Samfélagsmiðlar

Erfitt að lesa markaðinn þegar hann fylgir ekki sögulegum sveiflum og breytist hratt

Spánarflug Play hefur nú í haust komið mun betur út en flug til annarra áfangastaða.

Í október flaug Play með nærri 9 þúsund farþega til og frá Spáni. „Mögulega hefðum við getað keyrt á Spán í nóvember, þó að sögulega sé það tæpt, en við vildum vera varkár og taka ekki áhættuna," útskýrir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Óseldu sætunum í þotum Play fækkaði umtalsvert í október frá því sem var mánuðina á undan. Sú bæting skrifast að miklu leyti á Spánarflugið því þar var sætanýtingin miklu betri en í flugi til annarra áfangastaða samkvæmt samantekt Túrista.

Nú í nóvember er framboð á flugi til Spánar hins vegar minna en verið hefur því engar ferðir eru á dagskrá til Alicante og Barcelona. Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir að þar með verði félagið hugsanlega af tekjum en á móti komi lægri kostnaður.

„Það er erfitt að lesa markaðinn þegar hann breytist svona hratt og fylgir ekki sögulegum sveiflum. Við vorum því með vaðið fyrir neðan okkur þegar við skipulögðum haustið og nýttum okkur þann sveigjanleika sem leigusamningar á þotunum veita. Mögulega hefðum við getað keyrt á Spán í nóvember, þó að sögulega sé það tæpt. Við vildum vera varkár og taka ekki áhættuna og skiljum mögulega eftir tekjur nú þegar eftirspurnin er góð en spörum líka kostnað. Þetta þarf að vera í jafnvægi. Það er líka öðruvísi samsetning áfangastaða í nóvember, meiri fókus á borgarferðir en sólarferðir en var í október. Það breytist aftur í desember þegar sólarferðirnar koma inn. Framboðið sveiflast einnig nokkuð á milli þessara mánaða og þar með rekstrarkostnaðurinn sem skiptir líka miklu máli í þessu,“ útskýrir Birgir. 

Spurður hvort ekki stefni í lægri sætanýtingu hjá flugfélaginu nú í nóvember vegna færri ferða til Spánar þá segist hann ekki geta komið með neinar yfirlýsingar um nýtinguna í nóvember fyrr hún verði gefin út formlega í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Við höfum þó sagt að útlitið sé gott og að það stefni í góða nýtingu á næstu mánuðum, svona miðað við ástand á markaðinum. Við fylgjumst til dæmis með áhrifum af aukningu í smitum en enn sem komið er erum við ekki að sjá sömu hegðun og í sumar þegar fólk breytti [ferðaplönum] í miklum mæli. Það er meiri yfirvegun í gangi enn sem komið er.“

Líkt og Túristi greindi frá í gær þá flutti Play fleiri farþega til Alicante nú í október en systurfélögin Icelandair og Vita. Það hefur ekki gerst áður en sætanýtingin í flugi félagsins til spænsku borgarinnar var 85 prósent samkvæmt útreikningum sem byggja á tölum frá spænskum flugmálayfirvöldum.

Play náði ennþá betri árangri í flugi sínu til Tenerife því þar voru ríflega níu af hverjum tíu sætum skipuð farþegum eins sjá má á grafinu hér fyrir neðan. Ferðunum til spænsku eyjunnar verður haldið áfram í allan vetur.

Fyrir jólin hefst svo flug til Alicante á nýjan leik og jómfrúarferð Play til Las Palmas á Kanarí verður farin 22. desember. Áætlunarflugið til Barcelona bíður hins vegar fram að páskum.

Nýtt efni

Eftirspurn eftir ferðalögum til útlanda meðal Íslendinga er áfram sterk fullyrti Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, á kynningu á nýju uppgjöri flugfélagsins nú í morgun. Farþegum Icelandair frá heimamarkaðnum fækkaði hins vegar um 9 prósent á öðrum ársfjórðungi í samanburði við sama tímabil í fyrra. Þennan samdrátt útskýrði Bogi Nils með því að benda á …

Í byrjun júlí tóku gildi bráðabirgðatollar á rafbíla sem fluttir eru inn frá Kína til aðildarríkja Evrópusambandsins. Var gripið til þessa eftir að rannsókn á vegum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins leiddi í ljós að kínverska framleiðslan nyti óeðlilega mikils ríkisstuðnings og skaði því evrópskir rafbílaframleiðendur. Aukatollurinn, sem nú leggst ofan á þann 10 prósent toll sem fyrir …

Á öðrum ársfjórðungi í fyrra hagnaðist Icelandair um 2,1 milljarð króna fyrir skatt en núna var niðurstaðan hagnaður upp á 73 milljónir króna. Í dollurum, uppgjörsmynt Icelandair, var rekstrarafkoman (Ebit) jákvæð um 3,3 milljónir dollara en 21 milljón í fyrra. Sú niðurstaða var sú besta í mörg ár eins og sjá má. Skilyrði til flugrekstrar …

Fyrir fjórum vikum síðan boðaði Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, átak í markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn. Segja má að ráðherrann hafi verið að svara kalli forsvarsfólks ferðaþjónustunnar sem hvatt hefur til opinberrar kynningar á Íslandi sem áfangastað líkt og víða tíðkast. Tveimur dögum eftir að Lilja Dögg lofaði „hundruðum millj­óna“ til …

Stjórnendur Icelandair og Play gáfu það út í sumarbyrjun að fargjöld hefðu lækkað vegna mikillar samkeppni í flugi yfir Atlantshafið. Félögin tvö þurfa nú í auknum mæli að sækja á þann markað þar sem minni eftirspurn er eftir Íslandsferðum. Gallinn er hins vegar sá að farþegar sem fljúga milli Evrópu og N-Ameríku, með millilendingu á …

Í júní í fyrra voru óvenju margir bandarískir ferðamenn á landinu miðað við flugframboð. Nú í sumar hefur flugferðunum fjölgað um 12 prósent en samt fækkaði bandarískum ferðamönnum um 19 prósent í nýliðnum júní. Það er Icelandair sem er langumsvifamest í flugi héðan til Bandaríkjanna og stóð félagið undir 7 af hverjum 10 flugferðum héðan …

Víðast hvar eru gistinætur útlendinga helsti mælikvarðinn á gang mála í ferðaþjónustu enda nær eingöngu eyríki að telja ferðafólk við landamæri með einföldum hætti. Hjá frændþjóðum okkar eru gistinæturnar því aðalmálið og nú fjölgar erlendu gestunum í Noregi þónokkuð frá fyrra ári en forsvarsfólk íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja hefur undanfarna mánuði bent á harðnandi samkeppni við þau …

helsinki yfir

Hagstofur víða birta nú nýjar verðlagsmælingar sem flestar sýna að verðbólga er á niðurleið. Nú í morgunsárið var komið að finnsku hagstofunni og þar sýna tölur að verðlag hefur hækkað um 1,3 prósent síðastliðna 12 mánuði. Á milli maí og júní fór verðbólgan niður um 0,2 prósent. Það voru lækkandi húsnæðisvextir og fallandi verð á …