Samfélagsmiðlar

Getum framleitt miklu meira af matvöru á Íslandi

Eftir að hafa starfað hjá Bændasamtökunum í tæpa tvo áratugi kviknaði hugmynd hjá Tjörva Bjarnasyni og félögum hans um Matland, vettvang þar sem fólk getur fræðst um mat og keypt upprunamerktar íslenskar matvörur. Í góðu samstarfi við bændur, kjötiðnaðarmenn og handverksfólk í matvælaframleiðslu er umfang Matlands nú orðið slíkt að vöntun er á fleiri klukkustundum í sólarhringinn. 

Tjörvi Bjarnason, einn af stofnendum Matlands, með fullan bíl af grænmetiskössum.

„Ég er alinn upp á höfuðborgarsvæðinu en var sendur í sveit á sumrin sem unglingur. Eftir stúdentspróf lá leiðin í Bændaskólann á Hvanneyri og síðar í Háskóla Íslands. Ég réði mig í fullt starf til Bændasamtakanna árið 2002 og var þar í 19 ár í útgáfu- og kynningarmálum, stýrði meðal annars útgáfu Bændablaðsins og vann við almannatengsl. Það var frábær vinnustaður og ég kynntist mörgu góðu fólki, verkefnin fjölbreytt og gefandi. Einn góðan veðurdag ákvað ég hins vegar að nú væri komið gott, sagði upp störfum og fljótlega upp úr því kviknaði hugmyndin að Matlandi, vefsíðu þar sem fólk les og fræðist um mat og getur keypt upprunamerktar matvörur, svo sem kjöt eða grænmeti frá ákveðnum bændum sem við erum í samstarfi við. Við vildum líka gera okkur gildandi með því að sinna umfjöllun um umhverfis- og loftslagsmál og hvernig matvælaframleiðslan getur lagt sitt af mörkum í þeim efnum,“ útskýrir Tjörvi.

Matland býður kassa með brakandi fersku íslensku grænmeti í áskrift, beint frá íslenskum bændum.

Viðskiptahugmynd á einu A4 blaði
Matland er rekið af Matfélaginu sem Tjörvi stofnaði árið 2022 ásamt Hilmari Steini Grétarssyni sem þá var útgefandi Grapevine, og grafíska hönnuðinum Herði Kristbjörnssyni. Hugmyndin um Matland snýst í raun um að það sé fjölmiðill sem fjalli um mat, fólk og matvælageirann í heild sinni.

Þrjár tekjustoðir eru undir miðlinum; frjáls framlög lesenda, auglýsingar og vefbúð. Fljótlega kom þó í ljós að verslunarstörfin hlóðu utan á sig á kostnað efnisframleiðslu í miðlinum.

„Það vantar hreinlega fleiri stundir í sólarhringinn til að geta sinnt öllu sem okkur langar til! Okkur gekk ágætlega að koma starfseminni af stað. Við vorum búnir að vinna góða undirbúningsvinnu og hófumst handa við að smíða vef og byggja upp sambönd við tilvonandi birgja, lausapenna og viðskiptavini. Við mátuðum hugmyndina á mörgum í byrjun. Tókum fundi þar sem viðskiptahugmyndin var í raun teiknuð upp grafískt á eitt A4-blað og rædd fram og til baka. Sjálfur aðhyllist ég það að tala um hugmyndir og hræðist ekki að þeim sé stolið frá sprotafyrirtækjum eins og okkur.“

Landslið kjötiðnaðarmanna verkaði á dögunum heila kvígu frá Hvammi fyrir Matland. Allt hráefnið er nýtt og boðið til sölu á Matlandi. 

„Ég þreytist ekki á að predika gildi samvinnu fyrir ný félög eins og okkar. Stöndug fyrirtæki og reynslumikið fólk getur svo sannarlega látið gott af sér leiða með því að hjálpa nýjum sprotum af stað. Það var raunin í okkar tilviki sem gerði til dæmis fjármögnun auðveldari í upphafi,“ segir Tjörvi.

Síldin kemur og síldin fer
Matland byrjaði fljótlega að bjóða grænmetiskassa í áskrift með 8-11 tegundir af grænmeti í einum vikulegum kassa, þar sem fólk getur valið um tíðni sendinganna. 

„Þetta byrjaði ágætlega, hægt og rólega en við höfum ekki misst úr viku í afhendingum síðan og kössunum er alltaf að fjölga. Kjötskrokka kaupum við beint af bændum og látum vinna þá fyrir okkur. Viðskiptavinir eru bæði einstaklingar og veitingastaðir sem kunna vel að meta að fá upplýsingar um uppruna og gæði vörunnar. Við höfum líka lagt mikla áherslu á að láta kjöt hanga og bjóða upp á skurði sem ef til vill eru ekki alvanalegir og fáanlegir í hefðbundnari verslunum. Fiskmetið hefur nær eingöngu einskorðast við síld og lax úr landeldi. Hnýfill í Eyjafirði hefur verið okkur innan handar í þeim efnum og vonandi getum við aukið við úrvalið fljótlega. Það er vissulega þannig að margar matvörur eru árstíðabundnar. Síðsumars og á haustin er grænmetisúrvalið mikið en dvínar yfir háveturinn. Svo eru vissar vörur sem seljast meira í aðdraganda jóla eða þegar kalt er í veðri. Síldin er vinsæl á aðventunni og selst líka á þorranum. Síðan er eins og skrúfað sé fyrir krana og ekki eitt einasta síldarflak selst.“

Tjörvi ásamt Davíð Clausen, bóndasyni frá Hvammi í Ölfusi. Davíð á heiðurinn af Ölnautsævintýrinu – naut sem alin eru á bjórhrati alla sína tíð og á ekta bjór síðustu eldismánuðina.

Tvinna saman sölu til neytenda og veitingastaða

Tjörvi segir að mest sé selt af nautakjöti og grænmeti á Matlandi en hann býr að góðu tengslaneti í landbúnaðinum eftir margra ára starf fyrir bændur. „Allflesta birgjana þekkti ég fyrir eða gat rakið mig til þeirra í gegnum ábendingar. Við leggjum áherslu á að velja fólk til samstarfs sem gaman er að vinna með og sem hefur eitthvað sérstakt fram að færa. Við verðum að geta boðið upp á eitthvað sem ekki fæst í öllum öðrum búðum. Sem dæmi höfum við verið með lambakjöt frá bændunum í Árdal í Norður-Þingeyjarsýslu. Veitingastaðurinn Dill var með hryggi frá þeim á sínum matseðli og það var líka hægt að kaupa þá og fleiri afurðir frá búinu á vefnum okkar. Sama er að segja um Ölnautskjötið frá Hvammi, sem kemur af gripum sem hafa fengið bjór síðustu mánuðina í eldinu. Það hefur verið á boðstólum á VOX síðustu vikur og einnig á Matlandsvefnum. Þannig tvinnum við saman vöruframboð til veitingastaða og neytenda sem hefur gefið góða raun og er spennandi að okkar mati.“

Margir bændur hafa ekki notið ávaxta erfiðis síns

„Við hjá Matlandi leggjum áherslu á að allir fái sitt eins og sagt er. Bændur hafa margir hverjir ekki notið ávaxta sinnar vinnu sem skildi. Þeir hafa fáar söluleiðir og það geta ekki allir staðið í verslun beint frá býli. Matland hefur stóra drauma um að auðvelda bændum að koma sínum vörum á markað undir eigin vörumerkjum og upprunamerkingum. Þar eru ótal tækifæri þó vissulega vilji ekki allir eða geti stokkið á þann vagn.

Í raun og veru getum við framleitt miklu meira af matvælum á Íslandi. Samkeppnin við útlönd hefur þó harðnað verulega á síðustu tveimur áratugum og núna er miklu meira flutt inn í landið en áður. Íslensku vörurnar eru þó flestar hverjar ágætlega samkeppnisfærar en verðið er samt oft hærra. Stærstu tækifærin liggja í aukinni grænmetisframleiðslu en þar eru ef til vill helstu sóknarfærin í magni. Við erum ágætlega sett í mjólkurframleiðslunni og eigum nóg af fiski. Kjötframleiðslan tekur tíma og þar hefur verið á brattann að sækja en ég hef trú á að hún standi af sér tímabundna erfiðleika.

Við erum mjög rík að eiga okkar matarauðlindir eins og hreinan sjó, hrausta búfjárstofna og flott ræktunarland. Mannauðurinn er líka mikilvægur og við verðum að passa upp á að hvetja unga fólkið að taka að sér störf í matvælaframleiðslunni.“

„Ég þreytist ekki á að predika gildi samvinnu fyrir ný félög eins og okkar. Stöndug fyrirtæki og reynslumikið fólk getur svo sannarlega látið gott af sér leiða með því að hjálpa nýjum sprotum af stað.“

Samvinnan skiptir miklu máli
„Matland verður tveggja ára á sumardaginn fyrsta. Í byrjun fengum við mikla aðstoð hjá velunnurum okkar. Við leigðum til dæmis kæli- og frystiaðstöðu hjá Sigurði Haraldssyni í Pylsumeistaranum og hann leyfði okkur að afhenda vörurnar í búðinni hans á Hrísateig. Vinir okkar í kvikmyndafyrirtækinu Netop-films í Hafnarstræti leigðu okkur skrifstofuaðstöðu á hagstæðum kjörum og nokkrir matvælaframleiðendur og bændur voru strax spenntir fyrir samstarfinu og studdu okkur með ráðum og dáð. Við höfum sem dæmi átt mjög gott samstarf við kjötiðnaðarmennina hjá Villt og alið á Hellu, Ferskar kjötvörur, Biobú, Fjallalamb, sláturhúsið í Brákarey og Sölufélag garðyrkjumanna sem er í eigu íslenskra bænda. Matvælasjóður og íslenskir sauðfjárbændur veittu okkur mikilvæga styrki til vöruþróunar og það rúllaði boltanum af stað.“

Síðasta ár hefur Tjörvi búið í Uppsölum í Svíþjóð þar sem Heiðrún Sigurðardóttir sambýliskona hans er í doktorsnámi í búvísindum. Hann segir það hafa gengið furðuvel að vera staðsettur í öðru landi en nær öll hans vinna fer fram á netinu eða í samskiptum í gegnum tölvupóst og síma. Hilmar Steinn sér svo um að allt gangi upp á Klakanum og Jökull sonur Tjörva sinnir útkeyrslu og ýmsum sendiferðum fyrir Matland.

Þó hann sé nú búsettur erlendis er Tjörvi ekki í nokkrum vafa um hver er hans eftirlætismatur, sem að sjálfsögðu er íslenskur frá a-ö: „Það er góð grilluð nautasteik með íslensku grænmeti, sveppasósu og kartöflum. Auðvitað er skilyrðið að nautið hafi fengið að hanga í tvær vikur, að grænmetið sé brakandi ferskt og kartöflurnar úr Hornafirðinum eða úr garði fjölskyldunnar.“ 

Um þessar mundir er Matland að koma sér fyrir í gamla húsnæði Pylsumeistarans á Hrísateig 47, við hlið Brauð & Co. Þar munu Tjörvi og Matlandsmenn opna afhendingarstað innan skamms á sínum vörum og bjóða upp á nýstárlega þjónustu. „Við erum líka að vinna í því að fjölga afhendingarstöðum, sérstaklega fyrir grænmetiskassana okkar á landsbyggðinni þar sem eftirspurn er fyrir hendi.“


ÁSKRIFT MEÐ 50% AFSLÆTTI Í EINN MÁNUÐ. FULLT VERÐ Í FRAMHALDINU EN ALLTAF HÆGT AÐ SEGJA UPP.
 Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …