Samfélagsmiðlar

Sannfærður um að Play auki framboðið á hárréttum tíma

Forstjóri Play segir íslenska markaðinn hafa kólnað að undanförnu en aftur á móti séu jákvæð teikn á lofti varðandi Bandaríkjaflug félagsins.

Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Flugáætlun Play í janúar og febrúar hefur nú verið skorin niður í tvígang og ferðunum fækkað til London, Berlínar, Parísar og Kaupmannahafnar. Frá þessu greindi Túristi í morgun.

Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins, segir ástæður breytinganna augljósar því eftirspurn eftir flugi til ákveðinna áfangastaða sé tempruð næstu vikur sem skrifist á harðar sóttvarnaraðgerðir.

„Ég held að flest flugfélög í heiminum séu að draga saman framboð á þessu tímabili. Það er erfitt að svara hvort það verði frekari breytingar, við metum það eftir því sem staðan þróast. Það sem við höfum séð er að markaðurinn er mjög fljótur að taka við sér þegar ástandið breytist og því sjáum við bara til hvernig ástandið verður,“ útskýrir Birgir.

Sveigjanleg þrátt fyrir fulla leigu

Play hefur tryggt sér fimm þotur fyrir næstu sumarvertíð og áfram er ætlunin er að bæta þeirri sjöttu við. Ástandið sem heimsfaraldurinn hefur valdið er tímabundið að mati Birgis og setji því ekki plön Play úr skorðum.

„Ég er sannfærður um að við munum auka framboðið okkar á hárréttum tíma í vor þegar markaðurinn er tilbúinn. En á sama tíma er það ekki það mikið að við gætum ekki skalað okkur niður ef ástandið verður áfram erfitt.“

Og Birgir segir það litlu breyta þó félagið muni frá og með áramótum greiða fulla leigu á þotunum þremur sem félagið er með í notkun í dag. Þetta sé nefnilega ekki það stór kostnaðarliður að hann dragi úr sveigjanleikanum til að gera breytingar á flugáætluninni til skamms tíma líkt nú hefur verið gert í janúar.

„Við spörum heilmikið í breytilegum kostnaði við það líka en auðvitað viljum við forðast að gera svona breytingar nema það sé alveg augljóst að það sé hið eina rétta,“ segir Birgir.

Sólarstrendur heilla meira en stórborgir

Minnkandi áhugi á ferðalögum á næstu vikum skrifast aðallega á heimamarkaðinn að sögn forstjóra Play. Félagið sé nefnilega að sækja í sig veðrið þegar kemur að farþegum á leið til landsins. Aftur á móti hafi íslenski markaðurinn kólnað. „Mikill fréttaflutningur af Covid í litlu landi er að hafa sín áhrif. Fólk er samt ekki mikið að breyta ferðum sínum eða hætta við,“ segir Birgir.

Hann segir minni eftirspurn helst koma fram í færri tækifærisferðum til útlanda og fólk sé síður að stökkva af stað með litlum fyrirvara í verslunar- eða jólaferðir. Aftur á móti sé áhuginn á sólar- og skíðaferðum mikill en eftir áramót er Play með á dagskrá reglulegar ferðir til Las Palmas, Tenerife og Alicante á Spáni og Salzburg sem er í nágrenni við austurrísku Alpana.

Góðar viðtökur við Ameríkufluginu

Áætlunarflug Play til Bandaríkjanna hefst í vor og þá getur félagið boðið upp á flug yfir Norður-Atlantshafið með millilendingu á Keflavíkurflugvelli. Þangað til snýst reksturinn um flug með farþega á leið til og frá Íslandi og ennþá er Play því mjög háð sveiflum á íslenska markaðnum að sögn Birgis.

Hann bætir því við að það sé mjög gott og uppörvandi að sjá hvað salan á flugi til og frá Bandaríkjunum fari vel af stað. „Þar er komin mikilvæð stoð undir reksturinn eins og planið okkar gerir ráð fyrir. Það er mjög sterkt bókunarflæði fram í tímann og staðir sem við höfum verið að erfiða með í vetur, í Covid ástandinu, t.d. París og Berlín, eru allt í einu orðnir bestu sölustaðirnir þegar tengitraffíkin kemur inn. Þannig að við erum mjög sátt með hvernig þetta fer allt af stað,“ segir forstjóri Play að lokum.

Nýtt efni

Heldur færri beiðnum um vegabréfsáritun var hafnað á Schengen-svæðinu 2023 miðað við árið á undan, 1,6 milljónum eða 15,8 prósentum af heildarfjölda áritana í stað 17,9 prósenta. Flestum beiðnum var að venju hafnað í Frakklandi eða 436.893, samkvæmt frétt SchengenNews, en Frakkar taka líka við flestum beiðnum. Þau ríki sem koma næst á eftir á …

Þegar nýtt íslenskt flugfélag fer í loftið þá er Kaupmannahöfn ávallt meðal fyrstu áfangastaða. Þannig var það í tilfelli Iceland Express, sem þó var ekki fullgilt flugfélag, Wow Air og Play. Hjá öllum þremur var stefnan ekki sett á Stokkhólm fyrr en fleiri þotur höfðu bæst í flotann. Play fór sína fyrstu ferð til sænsku …

Árið 2023 varð landsvæði sem nam tvöfaldri stærð Lúxemborgar eldum að bráð í Evrópu - meira en hálf milljón hektara gróðurlendis eyðilagðist. Samkvæmt upplýsingum Evrópska upplýsingakerfins um gróðurelda (European Forest Fire Information System - EFFIS) voru 37 prósent umrædds lands þakin runnum og harðblaðaplöntum en á 26 prósentum óx skógur.  Auk gríðarlegs tjóns vistkerfisins fylgdu …

Kopar er nú meðal eftirsóttustu hráefna í iðnaði og verð á honum hækkar ört - svipað og gerðist með hráolíuna á áttunda áratugnum eftir að olíuframleiðendur í Arabalöndunum settu viðskiptabann á Bandaríkin og bandalagsríki þeirra vegna stuðnings við Ísrael í Yom Kippur-stríðinu. Mikil hækkun á verði kopars á mörkuðum skýrist raunar að hluta af auknum …

Ísland komst fyrst á kortið hjá United Airlines vorið 2018 þegar félagið hóf áætlunarflug hingað frá New York. Síðar bætti bandaríska flugfélagið við ferðum hingað frá Chicago og í báðum tilvikum voru brottfarir í boði frá frá vori og fram á haust. Í fyrra varð ekkert út Íslandsflugi United frá New York en í lok …

Ferjan Sæfari leggst að bryggju í Sandvík, þorpi Grímseyjar, um hádegisbil eftir um þriggja klukkustunda siglingu frá Dalvík. Ferjan stoppar ekki lengi í eyjunni í þetta sinn heldur leggur aftur af stað frá Grímsey klukkan 14. Dagsferðalangar í Grímsey á veturna stoppa því aðeins í tæpar tvær klukkustundir í eyjunni en leggja á sig meira …

Mótun ferðamálastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 var sett á ís þegar Covid-faraldurinn hófst en þráðurinn var tekinn upp að nýju í fyrra. Þá skipaði ráðherra ferðamála, Lilja Alfreðsdóttir, sjö starfshópa til að fara í verkið og komu meira en 100 manns að þeirri vinnu. Drög að tillögu til þingsályktunar voru birti í febrúar og …

Þrátt fyrir takmarkað framboð á flugi innan Evrópu þá eru fargjöld ekki á uppleið og verðþróunin er neytendum í hag nú í sumarbyrjun að sögn forstjóra og fjármálastjóra Ryanair sem kynntu nýtt ársuppgjör félagsins nú í morgun. Reikningsár þessa stærsta lágfargjaldaflugfélags Evrópu lauk í lok mars sl. og þar var niðurstaðan hagnaður upp á 1,9 …