Fimm af tíu verðmætustu eignum Reita eru hótelbyggingar og þær standa undir fimmtungi tekna fasteignafélagsins. Um síðustu áramót námu viðskiptakröfur Reita 1,2 milljarði króna og höfðu þá tvöfaldast á milli ára. Þessa hækkun má sérstaklega rekja til hótela samkvæmt því sem fram kemur í ársreikningi.
Helmings leiga vegna óviðráðanlegra aðstæðna
Hóteleigendur eru víðar í vanskilum. Þannig hafa Fosshótel ekki greitt leigu af stærsta hóteli landsins við Þórunnartún í Reykjavík síðan heimsfaraldurinn hófst í fyrra. Sú fasteign er í eigu Íþöku og í síðustu viku komst Héraðsdómur Reykjaness að þeirri niðurstöðu að leigusamningnum yrði vikið til hliðar þar sem heimsfaraldurinn sem nú ríkir telst til óviðráðanlegra aðstæðna. Fosshótel eiga þó að greiða helming þeirrar leigu sem er ógreidd.
Spurður hvort þessi dómur muni hafa áhrif á viðræður Reita við þau hótel sem eru í vanskilum þar á bæ þá segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, í svari til Túrista, telja víst að dómurinn fari á næsta og mögulega efsta dómsstig. Fordæmi dómsins er því líklega takmarkað að hans mati.
Icelandair hótelin stærsti leigutakinn
Sem fyrr segir þá tvöfölduðust viðskiptakröfur Reita milli áranna 2019 og 2020 og aðallega vegna hótela. Í viðtali við Fréttablaðið í síðustu viku sagði Guðjón að annað hvort hefði náðst samkomulag við leigutaka í þessum geira eða að samningaviðræður um uppgjör á leigugreiðslum væru að hefjast. Hann sagðist vera í góðri trú um að hótelin geri þetta upp við fasteignafélagið.
Icelandair hótelin standa undir 11 prósent af leigutekjum Reita og Keahótelin eru einnig flokkuð meðal stærstu viðskiptavina fasteignafélagsins vegna leigunnar á Hótel Borg. Forstjóri Reita segist ekki geta tjáð sig um hvort samkomulag sé í höfn við bæði þessi fyrirtæki.
Hótelin í safni Reita eru hins vegar næstum öll í útleigu hjá þessum tveimur keðjum. Eina sem út af stendur er Hótel Ísland og Hótel Grímsbær.
Móðurfélag Keahótelanna í þrot
Í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu Keahótelanna í lok síðasta árs var tilkynnt að náðst hefði samkomulag við leigusala keðjunnar. Stuttu síðar fór móðurfélag hótelanna reyndar í þrot og nýtt tók við rekstrinum. Það félag fékk heitið Prime hótels og fékk Landsbankinn 35 prósent hlut í því. Bankinn var stærsti kröfuhafi gamla móðurfélagsins eftir að hafa fjármagnað kaupin á Keahótelunum árið 2017.
Forstjóri Reita svarar því ekki hvort afskrifa hafi þurft kröfur í tengslum við gjaldþrot móðurfélags Keahótelanna. Hann ítrekar þó það sem áður hefur komið fram að fasteignafélagið hafi fært varúð á móti áætluðu tekjutapi sem rekja megi til Covid-19.