Samfélagsmiðlar

Verður nóg til?

Ef allar virkjanir sem er í orkunýtingarflokki Rammaáætlunar myndu komast í gagnið ykist raforkuframleiðsla Íslendinga um 45 prósent. Það myndi nægja og vel það til þess að mæta orkuþörf Íslendinga miðað við gildandi orkuspá. En málið er þó ekki svo einfalt, eins og Guðmundur Steingrímsson rekur í þriðju grein sinni á FF7 um orkumál.

Rafhleðsla, ferðamannarúta

Rafhleðslustöð og ferðamannarúta - MYND: ÓJ

Við höldum áfram að skoða fullyrðingar um raforkuskort á Íslandi. Í þessari þriggja greina atlögu að viðfangsefninu hefur verið lagt út frá umræðu á Alþingi frá því í nóvember 2023.  Þar lýsti þingkona Framsóknarflokksins, Ingibjörg Isaksen, yfir áhyggjum af því að í náinni framtíð yrði ekki nægilega mikið virkjað til að mæta fyrirsjáanlegri eftirspurn samvæmt orkuspám, og hins vegar greindi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra frá því mati sínu að hér á landi hefði afskaplega lítið verið framleitt af nýrri grænni orku á undanförnum 15 árum.  

Þessi tvenn ummæli voru valin af handahófi. Þau endurspegla ágætlega önnur svipuð orð annarra. Nokkuð hefur nefnilega borið á ummælum af þessu tagi um einhvers konar raforkuskort, núverandi eða yfirvofandi, úr alls konar áttum, á þingi og annars staðar. Í hinum tveimur greinunum um þetta aðkallandi álitamál var annars vegar skoðað hvað Íslendingar framleiða í raun mikið af orku og raforku og í hvað hún fer, og svo hins vegar hvort það væri rétt að lítið hefði verið framleitt af nýrri grænni raforku undanfarið. 

Það reyndist alls ekki rétt og einnig kom í ljós að Íslendingar framleiða jú ógnarmikið magn af raforku, miðað við stærð þjóðarinnar. Í þessari þriðju og síðustu grein að sinni verður skoðað hvort það sé ástæða til að hafa áhyggjur af raforkuframleiðslunni í náinni framtíð og hvort það sé virkilega þannig að áformin um frekari raforkuvinnslu séu ekki nægjanlega umfangsmikil til þess að mæta fyrirsjáanlegri þörf. 

Byrjum á nýjustu orkuspá Orkustofnunar.  Orkustofnun gerir annars vegar svokallaða grunnspá um raforkuþörf til 2050 og hins vegar svokallaða háspá. Grunnspá er opinbera, gildandi spáin, en háspáin er sviðsmynd þar sem gert er ráð fyrir að raforkuþörfin verði meiri út af alls kyns þáttum. Aðallega er horft til hraða orkuskipta í samgöngum — í lofti, hafi og á landi —en þau krefjast jú rafmagns. 

Febrúarumferð á Miklubraut – MYND: ÓJ

Í grunnspánni er gert ráð fyrir að allir nýskráðir fólksbílar verði knúnir rafmagni árið 2030 og tíu árum síðar verði allir nýskráðir vöru- og hópferðabílar það líka. Svo er gert ráð fyrir að fiskiskip hefji notkun á vistvænni orku í litlu magni á komandi árum, en að sú orka verði helmingur af orkunotkun stærri skipa um miðja öld, en fyrr í minni skipum. Millilandaflugið fylgir þróun í Evrópu samkvæmt spánni og ef rafeldsneyti verður notað í flugi, að þá verður það að mestu innflutt.  Í grunnspánni er gert ráð fyrir að aukning í raforkunotkun stórnotenda verði í samræmi við það sem staðfest hefur verið með samningum. Um þetta ríkir þó viss óvissa í grunnspánni. 

Í háspánni er gert ráð fyrir að orkuskipti í samgöngum gangi hraðar og verði umsvifameiri. Þá er líka gert ráð fyrir aukningu í raforkuþörf gagnavera og fiskeldis á landi, og í rafeldsneytisframleiðslu fyrir flug, sem í háspánni færi þá fram innanlands. 

Tölurnar eru þessar: Raforkuframleiðslan núna er í kringum 20 TWst á ári.  Í grunnspánni er því spáð að árið 2030 hafi þörfin aukist um 1,2 TWst.  Í háspánni eykst hún tvöfalt það, eða um  2,4 TWst.  Samkvæmt grunnspánni verður heildarorkuþörfin 21,4 TWst árið 2030, 22,3 TWst árið 2040 og 23 TWst árið 2050.  Í háspánni mun þjóðin þurfa 22,6 TWst árið 2030, 25,4 TWst árið 2040 og 32 TWh árið 2050.  

Gangi háspáin eftir mun því þurfa tæpar 12 TWst að auki úr kerfinu fyrir miðja öld, en ef grunnspáin rætist þarf tæpar 3 TWst. Þetta er dálítill munur. Hann liggur einkum í orkuskiptunum. Það mun þurfa 3 TWst í orkuskipin fyrir 2040 gangi háspáin eftir, en einungis 1 TWst ef grunnspáin gengur eftir. Og ef háspáin rætist þá mun þurfa 8 TWst í orkuskiptin fyrir 2050. 

Grunnspáin jafngildir því að um 150 MW þurfi í aukna aflþörf fyrir 2030, en það er mælikvarði á stærð virkjanana. Það má áætla að um 150 MW af afli þurfi til þess að búa til þessar 1,2 TWst sem grunnspáin kallar eftir.  Og í samhengi við allar þessar spámyndir verður að geta þess að Landsvirkjun hefur líka gert sína eigin greiningu á þörfinni. Þar á bæ er talið að þjóðin muni þurfa um 6,5 TWst til viðbótar fyrir 2035. 

Þannig að þetta er þá staðan. Og þá blasir spurningin við: Hvað er í pípunum þegar kemur að framleiðslu á meiri raforku og er mögulega hægt að mæta þessari þörf öðruvísi en með meiri orkuframleiðslu? 

Bílar í hleðslu – MYND: ÓJ

Skoðum málið. Í núgildandi Rammaáætlun eru fjórar vatnsaflsvirkjanir, tíu jarðvarmavirkjanir og tvö vindorkuver í nýtingarflokki. Þessar virkjanir allar eru með orkuframleiðslugetu uppá 9,3 TWst. Það er kappnóg miðað við grunnspána, og fer meira að segja langleiðina með að uppfylla það sem þarf í háspána fyrir miðja öld. 

En málið er flóknara. Allir þessir virkjunarkostir eru umdeildir, þótt þeir séu í nýtingarflokki. Þeir hafa allir mætt andstöðu. Það er því kannski engin tilviiljun að engin þeirra er orðinn að veruleika. Um er að ræða jarðvarmavirkjanir á rómuðum útivistarsvæðum og/eða náttúruperlum við Hengil, við Mývatn og á Reykjanesi. Jarðhræringar á Reykjanesi hafa líka hugsanlega sett strik í reikninginn. Svo eru þarna umdeild vindorkuver, en Íslendingar hafa ekki fyllilega útkljáð hvað skuli gera við vindorkuna. Andstaða er mikil. Og fleiri vatnsaflsvirkjanir í Þjórsá með tilheyrandi umhverfisáhrifum hafa mætt miklum mótmælum. 

Framkvæmdir eru því ekki hafnar við neinar af þessum virkjunum. Sú staða sýnir kannski hvað Íslendingar eru komnir langt með að tæma orkuforðann sinn, að nýta alla mögulega og ómögulega virkjanakosti. Það er eins og það sé komið hik í virkjunarviljann. Það væri heldur ekkert skrítið. Náttúruvitund hefur jú aukist mjög, ferðaþjónusta blómstrar í íslenskri náttúru, og mögulega þykir sífellt fleira fólki það alls ekki sjálfsagt að raska þessum náttúrugæðum. Æ fleiri vilja gæta varúðar. Fáir vilja til dæmis að jarðvarmavirkjun á Hengilssvæðinu raski heitu böðunum í Reykjadal, svo dæmi sé tekið, en slíkt getur gerst. 

En lítum betur á dæmið. Landsvirkjun virðist helst með það á prjónunum að ráðast í Hvammsvirkjun í Þjórsá og hins vegar að reisa vindorkuver í Búrfellslundi. Þessar tvær framkvæmdir mæta orkuþörfinni einar og sér, ef litið er á grunnspána, til 2030. Ekki þyrfti meira. 

En Landsvirkjun er líka með aðrar hugmyndir í pípunum. Stækkun Þeistareykjavirkjunar gæti orðið að veruleika, sem myndi stækka þá virkjun um 50 prósent og auka framleiðslugetuna þá væntanlega um tæpar 0,4 TWst. Eins er rætt um stækkanir á vatnsaflsvirkjunum við Sigöldu, Hrauneyjar og Vatnsfell. Þessir kostir eru til umfjöllunar í yfirstandandi vinnu við fjórða áfanga Rammaáætlunar. Þessar framkvæmdar virðast þó ekki til þess fallnar að skaffa mikla orku miðað við aðra kosti. 

Bílaumferð og stóriðja – MYND: ÓJ

Þannig að ekki vantar virkjanahugmyndir, en ekki verður séð að nokkur þeirra sé beinlínis komin á koppinn.  Til þess að mæta orkuþörfinni í náinni framtíð þarf því væntanlega að íhuga aðrir leiðir líka. Í nýlegri skýrslu danskra ráðgjafa um mögulegan orkusparnað, og betri orkunýtni á Íslandi var bent á að tækifærin til þess að nýta raforkuna betur hér á landi eru umtalsverð. Með markvissum aðgerðum væri hægt að ná fram 8 prósenta sparnaði, miðað við núverandi orkunotkun. Það myndi losa um 1,5 TWst, sem væri nóg til þess að mæta þörf fyrir orkuskipti samkvæmt grunnspánni fram til 2030 og vel það.  

Sá böggull fylgir hins vegar skammrifi að ekki er talið raunhæft að ná fram þessum orkusparnaði undir eins, heldur þarf hann að koma til á nokkrum árum. Um 24 prósentum væri hægt að ná fram innan fimm ára og svo 53 prósentum á næsta áratug.  Engu að síður er hér um verulegar stærðir að ræða sem skipta máli í heildarsamhengi hlutanna og um að gera að vinda sér í þetta verkefni. Varla er nokkur á móti betri nýtni. 

Og svo er hitt. Hugsanlega þarf að ræða hvort einhverjum stórkaupendum sé ofaukið og fara að leggja drög að því að ráðstafa hinu mikla rafmagni sem Íslendingar framleiða einhvern veginn öðruvísi. Þetta er erfið umræða, en hana þarf að taka. Ef meira þarf til nauðsynlegra orkuskipta, verður þá ekki einfaldlega að sækja þá orku til núverandi kaupenda? Velta má upp dæmum. Með því að leggja niður eitt álver má losa orku sem nægir fyrir allri grunnspánni fram á miðja öld og vel það. 

Einnig má hugsa í öðrum lausnum, standi vilji til þess að vernda störf og verðmætasköpun. Ekki er allur iðnaður orkufrekur. Álbræðsla er raunar einhver orkufrekasti iðnaður sem um getur. Það má velta fyrir sér hversu skynsamlegt það er að hafa þrjár slíkar hér á landi ef orkuna þarf í annað.  Ál er hægt að framleiða öðruvísi. Það þarf um 95 prósentum minni orku í að endurvinna ál en að búa það til í álbræðslu.  Geta álver hér á landi orðið álendurvinnsluver? 

Þetta er ekki alveg út í hött. Fyrir ári síðan tilkynnti þýski álframleiðandinn Speira þau áform sín að loka álveri í Rheinwerk og breyta því í álendurvinnslu. Ástæðan? Jú, spara orku. Og mun minni kolefnisútblástur í kaupbæti. 

Niðurstaðan af þessum þremur greinum? Jú. Það er verið að framleiða fullt af raforku. Það er allt vaðandi í orku. Og það hefur heilmikið bæst við af raforku á undanförnum árum. En Íslendingar hefðu þurft að ákveða af meiri yfirvegun í hvað þessi raforka fór öll. 

Því nú erum við í smá vandræðum. Og þá er mikilvægt að hugsa út fyrir boxið, leita lausna, velta upp öllum möguleikum, en halda ekki áfram hugsunarlaust á þeirri sömu braut — virkja bara og selja einhverjum — sem virðist hafa leitt þjóðina í vandann til að byrja með. 

Alla vega. Þetta er stuð.


SMELLTU HÉR TIL AÐ BÓKA ÁSKRIFT. MEÐ FLEIRI ÁSKRIFENDUM VERÐUR FF7 ENN BETRI

Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …