Danski skattamálaráðherrann segir að danskir hótelstjórar geti hætt að láta sig dreyma um sambærileg opinber gjöld og kollegar þeirra í Evrópu búa við. Danski skattamálaráðherrann segir að danskir hótelstjórar geti hætt að láta sig dreyma um sambærileg opinber gjöld og kollegar þeirra í Evrópu búa við.
Í Danmörku eru virðisaukaskatturinn sá sami í öllum geirum eða 25 prósent og svo hátt hefur hlutfallið verið frá árinu 1992 þegar það var hækkað úr 22 prósentum. Víðs vegar er hótelgisting hins vegar í lægra þrepi og til að mynda er lagður 12 prósent skattur ofan á hótelreikninga í Svíþjóð og 11 prósent hér á landi auk gistináttagjalds. Danskir hóteleigendur hafa hins vegar lengi bent á að gistiverð í Danmörku verði ekki samkeppnishæft við það sem þekkist í löndunum í kring á meðan skattprósentan er svona miklu hærri. Þrátt fyrir það þá hefur rekstur danskra hótela gengið mjög vel síðustu misseri og samkvæmt nýlegri samantekt stefnir í methagnað hjá dönskum hótelum í ár. Meðal annars vegna fjölgunar erlendra ferðamanna og eins fá dönsk fyrirtæki nú endurgreiddan virðisaukaskatt af þeirri þjónustu sem þau kaupa af gististöðum þar í landi, t.d. vegna fundarhalda.
Yrði slæmt fordæmi
Það er hins vegar engar breytingar í farvatninu og það undirstrikaði skattaráðherrann Karsten Lauritzen í ræðu sinni á þingi Horesta, samtaka danskra hótela og veitingastaða, í síðustu viku. Hann sagðist kaupa rök hótelgeirans og viðurkenndi að ef hann sjálfur ræki hótel þá myndi hann líka halda því fram að fleiri gestir kæmu ef skatturinn væri lægri. Og Lauritzen er ekki í vafa um að dönsku skattareglurnar hefðu þær áhrif að hluti af viðskiptunum leitaði yfir til Malmö og Stokkhólms. Þrátt fyrir þetta bað hann hótelstjórana að hætta að láta sig dreyma um lægri skatt. Sá draumur myndi ekki rætast. „Ef þið fengjuð lægri virðisaukaskatt, afhverju ætti þá ekki líka að lækka álögur á lífræn matvæli? Þetta yrði eins og að opna öskju Pandóru,“ sagði Lauritzen samkvæmt frétt Standby.
Airbnb leigusalar verða að borga skatt
Útbreiðsla Airbnb er hlutfallslega mun minni á hinum Norðurlöndunum en á Íslandi líkt og Túristi hefur greint frá. Umræðan um Airbnb og þess háttar þjónustur er því ekki áberandi í Danmörku og í erindi sínu sagði skattaráðherrann að hann hefði ekkert á móti Airbnb því fyrirtækið hefði jákvæð áhrif á straum ferðamanna til landsins. Hann undirstrikaði hins vegar að allir þeir sem leigja út í gegnum Airbnb eigi að borga skatt af tekjum sínum.