Samfélagsmiðlar

Þverrandi samstaða í röðum flugfreyja og flugþjóna

Ört stækkandi hópur innan Félags íslenskra flugfreyja ber ekki lengur traust til samninganefndar félagsins og vill að kosið verði um nýjan kjarasamning. Fólkið í hópnum er tilbúið í meiri vinnu fyrir sömu kjör og að eldri hvíldarákvæði falli niður.

icelandair radir

Nú eftir helgi ætla stjórnendur Icelandair að ljúka samningaviðræðum við kröfuhafa, Boeing flugvélaframleiðandann og íslensk stjórnvöld í tengslum við komandi hlutafjárútboð. Einnig var lagt upp með að langtíma kjarasamningar við flugvirkja, flugmenn og flugfreyjur yrðu frágegnir áður en fjárfestakynning verður gefin út í næstu viku.

Tveir fyrrnefndu hóparnir hafa samið en það hefur FFÍ, Flugfreyjufélag Íslands, ekki gert. Icelandair sagði upp nærri níu hundruð flugfreyjum og flugþjónum vegna þeirra áhrifa sem útbreiðsla kórónaveirunnar hefur haft á starfsemina. Aðeins 41 flugfreyja hélt starfi sínu en Icelandair, líkt og mörg önnur flugfélög, rær nú lífróður vegna heimsfaraldursins.

Innan raða Flugfreyjufélagsins ríkir vaxandi ólga með stöðu mála. „Fólk vill meiri upplýsingar og líka þær réttu. Staðan í samningaviðræðunum er þannig ávallt kynnt með neikvæðum formerkjum jafnvel þó við sjáum í tilboðunum að Icelandair hefur komið til móts við kröfur okkar að einhverju leyti. Við erum þó tilbúin til að falla frá hvíldarákvæðum og taka á okkur meiri vinnu fyrir sömu laun,“ segir viðmælandi Túrista.

Sá hefur unnið lengi sem flugverji hjá Icelandair og er fulltrúi hóps um þrjú hundruð félagsmanna í FFÍ sem vill að undirskrifaður kjarasamningur verði borin undir atkvæði sem fyrst.

Viðkomandi vill þó ekki koma fram undir nafni og vísar til þess að gagnrýni á samninganefnd Flugfreyjufélagsins sé jafnan illa tekið. „Þess vegna tjáir fólk sig bara í lokuðum hópum,” segir viðmælandi Túrista.

Einn helsti ásteitingarsteinninn í viðræðum FFÍ og Icelandair er hvíldarákvæði sem felur í sér að áhafnir félagsins mega í mesta lagi vinna fimmtíu blokktíma á fimmtán dögum. En blokktími er sá tími sem líður frá því flugvél fer frá flugstæði fyrir brottför og þar til hún er komin á flugstæði á áfangastað. 

Félag íslenskra atvinnuflugmanna gaf þetta hvíldarákvæði eftir í samningum við Icelandair sem undirritaðir voru í síðasta mánuði. Og fyrrnefndur hópur flugfreyja og flugþjóna vill slíkt hið sama. „Það er ekki forsvaranlegt að ríghalda í eldri hvíldarákvæði við þessar aðstæður sem uppi eru. Icelandair og önnur flugfélög eru í mjög þröngri stöðu vegna Covid-19,” segir viðmælandi Túristi.

„Samningarnir stranda helst á þessu ákvæði en segja má það barn síns tíma enda sett þegar almennar reglur um hámarks vinnutíma voru ekki eins strangar og þær eru í dag. Með því að fella þetta úr gildi þá verður t.d. hægt að fara fram á að flugfreyja fari í flug frá Kaupmannahöfn og svo beint áfram til austurstrandar Bandaríkjanna við komuna til Keflavíkurflugvallar. Þetta gera flugmenn í sumum tilfellum í dag og við ættum að geta það líka þó vissulega auki þetta álagið,” segir viðmælandi Túrista úr röðum flugfreyja.

Í yfirstandandi kjaraviðræðum er forsvarsfólk Icelandair einnig að fara fram á hækka lágmarks vinnuframlag félaga í FFÍ. Laun hækka aftur á móti ekki en þau yrðu leiðrétt afturvirkt árið 2023. Þessi krafa Icelandair felur í sér að núverandi launatrygging færist úr 65 blokktímum á mánuði í 70 hjá fastráðnum flugfreyjum og flugþjónum. Þau sem eru á tímabundnum samningi fara í 75 blokktíma og lausráðnir í 78 tíma. Áfram er hámarkið 85 tímar á mánuði en þó yfir allt árið. Í dag er það 10 tímum lægra yfir vetrarmánuðina.

„Þetta er í takt við vinnuframlag áhafna annarra flugfélaga. Það er því ekki rétt að farið sé fram á 100 blokktíma á mánuði eins og talað hefur verið um. Hámarkið er áfram 85 tímar,“ segir viðmælandi Túrista og fulltrúi þess hóps félagsmanna í FFÍ sem er ósáttur við störf samninganefndar félagsins í núverandi viðræðum við Icelandair.

Ekki náðist í formann FFÍ við vinnslu þessarar fréttar.

Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …