Samfélagsmiðlar

Varasjóður Icelandair í London

Ef stjórnendur Icelandair þurfa á fjármagni að halda til að standa undir taprekstri eða borga inn á nýjar þotur þá gætu þeir komið lendingarleyfum sínum við flugvelli Lundúna í verð. Vísbendingar eru um að virði þeirra fari lækkandi.

Þota kemur inn til lendingar á Heathrow í London.

Sérfræðingar Icelandair meta tjón flugfélagsins í ár, vegna kyrrsetningar á MAX þotum, á sautján milljarða króna. Ætlunin er að sækja bætur til Boeing vegna þessa en ekki liggur fyrir hversu háa upphæð bandaríski flugvélaframleiðandinn sættist á að greiða eða hvenær uppgjörið fer fram. Því til viðbótar er nærri sjö milljarða króna kaupsamningur malasíska kaupsýslumannsins Vincent Tan, á 75 prósent hlut í hótelkeðju Icelandair Group, háður ýmsum skilyrðum. Af þessum sökum og í ljósi mikils hallareksturs þá hefur spurningarmerki verið sett við lausafjárstöðu Icelandair. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, hefur þó sagt þær áhyggjur ástæðulausar.

Það er því ekki útlit fyrir að Icelandair þurfi að selja stórar eignir á næstunni til að standa undir taprekstrinum. En ef löng bið verður eftir bótagreiðslum frá Boeing og hótelsalan fer í uppnám þá situr Icelandair á lendingarleyfum á flugvöllunum Heathrow og Gatwik í London sem koma mætti í verð. Þess háttar leyfi eru ekki verslunarvara annars staðar í Evrópu en þónokkur dæmi eru um að flugrekendur hafi selt leyfi á þessum tveimur flugvöllum fyrir töluverðar upphæðir.

Sérstaklega eru lendingartímar á Heathrow flugvelli, fjölförnustu flughöfn Evrópu, eftirsóttir enda hafa flugbrautirnar þar verið fullbókaðar um langt árabil. Síðustu ár eru dæmi um að leyfi hafi selst fyrir 4 til 8 milljarða króna en Icelandair situr á tveimur leyfum á Heathrow flugvelli en reyndar ekki á komu- og brottfarartímum í morgunsárið en þeir munu vera eftirsóttastir. Engu að síður gæti verðmæti lendingarleyfa Icelandair á Heathrow numið nokkrum milljörðum króna.

Fyrrnefnt plássleysi á Heathrow flugvelli var svo ein af ástæðum þess að Icelandair hóf að fljúga til Gatwick flugvallar, sunnan við bresku höfuðborgina, haustið 2012. Þá fengust lendingarleyfin fyrir lítið eða ekkert en núna eru lausu tímarnir á Gatwick af skornum skammti. Þess vegna gat WOW air selt sína tíma á flugvellinum í lok síðasta árs til að ráða bót á slæmri fjárhagstöðu félagsins. Og nú ætla forsvarsmenn norska flugfélagsins Norwegian að leika sama leik. Á mánudag lögðu þeir nefnilega fram tilboð til eigenda skuldabréfa í félaginu þar sem þeim eru boðin veð í þeim nærri 170 lendingarleyfum sem félagið er með á Gatwick. Samkvæmt mati sem Norwegian hefur látið gera þá er verðmæti allra þessara leyfa um 47 milljarðar króna og hvert og eitt þeirra  því um 270 milljón króna virði. Það er líklega aðeins lægri upphæð en WOW air fékk fyrir sín leyfi á Gatwick enda nokkur munur á því að selja tvö leyfi eða hundrað og sjötíu.

En sem fyrr segir þá liggur aðal verðmætið hjá Icelandair í afgreiðslutímunum á Heathrow. Á það hefur hins vegar verið bent að virði lendingarleyfa í London gæti farið lækkandi vegna Brexit þar sem sú breyting gæti dregið verulega úr vægi borgarinnar sem helsta fjármálamiðstöð Evrópu. Á sama hátt gætu umdeild áform um að leggja þriðju flugbrautina við Heathrow lækkað verðmæti núverandi leyfa.

Nýtt efni

Almennu hlutafjárútboði Play lauk í gær og bárust tilboð upp á 105 milljónir króna en lagt var upp með að selja nýtt hlutafé fyrir allt að 500 milljónir króna. Þátttaka almennings í hlutafjáraukningu Play í nóvember 2022 var heldur ekki í takt við framboð. Þá lögðu stærstu hluthafar félagsins því til 2,3 milljarða króna. Það …

Bandarísk flugfélög hvetja Biden-stjórnina í Bandaríkjunum til að gefa ekki út fleiri flugleyfi fyrir kínverska keppinauta þeirra í flugi milli Kína og Bandaríkjanna. Vísað er til samkeppnishindrana sem flugmálayfirvöld í Kína beita erlend flugfélög. Reuters-fréttastofan greinir frá þessu. Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna gaf það út í febrúar að kínversk flugfélög gætu boðið allt að 50 flugferðir á …

Kynnisferðir, sem starfa undir vörumerkinu Icelandia, hafa gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Dive.is. Fyrir áttu Kynnisferðir 51% hlut í félaginu á móti Tobias Klose. Dive.is sérhæfir sig í köfunar- og snorklferðum í Silfru auk þess að bjóða upp á námskeið í köfun. Félagið leggur mikið uppúr upplifun viðskiptavina enda er það í efsta …

„Ég myndi halda að við værum stærsta flugfélagið fyrir þá sem eru að fljúga frá Íslandi," sagði Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, á kynningarfundi hlutafjárútboðs félagsins, á þriðjudaginn. Máli sínu til stuðnings sýndi hinn nýi forstjóri og fyrrum stjórnarformaður flugfélagsins glæru þar sem sjá mátti hvernig hlutdeild Play á heimamarkaði hefur aukist og farið upp …

Árið 2018 kynnti netverslunin Amazon nýjung á bandarískum smásölumarkaði: Amazon Just Walk Out-Stores. Verslunin var kynnt sem mikil bylting og í rauninni væri lausn Amazon framtíðarlausn fyrir aðrar smásöluverslanir. Maður skannaði símann sinn þegar gengið var inn í Just Walk Out-verslun Amazon, valdi þær vörur sem maður girntist, setti þær í innkaupakörfu og síðan gat …

MYND: ÓJ

Fyrir heimsfaraldur voru flugsamgöngur milli Íslands og Ítalíu litlar, takmörkuðust lengst af við sumarferðir til Mílanó. Á þessu hefur orðið mikil breyting því nú er hægt að fljúga héðan allt árið til Rómar og Mílanó og á sumrin eykst úrvalið enn frekar.  Ítölsku ferðafólki hefur fjölgað verulega í takt við þessar auknu samgöngur og var …

Sala á hreinum rafbílum frá þýska bílaframleiðandanum BMW jókst um 41 prósent á fyrsta fjórðungi ársins. Með söluaukningunni er vægi rafbíla hjá BMW, sem einnig framleiðir Mini, komið upp í 20 prósent hjá þýska framleiðandnum en hlufallið var 15 prósent fyrir ári síðan samkvæmt frétt Bloomberg. Á sama tíma hefur orðið samdráttur í sölu á …

Kínverski bílaframleiðandinn Chery virðist vera að ná samningum um að eignast fyrstu verksmiðju sína í Evrópu, nánar tiltekið í katalónska höfuðstaðnum Barselóna á Spáni. Um er að ræða verksmiðju sem Nissan lokaði árið 2021 og er markmið yfirvalda á Spáni og héraðsstjórnarinnar í Katalóníu að endurheimta þau 1.600 störf sem þá glötuðust. Nú hefur katalónski …