Samfélagsmiðlar

Sjálfbær ferðaþjónusta á oddinn

Vaxandi þungi er í umræðu um hvernig efla megi sjálfbæra ferðaþjónustu og markaðssetja hana. Um þetta fjallaði Túristi með ýmsum hætti á árinu og þetta var helsta viðfangsefni ráðstefnu Alþjóðaráðs um sjálfbæra ferðaþjónustu í Sevilla á dögunum.

Vatn á plastflöskum í boði fyrir ferðafólk á bensínstöð í Vík

Flestir geta verið sammála um að maðurinn þurfi að gæta sín betur í umgengni við náttúru og umhverfi á komandi árum til að gefa komandi kynslóðum von um sómasamlegt líf á byggilegri jörð.

Skógareldar í Portúgal
Reykur frá skógareldum í Norður-Portúgal – MYND: ÓJ

Öll athafnasemi mannsins skilur eftir sig vistspor en hægt er að lágmarka það eða bæta fyrir með margvíslegum mótvægisaðgerðun. Umræða um þetta hefur farið stigvaxandi síðustu árin og æ oftar er gripið til einhverra ráðstafana í nafni sjálfbærni af hálfu ríkja, borga, samfélaga eða fyrirtækja. Fáar atvinnugreinar eiga meira undir í þessari baráttu fyrir sjálfbæru umhverfi, samfélögum og efnahag en einmitt ferðaþjónustan. 

Skógarböðin við Akureyri nýta heitt vatn sem ella félli til sjávar úr Vaðlaheiðargöngunum – MYND: ÓJ

Alþjóðaráð um sjálfbæra ferðaþjónustu (GSTC, Global Sustainable Tourism Council) hafa aðeins starfað í 15 ár. Þau hófu vegferð sína 2008 sem vettvangur þeirra sem reka hótel og ferðaskrifstofur en síðan hafa samtökin fest sig betur í sessi, náð til fleiri, og lagt línur í ferðaþjónustu með viðmiðum og stöðlum á alþjóðavísu.

Tekist hefur að koma sjálfbærni á dagskrá innan ferðaþjónustunnar. 

GSTC héldu ráðstefnu um sjálfbæra ferðaþjónustu 12.-15. desember síðastliðinn í Sevilla á Spáni. Um 350 þátttakendur frá 61 landi tóku þátt og mörg hundruð manns fylgdust með beinum útsendingum frá ráðstefnunni. Þátttakendur komu úr öllum geirum ferðaþjónustu, opinberri stjórnsýslu, fræðastarfi, stefnumótun, ráðgjöf og hagsmunagæslu í öllum heimsálfunum.

Meginþemu dagskrár ráðstefnunnar voru a) Aðlögun ferðaþjónustu að loftslagsbreytingum; b) Almenn innleiðing krafna um sjálfbærni; c) Ábyrg móttaka ferðafólks; d) Vistvænar samgöngur og aðgengi. Allt eru þetta atriði sem ábyrgt ferðaþjónustufólk um allan heim er með hugann við nú þegar umferð ferðafólks er að nálgast það sem hún var fyrir kórónaveirufaraldurinn. 

Hvernig ætlum við að samræma vaxandi ferðamennsku kröfunni um að dregið verði úr losun – og um að jafnvægi í samfélögum og efnahag verði ekki raskað?

Stórt er spurt.

Luigi Cabrini, stjórnarformaður GSTC

Framtíðarverkefni alþjóðlegrar ferðaþjónustu lýsti Luigi Cabrini, stjórnarformaður GSTC, svo í ávarpi á Sevilla-ráðstefnunni: 

„Margir ferðamenn taka sem ábyrgir þegnar ákvarðanir sem byggjast á siðferðismati þeirra og eru þeir reiðubúnir til að kosta meiru til ef hótel eða áfangastaður þeirra sparar orku eða vatn til að stuðla að verndun og fjölbreytileika lífríkis eða af virðingu fyrir nærsamfélagi. Sjálfbær ferðaþjónusta er líklegri en önnur til að bjóða gæðavöru vegna þess hversu skapandi hún er og hugsjónarík. Við þurfum að leysa úr læðingi markaðslega möguleika sjálfbærrar ferðaþjónustu og setja hana á oddinn með áhrifaríkum hætti.” 

Barni gefið vatn í skemmtigarði í París
Vatnsflaska á lofti á sjóðheitum degi í skemmtigarði í París í sumar – MYND: ÓJ

Margir í Evrópu hafa í vetur verið minntir á að ekki er sjálfgefið að halda hita á húsum. Árásarstríð Rússa í Úkraínu raskaði orkuviðskiptum en hraðaði kannski um leið orkuskiptum. Eldsneyti og orkugjafar hafa hækkað í verði og ekki er vænst breytinga í bráð. Í sumar var ástandið líka erfitt víða. Þá var mikið hitafár víða í Evrópu og annars staðar. Hvert hitametið af öðru er slegið – frá ári til árs. Það kostar orku að kæla híbýli og miklir hitar ganga á vatnsbirgðir og þjarma að öllu lífríki.

Eldar loguðu víða. Skógar brunnu og byggðir voru í hættu þar sem hitinn var mestur og þurrviðrið. Þetta ástand dregur auðvitað mátt úr ferðaþjónustu vegna þess að ferðavilji fólks minnkar eftir því sem óþægindin aukast. Ferðafólk veltir fyrir sér að fara frekar til Stokkhólms en Rómar, frekar til Íslands en Krítar. 

Rusl á götu í París
Rusl flæðir úr tunnum og vistvænir túristavagnar á götu í París – MYND: ÓJ

Getum við þá bara beðið róleg eftir vaxandi straumi fólks sem muni kjósa norðlægar slóðir fram yfir suðlægar á tímum loftslagsbreytinga? Getur íslensk ferðaþjónusta hallað sér aftur stikkfrí – það komi hvort eð er svo fáir hingað sé mið tekið af heildarfjölda ferðafólks í heiminum? Túristi hefur á árinu 2022 ekki hitt neinn sem leyfir sér að svara slíkum spurningum afdráttarlaust játandi. 

Á góðviðrisdegi í júnílok settist Túristi niður á kaffihúsi á Grandagarði í Reykjavík með Skarphéðni Berg Steinarssyni, ferðamálastjóra, til að ræða viðhorf hans til ferðaþjónustunnar. Erlendir ferðamenn fylltu flest borð í kringum okkar og aðrir streymdu framhjá í leit að upplifun eða afþreyingu dagsins. 

Skarphéðinn Berg Steinarsson
Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri – MYND: ÓJ

„Við erum að dragast aftur úr,” segir ferðamálastjóri og Túrista bregður eiginlega við hversu afdráttarlaus hann er. „Við höfum ekki hugað nógu vel að umhverfismálunum. Þetta á eiginlega við um allt: flugið, bílaaksturinn um hringveginn og almennt notkun jarðefnaeldsneytis, val á matvælum og nýtingu þeirra, fráveitumálin. Við höfum ekki haft þessi mál í fókus þó vissulega séu sífellt fleiri að setja þau á dagskrá hjá sér.“ 

Ferðamálastjóri hvatti til meira frumkvæðis Íslendinga í umhverfismálum. „Við náum ekki markmiðum okkar í umhverfismálum með því að bíða eftir innleiðingu annarra. Árangur okkar á þessu sviði er mikilvægur varðandi sölu á ferðum hingað í framtíðinni.”

Ferðafólk fylgist með hval dregnum á land í Hvalfirði
Hvalur kominn á land – MYND: ÓJ

Þegar rætt var við ferðamálastjóra í júnílok voru hvalveiðar hafnar að nýju við litla hrifningu fólks í ferðaþjónustu. Túristi hafði sjálfur farið inn í Hvalfjörð og fylgst með því þegar langreyði var landað. Erlent ferðafólk stóð við rammgerða girðingu ofan hvalstöðvarinnar og fylgdist með þegar þessi glæsiskepna hafdjúpana var dregin blóðug upp á planið. Það var svalt þennan dag og dimmt yfir Hvalfirði. 

