Samfélagsmiðlar

Kameljón og drottning

Vínekra í Búrgúndí - MYND: Unsplash/Sylvain Brison

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi – nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa.

FF7 starfar samkvæmt íslenskum lögum og auglýsir ekki vín eða annað áfengi en varð hugsað til þeirra lesenda sinna um þessa helgi sem hafa kannski dregið tappa úr vínflösku. Töluverðar líkur eru á að einhver hafi valið að opna flösku af Chardonnay – vinsælasta hvítvíni heims.

Eins og stundum er með það sem vel er heppnað og vinsælt þá þykir mörgum vínsnobbaranum það hversdagslegt, dauflegt og óspennandi að drekka Chardonnay – bara af því að það flýtur um allt. Þó gera þeir greinarmun á því flestir hvaðan það kemur. Vinsældir þessarar tegundar hvítvíns er hinsvegar engin tilviljun. 

Þrúgan græna dafnar í margskonar loftslagi og vínið sem unnið er úr henni getur bæði fengið ferskt og snarpt bragð eða djúpt og eikað – eftir því hvar sólin skein á ávöxtinn og úr hvaða viði tunnan sem geymir vökvann var smíðuð. Frönsk eða amerísk eik? Það er spurningin. 

Vínið úr þessari vinsælu þrúgu getur verið létt eða bragðmikið, eða þrungið – oftast þó þurrt, meðalþroskað með hæfilegri sýru og alkóhómagni. Við ærum ekki óstöðugan með samlíkingum við bragð af af hinum og þessum ávöxtum til að lýsa bragðinu af Chardonnay. Það er til Chardonnay við allra hæfi (þeirra sem á annað borð vilja áfengi). Það getur ekki verið bannað að segja þetta. Lesendur FF7 mega þó vita að alheimssamband Chardonnay-framleiðenda (sem er kannski til) styrkir ekki útgáfuna um krónu, né innflytjendur þessa ljósa vökva.

Chardonnay er ræktað og notað til víngerðar á flestum helstu vínsvæðum heimsins. Auðvitað er ekki hægt að slá neinu föstu um fæðingarstaðinn. Þó hefur verið bent á Mâconnais, vínræktarsvæði í suðurhluta Búrgúndí, vestan við ána Saône. Efftirsóttasta hvítvínið sem þarna verður til er Pouilly-Fuissé. Þarna dafna fleiri tegundir þrúgna en Chardonnay, eins og Pinot Noir og Gouais Blanc.

En sem sagt: Chardonnay á rætur að rekja til hins göfga Búrgúndí-héraðs. Nyrsti og þar með svalasti hluta þess eru heimkynni hins vinsæla Chablis, sem er sýruríkara, þurrara, og ekki með eins miklu ávaxtabragði og þær Chardonnay-frænkur sem aldar eru upp í meiri sólskini og hita – eins og í Ástralíu. 

Chardonnay er gjarnan drukkið ungt og ferskt en sumt fær að eldast – eins og þetta Chablis – MYND: Unsplash/Marco Mornati

Það er annars aðlögunarhæfnin sem skýrir útbreiðslu og vinsældir Chardonnay. Þrúgan þolir margt og dafnar við ólík skilyrði í jarðvegi og loftslagi. En það var ekki fyrr en um 1980 að vegferð Chardonnay í átt að heimsyfirráðum hófst. 

Ástralskir vínframleiðendur tóku þrúgunni opnum örmum, fögnuðu þolgæðum hennar – að hún gæti vaxið og þroskast í bæði svölu og heitu loftslagi. Það var bæði hægt að framleiða eftirlíkingar af stílhreinum og fersku Búrgúndívíni og ávaxtaríkri loðmullu fyrir fólk með sæta tungu. Eikað Chardonnay frá Ástralíu varð vinsælt víða um heim upp úr 1990 – líka á Íslandi. Aðrir hafa líka fagnað góðri sölu á Chardonnay og rækta þrúguna af kappi: Nýsjálendingar, Chilebúar, Suður-Afríkumenn – að ógleymdum vínbændum í Kaliforníu, ekki síst við Sonoma-ströndina. Chardonnay þaðan er gjarnan ferskt, hvasst og jafnvel hressandi, segja sumir. Í Napa-dalnum er bragðið margslungnara og þroskaðra – með eftirbragði sem minnir á smjör. 

Vínræktin er rúmfrek í Búrgúndí-héraði – MYND: Unsplash/Vins de Bourgogne

FF7 hefur það fyrir satt að Chardonay sé ræktað á 160 þúsund ekrum lands um víða veröld. Það hljómar eins og heil heimsálfa. Chardonnay hefur farið víða vegna þess að víndrykkjumenn kunna að meta það en líka einfaldlega vegna þess að fremur auðvelt er að rækta það við ólík skilyrði.

Það er mælt með því að Chardonnay sé borið fram 6-7 gráðu heitt, sem sagt þokkalega svalt. Svo geta þeir sem leyfa sér á annað borð að drekka svona óhollustu dundað sér við að velta víninu á tungu og í munnholi og spá í hvort bragðið líkist einhverjum suðrænum ávöxtum, eplum, perum, fíkjum, hnetum – jafnvel einhverju sem minnir á ferskt nýslitið grasstrá í munni. 

Chardonnay er kameljón vínheimsins en líka drottning hvítvínsins. 

Við leggum ekki meira á ykkur.

Enn glóir vín á skál – MYND: Unsplash/Nick Fewings

Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …