Nú í sumar stefnir í að einu túristarnir í Evrópu verði nær eingöngu íbúar álfunnar sjálfrar. Jafnvel þó til standi að opna ytri landamæri Evrópu og Schengen svæðisins að einhverju leyti í byrjun júlí.
Sú tilslökun verður nefnilega þeim takmörkunum háð að aðeins þegnar ríkja þar sem útbreiðsla Covid-19 hefur verið undir ákveðnum mörkum verður hleypt inn í Evrópu. Í dag miðast þau við 16 ný smit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur samkvæmt heimildum New York Times innan Evrópusambandsins.
Gangi þetta eftir verða ferðamenn frá Bandaríkjunum væntanlega útilokaðir. Íbúar Rússlands og Brasilíu uppfylla þá heldur ekki skilyrðin sem ráðamenn í ESB leggja nú drög að. Aftur á móti gætu Kínverjar á ný haldið til Evrópu í frí.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, gerði fyrr í þessum mánuði ráðamönnum annarra Schengen-ríkja grein fyrir áformum Íslands um opnun ytri landamæra þann 1. júlí og vísaði þar til sérstöðu Íslands. Ennþá er ekki komin niðurstaða varðandi þá undanþágu.
Flugáætlun Icelandair í júlí byggir að töluverðu leyti á því að hún fáist. Þannig gerir félagið ráð fyrir ríflega þrjátíu ferðum í viku til Bandaríkjanna um miðjan júlí.
Bandaríkjamenn hafa lengi verið fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi. Vægi þeirra síðastliðið sumar var til að mynda 28 prósent samkvæmt talningu Ferðamálastofu.