Nú voru Túristi og ferðamálastjóri hinsvegar í sólbjörtu veðri í Reykjavík, þar sem ferðamenn streymdu framhjá glaðir í bragði, sjálfsagt ekkert að pæla í því hversu þungt þeirra framlag vegur í búskap þessarar litlu þjóðar við ysta haf. Túristi spyr ferðamálastjóra um áhrif hvalveiða Íslendinga. Hann dregur upp snjallsímann og sýnir langa röð tölvubréfa frá fólki í útlöndum sem mótmælir hvalveiðunum, hefur áhyggjum af þeim, og jafnvel hótar að koma aldrei til landsins á meðan þær eru stundaðar. 

„Stóru málin varða umhverfi og loftslag, hvernig við bregðust við þeim vanda sem að steðjar með sjálfbærni að leiðarljósi. Það þýðir að nýting okkar á náttúrunni þarf að vera sjálfbær. Hvalveiðar ganga gegn þessu. Ferðaþjónustan er auðlindadrifin atvinnugrein. Við erum að selja aðgang að náttúrunni. Fólk um allan heim sem lætur sig varða um náttúruna lítur svo á að fjölbreytileiki hennar sé mikilvægur – og hvalurinn gegni þar stóru hlutverki. Af þessum sökum getum við ekki haldið á lofti hugmyndinni um ósnortna náttúru Íslands en á sama tíma látið eitthvert leyfi til að veiða hvali standa óhaggað.”

Þetta sagði Skarphéðinn Berg Steinarsson og niðurstaða hans var sláandi: 

„Við erum ekki það sem við segjumst vera.”

Þarna er kjarninn: Við þurfum að vera þau sem við segjumst vera. 

Ferðamenn á Reykjavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

Nokkrum dögum síðar er Túristi rokinn norður í land. Þar kom hlýnun andrúmsloftsins ekki fyrst í hugann. Heldur kuldalegt var nyrðra. Sumarið 2022 fer ekki í sögubækurnar sem sólríkt og hlýtt. Ferðaþjónustan fyrir norðan fann fyrir þessu vegna þess að höfuðborgarbúar og aðrir landsmenn lögðust síður í ferðalög innanlands vegna þess að veðrið var ekki eins og flestir vilja hafa það á sumrin – bjart og hlýtt.

„Það eru allir á Tenerife,” var viðkvæðið. 

Dimm sky yfir höfninni á Húsavík
Þrútinn himinn yfir Húsavík við Skjálfanda – MYND: ÓJ

Túristi heimsótti gamlan frumkvöðul í ferðaþjónustu, Hörð Sigurbjarnarson hjá Norðursiglingu á Húsavík. Sólin lét meira að segja sjá sig á pallinum heima hjá honum stutta stund. Þegar leið á kvöldið hrönnuðust skýin upp yfir Kinnarfjöllum, loft var þrútið yfir Skjálfanda, það hellirigndi á Húsavík, sem annars er glaðlegt pláss með notalegum veitingahúsum við höfnina, þar sem fallegir hvalaskoðunarbátar smíðaðir úr eik setja mikinn svip.

„Það er alveg galið að í skjóli stjórnvalda séu enn veiddir hvalir til að þjóna hagsmunum eins manns, fjölskyldu sem fékk einkaleyfi frá ríkinu á tiltekinni auðlind. Maður sér að græðgin er alls staðar við völd hjá okkur. Græðgin er líka svo vernduð af einhverri rannsóknaelítu, t.d. er búið að drepa nánast allan rjúpnastofninn með leyfi fræðimanna, sem gefa ráðherra álit og hann þorir svo ekki annað en að fylgja því áliti af ótta við óvinsældir. Sama er að segja um þessi svæði, Eyjafjörð og Skjálfanda, setja þarf reglur um umgengni. Þetta ættu að vera þjóðgarðar.” 

Hörður Sigurbjarnarson
Hörður Sigurbjarnarson á pallinum heima á Húsavík – MYND: ÓJ

Hörður Sigurbjarnarson liggur ekkert á sínum skoðunum. Hann segir metnaðarleysi eða getuleysi lýsa stjórnvöldum í málum sem varða náttúruna og nýtingu hennar. 

„Við hreykjum okkur af því að vera mest og best á mörgum sviðum, þar á meðal í umhverfismálum af því að við eigum svo mikið af endurnýjanlegu rafmagni. En þetta varð ekki til vegna umhyggju okkar fyrir náttúrunni heldur af því að það er ódýrara að vinna rafmagn með þessum hætti en að nýta jarðefnaeldsneyti. Samt erum við meðal þeirra sem eru með hæsta kolefnisspor í heiminum á hvern íbúa!” 

Skemmtiferðaskip á Akureyri
Skemmtiferðaskip við bryggju á Akureyri – MYND: ÓJ

Þegar rætt er um sjálfbæra ferðaþjónustu er ekki einungis verið að ræða um kolefnisspor hennar eða áhrif á umhverfið. Sjálfbær ferðaþjónusta starfar í sátt við samfélög og raskar ekki efnahagslegu jafnvægi. Hún má ekki þjarma að daglegum athöfnum íbúa eða leggja í rúst atvinnuhætti eða möguleika á lífsafkomu. 

Í einni af ferðum sumarsins lá leið Túrista í Stykkishólm, sem telja verður meðal helstu ferðamannaplássa á Vesturlandi. Þar var rætt við Önnu Melsteð, sem sinnt hefur fjölmörgum verkefnum í menningartengdri ferðaþjónustu, m.a. leiðsögn ferðafólks um Stykkishólm og kynnt þar sérstaklega tengslin við náttúruna og nýtingu sjávarfangs.

Anna Melsteð í Stykkishólmi
Anna Melsteð veitir ferðafólki í Stykkishólmi leiðsögn

 „Innviðir hér bera ekki mikið meira af ferðafólki. Á góðviðrishelgum á sumrin er allt yfirfullt, öll rúm bókuð og allir veitingastaðir fullskipaðir. Fólk kemur kannski og furðar sig á að fá ekki borð á veitingastað. En staðan er bara þannig. Þú verður að bóka. Og sundlaugin og tjaldsvæðið eru full af fólki. Allar nýlenduvörur búnar í Bónus. Þau sem eru í ferðaþjónustunni eru kannski ekki sammála mér. Umræðan hefur oft verið þannig að talað er um að allir keyri framhjá Stykkishólmi. Samt sem áður erum við með ofboðslega margt ferðafólk.”

Nýja Sjáland
Þjóðvegur á Nýja-Sjálandi

Áhyggjur af átroðningi eru veigamikill hluti af umræðu í heiminum um ferðaþjónustu og mikilvægi sjálfbærni – meira jafnvægis milli ferðamennsku og þess umhverfis og samfélaga sem hún snertir. Heimsfaraldurinn fékk marga til staldra við og hugsa hlutina upp á nýtt. Það gerðist á Nýja-Sjálandi sem fylgt hafði einhverjum ströngustu takmörkunum sem þekktust á meðan faraldurinn geisaði.

Túristi sagði frá því á árinu að þó að landamæri Nýja-Sjálands hefðu verið opnuð gestum að nýju þá væri þeim gert ljóst að ekkert yrði eins og áður. Nýsjálendingar vilja umskapa ferðaþjónustuna á eyjunum og gera hana sjálfbæra. Fyrir faraldurinn komu um 11 milljónir ferðamanna til Nýja-Sjálands þar sem íbúar eru fimm milljónir. Fjöldi skemmtiferðaskipa nærri fjórfaldaðist á 13 árum. Í faraldrinum hurfu þau. Íbúarnir sjálfir kunnu því vel að geta þá sjálfir notið hafnarbæjanna sem margir höfðu liðið fyrir mikinn átroðning ferðafólks sem kom með skemmtiferðaskipunum. Forysta ferðaþjónustunnar hlustaði á íbúana og ákvað að breyta um kúrs: 

Skemmtiferðaskip á Ísafirði
Skemmtiferðaskip á Ísafirði – MYND: Hafnarstjórinn á Ísafirði

„Við höfum sem starfsgrein lagt við hlustir og tekið mið af því sem sagt hefur verið í sumum samfélögunum um vöxtinn í komum ferðamanna fyrir heimsfaraldur og hver áhrifin hafa verið á líf fólks og umhverfi. Breytingar hafa verið gerðar til að tryggja að landsmenn geti verið stoltir af ferðaupplifun fólks í heimsóknum til Nýja-Sjálands.”

Þetta sagði Rebecca Ingram, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar á Nýja-Sjálandi, eða Aotearoa, eins og landið heitir á maórísku, á fréttavef frönsku fréttastöðvarinnar Euronews. 

Lög voru sett á Nýja-Sjálandi sem banna fólki að tjalda hvar sem er í náttúrunni og sveitarfélög birtu leiðbeinandi reglur til að halda troðningstúrisma í skefjum. Takmarkanir verða settar um þann fjölda gesta sem koma má á degi hverjum í hinn ægifagra Milford-fjörð.  Þá hafa fyrirtæki í ferðaþjónustu á Nýja-Sjálandi mörg skrifað undir skuldbindingar um að fylgja reglum um sjálfbærni.

Skemmtiferðaskip á Grundarfirði
Skemmtiferðaskip á Grundarfirði – MYND: ÓJ

Víkur þá sögu heim til Íslands.

Skemmtiferðaskipum fjölgar stöðugt við strendur og í höfnum. Búist er við nýju meti árið 2023. Um þetta hefur Túristi fjallað að undanförnu. Túristi tók nýtt viðtal við Skarphéðinn Berg Steinarsson í desemberbyrjun í tilefni af því að hann er að láta af starfi ferðamálastjóra. Þar voru komur skemmtiferðaskipa ræddar sérstaklega: 

„Við erum á villigötum. Það verður ekki annað sagt. Við þurfum að forgangsraða í því hvernig við ætlum að nota okkar náttúruauðlindir, áfangastaði og kolefnisspor ferðaþjónustunnar. Er þetta besta ráðstöfunin? Ég hef miklar efasemdir um það.”

Skarphéðinn Berg Steinarsson
Skarphéðinn Berg Steinarsson, fráfarandi ferðamálastjóri, á svölum Hafnarbúða – MYND: ÓJ

Þessi orð fráfarandi ferðamálastjóra ýttu við mörgum. Áðurnefndur Hörður Sigurbjarnarson á Húsavík var ómyrkur í máli í viðtali við Túrista sem flaug víða. Hörður sagði að fjölgun skemmtiferðaskipa myndi skaða ímynd landsins. 

„Þessar komur skemmtiferðaskipa er illa þokkuð og óstýrð umferð sem skilur lítið eftir.”

Þetta sagði Hörður og bendir á að skemmtiferðaskipin brenni mikilli svartolíu og litlar sem engar reglur gildi um ferðir þeirra. Hann vill afmarka og friða svæði eins og Eyjafjörð og Skjálfanda og takmarka þar skipaumferð. 

Eitt af heimsmarkmiðum SÞ fól í sér að 10 prósent strandsvæða og hafsvæða nytu verndar árið 2020. Ísland er aðili að OSPAR-samningnum um verndun Norðaustur-Atlantshafsins. Markmið hans er að draga úr mengun og brennslu. Kveðið er á um friðlönd á sjó og er þar miðað að endurheimt visterfa og um sjálfbæra nýtingu. Verndarsjónarmið eiga að ráða en Íslendingar standa sig ekki vel, að mati Harðar Sigurbjarnarsonar.

Á dögunum var haldin í Montreal í Kanada fimmtánda ráðstefna Sameinuðu Þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika. Þar náðist samkomulag um verndun 30 prósenta af landi og hafsvæðum. Ísland er á góðum vegi að ná þessu marki varðandi verndun lands en einungis 0,07 prósent af hafsvæðinum við Ísland er verndað. Frekari verndun og stýring umferðar getur haft mikil áhrif á komur skemmtiferðaskipa.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir – MYND: ÓJ

Umhverfismál eru stærstu mál samtímans og sjálfbærni er að flestra mati lykill að farsælli ferðaþjónustu til framtíðar. Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans orðaði stöðuna þannig í viðtali við Túrista: 

„Við erum að takast á við þá staðreynd að Ísland er eyja úti á miðju Atlantshafi. Fólk þarf að komast hingað með flugi eða skipum, báðir kostir eru mengandi. Fólk út um allan heim er farið að hugsa um það hvernig kolefnisspor þess verði minnkað. Hvað get ég gert betur á mínum ferðalögum? Fólk velur sér þá styttri ferðir. Hvernig eigum við að svara þessu? Ég tel að Ísland þurfi að bjóða upp á kosti sem skila ferðamanninum heim með jákvæðu kolefnisfótspori. Bílaleigubíllinn verði 100 prósent rafdrifinn. Innviðir verði byggðir upp hratt og örugglega til að það geti orðið. Hægt sé að gista á hótelum sem fylgja í þaula öllum reglum um sjálfbærni. Ferðamaðurinn geti líka aðstoðað dvalarstaðinn í tilteknu verkefni, lagt eitthvað af mörkum við að byggja upp göngustíg, gróðursett tré, gert eitthvað sem manneskja sem skilar áfangastaðnum, Íslandi, í betra ásigkomulagi en það var áður en hann lagði upp í ferðina.”

Niðurstaða Ástu Kristínar var þessi: 

„Við getum gert miklu betur.”

Strætó á Keflavíkurflugvelli
Strætó í nokkurri fjarlægð frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar – MYND: ÓJ

Úti á akrinum eru fyrirtæki í ferðaþjónustu að leita leiða til að mæta kröfum tímans um minna kolefnisspor og sjálfbæran rekstur. Mestu skiptir þar að draga úr losun í samgöngum.

Túristi var á Akureyri í haust og ræddi við Steingrím Birgisson, forstjóra Hölds, sem rekur Bílaleigu Akureyrar, stærstu bílaleigu landsins. Steingrímur segir rafvæðinguna á fullri ferð, við séum eiginlega komin eins langt og hægt er þegar tekið er mið af framboði rafbíla, innviðum og vilja viðskiptavinanna sjálfra. 

Steingrímur Birgisson
Steingrímur Birgisson á heimavelli – MYND: ÓJ

„Við verðum að fara þessa leið – hvort sem okkur líkar betur eða verr. Því fyrr, því betra. Hinsvegar verðum við að stjórna hraðanum, megum ekki fara of hratt. Borgar þetta sig? Já, það mun gera það þegar til lengri tíma er litið. Þetta tekur tíma.”

Rafbílar í hleðslu
Rafbílar í hleðslu – MYND: ÓJ

Já, við verðum að fara þessa leið – leið meiri umhverfisvitundar, minni losunar, betri nýtingar, meiri sáttar við umhverfis, samfélög og efnahagslíf.

Á nýju ári verða mál sem varða sjálfbærni og loftslag aftur efst á baugi. 

Nýtt efni

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Ferðamálaráðs Grænlands - Visit Greenland fjölgaði flugfarþegum sem komu til Grænlands um 9 prósent á síðasta ári. Met fyrra árs var þar með slegið. Alls voru 64.910 taldir við brottför frá landinu, tæplega 40 þúsund Grænlendingar og nærri 37 þúsund Danir. Af einstökum öðrum þjóðahópum voru Þjóðverjar fjölmennastir, nærri 3.600, Bandaríkjamenn rúmlega …

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …