Samfélagsmiðlar

Mismunandi viðbrögð við miklum samdrætti í komum breskra ferðamanna

Talsmaður easyJet segist ekki finna fyrir minna áhuga á Íslandsflugi félagsins en reyndur breskur ferðafrömuður segir 28 prósent fækkun breskra ferðamanna hafa legið í loftinu.

Island seljalandsfoss taylor leopold

Talsmaður easyJet segist ekki finna fyrir minna áhuga á Íslandsflugi félagsins en reyndur breskur ferðafrömuður segir 28 prósent fækkun breskra ferðamanna hafa legið í loftinu. Spár um að draga myndi úr ferðagleði Breta vegna veikingar pundsins í kjölfar Brexit gengu ekki eftir í vetur. Þá fjölgaði Bretunum nefnilega töluvert þó vöxturinn hafi verið minni en árin á undan. Í síðasta mánuði komu hins vegar 4.437 færri breskir ferðamenn til Íslands miðað við maí í fyrra og nam samdrátturinn 28 prósentum. Þess háttar dýfu í komum Breta höfum við ekki séð síðan í maí árið 2010 þegar Eyjafjallajökull gaus en þá fækkaði Bretunum hér á landi um 27 prósent. Allar götur síðan hefur leiðin legið upp á við og Bretar hafa reglulega verið fjölmennastir í hópi ferðamanna á Íslandi, sérstaklega yfir vetrarmánuðina þegar allt að fjórir af hverjum tíu túristum hér á landi hafa verið breskir.

Eftirspurn eftir flugi ekki dregist saman

Breska lággjaldaflugfélagið easyJet hóf Íslandsflug í mars árið 2012 en hefur stóraukið umsvif sín hér á landi og flýgur hingað í dag frá sjö breskum flugvöllum. Næsta vetur verður félagið til að mynda umsvifamest í flugi milli Íslands og Lundúna, í flugferðum talið. Aðspurður segir Andy Cockburn, talsmaður easyJet, að fréttir af 28 prósent samdrætti í komum Breta til Íslands komi sér á óvart enda finni félagið ekki fyrir minni eftirspurn eftir ferðum til landsins. Máli sínu til stuðnings bendir Cockburn á að easyJet hafi fjölgað ferðum sínum um 19 prósent í ár.
Íslensku flugfélögin tvö eru einnig stórtæki í Bretlandsflugi en hjá báðum er fókusinn ekki aðeins á ferðir Breta til Íslands heldur flug milli N-Ameríku og Bretlandseyja með millilendingu á Íslandi. Meginþorri farþega easyJet eru aftur á móti breskir ferðamenn á leið til Íslands.

Kallar eftir skynsemi í verðlagningu

Það er annað hljóð í skrokknum hjá Clive Stacey, framkvæmdastjóra Discover the World, sem hefur áratuga reynslu af skipulagninu Íslandsferða. Hann segir að hrun í maíferðum Breta til Íslands komi ekki á óvart. „Með styrkingu krónunnar, veikingu pundsins, hækkandi verðskrám og fréttum af of mörgum ferðamönnum á Íslandi þá hlaut að koma að því að breski markaðurinn myndi sýna viðbrögð. Það eru líka vísbendingar um að þetta muni halda áfram í sumar og jafnvel lengur. Mér skilst líka að Ísland sé að verða of dýrt fyrir aðra markaði, t.d. Þjóðverja.“ Stacey er líka sem fyrr harðorður í garð stjórnvalda sem hann sakar um aðgerðaleysi. „Við eins og aðrir þeir sem hafa skipulagt Íslandsferðir í áratugi horfum nú hjálparlaus upp á landið verða undir vegna óskipulags ferðamannastraums sem stjórnvöld og lykilfólk í ferðaþjónustunni hefur lítið sem ekkert reynt að hafa áhrif á.“ Stacey segir að hjá Discover the World sé unnið að því, í samstarfi við íslenskt samstarfsfólk, að leita leiða til að laða til landsins ferðafólk sem kunni að meta Ísland sem einstakan áfangastað en ekki bara land sem það vill hafa heimsótt einu sinni á ævinni. „Við teljum að íslensk ferðaþjónusta verði að fókusa á gæði frekar en magn svo að ferðafólk njóti landsins. Heilbrigð skynsemi í verðlagningu er hins vegar forsenda fyrir því að ferðaþjónustan þroskist og verði sjálfbær,“ segir Clive og bendir á að í dag geti hann selt hálfsmánaðar ferðalag um Nýju-Sjáland fyrir minna en vikuferð til Íslands. „Sá munur boðar ekki gott.“

Ráðherrar vinna að sama atriðinu en í sitthvoru lagi

Það eru hins vegar aðgerðir í gangi á vegum stjórnvalda og í síðustu viku fékk ferðamálaráð umsvifamikið sumarverkefni frá ráðherra ferðamála. Þar er óskað eftir tillögum um aðgerðir til að koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi í gistiþjónustu og stuðla að því að ferðamenn heimsæki landsbyggðina í auknum mæli þrátt fyrir styrkingu krónunnar. Einnig bað ráðherra ferðamálaráð að finni leiðir til að tryggja betur að erlendir ferðaþjónustuaðilar á Íslandi fullnægi öllum kröfum sem þeim ber, meðal annars varðandi vinnurétt, gjöld, skráningu o.þ.h. Aðeins þremur dögum áður hafði fjármálaráðherra sett á stofn eigin starfshóp til að skoða þetta síðarnefnda atriði líka. Von er á tillögum frá fagfólkinu í sumar.

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …