Fyrir heimsfaraldur þá var Norwegian stórtækast í flugi héðan til Spánar og þar á undan var það Wow Air. Nú í sumar hafa Icelandair og Play hins vegar verið með langstærstan hluta markaðarins þegar kemur að flugi til vinsælustu sólarstaða Íslendingar, Alicante og Tenerife. Hlutdeild Icelandair samsteypunnar hefur margfaldast eftir brotthvarf Wow Air og farþegahópurinn stækkað.
Í júlí og ágúst flugu rúmlega ellefu þúsund farþegar milli Íslands og Alicane af þeim fór 51 prósent með Icelandair og þriðjungur með Play. Flug á vegum ferðaskrifstofanna Heimsferða og Ferðaskrifstofu Íslands hefur þá verið með 16 prósent hlutdeild samkvæmt útreikningum Túrista sem byggja á tölum frá spænskum flugmálayfirvöldum.
Í flugi til Tenerife þá var hlutdeild Icelandair akkúrat helmingur á meðan Play var með 29 prósent af markaðnum. Leiguflug ferðaskrifstofanna náði því 21 prósenti af heildinni. Samtals var hlutdeild flugfélaganna tveggja þá 81 prósent þegar umsvifin í flugi til Alicante og Tenerife.
Ástæða þess að júní er ekki með í þessum útreikningum er sú að í þeim mánuði fór Play bara eina ferð til Tenerife og enga til Alicante.
Minni markaður en farþegahópurinn stækkar hjá Icelandair
Flug Icelandair til Alicante er ekki hefðbundið áætlunarflug því þangað flýgur félagið á vegum Vita en sú ferðaskrifstofa tilheyrir Icelandair samsteypunni. Og til marks um hversu náin tengslin eru milli Icelandair og Vita þá er Bogi Nils Bogason bæði forstjóri Icelandair Group og stjórnarformaður Vita. Með honum í stjórn Vita eru Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustusviðs Icelandair, og Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo.
Ferðir Icelandair til Tenerife hafa líka síðustu ár verið á vegum ferðaskrifstofa en í vor hóf félagið að bjóða upp á áætlunarflug til spænsku eyjunnar. Og eins og sjá má hér fyrir neðan hefur félagið nú þegar náð helmingi markaðarins.
Sá markaður er þó minni en áður og í sumar flugu 37 prósent færri héðan til Tenerife í samanburði við sumarið 2018. Hins vegar stækkaði farþegahópurinn hjá Icelandair á flugleiðinni um 67 prósent í sumar í samanburði við sumarvertíðina 2018.
Sem fyrr segir byggja útreikningarnir hér að ofan á tölum frá spænskum flugmálayfirvöldum. Hér á landi fást engar sambærilegar upplýsingar.