„Við erum að fá hingað fleiri leiguflugfélög á næstunni og styttist í að við sjáum áætlunarfélög,“ sagði Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, í viðtali við Túrista í gær þar sem hún ræddi stöðu alþjóðaflugs frá Akureyrarflugvelli. Arnheiður bætti því við að það það væri stutt í góðar fréttir af þessum málum og nú í morgunsárið tilkynnti þýska flugfélagið Condor að næsta sumar myndu þotur þess fljúga bæði til Akureyrar og Egilsstaða frá Frankfurt.
Fyrstu ferðir eru á dagskrá í maí og ráðgert er að halda ferðunum úti fram í lok október en þetta verður í fyrsta sinn sem Condor heldur úti flugi til Íslands.
„Ísland er einn af vinsælustu áfangastöðunum í norðri,“ segir Ralf Teckentrup, framkvæmdastjóri Condor., í tilkynningu.
„Við hlökkum til að bjóða viðskiptavinum okkar að uppgötva þennan fjölbreytta og fallega áfangastað. Með tengingu til Akureyrar og Egilsstaða erum við að bregðast við eftirspurn frá fjölmörgum ferðaþjónustuaðilum sem bjóða upp á ferðir á Norður- og Austurlandi.“
Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, segir ákvörðun Condor vera afrakstur af öflugu kynningarstarfi Austurbrúar, Isavia Innanlandsflugvalla, Íslandsstofu og Markaðsstofu Norðurlands þar sem áhersla hefur verið lögð á þróun fleiri gátta inn í Ísland.
„Þá hefur framlag íslenskra stjórnvalda til verkefnisins skipt máli. Öll þessi vinna er farin að bera ávöxt og tökum við fagnandi á móti Condor,“ segir Sigrún Björk.
Þýska flugfélagið Condor hefur verið starfrækt í rúmlega 66 ár. Það flýgur með ríflega níu milljón farþega árlega frá stærstu flugvöllum í Þýskalandi, Sviss og Austurríki til um níutíu áfangastaða víðs vegar um Evrópu, Bandaríkin og Afríku.