Samfélagsmiðlar

Ísafjörður, sögusvið finnskra metsölubóka

„Ég held að bækurnar verði sex. Ég á sögur í sex bækur. Fyrst hélt ég að þær yrðu þrjár en svo stækkar bara og stækkar heimurinn, eftir því sem ég skrifa meira,“ segir finnski rithöfundurinn Satu Rämö í viðtali við Höllu Ólafsdóttur. Sakamálabókaflokkur hennar Hildur hefur slegið í gegn í Finnlandi og útgáfurétturinn verið seldur til fjórtán landa. Þá stendur fyrir dyrum að gera sjónvarpsþáttaröð eftir sögunum.

Satu Rämö - MYND: Björgvin Hilmarsson

„Það hafði samband við mig kona sem sagði mér frá mömmu sinni sem var um nírætt og tímdi ekki að deyja fyrr en hún kæmist að því hvernig sagan endaði,“ segir finnski rithöfundurinn Satu Rämö en sakamálabókaflokkur hennar Hildur hefur slegið í gegn í Finnlandi. Nú þegar hafa komið út þrjár bækur í bókaflokknum en þær fjalla allar um rannsóknarlögreglukonuna Hildi Rúnarsdóttur sem býr á Ísafirði. Þótt það hljómi undarlega að finnskur rithöfundur velji Ísafjörð sem sögusvið sakamálasagna sinna á það sér nokkuð eðlilegar skýringar, Satu hefur verið búsett á Ísafirði í bráðum fimm ár. 

Hefur búið á Íslandi í hátt í tuttugu ár

Satu flutti fyrst til Íslands fyrir tuttugu árum, þá til að fara í skiptinám í hagfræði. Hún hélt svo tengslum við Ísland og í einni ferð til Íslands kynntist hún manninum sínum – í röðinni á Kaffibarnum. Satu er gift Björgvini Hilmarssyni og eiga þau saman tvær dætur. Satu lauk námi í hagfræði í Finnlandi en skrifaði svo sína fyrstu bók á Íslandi á árunum 2006-2007. Það var ferðabók um Ísland og Björgvin tók myndir í bókina. Satu og Björgvin bjuggu fyrst saman í Barselóna en fluttu svo til Íslands 2008 og Satu helgaði sig smám saman ritstörfum.  

Fjölskyldan fyrir vestan – MYND: Björgvin Hilmarsson

Hefur skrifað meira en tuttugu bækur

Áður en Satu hóf að skrifa krimma hafði hún skrifað um tuttugu bækur fyrir finnskan markað og hefur skrifað allt frá kennslubókum og ferðabókum til prjónabókar. Þær bækur sem vöktu mesta athygli voru bækur um líf Satu á Íslandi, sjálfssögur, en Satu skrifaði þrjár bækur í þeim flokki. Sú fyrsta fjallaði um lífið á Íslandi á krepputímum, önnur um fjölskyldulíf á Íslandi og sú þriðja um lífið úti á landi og var skrifuð þegar fjölskyldan flutti á Ísafjörð árið 2019. Þá miðlaði Satu jafnframt lífi sínu á Íslandi á samfélagsmiðla og er með yfir 40 þúsund fylgjendur á Instagram. 

Fannst hún ekki hafa meira að skrifa um

Hugmyndin að bókaflokknum um rannsóknarlögreglukonuna Hildi kviknaði á tímum heimsfaraldurs eftir að Satu hafði lokið við þriðju sjálfssögu sína. „Ég vissi ekki hvað ég ætti að skrifa næst, fannst ég búin að segja allt, svo mér datt í hug að næst ætti ég kannski bara að skálda texta,“ segir Satu og ákvað að láta á það reyna. „Svo í covid, þegar það var ekki hægt að hitta neinn eða gera neitt, fór ég að ímynda mér hvernig manneskju ég myndi vilja hitta – og þannig varð Hildur til – áður en að sögurnar urðu til,“ segir Satu. Hún hóf að móta persónu Hildar og setja saman sögur um af hverju hún væri eins og hún er og byggði þannig upp líf hennar. – Svo fór hún að velta fyrir sér hvað gæti gerst. 

Finnskur lögreglumaður tengir Ísafjörð við Finnland

Rannsóknarlögreglukonan Hildur er aðalpersóna bókanna ásamt finnska lögreglumanninum Jakob sem kemur í starfsnám, vinnuskipti, til Ísafjarðar. Gamalt mannhvarfsmál, hvarf systra Hildar, límir saman fyrstu bækurnar þrjár. Bækurnar gerast allar á Ísafirði en einnig í Finnlandi og víðar á Íslandi. Umhverfið er raunverulegt en ekki atburðirnir. „Fyrsta bókin gerist á Vestfjörðum og aðeins í Reykjavík og önnur bókin mest á Ísafirði en um helmingurinn þriðju bókarinnar gerist í Finnlandi og Lapplandi og hinn helmingurinn í kringum Ísland,“ segir Satu. Þar sem hún sé sjálf mjög raunsæ hefði hún ekki getað bundið sögurnar og sakamál þeirra alfarið við Ísafjörð – þá hefði hún líklega þurft að skrifa líka bókina: „Hvernig á að lifa af á Ísafirði.“ 

Fyrst áttu bækurnar aðeins að vera þrjár en Satu vinnur nú að fjórðu bókinni sem er áætlað að komi út í Finnlandi í haust. „Ég held að bækurnar verði sex. Ég á sögur í sex bækur. Fyrst hélt ég að þær yrðu þrjár en svo stækkar bara og stækkar heimurinn, eftir því sem ég skrifa meira,“ segir Satu. 

Fordæmalausar vinsældir

Fyrsta bók bókaflokksins um Hildi Rúnarsdóttur, Hildur, kom út í Finnlandi árið 2022 og fast á hæla hennar komu út bækurnar Rósa og Björk, vorið 2023, og Jakob, haustið 2023. Bækurnar hafa vakið mikla athygli í Finnlandi og voru mest seldu bækur Finnlands á síðasta ári, allar seldar í yfir 100 þúsund eintökum. „Það hefur aldrei gerst áður að þrjár mest seldu bækurnar séu eftir sama rithöfundinn,“ segir Satu. Hún segir að hún og útgefandinn hennar hafi mikið velt fyrir sér hvernig bækurnar hafi orðið svona vinsælar. – Og að það séu líklega nokkrir samverkandi þættir sem hafi gert það að verkum. „Eitt er að þetta gerist á Íslandi. Finnar þekkja Ísland en vilja vita meira um landið,“ segir Satu. Svo finnst lesendum persónurnar vera kunnuglegar – þótt þær séu á Íslandi. Það sé ýmislegt sem lesendur virðast kunna að meta sem Satu segir ekki að hafi verið meðvitað hjá henni. Til dæmis að Hildi sé lýst út frá gjörðum frekar en útliti: „Hún gerir venjulega hluti, borðar grjónagraut með lifrarpylsu, fer í ræktina og á brimbretti, býr ein og vill ekki eignast börn,“ segir Satu, „Ég tala mikið um hvað hún borðar – en ekki hvernig hún lítur út.“ Jakob á svo í erfiðu forræðismáli á milli landa – sem sé ekki óalgeng saga í Finnlandi, segir Satu.

Kápa bókarinnar Hildur – MYND: WSOY

Breiður lesendahópur

Satu segist hafa fengið mörg skilaboð frá fólki sem segist aldrei hafa lesið krimma áður en að bækurnar hafi opnað dyr inn í þann heim. Fólk sem vill ekki lesa gróteskar lýsingar á morðum og hrottaskap. „Ég lýsi engu þannig á mjög ítarlegan hátt,“ segir hún. Sölutölur sýni að lesendur séu fleiri en eru jafnan að sakamálasögum. Fólk þakkar henni fyrir fallegan texta sem haldi þeim við efnið – frekar en að það haldi áfram að lesa spennunnar vegna – og að svokallaðir „cliff-hangers“ knýi þau til að lesa áfram. Satu hefur fengið skilaboð frá fólki sem segist ekki hafa lesið heila bók í tíu ár fyrr en að það las bækurnar hennar og að þetta séu jafnvel fyrstu fullorðinsbækur sem krakkar séu að lesa.  

Hrærð yfir fjölbreyttum hópi lesenda

Satu segir það vera sér mikils virði að átta sig á því hversu breiður lesendahópur sé að bókunum. Í Finnlandi hitti hún til að mynda tvo 15 ára unglingsstráka á bókamessu sem iðuðu í skinninu eftir að fá að hlusta á hana segja frá bókunum, unglingsstrákar sem eru taldir til þess lesendahóps sem einna erfiðast sé að ná til. Á sama tíma hafði eldri kona samband við Satu og sagði henni af mömmu sinni sem væri um nírætt og tímdi ekki að deyja fyrr en hún kæmist að því hvað hefði orðið um systurnar í sögunni – en það skýrist í annarri bók – og Satu passaði að senda konunni eintak af annarri bókinni um leið og hún kom út.  „Þetta er líklega ástæðan fyrir þessum háu sölutölum,“ segir Satu – fólk á öllum aldri tengir við persónurnar og söguna.

Rétturinn seldur til Íslands og þrettán annarra landa 

Rétturinn til útgáfu á fyrstu bókinni í bókaflokknum um Hildi hefur verið seldur til fjórtán landa svo sem Þýskalands, Bretlands, Hollands, Frakklands, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Eistlands og Lettlands og sum löndin hafa einnig tryggt sér réttinn að næstu tveimur bókum. Hildur kemur út á íslensku í ágúst. „Ég er ógeðslega spennt. Ég hef búið hér svo lengi og er spennt að vita hvernig bókin verður lesin. Mun fólk tengja við hana og lesa hana eins og hvern annan krimma eða verður hún lesin út frá því að hún sé eftir útlending og að fólki finnist ég bara vera að bulla,“ segir Satu. 

Erla Elíasdóttir Völudóttir vinnur nú að þýðingu bókarinnar og Satu segir að um leið verði hún aðlöguð að íslenskum lesendum „Ég var að skrifa fyrir útlendinga um Ísland – það er annað en að skrifa um Ísland fyrir íslenska lesendur,“ segir hún. „Þetta er eins og með það að prjóna,“ segir Satu, „Jakob, ein lykilsögupersóna bókanna, er mikill prjónari. Ég gat ekki skrifað um prjónaskap án þess að læra að prjóna,“ segir hún. „Annars hefðu lesendur ekki tekið mig trúanlega.“ Svo fór reyndar að Satu gaf út prjónabók með uppskriftum Jakobs í kjölfar fyrstu bókarinnar um Hildi, ásamt Sigríði Sif Gylfadóttur, prjónahönnuði á Ísafirði. 

Sigríður Sif og Satu prjóna saman – MYND: Björgvin Hilmarsson

Sjónvarpssería og leikrit eftir bókunum

Hildur hefur gert það gott víðar en í Finnlandi og var á metsölulista „Der Spiegel“ í Þýskalandi í meira en tvo mánuði eftir að hún kom út. Kvikmyndarétturinn hefur verið seldur og fyrirtækið „Take Two Studios“ áætlar að taka upp sakamálaseríu byggða á bókunum á Íslandi og verður það þýsk-íslensk-finnsk framleiðsla. Nú er lögð lokahönd á handritið og er ætlunin að hefja tökur í lok þessa árs eða byrjun næsta, segir Satu. Þá verður leikgerð Hildar sett á svið í leikhúsinu í Turku í haust. 

Gerir nú það sem henni finnst skemmtilegast

Satu situr enn við að skrifa og vinnur nú að fjórðu bók bókaflokksins sem heitir Rakel og er áætlað að hún komi út í haust. „Nú get ég helgað mig skrifum fjóra af fimm dögum vikunnar,“ segir Satu. Í tuttugu ár voru bækur eitthvað sem hún skrifaði á kvöldin og um helgar en borguðu ekki endilega launin hennar. Það gerðu frekar stuttir textar og auglýsingar. Hún var með marga bolta á lofti sem hún er fegin að geta sleppt.  „Það besta við þetta allt er að nú get ég gert það í vinnunni sem mér finnst skemmtilegast,“ segir Satu.


SMELLTU HÉR TIL AÐ BÓKA ÁSKRIFT. MEÐ FLEIRI ÁSKRIFENDUM VERÐUR FF7 ENN BETRI

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …