Flugsamgöngurnar milli Íslands og Berlínar voru tíðari í fyrra því þá flugu bæði Icelandair og WOW air til borgarinnar allt árið um kring. Þotur WOW lentu við Schönefeld á meðan Tegel er heimahöfn Icelandair í borginni en þangað hóf félagið áætlunarflug á ný í lok þarsíðasta árs. Eins og sjá má á nýlegri samantekt Túrista þá var WOW mun umsvifameira í Berlínarfluginu því um 85 þúsund farþegar nýttu sér ferðir félagsins frá Schönefeld en rétt um 35 þúsund flugu með Icelandair.
Þessar góðu samgöngur til Berlínar hafa greinilega ýtt undir ferðalög Íslendinga þangað því fjöldi íslenskra hótelgesta í þýsku höfuðborginni fór upp í 15 þúsund í fyrra. Það er aukning um tíund frá árinu 2017 og voru gistinæturnar rétt tæplega 50 þúsund talsins. Íslendingarnir gista því að jafnaði í 3,3 nætur í borginni sem er hálfri nótt lengri tími en meðal evrópski túristinn gefur sér í Berlín.
Í ljósi þess að WOW air er nú horfið af markaðnum dregst framboð á flugi til Berlínar þónokkuð saman í ár. Icelandair hafði þó áður en keppinauturinn hvarf af sjónarsviðinu boðað fleiri ferðir til Berlínar. Ekkert annað flugfélag hefur gert sig líklegt til að fylla upp í það skarð sem WOW skilur eftir sig í þýsku höfuðborginni. Þar er easyJet þó mjög umsvifamikið en þetta breska lággjaldaflugfélag hefur haldið úti flugi til Íslands frá Bretlandi og Sviss um árabil.