Samfélagsmiðlar

Ísland er spennandi markaður fyrir SAS

Aukin umsvif Icelandair og WOW air í flugi milli Norðurlanda og Ameríku er ekki ástæðan fyrir því að stjórnendur SAS ætla að tvöfalda umsvif sín á Íslandi á næsta ári.

sas simon pauck hansen

Í síðasta mánuði tilkynntu forsvarsmenn að frá vetrarlokum myndi félagið bjóða upp á daglegar ferðir milli Kaupmannahafnar og Íslands allt árið um kring. Þetta verður í fyrsta skipti í nærri tvo áratugi sem þetta stærsta flugfélag Norðurlanda flýgur hingað frá dönsku höfuðborgini en síðustu ár hefur starfsemi SAS, hér á landi, nær einskorðast við áætlunarferðir frá Ósló. Félagið hefur hins vegar átt í nánu samstarfi við Icelandair um flug til og frá landinu.

En sama dag og forsvarsmenn skandinavíska flugfélagsins kynntu nýju flugleiðina til Íslands var opinberað að félagið myndi einnig hefja flug til Boston frá Kaupmannahöfn en bandaríska borgin hefur verið helsta vígi Icelandair vestanhafs. Íslenska félagið hefur lengi vel verið eina norræna flugfélagið í Boston og flogið þangað allt að þrisvar sinnum á dag. Innan fluggeirans var rætt að nýtt áætlunarflug SAS til Boston og Íslands væru viðbrögð við ákvörðun Icelandair að hefja flug til Chicago en þeirri borg hefur SAS þjónað um langt skeið.

Ákvörðun Icelandair ekki óvænt

Þessi samsæriskenning á hins vegar ekki við rök að styðjast að sögn Simon Pauck Hansen, forstöðumanns hjá SAS. Hann segir að ákvörðun Icelandair að hefja flug til Chicago hafi ekki komið á óvart. „Chicago er stórborg og staðsetning hennar hentar flugflota Icelandair vel. Það var algjör tilviljun að við kynntum flugið til Boston og Keflavíkurflugvallar á sama degi en ég get skilið að sumir sjái þetta með öðrum hætti. Við viljum hins vegar vera með okkar eigin ferðir til stóru áfangastaðanna og Boston er einn af þeim.”

Flugið frá Ósló helsta ástæðan fyrir aukningu

Undir lok níunda áratugarins hóf SAS að fljúga til Íslands frá Kaupmannahöfn og hélt fluginu nær sleitulaust áfram fram til aldarmóta. Síðan þá hafa Icelandair, Iceland Express og WOW air verið ein um þessa næst vinsælustu flugleið til og frá Keflavíkurflugvelli. Í lok mars blandar SAS sér hins vegar í slaginn með daglegum ferðum.

En afhverju núna? „Ísland er spennandi markaður fyrir SAS enda mikil umferð milli Íslands og Danmerkur, m.a. vegna sögulegra tengsla landanna tveggja.” Það eru þó aðrir þættir en tengsl þjóðanna sem vega þyngra í þessari ákvörðun að sögn Hansen. “Íslandsflug okkar frá Ósló hefur gengið mjög vel og mikil eftirspurn eftir því meðal fólks í viðskiptaerindum og líka hefðbundnum farþegum. Velgegni þeirrar flugleiðar er helsta ástæðan fyrir því að við hefjum flug til Íslands frá Kaupmannahöfn og vonumst til að byggja ofan á vinsældir flugsins frá Noregi. Eins og áður segir viljum við fljúga sjálf til stærstu áfangastaðanna og í dag eru Vínarborg og Reykjavík einu flugleiðirnar frá Kaupmannahöfn, með meira en 300 þúsund farþega á ári, sem við sinnum ekki. Á því verður breyting næsta vor þegar við hefjum áætlunarflug til beggja þessara borga.”

Farþegar frá Asíu draga ekki vagninn

Það hefur orðið mikil aukning í fjölda asískra ferðamanna hér á landi sem og annars staðar og í viðtali Túrista við framkvæmdastjóra Lufthansa nýverið kom fram að eftirspurn eftir Íslandsflugi félagsins meðal kínverskra ferðamanna hafi komið á óvart. Hansen segir að flug SAS til Íslands sé hins vegar ekki sérstaklega miðað við Asíumarkað heldur miklu frekar farþega frá meginlandi Evrópu og svo vissulega Dani og Íslendinga.

Samstarfið við Icelandair á sér framtíð

Eins og áður segir hafa Icelandair og SAS lengi átt í samstarfi og flug félaganna oft samkennd (Code share) sem þýðir að flugnúmer SAS eru notuð við flug Icelandair og öfugt. En með daglegu flugi SAS hingað til lands frá Kaupmannahöfn og væntanlegri samkeppni félaganna í Boston þá liggur beint við að spyrja hvort SAS telji að samstarfið við Icelandair eigi sér framtíð. “Það er alls ekki í okkar plönum að hætta þessari góðu samvinnu sem hefur reynst okkur vel. Ég hef líka þá tilfinningu að Icelandair sjái kostina í áframhaldandi samstarfi.” Aðspurður segir Hansen að það myndi koma sér á óvart ef stjórnendur Icelandair myndu slíta samstarfi félaganna.

Flug til Stokkhólms liggur beint við

SAS er að hluta til í eigu danska, norska og sænska ríkisins og félagið er með heimahafnir í höfuðborgum landanna þriggja. SAS bauð upp á sumarflug hingað frá Stokkhólmi árið 2012 en annars hefur áherslan eingöngu verið á flug til Íslands frá Ósló og nú Kaupmannahöfn. Simon Pauck Hansen segir þó að flug til Íslands frá sænsku höfuðborginni væri eðlilegt framhald af nýja flugið frá Kaupmannahöfn gengur vel. Hann segir þó ekki nein plön vera uppi um slíkt.

Ameríkuflug íslensku félaganna hefur ekki áhrif

Icelandair og WOW air hafa bætt verulega við framboð á flugi til N-Ameríku síðustu misseri en bæði félög fljúga einnig margoft í viku til Kaupmannahafnar og fara því með fjölmarga farþega þaðan til N-Ameríku og öfugt. Aukin umsvif íslensku flugfélaganna hafi hins vegar ekkert með ákvörðun SAS að gera að hefja flug hingað frá Kaupmannahöfn. „Við horfum bara á markaðinn fyrir Ísland og erum viss um að við fáum marga farþega í flugið þangað frá Skandinavíu og Evrópu,” segir Hansen.

Vetrarflugið til Boston vegur þungt

Í mörg ár hefur Icelandair verið eina norræna flugfélagið með áætlunarferðir til Boston en í vor hóf svo WOW air flug þangað. Ekkert af flugfélögum frændþjóðanna hefur hins vegar boðið upp á reglulegar ferðir til Boston og hafa farþegar á leið milli Norðurlandanna og Massachussets fylkis því þurft að millilenda, á Keflavíkurflugvelli eða annars staðar, á leið sinni yfir hafið. Á því verður hins vegar breyting í vor þegar SAS og Norwegian hefja flug til Boston frá Skandinavíu. En er markaður fyrir öll þessi fjögur flugfélög í Boston? „Það fer svolítið eftir vetrarmánuðunum en það er okkar reynsla að þegar við opnum nýjar flugleiðir þá fáum við um leið góð viðbrögð frá Skandinavíu því fólk á þessu svæði vill geta flogið beint til Bandaríkjanna. En það er vissulega mikil breyting að norrænu flugfélögunum í Boston fjölgi úr einu í fjögur á stuttum tíma.”

WOW er ekki stór keppinautur

Nýverið tilkynnti WOW air að Los Angeles og San Francisco myndu bætast við leiðakerfi félagins á næsta ári og mun félagið bjóða upp á álíka margar ferðir til borganna og SAS gerir í dag. Aðspurður um hratt vaxandi umsvif WOW viðurkennir Hansen að hann fylgist ekki svo vel með gangi mála hjá WOW og félagið sé ekki stór keppinautur viðSAS. “Við erum í samkeppni við marga aðila og miðað við eftirspurnina eftir flugi yfir hafið þá erum við ekki hissa á að fleiri geti bætt við ferðum vestur um haf.“
GERÐU VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM OG BÍLALEIGUBÍLUM

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …