Samfélagsmiðlar

Ljóst að Primera air fékk ekki fyrirgreiðslu hjá Arion

Andri Már Ingólfsson segir tjón félagsins vegna seinkunar á afhendingu nýrra þota vera fordæmalaust. Hann óskar Icelandair og WOW allra heilla.

Ný Airbus þota Primera Air á London Stansted.

Á þriðjudagsmorgun lauk nærri fimmtán ára sögu Primera air þegar fyrirtækið fór í greiðslustöðvun. Flugfélagið var í eigu Primera Travel Group, sem Andri Már Ingólfsson á, og sinnti fyrst um sinn nær eingöngu leiguflugi fyrir ferðaskrifstofur samsteypunnar. Fyrst undir heitinu Jet X en síðan Primera air. Í vor var breytt um stefnu og nú var Primera air orðið lággjaldaflugfélag sem bauð upp á áætlunarflug til Norður-Ameríku frá París og London. Aðeins tæpum fjórum mánuðum eftir jómfrúarferðina vestur um haf var flugfélagið hins vegar komið í þrot.

Þungur rekstur um árabil

Af ársreikningum Primera air að dæma þá hafði félagið barist í bökkum síðustu ár. Eigið fé þess var neikvætt um rúma tvo milljarða króna (22 milljónir evra) árið 2015 og staðan var litlu betri árið eftir. Í fyrra var flugfélagið rekið með hagnaði en þann viðsnúning má rekja til bókfærðs hagnaðar á Boeing þotum sem verða fyrst afhentar á næsta ári. Þessi neikvæða eiginfjárstaða Primera air var ástæða þess að flugfélagið var metið einskis virði í bókum eiganda þess líkt og Túristi greindi frá á sunnudag. Daginn eftir að sú grein birtist fór Primera air í greiðslustöðvun.

Aðspurður um hvernig flugfélag með neikvætt eigið fé geti keypt flugvélar, hafið áætlunarflug milli heimsálfa og á sama tíma staðist skoðun hjá flugmálayfirvöldum þá segir Andri Már Ingólfsson, eigandi flugfélagsins, að flugmálayfirvöld í báðum löndum hafi ávallt verið upplýst um stöðu félagsins. „Enda hefðu flugrekstrarleyfi verið tekið af félaginu ella,“ bætir hann við í skriflegu svari til Túrista.

Væru enn á flugi ef þoturnar hefður komið á tíma

Er ekki ljóst að flugfélagið var of illa fjármagnað úr því að það líða aðeins nokkrir mánuðir frá þvi að þið hefjið Atlantshafsflug og þar til að flugfélagið fer í þrot? „Hið mikla tap sem félagið lenti í kom ekki í ljós fyrr en eftir mitt sumar, vegna dýrrar innleigu á eldri flugvélum. Tjónið sem félagið lenti í vegna seinkunar á afhendingu frá Airbus var fordæmalaust, þar sem engar aðrar vélar í heiminum gátu leyst þetta verkefni með sama hætti. Ég vísa í upplýsingar frá Airbus og CFM hreyflaframleiðanda. Airbus var með allt að 120 vélar á jörðinni sem þeir gátu ekki afhent. Þetta kostaði Primera Air yfir 20 milljónir evra (2,6 milljarða kr.) og tekjutapið var yfir 40 milljónum evra,“ segir Andri Má og bendir á að tapið hafi orðið yfir sumarmánuðina þegar flugfélög hagnist alla jafna. „Ekki verður við öllu séð, en þó má fullyrða, að ef þetta hefði ekki gerst, þá værum við enn í rekstri. Þetta eru bara staðreyndir, sem aðrir hafa fjallað um.“

Hófu sölu á nýjum flugleiðum stuttu fyrir þrot

Líkt og Andri Már rekur hér að ofan þá kom hinn mikli taprekstur Primera air ekki í ljós fyrr en eftir mitt sumar. Engu að síður bætti flugfélagið við fjórum nýjum flugleiðum til Norður-Ameríku nú í lok sumars. Þann 21. ágúst hófst sala á Atlantshafsflugi frá Brussel og viku síðar frá Berlín. Þann 6. september bættist við samskonar áætlun frá Frankfurt og fyrir þremur vikum síðan frá Madríd. Voru það mistök að hefja sölu á þessum flugleiðum í ljósi stöðunnar? „Við höfðum fengið afgreiðslutíma á öllum bestu völlum Evrópu, á bestu tímum, og tækifærið var einstakt. Þegar við setjum þetta í sölu í ágústmánuði, lá ekkert annað fyrir en félagið héldi áfram rekstri,“ svarar Andri Már.

Vill ekki tjá sig um orðróm um kaup Arion í WOW

Primera air átti óinnleystan hagnað vegna sölu flugvéla að upphæð 13,6 milljónir evra (1,8 milljarða kr.) og verið var að ganga frá sölu á 5 vélum til viðbótar, sem hefði gefið félaginu 24 milljónir evra (3,1 milljarða kr.) að sögn Andra Más. „Þetta eru raunveruleg verðmæti sem áttu að koma inn til að styrkja eigið fé ásamt kjölfestufjárfesti. Því miður vildu viðskiptabankar okkar ekki líta á þetta sem tryggingar.“

Aðspurður um orðróm þess efnis að stjórnendur Arion, viðskiptabanka Primera Travel Group, hafi á sama tíma ákveðið að keypa heldur skuldabréf af WOW air, í nýafstöðun útboði flugfélagsins, þá segir Andri Már að hann verði að vísa á Arion í þessu sambandi. „Það er ljóst að Primera Air fékk ekki fyrirgreiðslu.“ Tap Arion banka af falli Primera air verður allt að 1,8 milljarður króna líkt og áður hefur komið fram.

Flugrekstrarstjórinn átti að bíða í 3 klukkutíma

Farþegar þeirra ferðaskrifstofa sem tilheyra Primera Travel Group hafa ekki orðið strandaglópar vegna falls Primera air þar sem það tókst að verða þeim út úr önnur flug. Það sama verður ekki sagt um farþega sem ekki voru á vegum ferðaskrifstofa samsteypunnar eða jafnvel áhafnir flugfélagsins. Er þessi forgangsröðun ekki óeðlilegt? „Það er engin forgangsröðun. Þegar lá fyrir að ekki yrði afstýrt þroti, eftir hádegi á mánudag, var reynt að gera það á tíma sem minnsta röskun hefði. Ef flugrekstrastjóri okkar hefði ekki sent út póst í kjölfar starfsmannafundar og beðið í 3 tíma þá hefðu þúsundir farþega ekki lent í þessum óþægindum því öll þjónusta fyrir flugin hafði verið greidd. Rekstrarstöðvun er því miður versta niðurstaðar og verður alltaf einhverjum til tjóns.“

Vill ekki tjá sig um horfur íslensku flugfélaganna

Í viðtali við Morgunblaðið í lok ágúst þá segir þú viðskipta­mód­el Primera air vera gjör­ólíkt Icelanda­ir og WOW air þar sem þau félög byggi allt sitt upp í kring­um Kefla­vík­ur­flug­völl. Hvernig metur þú framtíðarhorfur þessara flugfélaga? „Vil ekki tjá mig um þessi fyrirtæki en óska þeim báðum allra heilla og öllu þeirra starfsfólki. Óska engum þess að lenda í því sem Primera Air lenti í,“ segir Andri Már að lokum.

Nýtt efni

Aðdáun Indverja á vískíi er ekki ný af nálinni. Þó var það ekki fyrr en í kringum árið 2010 að framleiðandinn Amrut, sem var stofnaður árið 1948, kynnti Indian Single Malt viskí sem átti sérstaklega góðu gengi að fagna í Skotlandi, af öllum stöðum, áður en það hélt áfram til Bandaríkjanna þar sem það mæltist …

Ein leiðin til að sjá eigin augum hversu umsvifamikil atvinnugrein ferðaþjónustan er í landinu er að fara í morgunferð austur á Þingvelli, njóta þess að vera þar nánast einn dálitla stund og hlusta á fuglana syngja, fylgjast síðan með bílaflóðinu inn á stæðin við gestastofuna á Hakinu þegar klukkan fer að ganga tíu. Þá sér …

Norska flugfélagið Norwegian gerði upp annan ársfjórðung í gær en hlutabréf í félaginu féllu um 16 prósent í síðustu viku þegar afkomuspá ársins var lækkuð. Fjárfestar tóku þó uppgjör gærdagsins vel því bréfin hækkuðu um fimm af hundraði. Niðurstaðan hljóðaði upp á 477 milljónir norskra króna í hagnað fyrir skatt eða 6,1 milljarð íslenskra kr. …

Play mun fækka flugferðunum sínum til Norður-Ameríku um fjórðung í vetur í samanburði við þann síðasta líkt og FF7 greindi frá. Til viðbótar hefur félagið gert breytingar á flugáætlun sinni til Evrópu. Í sumum tilfellum fjölgar ferðunum en þeim fækkar í öðrum. Þannig gerir áætlunin fyrir september ráð fyrir tíu prósent færri ferðum en í …

Play er með fjóra áfangastaði Bandaríkjunum og einn í Kanada og býður félagið nú upp á daglegar ferðir til þeirra allra nærri allt árið um kring. Yfir vetrarmánuðina hefur Play þó dregið úr framboði en næsta vetur verður niðurskurðurinn meiri en áður. Næstkomandi nóvember er aðeins reiknað með 99 brottförum frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna og …

Nú í vikunni hafa mælingar í Noregi og Bandaríkjunum sýnt að verðlag í þessum tveimur löndum hjaðnar hraðar en greinendur höfðu reiknað með. Það sama er upp á teningnum í Svíþjóð en í morgun birti hagstofan þar í landi nýjar verðlagsmælingar sem sýna að verðbólga sl. 12 mánuði mælist nú 2,6 prósent. Ef vaxtakostnaður er …

Gengi hlutabréf í Icelandair hefur nú fallið um 61 prósent síðustu 12 mánuði og kostar hver hlutur í dag 86 aura. Í hlutafjárútboðinu sem efnt var til í september 2020, til að koma flugfélaginu í gegnum heimsfaraldurinn, var hluturinn seldur á 1 krónu. Stuttu eftir útboðið fór gengið eins langt niður og það er í …

Á fyrri helmingi ársins komu aðeins færri Bandaríkjamenn til Íslands en á sama tíma í fyrra þrátt fyrir tíðari flugferðir. Há verðbólga vestanhafs er væntanlega ein af skýringunum á þessum samdrætti enda hafa skuldsettir Bandaríkjamenn nú minna á milli handanna. Nú gæti hagur þess hóps vænkast því verðlag í Bandaríkjunum lækkaði meira í síðasta mánuði …