Samfélagsmiðlar

Fjör á fjórtánda stræti í Washington

Gata fyrir sælkera og stuðpinna í borg pólitíkusa og erindreka.

Höfuðborg Bandaríkjanna er stundum sögð litlaus diplómataborg. Túristi gerði sér far þangað nýverið og komst að því að borgin er höfð fyrir rangri sök. Þar er víða heitt í kolunum. Sérstaklega á svæðinu sem kennt er við Logan Circle.

„Ef þú vilt vera í hringiðunni þá er þetta staðurinn. Hér er mikið stuð og endalaust úrval af frábærum mat. Þess vegna vilja allir búa hér“, segir Robert Shields, íbúi við fjórtánda stræti, þegar útsendari Túrista tekur hann tali á sjóðheitum sumardegi í Washington.

Þeir eru fleiri íbúar Washington sem segja svæðið vera aðalstaðinn í borginni um þessar mundir. „Það hafa að minnsta kosti tíu nýir veitingastaðir opnað hér á svæðinu síðustu misseri og það er ótrúlegt að fylgjast með uppbyggingunni“, segir sessunautur minn við barborðið á Church Key, einum af börunum við götuna. Hann segist vera nýkominn heim úr námi í A-Evrópu og að sér finnist matarkúltúrinn í Washington hafa batnað mikið þau ár sem hann dvaldi í útlöndum. „Nú er fjölbreytnin á matseðlum veitingastaðanna miklu meiri og fólk pantar sér ekki Budweiser heldur frekar öl bruggað hér í nágrenninu.“

„Maturinn á betri bjór skilinn“

Það er því víðar en hér heima sem fólk sýnir nýjum, litlum bjórframleiðendum aukin áhuga. Á veitingastaðnum Birch and Barley, sem er á hæðinni fyrir neðan Church Key barinn, er til að mynda boðið upp á 555 tegundir af bjór og óhætt að fullyrða að aðeins fagmenn á sviðinu kannast við vörumerkin á drykkjarseðlinum. Hér er enginn Heineken, Stella Artois eða Coors. Aðeins bjór frá brugghúsum sem lítið fer fyrir. Eigandinn segir að réttir staðarins séu settir saman með bjór í huga. Þannig geti matargestir pantað sér mismunandi öl fyrir hvern rétt. Fólk fær drykkina því servereða í litlum glösum og getur því prófað nokkrar tegundir á meðan á máltíðinni stendur.

Birch and Barley var opnaður fyrir þremur árum síðan og hefur fengið mikið lof matargagnrýnenda vestanhafs. Sama má segja um Bar Pilar og Pearl Dive Oyster Palace sem finna má á sama svæði. Staðirnir þrír eiga það líka sammerkt að vera á tveimur hæðum, með bar á efri og matsölustað á þeim neðri. Stemningin er líka frekar afslöppuð og verðið ekki svo hátt. Aðalréttir á bilinu eitt til þrjú þúsund krónur og stórt ölglas á þúsund.

Vinsælar franskar á vínbar

Hún er vandfundinn vínflaskan sem á er skrifað að innihaldið passi sérstaklega vel með frönskum kartöflum. Á vínbarnum Cork bar á fjórtánda stræti er hins vegar enginn réttur vinsælli er franskar hússins. Þegar inn á staðinn er komið leynir það sér ekki að þetta er vel sóttur staður og pússarinn við enda barborðsins hefur varla undan að fægja glös. Þarna er boðið upp á smárétti og enginn þeirra selst jafn mikið og frönsku karftöflunnar sem kryddaðar eru með steiktum hvítlauk, steinselju og sítrónuberki. Þó ekki maukað saman í gremolata heldur fær hvert krydd að vera sóló og úr verður blanda sem hefur borið hróður staðarins víðar en gæðavínin sem þar eru á boðstólum.

Hvað er klukkan í Reykjavík?

Það er hætt við að margir íslenskir ferðamenn endist stutt út á galeiðunni í Washington. Alla vega fyrstu kvöldin því tímamismunurinn á Íslandi og austurströnd Bandaríkjanna er fimm tímar á veturna. Þeir sem vilja fá sönnun þess að það sé löngu kominn háttatími á Íslandi þótt nóttin sé ung í Washington ættu að líta við á hinum vinsæla bar Café Saint-Ex. Þar hangir nefnilega klukka á vegg sem sýnir hvernig tímanum líður í Reykjavík.

Hanastél í felum

Þó það sé mikið líf við fjórtánda stræti þá standa þar nokkur hús tóm. Hús númer 2009 lítur út fyrir að vera eitt slíkt, byrgt er fyrir gluggana og ekkert sem gefur til kynna að þar fyrir innan sé nokkuð áhugavert. En ef þú opnar ómerktar dyrnar og biður manninn sem þar stendur að hleypa þér inn þá ertu kominn inn á rómaðasta kokteilbar borgarinnar, Gibson bar. Með þessum feluleik reyna eigendurnir að endurvekja stemmninguna sem ríkti á bannárunum vestanhafs. Það leynir sér ekki að hér eru metnaðarfullir veitingamenn á ferðinni því barinn, garðurinn og síðast en ekki síst drykkirnir, eru í hæsta gæðaflokki.

Ferðamaður sem ætlar að gera Washington góð skil ætti því ekki að eyða allri orku í að skoða heimsfræg kennileiti borgarinnar heldur njóta kvöldsins á fjórtánda stræti.

Icelandair flýgur til Washington allt árið um kring.

Sjá staðina á korti.

Heimamenn mæla með:


TENGDAR GREINAR: Bæjarins bestu í Washington

Myndir: Túristi og Birch & Barley 

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …