Samfélagsmiðlar

Öll hin flugfélögin

Erlendu flugfélögin sem hingað fljúga eiga það eiginlega sameiginlegt að auglýsa nær aldrei í íslenskum fjölmiðlum og gera lítið til að koma sér á framfæri hér á landi. Aðal drifkrafturinn fyrir Íslandsflugi þeirra er einfaldlega að fljúga útlendingum til landsins.

Eftir fall WOW air hefur mörgum orðið tíðrætt um hina fjölbreyttu flóru flugfélaga sem nú þegar heldur uppi alþjóðaflugi héðan. Staðreyndin er hins vegar sú að ferðir félaganna eru oft fáar og sum þeirra sýna landinu aðeins áhuga yfir sumarmánuðina. Í heildina er úrvalið engu að síður mikið. Hér má finna stutta lýsingu á Íslandsflugi þeirra flugfélaga sem veita Icelandair samkeppni um þessar mundir.

American Airlines – Þetta stærsta flugfélag heims hóf að fljúga til Íslands frá Dallas í Texas síðastliðið sumar og heldur uppteknum hætti í ár. Frá Dallas má svo fljúga áfram með American um alla Norður-Ameríku og líka suður á bóginn.

Air Baltic – Frá Riga í Lettlandi fljúga þotur Air Baltic til Íslands yfir sumarmánuðina. Flugfélagið er með fjölda áfangastaða í Austur-Evrópu og Miðausturlöndum fyrir þá kjósa að fljúga með félaginu með millilendingu í Lettlandi.

Air Canada – Stærsta flugfélag Kanada bætti Íslandi við leiðakerfi sitt í fyrra og geta farþegar þess valið á milli ferða frá bæði Montreal og Toronto.

Air Greenland – Grænlenska flugfélagið er með reglulegt flug frá Keflavíkurflugvelli til Nuuk.

Air Iceland Connect – Bombardier flugvélar félagsins fljúga reglulega milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar en líka til nokkurra áfangstaða í Grænlandi og þá frá Reykjavíkuflugvelli.

Atlantic Airways – Flugfélag Færeyinga flýgur hingað frá Þórshöfn allt árið um kring og nú aðeins frá Keflavíkurflugvelli.

Austrian Holidays – Íslandsflug Austrian takmarkast við leiguflug fyrir austurrískar ferðaskrifstofur en Íslendingar geta þó líka bókað flug til Vínar með félaginu.

British Airways – Yfir sumarið býður breska flugfélagið upp á áætlunarferðir hingað frá Heathrow við London en líka frá City flugvelli yfir vetrarmánuðina. Frá Heathrow má fljúga beint áfram með British Airways út um allan heim.

Czech Airlines – Tékkneska flugfélagið er nú eitt um að fljúga reglulega milli Íslands og Prag.

Delta Air Lines – Frá sumrinu 2011 hefur bandaríska flugfélagið boðið upp á Íslandsflug frá JFK flugvelli við New York og er flugleiðin starfrækt allt árið um kring. Á sumaráætlun félagsins er líka flug til Íslands frá Minneapolis. Frá báðum þessu borgum er hægt að halda ferðalaginu áfram með Delta.

Eurowings – Lággjaldaflugfélag Lufthansa flýgur hingað frá Hamborg og Köln í Þýskalandi yfir aðalferðamannatímabilið.

EasyJet – Breska lággjaldaflugfélagið hefur verið umsvifamikið á Keflavíkurflugvelli síðustu ár með áætlunarflug þaðan til nokkurra breskra borga auk Basel og Genf í Sviss. Áætlunin er þó gjörólík milli sumars og veturs því Bretlandsflugið er mun tíðara á veturna.

Finnair – Finnska flugfélagið er mjög umsvifamikið í flugi til Asíu og hóf að fljúga til Íslands í fyrra. Félagið hóf svo að fljúga til Íslands í fyrra og líklega til að sinna eftirspurn eftir Íslandsferðum frá Asíu. Hægt er að fljúga með félaginu til Helsinki nokkrum sinnum í viku allt árið um kring.

Iberia Express – Lággjaldaarmur Iberia flugfélagsins flýgur yfir sumarmánuðina frá Madríd til Íslands.

Lufthansa – Frá Frankfurt fljúga þotur þýska flugfélagsins til Íslands allt árið um kring og frá Munchen yfir sumarmánuðina. Frá báðum borgum er svo hægt að fljúga áfram með Lufthansa til nærri óteljandi áfangastaða í Evrópu en líka út um allan heim.

Norwegian – Norska lággjaldaflugfélagið starfrækir reglulega nokkrar flugleiðir til Íslands en úthaldið er ekki alltaf langt. Félagið hætti til að mynda Lundúnarferðunum í fyrra og síðasta ferðin til Rómar var farin í lok mars. Áfram er þó hægt að fljúga með félaginu frá Keflavíkurflugvelli til Madrídar, Barcelona, Alicante, Óslóar og Bergen.

S7 – Með tilkomu Íslandsflugs rússneska flugfélagsins S7, áður Siberian Airlines, þá komust á ný á beinar flugsamgöngur milli Íslands og Rússlands. Þotur S7 fljúga tvær ferðir í viku hingað frá Moskvu yfir sumarmánuðina.

SAS – Skandinavíska flugfélagið hefur um langt skeið haldið úti áætlunarferðum héðan til Óslóar og svo bættist Kaupmannahöfn við fyrir nokkrum árum. Í sumar ætlar félagið að spreyta sig á flugi milli Íslands og Stokkhólms.

United Airlines – Frá sumarbyrjun og fram á haust er hægt að fljúga héðan með bandaríska flugfélaginu til Newark við New York. Þaðan flýgur United svo áfram til fjölda margra borga í Norður- og Suður-Ameríku.

Transavia – Fransk-hollenska lággjaldaflugfélagið Transavia, dótturfélag AirFrance-KLM, hefur lengi flogið héðan frá Orly flugvelli við París yfir sumarmánuðina. Í ár bætist við flug frá Amsterdam sem hefst í byrjun júlí og auk þess verður hægt að fljúga með félaginu frá Akureyri til Rotterdam í Hollandi í sumar.

Vueling – Þetta spænska lággjaldaflugfélag hefur haldið úti flugi hingað frá Barcelona um langt skeið stundum yfir vetrarmánuðina.

Wizz air – Ungverska lággjaldaflugfélagið er mjög stórtækt í flugi milli Íslands og Póllands því í dag fljúga þotur félagsins hingað frá Varsjá, Katowice, Gdansk og Wroclaw. Í haust bætist svo við Kraká. Þessu til viðbótar er hægt að fljúga héðan með Wizz Air til Búdapest, Vínarborgar, London og Riga.

Auk þess bjóða stærstu ferðaskrifstofur landsins upp á flugsæti í leiguflug til nokkurra áfangastaða á Spáni auk Krítar. Hér má sjá hvaða flugfélög fljúga til borganna sem hægt er að komast beint til frá Keflavíkurflugvelli í sumar.

Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …