Nú í sumar mun hið fransk-hollenska Transavia ekki aðeins fljúga hingað frá París og Amsterdam heldur líka Nantes í Frakklandi líkt og Túristi hefur áður greint frá. Aðeins verða í boði vikulegar ferðir yfir hásumarið til Nantes og af farmiðaverðinu að dæma þá hefur salan gengið vel. Alla vega er áberandi að ódýru fargjöldin eru vandfundin. Aðspurð um viðtökurnar þá játar talskona Transavia því að þessi nýja flugleið lofi góðu.
„Það er mikill áhugi á þessum áfangastað [Íslandi] hjá íbúum Nantes og nágrenni. Fólk á svæðinu kann að meta að geta flogið beint til Íslands í stað þess að þurfa að millilenda,“ segir Cécile Nomdedeu frá Transavia. Hún bætir því við að Íslandsflugið komi til móts við þá sem hafa áhuga á áfangastöðum þar sem nátturan er í aðalhlutverki.
Fyrir áhugasama Íslendinga um ferðalög til Nantes og nærsveitir þá er langódýrast að fljúga út í fyrstu ferðinni þann 6. júlí því þá kostar ódýrasti miðinn rétt um 5.400 krónur. Heimferðin er þó um níu sinnum dýrari en þá er valkostur að fljúga heldur tilbaka frá annarri borg, til að mynda París eða Brussel.