Samfélagsmiðlar

Nú þarf tekjuspá Icelandair að ganga eftir

Í ársbyrjun 2018 gerðu stjórnendur Icelandair Group sér vonir um að meðalfargjöldin myndu hækka. Það gekk ekki eftir og félagið kom út í mínus í fyrsta sinn í mörg ár. Viðspyrna félagsins eftir Covid-19 byggir á hækkandi einingatekjum en þá þurfa fargjöldin að mjakast upp á við.

Tekjur Icelandair á hvern floginn kílómetra (RASK) hafa farið lækkandi síðustu ár. Þær voru til að mynda ellefu prósent lægri árið 2018 í samanburði 2015. Nú gerir spá sérfræðinga Icelandair aftur á móti ráð fyrir hækkun á þessum lið. Þannig verða þessar einingatekjur sautján prósentum hærri árið 2024 en þær voru á síðasta ári samkvæmt nýrri fjárfestakynningu félagsins.

„Við teljum líklegt að flest flugfélög muni einbeita sér að því að styrkja „hub starfsemi“ sína næstu árin. Þetta mun valda færri beinum flugum á N-Atlantshafsmarkaðnum sem mun gera „1-stop“ vöru okkar, í gegnum Ísland, mjög álitlega og þar með hækka RASK,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, þegar hann er beðinn um nánari útlistingu á spá félagsins um hækkun einingatekna. 

Bogi bendir á fleiri atriði sem styðji við hækkandi einingatekjur. Til að mynda hafi fjárfesting í mannafla og hugbúnaði á sviði tekjustýringar verið byrjuð að skila skýrum bata fyrir heimsfaraldurinn og gert sé ráð fyrir að áframhaldandi þar á. Einnig er ætlunin að fá inn meiri þóknanir fyrir sölu á þjónustu þriðja aðila. Til að mynda af bókunum á hótelherbergjum og ferðaþjónustu. Segir Bogi að áfram verði fjárfest í stafrænum lausnum til að ná þessu marki.

Forstjórinn undirstrikar að með betri stýringu leiðarkerfisins þá náist fram bæting í bæði einingakostnaði og -tekjum. „Fjarlægð hefur áhrif á þessar stærðir og þannig kom flugið til San Francisco illa út þar sem fargjöldin voru of lág miðað við flugtíma.“ 

Ekki sannfærður um að hærri fargjöld skili sér til Icelandair

Norski fluggreinandinn Hans Jørgen Elnæs, sem rýnir reglulega í rekstur flugfélaga í skandinavísku viðskiptapressunni, segir að almennt skýri hærri fargjöld og auknar hliðartekjur hækkun á einingatekjum flugfélaga. Og hann telur að farmiðaverð muni hækka á næstunni sem rekja megi til hækkandi fargjalda eftir Covid-19. Framboð muni nefnilega dragast saman og eins þurfi flugfélögin hærri tekjur til að standa undir afborgunum á þeim lánum sem þau hafa tekið vegna heimsfaraldursins. 

Elnæs er þó ekki sannfærður um að Icelandair njóti þessara verðhækkana þegar kemur að flugi yfir Norður-Atlantshafið. Samkeppni í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku verður áfram hörð að hans mati.

„Þar með yrði pressa sett á tengiflug Icelandair og fargjöld félagsins gætu þá þróast á neikvæðan hátt því flug með millilendingu á Íslandi verður að vera samkeppnishæft í verði við beina flugið sem keppinautarnir bjóða,“ útskýrir Norðmaðurinn. 

Samanburður á fargjöldum milli Evrópu og Norður-Ameríku hefur líka gefið til kynna að farþegar sem leggja á sig millilendingu borga vanalega fimmtungi til fjórðungi lægra verð en þeir sem fljúga beint. 

Elnæs sér þó sóknarfæri í auknum hliðartekjum hjá Icelandair og bendir til að mynda á að stór hluti heildartekna lággjaldaflugfélagsins Wizz Air komi vegna sölu á alls kyns aukaþjónustu. Norski sérfræðingurinn undirstrikar að einingakostnaðurinn (CASK) skipti meginmáli í flugrekstri. 

Tekjuspáin 2018 gekk ekki eftir og Björgólfur hætti

Líkt og fram kom hér að ofan þá hafa einingatekjur Icelandair farið lækkandi síðustu ár og þar hefur fargjaldaþróun mikil áhrif. Í ársbyrjun 2018 gerðu stjórnendur félagsins aftur á móti ráð fyrir að meðalfargjöldin færu upp á við.

Afkomuspá Icelandair fyrir 2018 gerði þar með ráð fyrir hagnaði þrátt fyrir hækkandi rekstrarkostnað sem rekja mátti til hærra olíuverðs og nýrra kjarasamninga. Gengisþróun var heldur ekki hagfelld og WOW varð sífellt harðari keppinautur þrátt fyrir mikinn taprekstur og vanskil á Keflavíkurflugvelli.

Sumarið 2018 varð forsvarsmönnum Icelandair það þó ljóst að horfurnar í rekstrinum voru lakari en þeir höfðu reiknað með.

„Sú þróun meðalverða sem við gerðum ráð fyrir á síðari hluta ársins virðist ekki vera að ganga eftir og því lækkum við tekjuspá félagsins,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, þáverandi forstjóri Icelandair, í tilkynningu til kauphallar í byrjun júlí 2018.

Björgólfur sagði svo starfi sínu lausu tæpum tveimur mánuðum síðar og vísaði þá til þess að spáin um auknar tekjur hefði ekki gengið eftir. Í hinni nýju fjárfestakynningu Icelandair Group sést að einingakostnaðurinn (CASK) rauk upp árið 2018 eða um 9,5 prósent frá fyrra ári. Einingatekjurnar lækkuðu á sama tíma en hlutfallslega mun minna eða um 1,6 prósent.

Nú gera sérfræðingar Icelandair aftur á móti ráð fyrir að einingakostnaðurinn á árunum 2022 til 2024 lækki verulega og verði álíka og á árunum 2015 til 2017.

Þar vega nýgerðir kjarasamningar við flugstéttir félagsins þungt. Í kynningunni er nefnt sem dæmi að þeir samningar hefðu bætt afkomu félagsins um fjóra milljarða króna í dag. Þar er líklega vísað til flugáætlunar Icelandair fyrir Covid-19. Svo mikil verða umsvifin þó ekki á ný fyrr en eftir nokkur ár.

Nýtt efni

Árið 1970 barst Pattie Boyd nafnlaust og dularfullt ástarbréf frá einhverjum sem þráði hana afar heitt. Vandinn var bara sá að Pattie var þegar gift öðrum manni og ekki ófrægum; hún og George Harrison gítarleikari The Beatles höfðu búið saman í sex ár þegar bréfið barst Pattie.  „Ég skrifa þér þessa orðsendingu í þeim megintilgangi …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …