líka til áhafna erlendra skipa sem færu um norska lögsögu. Litið yrði svo á að um leið og erlent skip færi inn fyrir norska lögsögu giltu um það sömu reglur og alla innlenda …

Fjárfestar lögðu Play til 4,6 milljarða króna í hlutafjárútboði félagsins sem lauk þann 11. apríl síðastliðinn. Í kjölfarið urðu töluverðar breytingar á hópi stærstu hluthafa félagsins. Nú er lífeyrissjóðurinn Birta stærsti einstaki hluthafinn en samanlagt fara sjóðir á vegum Íslandssjóða fyrir enn stærri hlut. Meðal nýrra stórra hluthafa er félag í eigu Einars Sveinssonar og …