Samfélagsmiðlar

Kameljón og drottning

Vínekra í Búrgúndí - MYND: Unsplash/Sylvain Brison

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi – nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa.

FF7 starfar samkvæmt íslenskum lögum og auglýsir ekki vín eða annað áfengi en varð hugsað til þeirra lesenda sinna um þessa helgi sem hafa kannski dregið tappa úr vínflösku. Töluverðar líkur eru á að einhver hafi valið að opna flösku af Chardonnay – vinsælasta hvítvíni heims.

Eins og stundum er með það sem vel er heppnað og vinsælt þá þykir mörgum vínsnobbaranum það hversdagslegt, dauflegt og óspennandi að drekka Chardonnay – bara af því að það flýtur um allt. Þó gera þeir greinarmun á því flestir hvaðan það kemur. Vinsældir þessarar tegundar hvítvíns er hinsvegar engin tilviljun. 

Þrúgan græna dafnar í margskonar loftslagi og vínið sem unnið er úr henni getur bæði fengið ferskt og snarpt bragð eða djúpt og eikað – eftir því hvar sólin skein á ávöxtinn og úr hvaða viði tunnan sem geymir vökvann var smíðuð. Frönsk eða amerísk eik? Það er spurningin. 

Vínið úr þessari vinsælu þrúgu getur verið létt eða bragðmikið, eða þrungið – oftast þó þurrt, meðalþroskað með hæfilegri sýru og alkóhómagni. Við ærum ekki óstöðugan með samlíkingum við bragð af af hinum og þessum ávöxtum til að lýsa bragðinu af Chardonnay. Það er til Chardonnay við allra hæfi (þeirra sem á annað borð vilja áfengi). Það getur ekki verið bannað að segja þetta. Lesendur FF7 mega þó vita að alheimssamband Chardonnay-framleiðenda (sem er kannski til) styrkir ekki útgáfuna um krónu, né innflytjendur þessa ljósa vökva.

Chardonnay er ræktað og notað til víngerðar á flestum helstu vínsvæðum heimsins. Auðvitað er ekki hægt að slá neinu föstu um fæðingarstaðinn. Þó hefur verið bent á Mâconnais, vínræktarsvæði í suðurhluta Búrgúndí, vestan við ána Saône. Efftirsóttasta hvítvínið sem þarna verður til er Pouilly-Fuissé. Þarna dafna fleiri tegundir þrúgna en Chardonnay, eins og Pinot Noir og Gouais Blanc.

En sem sagt: Chardonnay á rætur að rekja til hins göfga Búrgúndí-héraðs. Nyrsti og þar með svalasti hluta þess eru heimkynni hins vinsæla Chablis, sem er sýruríkara, þurrara, og ekki með eins miklu ávaxtabragði og þær Chardonnay-frænkur sem aldar eru upp í meiri sólskini og hita – eins og í Ástralíu. 

Chardonnay er gjarnan drukkið ungt og ferskt en sumt fær að eldast – eins og þetta Chablis – MYND: Unsplash/Marco Mornati

Það er annars aðlögunarhæfnin sem skýrir útbreiðslu og vinsældir Chardonnay. Þrúgan þolir margt og dafnar við ólík skilyrði í jarðvegi og loftslagi. En það var ekki fyrr en um 1980 að vegferð Chardonnay í átt að heimsyfirráðum hófst. 

Ástralskir vínframleiðendur tóku þrúgunni opnum örmum, fögnuðu þolgæðum hennar – að hún gæti vaxið og þroskast í bæði svölu og heitu loftslagi. Það var bæði hægt að framleiða eftirlíkingar af stílhreinum og fersku Búrgúndívíni og ávaxtaríkri loðmullu fyrir fólk með sæta tungu. Eikað Chardonnay frá Ástralíu varð vinsælt víða um heim upp úr 1990 – líka á Íslandi. Aðrir hafa líka fagnað góðri sölu á Chardonnay og rækta þrúguna af kappi: Nýsjálendingar, Chilebúar, Suður-Afríkumenn – að ógleymdum vínbændum í Kaliforníu, ekki síst við Sonoma-ströndina. Chardonnay þaðan er gjarnan ferskt, hvasst og jafnvel hressandi, segja sumir. Í Napa-dalnum er bragðið margslungnara og þroskaðra – með eftirbragði sem minnir á smjör. 

Vínræktin er rúmfrek í Búrgúndí-héraði – MYND: Unsplash/Vins de Bourgogne

FF7 hefur það fyrir satt að Chardonay sé ræktað á 160 þúsund ekrum lands um víða veröld. Það hljómar eins og heil heimsálfa. Chardonnay hefur farið víða vegna þess að víndrykkjumenn kunna að meta það en líka einfaldlega vegna þess að fremur auðvelt er að rækta það við ólík skilyrði.

Það er mælt með því að Chardonnay sé borið fram 6-7 gráðu heitt, sem sagt þokkalega svalt. Svo geta þeir sem leyfa sér á annað borð að drekka svona óhollustu dundað sér við að velta víninu á tungu og í munnholi og spá í hvort bragðið líkist einhverjum suðrænum ávöxtum, eplum, perum, fíkjum, hnetum – jafnvel einhverju sem minnir á ferskt nýslitið grasstrá í munni. 

Chardonnay er kameljón vínheimsins en líka drottning hvítvínsins. 

Við leggum ekki meira á ykkur.

Enn glóir vín á skál – MYND: Unsplash/Nick Fewings

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …