Þeir sem tóku þátt í hlutafjárútboði Icelandair Group þurfa að greiða fyrir nýju hlutabréfin sín í síðasta lagi á 23. september. Þetta kemur fram í skilmálum útboðsins.
Þar með hafa erlendir fjárfestar ekki langan tíma til að flytja fé hingað til lands og þar á meðal Michelle Roosevelt Edwards, forsprakki endurreisnar WOW air, en hún mun hafa skráð sig fyrir sjö milljarða króna hlut í útboðinu samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Leiða má að því líkum að því að svo há upphæð hafi ekki verið flutt hingað til lands síðustu daga enda hefði það styrkt gengi krónunnar þónokkuð.
Það liggur ekki fyrir hversu mikil þátttaka var í útboðinu en ef eftirspurnin hefur verið umfram 20 til 23 milljarða króna lágmarkið þá er stjórn Icelandair Group heimilt að velja á milli fjárfesta. Í skilmálum útboðsins segir nefnilega að útgefanda hlutabréfanna sé í sjálfsvald sett að minnka hlut fjárfesta eða jafnvel hafna þeim alfarið.
Samkvæmt fyrrnefndri frétt Morgunblaðsins þá hyggst Edwards „leggja saman krafta WOW og Icelandair“ í framhaldinu af útboðinu. Ekki er víst að stjórn Icelandair Group líki þau áform þó reyndar hafi verið unnið að sameiningu félaganna fyrir tveimur árum síðan.
Kæri lesendi, á næstu dögum verður Túrista læst að hluta. Þar með verður þorri greinanna sem hér birtast aðeins aðgengilegur áskrifendum. Þetta er sú leið sem fjöldi netmiðla út í heimi hefur farið og sérstaklega þeir sérhæfðu eins og Túristi sannarlega er. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengur. Nánari upplýsingar um fyrirkomulagið verða birtar innan skamms.