Samfélagsmiðlar

Ákall um skipulagðari upplýsingamiðlun vegna jarðhræringa

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu, á ársfundi Íslandsstofu - MYND: Íslandsstofa/Sigurjón Ragnar

„Fólk út um allan heim hefur áhyggjur af okkur. Skilaboðin um að þetta sé staðbundið og eigi ekki við um allt landið hafa ekki náð í gegn,“ sagði Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa lóninu, í pallborði á ársfundi Íslandsstofu í Grósku í dag þar sem umræðuefnið var Vörumerkið Ísland.

Þátttakendur höfðu verið spurðir hvaða áhrif þeir teldu að jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hefðu á ímynd Íslands. Flestir virðast sammála um að til lengri tíma litið þá hafi umfjöllunin jákvæð áhrif – veki athygli á landinu og laði hingað erlenda ferðamenn. Til skamms tíma er hinsvegar staðan öðruvísi. Helga Árnadóttir hefur ásamt öðru starfsfólki Bláa lónsins þurft að sætta sig við að loka þessum einum helsta ferðamannastað landsins í 75 daga. Hún sagði að þó að atburðirnir á Reykjanesskaganum hefðu ekki bein áhrif á ímynd landsins til lengri tíma þá verði að hafa í huga að hugmyndir fólks um öryggi væru einn þeirra þátta sem hefðu áhrif.

„Ef við eigum eftir að horfa upp á svona hræringar til langs tíma, nokkurra ára eða áratuga, þá er ekki síst mikilvægt að við tölum einni röddu og tryggjum að við séum ekki að eiga við upplýsingaóreiðu, eins og við höfum átt við síðustu mánuði og mikil orka fer í að leiðrétta. Þetta getur til langs tíma haft áhrif á öryggisupplifun fólks gagnvart landinu – og þannig ímyndina,“ sagði Helga. Hún vill samræma betur þau skilaboð sem send eru út um atburðarásina á Reykjanesskaga. Um leið þyrfti að koma því á framfæri hversu magnaða sérfræðinga við eigum á sviði jarðvísinda og almannavarna, hversu mikið þeir þekktu þessa krafta sem eru að verki og hvernig bregðast ætti við með leiðigörðum og standa að rýmingaráætlunum. Margt jákvætt geti komið út úr því hvernig unnið hefur verið út úr þeirri stöðu sem við erum í. Þessa dagana er það hinvegar verkefni Helgu og hennar fólks að koma því skýrt til skila við markaðinn að lokanirnar séu aðeins tímabundnar – og tryggja um leið að upplifun gesta sé alltaf sem best.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, tók í sama streng í pallborðsumræðunum og nefndi dæmi af viðskiptamönnum sem ætluðu að koma frá Evrópu til fundar en hættu við vegna óvissunnar sem hræringarnar sköpuðu á Íslandi.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í pallborðinu – MYND: Íslandsstofa/Sigurjón Ragnar

Að loknum fundinum ræddi FF7 við Boga Nils um áhrifin af þessum hræringum á viðskiptin til skemmri og lengri tíma:

„Það hægði talsvert á fyrir áramót en það hefur komið til baka. En auðvitað er mjög slæmt ef Bláa lónið er lokað. Stór hluti ferðamanna ætlar sér þangað. Það er líka slæmt að þeir sem ætla sér ekki þangað sjái að þar sé lokað vegna einhverrar hættu. Þetta er mjög vond staða. Við þurfum að reyna að halda Bláa lóninu opnu eins og hægt er. Svo er spurning hvort stjórnvöld geti ekki stýrt upplýsingamiðlun með skipulegri hætti. Stundum er talað um að það þurfi að fara í einhvers konar markaðssetningu til að vinna gegn upplýsingaóreiðu en það væri miklu ódýrara að stýra upplýsingagjöfinni betur og gera það með samræmdari og yfirvegaðri hætti.

Er það ekki vonlaust? Það eru margir fræðimenn þarna úti með alls konar skoðanir á því sem er að gerast.

„Nei, þetta eru allt mannanna verk. Ég held að flestir þessir menn séu að einhverju leyti starfsmenn hins opinbera. Er ekki hægt að fá þá til að koma saman með sérfræðingi í upplýsingamálum og samræma það sem sagt er?“

Þykir þér að menn tali óvarlega?

„Heimurinn er svo breyttur vegna samfélagsmiðlanna. Þú segir eitthvað á Íslandi og þá er það komið út um allan heim. Maður hefur nokkrum sinnum séð í fyrirsögn að versta sviðsmynd raungerist. Svo fer það út í heim sem worst-case scenario! – og er þá átt við verstu sviðsmyndina fyrir Ísland – það sem á aðeins við um lítinn hluta af landinu. Ég er ekki að segja að menn tali óvarlega en það fylgir mikil ábyrgð þeim orðum sem látin eru falla í því umhverfi sem er í dag með samfélagsmiðlunum.“

En þið voruð sammála um það í hér í pallborðinu á ársfundi Íslandsstofu að til lengri tíma litið geti það styrkt ímynd Íslands að við lendum í þessum hremmingum.

„Já, við vitum hvernig á að takast á við þetta. Þetta er eitthvað sem hefur gerst áður á Íslandi og gerist aftur. Þetta sýnir að náttúran hér er lifandi og áhugaverð.“

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …