Samfélagsmiðlar

Telur engar líkur á að Icelandair verði gjaldþrota

Rekstur margra flugfélaga mun stöðvast vegna ástandsins sem útbreiðsla Covid-19 hefur valdið. Icelandair ætti þó ekki að verða eitt af þeim segir norskur sérfræðingur í flugrekstri. Hann telur að ríkið verði að koma að flugfélaginu með öðrum hætti en með lánveitingum.

icelandair 767 757

„Þetta er jákvæð niðurstaða í þessari alvarlegri deilu. Þessi átök hafa þó vafalítið valdið skaða innan Icelandair og það mun taka einhvern tíma fyrir sárin að gróa,” segir Hans Jørgen Elnæs, norskur sérfræðingur í flugrekstri, um harðar kjaraviðræður Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands. 

Elnæs hefur fylgst með Icelandair og íslenskum flugrekstri í gegnum tíðina og meðal annars rætt stöðu WOW og Play hér á síðum Túrista. Í sumarbyrjun fór hann yfir stöðu Icelandair í viðtali við Kastljós RÚV og hann tjáir sig reglulega um flugrekstur í skandinavísku viðskiptapressunni.

Og Norðmaðurinn segist ekki hafa trú á því að Icelandair verði gjaldþrota þrátt fyrir erfiða stöðu og þá kreppu sem nú ríkir í fluggeiranum.

„Ríkisstjórnin mun örugglega gera allt sem þarf til að styðja við fyrirtækið í ljósi mikilvægi þess fyrir landið. Icelandair er líka þekkt vörumerki og með gott orðspor líkt og ráðamenn þjóðarinnar eru vafalítið meðvitaðir um. Eyríki í miðju Atlantshafi getur heldur ekki tekið áhættuna hvað samgöngur varðar. Að setja allt sitt traust á erlend flugfélög sem Ísland hefur þá enga stjórn yfir er ekki skynsamlegt og ennþá eru áformin varðandi Play óljós.“

Þetta lykilhlutverk Icelandair í íslenskum þjóðarbúskap gæti þó, að mati Elnæs, veikt samningsstöðu þess í yfirstandandi viðræðum flugfélagins við kröfuhafa, birgja, Boeing og flugvélaleigur. „Þessir viðsemjendur trúa því væntanlega ekki heldur að Icelandair verði lokað. Smæð félagsins gerir það svo ennþá snúnara að endursemja um núverandi skuldbindingar. Boeing á til að mynda í dag í samningaviðræðum við miklu stærri viðskiptavini en Icelandair.”

Norski sérfræðingurinn undirstrikar að hann sé enginn sérstakur talsmaður þess að flugfélög séu í opinberri eigu. Staðan í heiminum í dag sé hins vegar óvenjuleg og það kalli á nýtt mat.

„Ég tel að hið opinbera verði á endanum að kaupa sig inn í Icelandair og þá eignast meira en helming í félaginu. Á þessum hlut situr ríkið svo á í fimm til sjö ár eða þangað til öruggt er að flugfélagið komist í gegnum þessa ókyrrð sem nú ríkir. Þar með yrðu líka flugsamgöngur tryggðar, bæði í millilandaflugi og innanlands. Það skiptir sköpum fyrir íslenskt þjóðarbú. Þegar Icelandair er svo orðið sjálfbært á ný þá getur ríkið selt sinn hlut og þá til íslenskra lífeyrissjóða og fjárfesta. Alla vega verður að tryggja að félagið sé áfram undir stjórn Íslendinga en ekki erlendra fjárfesta,” útskýrir Elnæs.

Hann bendir á að sem hluthafi þá geti ríkið líka haft um það að segja hvaða þjónustu fyrirtækið veiti, t.d. varðandi flugframboð til ákveðinna staða.

Aftur á mót er það mat Elnæs að ríkisstuðningur í formi lána, eins og nú eru á teikniborðinu í Stjórnarráðinu, muni ekki hjálpa Icelandair. Þess háttar þyngi aðeins skuldabaggann og ennþá sé óvissan varðandi áhrif Covid-19 mjög mikil.

Í lok síðustu viku afturkallaði Icelandair uppsagnir hluta þeirra flugmanna sem sagt var upp í vor. Fjöldinn var þó nokkru undir því sem forsvarsmenn Félags íslenskra atvinnuflugmanna bundu vonir við. Samtals er aðeins gert ráð 139 flugmönnum hjá félaginu á næstunni.

Miðað við þann fjölda liggur fyrir að stór hluti af flugflota Icelandair verður áfram að jörðu niðri. „Þar með munu tekjurnar ekki aukast nægjanlega mikið og af öllum líkum mun félagið halda áfram að brenna peningum út árið og þar með fara inn í erfiðan vetur í ennþá veikari stöðu,” segir Elnæs að lokum.

Á morgun birtist hér á Túrista greining norska sérfræðingsins á áformum Play.

Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …