Samfélagsmiðlar

Auknar álögur nema um 3.000 krónum hvora leið

Forstjórar Icelandair og Play telja að breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir muni veikja félögin í samkeppni um tengifarþega. Í dag borga íslensku félögin þó mun minna fyrir hvern tengifarþega á Keflavíkurflugvelli en t.d. Lufthansa gerir í Frankfurt.

Innan Evrópusambandsins er ætlunin að draga úr vexti flugferða með því að hætta að úthluta losunarheimildum endurgjaldslaust. Einnig verður aukin krafa um notkun á lífeldsneyti en framboð á því er mjög takmarkað í dag.

Evrópuþingið samþykkti í lok síðasta árs breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir, Emissions Trading System (ETS), sem mun að öllu óbreyttu leggja meiri álögur á flugferðir til og frá Íslandi en öðrum Evrópuríkjum. Skýringin á því felst í fjarlægð landsins frá meginlandinu, líkt og Túristi vakti fyrstur íslenskra fjölmiðla máls á.

Íslenskir ráðamenn hafa árangurslaust reynt að hafa áhrif á þessar breytingar líkt og fram kom í svari forseta framkvæmdastjórnar ESB við bréfi Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Aðrir ráðherrar hafa líka beitt sér og í síðustu viku var Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, á fundum í Brussel vegna þessa.

Lilja í Brussel
Lilja Dögg Alfreðsdóttir á fundi flugfélaga í Brussel – MYND: KS

„Þetta er eitt mikilvægasta mál sem Ísland stendur frammi fyrir. Um 14 prósent af landsframleiðslu tengist flugiðnaði og 30 prósent af gjaldeyristekjunum. Þannig að við munum ekki geta unað við þessa útfærslu en ég er vongóð um að það komi til breytingar,” sagði ráðherra í viðtali við Túrista.

Spurð hvort það væri þess virði að tefla aðild Íslands að EES-samningnum í hættu vegna málsins þá svaraði Lilja Dögg því að ekki væri hægt að una við stöðuna eins og hún er í dag. 

Þurfa á tengifarþegunum að halda

Stjórnendur íslensku flugfélaganna hafa líka haft uppi stór orð og sagt að með breyttu ETS-kerfi muni draga verulega úr möguleikum félaganna til að keppa um farþega á leiðum milli Evrópu og Norður-Ameríku. En það eru þessir farþegar sem gera Icelandair og Play kleift að halda úti tíðum ferðum til beggja heimsálfa. Ef eingöngu Íslendingar á leið til útlanda og ferðamenn á leið til Íslands væru í þotunum þá væri ekki markaður fyrir eins mikla umferð um Keflavíkurflugvöll.

Flugvélar Icelandair og Play á Keflavíkurflugvelli – MYND: ÓJ

Til að sýna fram á með hvaða hætti breytingar á koma niður á íslenskum flugfélögum þá hafa íslensk stjórnvöld látið reikna út hver kostnaðaraukinn er af hverjum farþega sem fer frá Berlín í Þýskalandi til Seattle í Bandaríkjunum og tilbaka sömu leið. Ekkert beint flug er í boði á milli þessara borga og því er millilending nauðsynleg.

Í íslenska samanburðinum eru tilgreindir þrír valkostir milli Berlínar og Seattle: Flug með Icelandair með millilendingu í Keflavík, flug með Lufthansa þar sem stoppað er í Frankfurt og svo ferðalag með United Airlines þar sem flogið er frá Berlín til New York og þaðan til Seattle.

Í dæminu eru reynt að leggja mat á stöðuna árið 2028 þegar flugfélög þurfa að kaupa allar sínar losunarheimildir í stað þess að fá stórum hluta úthlutað gjaldfrjálst eins og gert er í dag.

Vélar Lufthansa á flugvellinum í Frankfurt

Það er skemmst frá því að segja að United Airlines sleppur ódýrast frá nýja kerfinu því hækkunin þar nemur aðeins 6 evrum. Lufthansa borgar 15 evrur en kostnaður Icelandair hækkar um 38 evrur sem jafngildir um 5.700 krónum. Kostnaðurinn verður nær allur til vegna flugferðarinnar innan Evrópu, þ.e. flugsins milli Íslands og Berlínar. Þess vegna nemur aukinn kostnaður hjá United aðeins 6 evrum en sú upphæð er fyrir greiðslu á losun á alþjóðlegu svæði, ekki því evrópska.

Hvað hækkar Íslandsflugið um mikið?

Íslenskir ráðamenn hafa sagt að þessi nýja útfærsla á ETS-kerfinu leggi hærri álögur á þá sem ætla að ferðast til og frá Íslandi en hópinn sem fer milli annarra Evrópuríkja. Skoðum það aðeins nánar og miðum við forsendurnar sem dæmi íslenskra stjórnvalda byggir á. Samkvæmt því þá mun mengurskatturinn, á hverja flogna klukkustund innan Evrópu, hækka um tæpar 5 evrur eða 800 krónur árið 2028. Er þá reiknað með lítilli hækkun á markaðsverði losunarheimilda næstu 4 árin.

Icelandair-vél á Schiphol-flugvelli – MYND: ÓJ

Kostnaðurinn af því að fljúga farþega frá Keflavíkurflugvelli til Kaupmannahafnar hækkar þá um nærri 5 þúsund krónur og um nærri 9 þúsund ef flogið er til Tenerife og tilbaka. Þessi hækkun verður þó ekki öll að veruleika fyrr en eftir nokkur ár því ætlunin er að úthluta flugfélögum áfram endurgjaldslausum losunarheimildum en þó færri en í núgildandi kerfi.

Ekki einu opinberu gjöldin

Ofannefndar álögur kæmu fram sem aukin kostnaður hjá flugfélögunum en þau þurfa líka að standa skil á ýmis konar opinberum gjöldum og sundurliðun á þeim má finna á bókunarsíðum flugfélaganna.

Þar sést til að mynda að Lufthansa greiðir í dag 207 evrur í skatta, farþega- og flugvallargjöld af farþega sem flýgur með félaginu frá Berlín til Seattle. Icelandair borgar minna eða 163 evrur á sumrin og 153 á veturna. Munurinn er því allt að 54 evrur en sem fyrr segir er reiknað með að nýja ETS-kerfið hækki kostnaðinn hjá Icelandair um 38 evrur en 15 evrur hjá Lufthansa. Munurinn þarna er 23 evrur.

Brandenburg-flugvöllur í Berlín

Skýringin á því liggur meðal annars í þeirri staðreynd að þýska flugfélagið þarf að borga um 2.100 krónur fyrir hvern tengifarþega á meðan Isavia rukkar aðeins 400 krónur fyrir tengifarþega í Leifsstöð yfir veturinn en 800 á sumrin.

Play
Flugvél Play í aðflugi til Lissabon – MYND: ÓJ

Ekki flogið Max þotu til Seattle í ár

Íslenskir ráðamenn og flugforstjórar hafa haldið því fram að með breytingunum á ETS-kerfinu færist losunin frá íslenskum flugrekendum til annarra og muni þá jafnvel aukast. Vísa þeir þá til þess að oft sé umhverfisvænna að fljúga mjóum þotum, eins og Icelandair og Play eru með yfir Atlantshafið, í stað þess nota breiðþotur keppinautanna.

Samkvæmt íslensku útreikningunum þá losar hver farþegi sem flýgur með Icelandair, frá Berlín til Seattle, um þriðjungi minna en sá sem flýgur með Lufthansa eða United Airlines. Gallinn við þetta dæmi er að forsendan er sú að Icelandair nýti sparneyttnari Boeing Max-þotur í ferðirnar frá Keflavík til Seattle en staðreyndin er sú að Icelandair hefur allt þetta ár flogið gömlu Boeing 757-þotunum þessa leið og stundum nýtt breiðþotur í flugið. Þar með verður Icelandair ekki endilega sá valkostur sem mengar minnst.

Icelandair-vél í morgunsól – MYND: ÓJ

Það er því ekki einfalt verkefni fyrir íslenska ráðamenn að færa rök fyrir því að íslensku flugfélögin séu endilega umhverfsvænni en önnur evrópsk félög. Á sama tíma búa evrópsk flugfélögin við mismunandi há opinber gjöld og flugvallargjöld, eins og sjá má af dæmi Lufthansa hér fyrir ofan.

Það er því erfitt að reikna dæmið til enda og það kann að skýra af hverju ráðamenn í Evrópusambandinnu hafa hingað til ekki tekið undir sjónarmið íslenskra stjórnvalda.

Nýtt efni

Brottförum Play fjölgaði um 13 prósent í apríl í samanburði við sama tíma í fyrra. Hjá Icelandair nam aukningin tíund en áætlunarflug erlendra flugfélaga hingað til lands dróst saman um 11 prósent samkvæmt ferðagögnum FF7. Vægi íslenskra flugfélaga eykst því á kostnað þeirra erlendu á milli ára. Helsta skýringin á þessum samdrætti erlendu flugfélaganna liggur …

Nú um mánaðamótin voru 20 ár liðin frá umfangsmestu stækkun á Evrópusambandinu til þessa, þegar aðildarríkjunum fjölgaði úr 15 í 25. Það var 1. maí 2004 að Eistland, Lettland, Litáen, Pólland, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland, Slóvenía, Kýpur, Malta, urðu fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Að frátaldri Kýpur tilheyra öll þessi ríki Schengen-svæðinu, sem gerir fólki fært að …

Ryanair á flugvellinum í Barselóna

Lággjaldaflugfélög eru ráðandi í sölu ferða til og frá Spáni. Þau ráða yfir 68,5 prósentum sætaframboðs og eru neytendur því mjög háðir þeim. Athugun ferðaupplýsingafyrirtækisins Mabrian leiðir í ljós að lágjaldafélögin hyggist hækka verð á ferðum í sumar á milli Spánar og fimm helstu markaðssvæða um 26-27 prósent að jafnaði. Mest er hækkunin á flugi …

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja fjárfesti fyrst í Play í desember í fyrra og jók svo hlutinn í febrúar sl. og komst þá á lista yfir 20 stærstu hluthafana. Í lok febrúar nam hlutur sjóðsins 1,8 prósentum og markaðsvirði hans var þá rétt um 70 milljónir króna. Gengi Play hafði reyndar lækkað umtalsvert í febrúar því eftir að …

Það hafa almennt verið taldar góðar horfur í útgerð skemmtiferðaskipa í heiminum en afkomutölur móðurfélags Norwegian Cruise Line (NCLH) eftir fyrsta ársfjórðung varpa nokkrum skugga þar á. Tekjur voru minni en vænst hafði verið og leiddi birting talnanna til 12 prósenta lækkunar á verði hlutabréfa. Enn skilar reksturinn þó hagnaði. Bjartsýni útgerða skemmtiferðaskipanna hefur byggst …

Lágt gengi japanska jensins og brottnám ferðahindrana eftir heimsfaraldurinn eru meginskýringar á því að 60 prósentum fleiri norrænir ferðamenn héldu til Japans á fyrsta fjórðungi ársins en á sama tíma í fyrra. Margir eru auðvitað áhugasamir um að kynnast menningu, lífsháttum og náttúru í þessum fjarlæga landi og nýta sér þess vegna þau hagstæðu kjör …

Að meðaltali losar hver Íslendingur um það bil 12 tonn af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið á ári. Víða á netinu er hægt að kaupa kolefnisjöfnun á 12 tonnum fyrir 20 þúsund krónur eða svo. Þá er eðlilegt að margur spyrji: Ef fólk gerir þetta árlega, er fólk þá ekki bara í góðum málum? Gagnvart svona …

Það söfnuðust 4,6 milljarðar í hlutafjárútboði Play sem efnt var til í kjölfar birtingu ársuppgjörs félagsins í byrjun febrúar. Nú liggur nýr hluthafalisti fyrir og samkvæmt honum þá er lífeyrissjóðurinn Birta orðinn stærsti hluthafinn með 8,78 prósent hlut. Þar á eftir kemur fjárfestingafélagið Stoðir með 5,82 prósent og svo eignhaldsfélagið Fea sem er í eigu …