Samfélagsmiðlar

Næst stærsti hluthafi Norwegian er meðal viðsemjenda Icelandair

TF-ICA er í dag eina Boeing MAX 9 þotan í flota Icelandair. Sú flugvél er í eigu kínverskrar flugvélaleigu sem jafnframt á nærri 13 prósent hlut í einum helsta keppinaut Icelandair.

Hinar kyrrsettu MAX þotur Icelandair. TF-ICA sem er í eigu BOC Capital stendur þarna fremst.

Flugvélaleigur, skuldabréfaeigendur og aðrir kröfuhafar tóku Norwegian yfir nú í sumarbyrjun í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu flugfélagsins. Eldri hluthafar héldu eftir litlum hlut í fyrirtækinu.

Þessi umbreyting var forsenda fyrir því að Norwegian fengi neyðarlán frá norska ríkinu. Skilyrðin voru nefnilega þau að flugfélagið myndi grynka á skuldum og hækka eiginfjárhlutfallið.

Það sem vakti einna mesta athygli við þessa uppstokkun, á eignarhaldi Norwegian, var að kínverska ríkið varð óbeint næst stærsti hluthafinn í norska flugfélaginu í gegnum flugvélaleiguna BOC Aviation. Það fyrirtæki tilheyrir ríkisbankanum Bank of China.

Kínverjarnir eiga því í dag 12,7 prósent hlut í Norwegian en líkt og Túristi hefur áður rakið þá hefur norska flugfélagið veitt Icelandair gríðarlega samkeppni í flugi til Norður-Ameríku síðustu ár.

Og þessa dagana vinna stjórnendur Icelandair að því að byggja upp fjárhag síns flugfélags á ný. Í tengslum við þá vinnu eiga sér stað viðræður við flugvélaleigusala líkt og fram kom í tilkynningu frá félaginu á mánudagsmorgun.

Meðal þeirra sem þá þurfa að koma til móts við Icelandair er einmitt BOC Aviation. Það félag á nefnilega Boeing MAX9 þotuna sem Icelandair fékk afhenda í febrúar 2019. Nokkrum vikum áður en MAX þotur voru kyrrsettar um allan heim.

Icelandair hafði sjálft keypt þessa MAX þotu árið 2012 en tveimur mánuðum fyrir afhendingu hennar þá seldi félagið flugvélina til BOC Aviation og endurleigði á ný. Þess háttar viðskipti eru algeng í rekstri flugfélaga.

Skuldbindingin gagnvart BOC Aviation eru þó líklega mun meiri því í kauphallartilkynningu Icelandair, í árslok 2018, kemur fram að kínverska flugvélaleigan kaupi tvær af MAX þotum Icelandair og endurleigi svo á ný til félagsins. Því til viðbótar átti BOC Aviation að fjármagna fyrirframgreiðslur Icelandair á Boeing MAX flugvélum sem þá stóð til að afhenda 2019 og 2020.

„Fjármögnunin nemur um 200 milljónum bandaríkjadollara á tímabilinu og sjóðsstaða félagsins hækkar um 160 milljónir bandaríkjadollara í kjölfar samningsins,“ segir í tilkynningunni. Í komandi hlutafjárútboði Icelandair er einmitt ætlunin að fá inn nýtt hlutafé fyrir 200 milljónir dollara. Það jafngildir um 28 milljörðum króna á gengi dagsins.

Aðeins önnur þessara MAX þota sem BOC Aviation keypti af Icelandair í árslok 2018 náði hingað til lands fyrir kyrrsetninguna í mars í fyrra. Sú staðreynd gæti haft sitt að segja varðandi heildarskuldbindingu Icelandair gagnvart kínversku flugvélaleigunni.

Þess má geta að það er mjög óvenjulegt að flugvélaleigur eigi stóran hlut í flugfélagi eins og nú er raunin með Norwegian. Þess háttar getur flækt stöðu leigufyrirtækjanna gagnvart öðrum flugfélögum og viðskiptavinum. Það er því almennt búist við að breytingar verði á eigendahópi Norwegian fyrr en síðar.

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …