Samfélagsmiðlar

Í hvað fer allt rafmagnið?

Nokkuð hefur borið á því undanfarið að rætt sé um yfirvofandi raforkuskort á Íslandi, sem óneitanlega hljómar undarlega í eyrum margra. Hefur ekki alltaf verið talað um að á Íslandi sé kappnóg af hreinni, grænni orku, nánast að eilífu? Guðmundur Steingrímsson fjallar um þá upplýsingaóreiðu sem ríkir í umræðum um orkumál. FF7 birtir hér fyrstu grein hans af þremur um þetta efni.

Ferðamenn kynna sér Hellisheiðarvirkjun og nýtingu endurnýjanlegrar orku - MYND: ÓJ

„Sérfræðingar hafa varað við mögulegum aflskorti undanfarin ár þar sem bent er á að nýir orkukostir sem bætast inn á kerfið á næstu árum dugi ekki fyrir sívaxandi eftirspurn eftir raforku samkvæmt raforkuspá.“  Svona komst Ingibjörg Isaksen, þingkona Framsóknarflokksins, að orði í umræðu á Alþingi 14. nóvember síðastliðinn um öflun grænnar orku.

„Við höfum gert afskaplega lítið í að búa til græna raforku síðustu 15 ár,” sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í svari við ræðu Ingibjargar.

Þetta er forvitnilegt. Spurningarnar sem blasa við hér eru alla vega tvær: Munu nýir orkukostir ekki nægja til að anna eftirspurn á komandi árum, eins og Ingibjörg sagði? Og hafa Íslendingar lítið gert til þess að framleiða orku á undanförnum árum, eins og Guðlaugur sagði? 

Það er mikilvægt að skoða þessi mál. Nokkur upplýsingaóreiða ríkir og margir eiga erfitt með að rýna í gegnum orðaþokuna. Hvað er satt og hvað er rétt? Kalt mat segir að það dugi ekkert minna en þrjár greinar í það að svara þessum spurningum. Fara yfir málin. Byrjum á þessu: Hvað framleiða Íslendingar af orku og í hvað fer hún eiginlega?

Byrjum á því að skoða grunnstærðir, til að sjá nokkurn veginn hvernig landið liggur. Orkuneysla Íslendinga á mann er sú næstmesta í heimi, samkvæmt lista Our world in data. Aðeins í olíuríkinu Katar er orkuneysla á mann meiri. Þegar skoðað er magn allrar orku sem notuð er á Íslandi — til húshitunar, raforkunotkunar iðnaðar og heimila, og til þess að knýja bíla, skip og flugvélar — fæst að heildarorkuneysla hér er um 68 terawattstundir (TWst) á ári, sem er um 177 þúsund kílówattstundir (KWst) á hvern íbúa. 

Þessi heildarorkuneysla þjóðarinnar er álíka mikil og meðal þjóða sem eru mun fjölmennari en Íslendingar. Orkuneysla Íslands er þannig aðeins meiri en í Uruguay, þar sem búa 3,5 milljónir manns. Hún er líka  svipuð og í Eistlandi , þar sem búa 1,3 milljónir, og í Litháen, þar sem búa 2,8 milljónir.  Costa Rica, þar sem búa 5,2 milljónir, notar líka álíka mikið af orku og Ísland.

Orka Íslendinga er að langmestu leyti framleidd, blessunarlega, með endurnýjanlegum orkugjöfum ólíkt Katar, og þá einkum jarðhita og vatnsafli. En til þess að knýja farartækin, og einnig iðnað að litlum hluta til, hafa Íslendingar þurft jarðefnaeldsneyti. Vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda við brennslu jarðefnaeldsneytis, eins og kunnugt er, er einkar mikilvægt að hætta notkun þeirra, og því leggja Íslendingar kapp á orkuskipti í samgöngum. Til þess þarf rafmagn. 

Það sem þetta stutta yfirlit yfir grundvallaratriði sýnir er fyrst og fremst það, að á Íslandi er nú þegar framleitt gríðarlegt magn orku miðað við stærð samfélagsins. Lítill hluti hluti orkunnar, eða um 10 prósent — sem er jarðefnaeldsneytið — er framleiddur annars staðar og fluttur inn. Íslendingar samkvæmt þessu búa því nú þegar að afskaplega breiðum og miklum orkustraumi, þótt ekkert væri virkjað frekar. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar orkubúskapur Íslendinga er ræddur. 

En í hvað fer þá öll þessi orka? Jú. Stærsti hlutinn fer í upphitun húsanna. Það er allt heita vatnið sem fer í ofnana. Íbúar, stofnanir og fyrirtæki í Reykjanesbæ og nágrannabyggðum hafa undanfarið fundið fyrir því hvað sú orka er ómissandi og hvað hún er í raun ígildi mikils rafmagns. Ekki er fyrir hendi flutningsgeta fyrir nógu mikið rafmagn á Suðurnesjum til þess að hita upp húsin að fullu, þegar heita vatnsins nýtur ekki við. 

Þannig að rétt er það: Heitavatnsvæðing húshitunar á Íslandi var mikið framfaraskref og í henni felast mikil gæði og það er mikilvægt að halda henni við með nýjum og góðum innviðum og gæta þess að ekki verði skortur. En eitt er húshiti. Honum er nokkuð jafnt dreift í hús landsmanna, þótt aðstöðumunur sé reyndar fyrir hendi þegar kemur að aðgengi, og sumir búi á svokölluðum köldum svæðum. Önnur mynd er uppi í teningnum þegar kemur að raforkunotkun. Þar vandast málið. Henni er mjög misskipt. 

Raforkuna nota heimilin til þess að knýja heimilistæki og tól, kveikja á ljósaperunum og í vaxandi mæli til þess að hlaða bílana sína. Áætlað má að meðalheimili noti um 4700 KWst á ári af rafmagni í venjulegri, daglegri notkun. Öll íslensk heimili, um 130 þúsund talsins, nota samkvæmt tölum Orkustofnunar frá 2022 um 618 milljón KWst á ári, sem er sama og 0,6 TWst.

Raforkuframleiðsla Íslendinga, sem fer fram aðallega með vatnsafli og jarðhita, nemur um 20 TWst á ári, eða ríflega 30 sinnum meira en heimilin nota. Um 0,4 TWst tapast úr kerfinu. Um 19,6 koma því til neyslu. Af þessu sést að bróðurparturinn, eiginlega allt rafmagn, sem Íslendingar framleiða fer til annarra en heimilanna, og þá til atvinnulífsins.

Það er afskaplega eðlilegt að fyrirtækin þurfi meira rafmagn en heimilin. Umfangsmiklir framleiðsluferlar, stór tæki og tól og alls konar búnaður þarf mikla raforku, og það er vitaskuld afskaplega mikilvægt að raforkan nýtist til þess að knýja áfram öflugt, fjölbreytt og gróskumikið atvinnulíf svo fólk fái störf við sitt hæfi og alls konar verðmæti verði til í samfélaginu. 

Íslendingar hafa hagað málum sínum þannig að eiginlega öll raforkan fer í þetta verkefni, fyrir utan það sem tapast og það sem fer til veitufyrirtækjanna sjálfra. Það er gott og vel. Það er hins vegar óhætt að segja að fjölbreytni hafi ekki endilega verið höfð að leiðarljósi í ákvörðunum Íslendinga um ráðstöfun allrar þessarar raforku til atvinnulífs. Íslendingar ákváðu, með einum eða öðrum hætti — gagnvart vaxandi andúð reyndar á sínum tíma — að selja aðallega þremur erlendum stórfyrirtækjum mest alla raforkuna. Álverin Rio Tinto, Norðurál og Alcoa Fjarðarál nota sem nemur um 64 prósent af öllu rafmagninu, eða um 12,5 TWst, til þess að búa til ál, til útflutnings, úr innfluttu súráli. 

Norðurál eitt notar um 4,6 TWst á ári. Það er jafnmikið og til dæmis Grænhöfðaeyjar í heild sinni nota, en þar búa um 600 þúsund manns með tilheyrandi atvinnulífi. Það er til marks um hvað Íslendingar töldu sumir að orkuforði Íslendinga væri mikill, að á tímabili voru talsverðar líkur á að á Íslandi risu a.m.k. þrjú álver til viðbótar. Rætt var m.a. um álver í Helguvík, við Eyjafjörð og við Blönduós. Það er erfitt að sjá núna hvaðan raforkan í þau öll átti að koma. Ef þau höfðu verið af sömu stærðargráðu og hin sem risu og voru risin, þá þyrftu Íslendingar væntanlega núna að skaffa öllum sex álverunum einhverjar 25 TWst af rafmagni á ári.

Restin af rafmagninu, þessum 20 TWst sem Íslendingar framleiða nú — mest Landsvirkjun, en líka Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka — fer að stærstum hluta í þrjú önnur stórfyrirtæki, TDK, PCC og Elkem, sem taka litlu minna en allur smáiðnaður, þjónusta, byggingariðnaður, landbúnaður og sjávarútvegur til samans. Þessi þrjú fyrirtæki draga til sín tæpar 2 TWst. TDK á Akureyri framleiðir aflþynnur fyrir rafmagnsþétta, PCC er kísilmálmverksmiðja á Bakka og Elkem er járnblendið á Grundartanga. 

Með þessari upptalningu erum við komin langt upp í allt það heildarmagn sem Íslendingar framleiða af raforku.  Þó ekki alla leið. Á undanförnum árum hefur mjög borið á því að orka sé seld til gagnavera. Með uppgangi internetsins og alls kyns tölvuþjónustu eru gagnaver nauðsynleg og hagstæð skilyrði ríkja að mörgu leyti á Íslandi fyrir rekstri þeirra. Þau þurfa aðgengi að orku og það er líka kostur að veðurfar sé kalt, því hiti vex í gagnaverum. Íslenski hráslaginn, og gaddurinn, er hér orðinn viss auðlind.

Nú er svo komið að af þeim gagnaverum sem tekið hafa til starfa á Íslandi teljast fimm til stórnotenda. Af yfirliti Orkustofnunar að dæma er orkuþörf gagnaveranna orðin um tvöfalt meiri en heimilanna. Og ekki eru öll gagnaverin að þjónusta heimilin og fyrirtækin beinlínis, með því að geyma mikilvæg gögn og þess háttar, heldur nýtast þau líka til þess að grafa fyrir rafmyntum eins og Bitcoin. 

Þannig að. Svo allt sé saman tekið. Eftir þessa fyrstu þrískiptu atlögu að því að greiða, a.m.k. lauslega, úr upplýsingaóreiðu varðandi orkubúskað Íslendinga blasir við þessi mynd: Gríðarlega mikið er framleitt af orku á Íslandi. Um 80 prósent af raforkunni, eða 15,7 TWst af þeim u.þ.b. 19,5 sem koma til notkunar í þjóðfélaginu rennur til sex fyrirtækja og gagnavera. 

Þetta er athyglisverð ráðstöfun. Ekki liggur beinlínis fyrir hvenær eða hvernig þetta var ákveðið. Enginn sagði beinlínis að við ætluðum að hafa þetta svona. Það er hægt að ímynda sér að ef til dæmis einhver stjórnmálamaður hefði orðað þessa framtíðarsýn svona á einhverjum tímapunkti — að Íslendingar skyldu stefna að því að ráðstafa nánast allri sinni grænu raforku til sex erlendra fyrirtækja og nokkurra gagnavera — að þá hefði sá hinn sami ekki fengið mikinn hljómgrunn. 

En þetta gerðist samt. Og svona er þetta. Sumir eru sáttir. Aðrir mjög ósáttir. Stundum hafa sjónarmiðin um sköpun starfa á landsbyggðinni ráðið för — með réttu eða röngu — eins og þegar ráðist var í uppbyggingu stóriðnaðar á Bakka við Húsavík og á Austfjörðum. En stundum virðast slík sjónarmið alls ekki ráða för. Samkvæmt skýrslu stjórnvalda frá 2018 um starfsskilyrði gagnavera má áætla að um 300 störf, bein og afleidd, skapist af þeim. Það er einungis um fjórðungur af starfsmannafjölda Krónunnar

Það má velta sér upp úr stærðunum og sögunni nokkuð lengi. Margt er æði athyglisvert, svona í stjórnmálalegu og þjóðhagslegu tilliti. Í næstu grein skoðum við hvort það sé virkilega satt sem Guðlaugur Þór segir að afskaplega lítið hafi verið framleitt af nýrri grænni orku á undanförnum 15 árum. Svo skoðum við þar á eftir hvort það sé líklegt sem Ingibjörg Isaksen sagði, að nýir orkukostir muni ekki nægja til að anna eftirspurn eftir rafmagni á komandi árum. 

Spennandi. Farið ekki langt.


SMELLTU HÉR TIL AÐ BÓKA ÁSKRIFT. MEÐ FLEIRI ÁSKRIFENDUM VERÐUR FF7 ENN BETRI

Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …