Samfélagsmiðlar

„Alltof margir ferðamenn sem taka hér bíl á leigu vita ekki hvað þeir eru að fara út í“

„Mér finnst vanta sérstakar spár um veður og aðstæður á tilgreindum algengum leiðum ferðamanna. Af hverju gefum við ekki út spá á morgun um veðrið á Gullna hringnum?“ spyr Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur. „Ferðaþjónustan er stór og mikil atvinnugrein sem verður að sinna og þjóna,“ segir hann í viðtali við FF7.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur - MYND: ÓJ

Með vaxandi umferð ferðamanna um landið árið um kring vakna auðvitað spurningar um hæfni ökumanna og miðlun upplýsinga til þeirra um færð og veður. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, er lykilmaður þegar kemur að því að skoða þessi mál. Hann veitir Vegagerðinni ráðgjöf í gegnum fyrirtæki sitt Veðurvaktina um ýmislegt sem varðar veður og áhrif á umferð. 

Það skiptir t.d. máli hvort eða hvenær eigi að fara um götur og vegi með ruðningstæki og við hvaða aðstæður það kemur að gagni að bera á salt til að draga úr hálku. Þetta varðar útgöld Vegagerðarinnar og auðvitað enn frekar öryggi vegfarenda. Og þeim fjölgar ár frá ári, ekki síst erlendum ferðamönnum sem hingað streyma árið um kring. Stór hluti þeirra velur að aka á bílaeigubíl og þurfa þá nauðsynlega einhverja fræðslu um aðstæður á vegum hér og hvaða veðra er von. Bestu bílaleigurnar gera þetta vel. 

Við Einar setjumst niður yfir kaffibolla og ræðum veður og færð. Þjóðlegra verður það varla. FF7 langar að vita hvort tekið sé nægilegt mið af veðuraðstæðum og færð í ferðaþjónustu á Íslandi, sérstaklega þegar um er að ræða erlenda ökumenn. Við veltum þessu dálítið fyrir okkur á meðan við komum okkur fyrir. Einar bendir fyrst á þá breytingu sem orðið hefur á viðhorfum okkar sem hér búum til samgangna. 

„Það hafa orðið miklar breytingar á 20 árum. Nú ætlast allir til þess að vegir séu alltaf hreinir og fínir. Hér áður gerðu menn frekar ráð fyrir því fyrirfram að það gæti verið ófært. Þessu hefur fylgt að fólk ekur ekki alltaf miðað við aðstæður, gefur sér ekki nægan tíma til að komast á milli staða. Þetta á bæði við um almenning og atvinnubílstjóra, segir Einar Sveinbjörnsson.

Við ræðum hrinu banaslysa og alvarlegra slysa í umferðinni á fyrstu vikum ársins, hvað geti valdið þeim – og hvort við getum gert betur til að auka öryggið. 

„Það hefur verið rekin ákveðin núllstefna í umferðaröryggismálum, sem hefur skilað miklum árangri. Umferðin jókst en slysum fækkaði. Menn töldu sig vera á réttri leið en eru nú slegnir niður. Breytingar á veðráttunni hjálpa ekki til. Þetta hefur ekki verið skoðað niður í kjölinn en tilfinning mín er sú að hér áður fyrr hafi menn verið að fást við ófærð og snjóruðning. Frá því um aldamót hefur verið minni snjór á láglendi, hiti oftar í kring um frostmark sem aftur veldur aukinni ísingu og hálku.  Þær aðstæður breyta áherslum vetrarþjónustu Vegagerðarinnar og kalla á aukna vöktun og eftirlit.  Fyrir norðan í morgun var þetta einfalt: Snjófölin á veginum var hreinsuð. Allt klárt! Hér fyrir sunnan er verið að hálkuverja allan sólarhringinn, t.d. Reykjanesbrautina og helstu stofnbrautir út frá borginni. En þegar hiti er í kringum núllið og það skefur þurfa menn að hafa sig alla við að halda vegum hálkufríum.“

Þú lýsir þessu eins og afleiðingum loftslagsbreytinga.

„Já, þetta er það kannski. Það hlýnaði klárlega á árunum rétt fyrir aldamót. Menn geta deilt um það hvort þessi hlýnun hafi orðið vegna loftslagsbreytinga eða hvort þetta sé náttúruleg sveifla, sem við þekkjum ágætlega, svokölluð 70 ára sveifla. Sennilega er þetta hún að stórum hluta en svo koma til viðbótar áhrif hlýnunar sjávar. Fyrir vikið kemur þetta svona fram í vetrarveðráttunni. Norðanáttin er ekki eins köld og áður. Ef við undanskiljum síðustu tvo vetur, sem hafa verið kaldir, þá hefur hitinn verið að sullast í kringum núllið. Því hefur fylgt mikil hálka.“

Kort Vegagerðarinnar um færð á Suðvesturlandi á öskudegi – MYND: Vegagerðin

Einar segir að stöðugt sé verið að auka eftirlit með aðstæðum á vegum. Vegagerðin sé með tvær vaktstöðvar, aðra á Ísafirði og hina hér suðvestanlands sem mönnuð er allan sólarhringinn árið um kring og eftirlitsbíla á ferðinni allan daginn, sem kanni hvar myndast hálka og hvar þörf sé á aðgerðum. Þörfin á eftirliti og þjónustu vex stöðugt vegna ferðamanna sem eru á ferðinni. Mest er þjónustan á stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins þar sem umferðin er mest og á Reykjanesbrautinni. „Hún sefur aldrei,“ eins og Einar orðar það. Hann bendir líka á að ekki er langt síðan að engin vegaþjónusta var á Mosfellsheiði á laugardögum, á þessum hluta Gullna hringsins. En brugðist hafi verið við þrýstingi frá ferðaþjónustunni um að hreinsa veginn yfir heiðina um helgar.

Snjóhreinsun á Hellisheiði – MYND: ÓJ

Gerum við nóg af því að kynna ferðamönnum hverjar aðstæður eru á vegum landsins?

„Nei, ég held ekki. Það má alltaf gera betur. Alltof margir ferðamenn sem taka hér bíl á leigu vita ekki hvað þeir eru að fara út í. Þeir eru búnir undir kuldann, eru í góðum úlpum og vel skóaðir, en vita ekki hvað bíður þeirra úti á vegunum – hversu varhugavert getur verið að aka um þá.“ 

Einar telur upp nokkrar hættur: 

  • „Það getur verið glær ísing og hálka, það sem kallast black ice á ensku, sem oft veldur verstu slysunum. 
  • Þá er stundum klammi á vegum, þjappaður snjór, sem hægt er að halda niðri með góðri veghreinsun en verður flugháll þegar hann bráðnar og vatn kemst í hann. Það gerist stundum í Biskupstungunum á Gullna hringnum. Þá verða ökumenn hræddir þegar bíllinn tekur að renna. 
  • Svo má nefna þæfingsfærðina, þegar menn lenda í skafrenningi og blindu. Óvanir ökumenn, ekki bara erlendir ferðamenn heldur líka fólk sem býr hér í borginni og fer sjaldan akandi út á land á vetrum, sem lenda í því að það skefur eftir vegininum og snjórinn fer fram fyrir bílinn, geta orðið hræddir og stöðva bílinn sem þeir aka. Þá stöðvast umferðin og allt lokast. 
  • Við þessa upptalningu má bæta að vindkviður hér geta verið mjög varhugaverðar en reynt er að vara við þeim. Á veturna bætist hálkan við. Á sumrin er það sandfokið.“

Það er ekki síst vegna vaxandi umferðar ferðamanna um landið á veturna að Vegagerðin grípur oftar til þess ráðs að loka tilteknum leiðum – áður en vont veður skellur á. Það er nefnilega ekkert grín að fjöldi bíla festist uppi á Hellisheiði og moka þurfi menn upp og draga til byggða – eða að bílar eyðileggist í sandfoki á Skeiðarársandi. 

„Ferðaþjónustan hefur tekið þessu vel – á meðan þetta er gert af skynsemi,“ segir Einar, og bætir við:

„Það verður líka að reka miklu meiri áróður fyrir því að hraðinn í umferðinni verði minnkaður á veturna og að menn aki eftir aðstæðum – ætli sér meiri tíma til ferðalaga á veturna en á sumrin.“

En hvernig mætti auka og bæta veðurþjónustuna við ferðamenn?

„Mér finnst vanta sérstakar spár um veður og aðstæður á tilgreindum algengum leiðum ferðamanna. Af hverju gefum við ekki út spá á morgun um veðrið á Gullna hringnum? Segjum frá því við hvernig veðri og aðstæðum megi búast á Gullna hringnum á morgun – eða frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal, frá Vík að Jökulsárlóni, frá Akureyri að Dettifossi. Veðurstofan getur gert þetta. Ég gæti gert þetta! Það þarf að taka ákvörðun um að veita þessa þjónustu á fjölförnustu leiðum ferðamanna á svipaðan hátt og gert er t.a.m. fyrir flugvelli og sjófarendur. Ferðaþjónustan er stór og mikil atvinnugrein sem verður að sinna og þjóna. Ef við bætum þessa veðurþjónustu þá drögum við úr slysum og óhöppum og fækkum tilvikum um leiðinlega upplifun ferðamanna á landinu.“

Þessi hugmynd Einars felur í sér að auk venjulegra veður- og færðarkorta Vegagerðarinnar, sem eru mjög mikið notuð, yrðu gefin út spákort með svipuðu móti um tilteknar leiðir eða afmörkuð fjölfarin svæði. Þau gætu verið unnin að mestu á sjálfvirkt með aðlöguðum gögnum úr veðurlíkönum. 

„Við þurfum bæði að spá í veðrið og hver áhrifin af því geta verið þar sem flestir eru – á fáfarnari slóðum þekkja heimamenn aðstæður og við hverju er að búast. Þetta þarf bara að útfæra.“

Þú sérð engar verðurfarslegar hindranir fyrir því að á Íslandi sé hægt að reka ferðaþjónustu árið um kring?

„Nei, ekki þar sem almennt er veitt vetrarþjónusta á vegum. Við þekkjum auðvitað umræðuna um Dettifossveg og veginn norður í Árneshrepp, svo dæmi séu tekin. Hringvegurinn og helstu langleiðir, eins og um Snæfellsnes eða vestur á Patreksfjörð og Ísafjörð eða með ströndinni um Húsavík og til Vopnafjarðar. Allt eru þetta vegir með fyrirtaks þjónustu allan veturinn og eiga ekki að hamla ferðamennsku.“

Snjóföl á veginum í Fljótum – MYND: ÓJ

Björgunarsveitirnar starfrækja vefsíðuna safetravel.is og samnefnt app, þar sem er vöktun á vegakerfinu og miðlað upplýsingum til vegfarenda um veður og aðstæður til ferðalaga, sem Veðurstofan og Vegagerðin afla og kynna á sínum vefsvæðum: vedur.is og vegagerdin.is. Þá heldur Vegagerðin úti upplýsingaþjónustu í 1777 og þangað hringja jafnt innlendir sem erlendir ferðalangar með fyrirspurnir um færð og veður. Ferðamenn geta líka sótt upplýsingar á vefinn blika.is, eða wet.is á ensku, sem Veðurvaktin, fyrirtæki Einars, heldur úti. Þar er hægt að fá spár um veður á fjölmörgum stöðum, m.a. á fjallvegum, tjaldsvæðum og á stöðum þar sem fjallaskála er að finna.

Við erum búnir með kaffið og Einar þarf að rjúka annað. Síðasta spurning:

Ferðamenn sem hingað koma vita væntanlega flestir að hér getur orðið kalt og veðrið vont. Mörgum þeirra kemur þó á óvart hversu hratt það breytist. Er ekki augljóst að það verði að leggja ferðaþjónustunni meira lið til að auka öryggi og bæta ferðaupplifun fólks?

„Við þurfum að þjóna þessum atvinnuvegi vel. Ég tel að við séum að gera það ágætlega en það má bæta upplýsingamiðlun til erlendra ferðamanna, gera hana markvissari og skipulagðari. Ég er alveg til í að koma að þeirri vinnu.“

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …