Samfélagsmiðlar

Keppnismatreiðsla það allra skemmtilegasta

Íslenska kokkalandsliðið fagnaði frábærum árangri á Ólympíuleikunum í matreiðslu sem haldnir voru í Stuttgart í Þýskalandi í byrjun febrúarmánaðar. Þau gerðu sér lítið fyrir og lönduðu bronsi í báðum keppnisgreinum en 55 þjóðir tóku þátt á leikunum að þessu sinni. Landsliðskokkurinn Erla Þóra Bergmann Pálmadóttir er alin upp við góðan mat á alla kanta og kom sjálfri sér á óvart þegar hún fann sig í keppnismatreiðslu.

Erla Þóra Bergmann Pálmadóttir með verðlaunagripinn - MYND: Ruth Ásgeirsdóttir

Erla Þóra útskrifaðist sem kokkur árið 2017 og matreiðslumeistari þremur árum síðar. Hún er 27 ára, uppalin í Laugardalnum og var snemma harðákveðin í að verða kokkur. „Ég byrjaði að vinna á veitingastöðum þegar ég var bara unglingur. Fyrst á Tapasbarnum þegar ég var 13 ára og svo í mörg ár í þeirri keðju, Apótekinu og Fjallkonunni. Við fjölskyldan erum öll mikið mataráhugafólk. Ég er alin upp við góðan mat heima og mamma og pabbi voru mjög dugleg að fara með okkur út að borða. Svo þetta liggur allt frekar beint við,“ útskýrir Erla Þóra.

Mesta kikkið er að fullkomna réttina

Hún segir það aldrei hafa verið sérstaklega á stefnuskránni að vera í landsliðinu í matreiðslu en fyrir þremur árum sá hún auglýsingu frá þeim, ákvað að sækja um, komst strax inn og hefur ekki hætt síðan. „Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert. Mjög krefjandi og allt öðruvísi en vinnan á veitingastöðunum. Ég vissi ekki að ég hefði svona mikinn áhuga á keppnismatreiðslu en þetta er alveg ótrúlega skemmtilegt. Mesta „kikkið“ er að sjá árangurinn og hvernig hlutirnir þróast yfir æfingatímabilið. Þú byrjar kannski að prófa eitthvað sem er fyrst alveg hræðilegt en svo heldur þú áfram og áfram að þróa og breyta og í lokin nærðu að fullkomna réttinn.“

„Konum í faginu er vissulega alltaf að fjölga en karlarnir eru ennþá í meirihluta“ – MYND: Ruth Ásgeirsdóttir

Æfingatímabil landsliðsins fyrir stórmót er yfirleitt um tvö ár en nú voru þau lengi að safna saman liði og náðu því 8 mánuðum af stífum æfingum, sem svo skiluðu sér með bronsverðlaunum á dögunum. Á síðasta ári var Erla Þóra eina konan í liðinu en nú eru þær fjórar auk þjálfara liðsins, Snædísar Xyza Mae Jónsdóttur.

Liðið fékk góða hvatningu – MYND: Ruth Ásgeirsdóttir

Erla Þóra segir bransann vissulega vera karllægan, nokkuð sem reglulega er til umræðu og nú sérstaklega í ljósi þess að allir gestakokkar Food and Fun hátíðarinnar í mars eru karlkyns. „Þetta eru erfiðar og langar vaktir og mestmegnis kvöld- og helgarvinna í kokkabransanum. Kannski erum við ekki komin lengra en þetta í jafnréttinu og þessi vinnutími ef til vill eitthvað sem karlarnir sætta sig frekar við til lengri tíma. Konum í faginu er vissulega alltaf að fjölga en karlarnir eru ennþá í meirihluta.“

Sigur í höfn – MYNDIR: Ruth Ásgeirsdóttir

Meira að segja uppvaskið dæmt
Keppnisgreinarnar á Ólympíuleikunum er tvær. Í annarri þeirra, Chef‘s Table, framreiðir liðið 11 rétta matseðil fyrir 12 manns og í þeirri síðari þarf að afgreiða þriggja rétta matseðil fyrir 110 manns. „Hvort tveggja þarf að vera gríðarlega flott en með ólíkum áherslum. Þarna er allt dæmt, meira að segja uppvaskið og hvernig við göngum frá. Við sem hópur æfum þetta allt saman aftur og aftur yfir æfingatímabilið og meira að segja hvernig við athöfnum okkur í eldhúsinu. Ef þú ert að hræra í potti með sleif þá þarftu að vera búin að ákveða hvar og hvernig þú ætlar að leggja hana frá þér og allt þarf þetta að vera samræmt okkar á milli. Þetta er svolítið eins og sýning í leikhúsi þar sem hvert einasta smáatriði þarf að vera á hreinu. Við fáum líka sérstaka smakkdómara til liðs við okkur á æfingatímabilinu sem eru miklir reynsluboltar í faginu og gefa okkur álit og punkta til að vinna út frá.“

„Þau eru framtíðarlandsliðið“ – MYND: Ruth Ásgeirsdóttir

Kokkalandslið Íslands samanstendur af 11 manna hópi í heildina. Auk þess hafa þau með sér fylgdarlið og aðstoðarfólk, kokkanema sem hjálpa gríðarlega og læra að sjálfsögðu mikið í leiðinni. „Þau eru framtíðarlandsliðið,“ útskýrir Erla Þóra og bendir á að þau setji markið hátt og séu þegar farin að huga að næstu keppnum – heimsmeistaramótinu eftir tæp þrjú ár og Ólympíuleikarnir árið 2028. Þar er markið að sjálfsögðu sett á gullverðlaunin og í haust fara æfingar aftur á fullt.

Nýtt efni

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …