Samfélagsmiðlar

Condor breytir öllu

Mikill fögnuður er í ferðaþjónustunni fyrir norðan og austan vegna ákvörðunar þýska flugfélagsins Condor um að hefja flug næsta sumar til Akureyrar og Egilsstaða.

María Sand Hjálmarsdóttir á Egilsstaðaflugvelli

„Þetta breytir öllu,” segir María Sand Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri ferðamála hjá Austurbrú. „Búið er að vinna að þessu lengi. Við notuðum heimsfaraldurinn til að skoða hlutina upp á nýtt. Þetta hefur verið mikil vinna síðastliðið ár með þýskum ferðaskrifstofum og flugfélögum. 

Við fundum að mikill áhugi var á því að fljúga til fleiri staða en Keflavíkur. Í augum margra ferðaskrifstofanna skipti ekki öllu máli hvar hringferðin um landið hæfist”

Condor er þriðja stærstu flugfélag í Þýskalandi, með höfuðstöðvar í Frankfurt, og mjög vinsælt meðal ferðafólks. Í maí á næsta ári bætist Ísland við sem áfangastaður félagsins og verða vikuleg flug til Akureyrar og Egilsstaða út október.

Túristi er staddur á Egilsstöðum, þar sem fólk er spennt yfir tíðindunum. Það var tómlegt á vel búnum Egilsstaðaflugvelli – en það breytist á næsta ári. Flug Condor gæti að auki dregið meiri umferð þangað austur og til Akureyrar.

Nýir möguleikar skapast

„Condor er mjög traust og gott félag og þetta á eftir að skapa ótrúlega mikla möguleika. Tugir milljóna manna eru á svæðinu í kringum Frankfurt. 81 flugfélag notar flugvöllinn í Frankfurt og þaðan er flogið til nærri 300 flugvalla um allan heim. 

Við viljum auðvitað auka umferðina yfir vetrartímann en eðlilegt er að Condor byrji á sumrinu. Þetta stóra flugfélag er í tengslum við mikinn fjölda ferðaþjónustufyrirtækja sem þegar eru byrjuð að bóka hjá okkur hér á Austurlandi næsta sumar. Í staðinn fyrir að þetta fólk komi í gegnum Keflavík þá mun það koma beint hingað til Egilsstaða. Auðvitað er þetta áætlunarflug og hver sem er getur bókað flug,” segir María. 

Hún segir að það skipti þá sem starfrækja hótel og gististaði mjög miklu máli að dvöl gestanna fyrir austan lengist, ekki þurfi þá að skipta daglega á rúmum. Þetta eigi líka eftir að hafa áhrif á fjárfesta. Nú fái fólk meiri trú á svæðinu og ný tækifæri í uppbyggingu skapist. „Við finnum mikinn áhuga og margir hafa samband við okkur hjá Austurbrú varðandi tækifæri í ferðaþjónustu.” 

Sjálfstraustið var að bila

María viðurkennir að hafa verið orðin dálítið lítil í sér, farin að efast um að eitthvað stórt gæti gerst. Sjálfstraustið hafi ekki alltaf verið til staðar. 

„Maður er alltaf að reyna að fá stórt fólk til að trúa á þessa möguleika. En það er ekki fyrr en núna sem við finnum alvöru kraft bæði frá yfirvöldum og ferðaskrifstofum.” Fólk sé hætt að spyrja mæðulega: Hvað er hægt að gera þarna? Nú komi ferðaskrifstofurnar til þeirra og biðji þau um að koma endilega á beinu flugi í landshlutann. 

Ætla má að flugtengingarnar við Akureyri og Egilsstaði lækki kostnað margra Þjóðverja og annarra af Íslandsferð. Þau sem hafa viljað vera lengur fyrir norðan og austan en algengast hefur verið hjá þeim sem hafa þurft að aka frá Keflavík eiga nú kost á að minnka aksturinn, fljúga beint norður eða austur og fara betur yfir minna svæði. 

Hringvegurinn er vinsæll en verkefni íslenskrar ferðaþjónustu síðustu áratugina hefur ekki síst verið að fá ferðafólkið til að fara út af honum, koma við á fleiri og fáfarnari stöðum. Með flugi Condor til Akureyrar og Egilsstaða opnast alveg nýir möguleikar. Ferðamaðurinn getur flogið til Akureyrar en heim aftur frá Egilsstöðum.

„Ég held að það geti orðið til nýr hringvegur, ný vinsæl leið. Lenda á Egilsstöðum, dvelja þar um slóðir einhverja daga, aka síðan til Akureyrar, fara þaðan Norðurstrandarleiðina og aftur til baka. Mér sýnist þetta borðleggjandi.”

Þroskastökk eftir harkið

En eru innviðir til staðar á Austurlandi til að taka við meiri umferð beint inn á svæðið? 

„Gistinýtingin er þegar góð yfir sumarið en hefur verið miklu minni á vorin og haustin. Mikil gróska er fyrir austan, margir byggðu upp þjónustu og afþreyingu í faraldrinum. Það má segja að þetta sé stökk í þroska. Fólk hefur ekki þorað að stökkva af stað. Nú blasir mjög ögrandi verkefni við ferðaþjónustufyrirtækjum hér og þau verða að standa í lappirnar, hafa trú á þessu. Við þurfum öll að standa saman. Ég held að innviðirnir séu til staðar. Við eigum mikið af vannýttum innviðum. En við munum fara af stað með mikla vöruþróun og ræða við þær ferðaskrifstofur sem sýna áhuga – ekki síst varðandi það hvað gera megi yfir vetrartímann.”

Áhuginn er það mikill hjá þýsku ferðaskrifstofunum að það hefur verið hægt að tengja þær beint við ferðaþjónustufyrirtækin fyrir austan og norðan. En það er mikil vinna framundan fyrir starfsfólk Austurbrúar, Markaðsstofu Norðurlands, og annara sem koma að skipulagi og aðstoð við ferðaþjónustuna. María segir að þau þurfi að fara á ferðasýningar og fundi í Þýskalandi og taka á móti blaðamönnum. Allt verði lagt í sölurnar. „Ferðaskrifstofurnar sem selja munu flest sætin finnst gott að Austurbrú og Markaðsstofa Norðurlands séu til staðar til að tengja þær við þjónustuaðila og til að miðla upplýsingum um hvaða möguleikar séu fyrir hendi.”

Ferðaþjónustan fyrir norðan og austan fær þessa þýsku vítamínsprautu næsta sumar og María viðurkennir að þetta séu kærkomin tíðindi.

„Það var farið að reyna á seigluna í fólki. Þetta er búið að vera hrikalegt hark. Margir hafa þurft að sjá um allt sjálfir en geta nú ráðið til sín fólk. Það sýnir auðvitað áhugann á svæðinu að þetta stóra flugfélag, Condor, velji að hefja Íslandsflug með því að velja Akureyri og Egilsstaði en ekki Keflavík. Það er eiginlega með ólíkindum. Þetta er stórt skref fyrir okkur.”

Nýtt efni

Það er mat Standard & Poor's að Grikkland hafi loks bundið enda á skulda- og bankakreppuna sem reið yfir landið fyrir 15 árum síðan. Hin gríska skuldakreppa gekk nærri evrusamstarfinu á sínum tíma en úr var að Grikkland fékk 50 milljarða króna lán úr stöðugleikasjóði Evrópusambandsins. Sú upphæð fór í einskonar gríska bankasýslu sem lagði …

Umtalsverður samdráttur hefur orðið í vínútflutningi Nýsjálendinga að undanförnu. Verð hefur lækkað og minna selst á mikilvægustu markaðssvæðum. Áhugi á nýsjálenskum vínum náði hámarki um mitt árið 2023 en leiðin hefur legið niður á við síðustu mánuði, eins og tölur frá uppgjörsárinu sem lauk í júní sýna glögglega. Verðmæti nýsjálenskra vína minnkaði um 12,2% frá …

Stjórnendur Play gera ekki ráð fyrir að fjölga þotunum í flotanum á næsta ári en það er engu að síður þörf á nýjum flugmönnum. Play hefur því auglýst til umsóknar lausar stöður flugmanna og rennur fresturinn til að sækja um út í byrjun desember. Ekki liggur fyrir hversu margir verða ráðnir samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu. …

Nýr forsætisráðherra Frakklands, Michel Barnier, er ekki sáttur við stöðu innflytjendamála í landinu og vill herða tökin. Endurspeglar hann þar stöðugt háværari umræðu í landinu um fjölda innflytjenda. Meginþunginn í stefnuræðu Barnier á þinginu fyrr í vikunni var á stöðu efnahagsmála, hvernig stöðva þyrfti skuldasöfnun, skera niður útgjöld og hækka skatta. En hann ræddi líka …

Í lok október þyngist flugumferðin milli Íslands og Bretlands enda fjölmenna Bretar hingað til lands yfir vetrarmánuðina. Breska flugfélagið Easyjet hefur verið stórtækast í flugi milli landanna tveggja á þessum árstíma en félagið hefur nú skorið niður áætlunina þónokkuð frá síðasta vetri. Til viðbótar við þennan niðurskurð á Keflavíkurflugvelli þá hefur Wizz Air fellt niður …

Toyota Motor hefur ákveðið að fresta framleiðslu rafbíla í Bandaríkjunum vegna þess að dregið hefur úr eftirspurn. Viðskiptavefur Nikkei greinir frá því að framleiðslan hefjist ekki fyrr en á fyrri hluta árs 2026. Framleiðandinn á að hafa greint birgjum nýverið frá því að það drægist að hefja smíði fyrsta rafbílsins, þriggja sætaraða sportjeppa, í verksmiðju …

Hið konunglega hollenska flugfélag, KLM, boðar aðgerðir til að ná niður kostnaði til að vega upp á móti almennum verðlagshækkunum. Í tilkynningu segir að þetta hafi í för með sér samdrátt í fjárfestingum, einfaldara skipulag, aukna kröfu um framleiðni og almennar sparnaðaraðgerðir. „Flugvélarnar okkar eru fullar en framboðið er enn þá minna en það var …

Á miklum óvissutímum fyrir botni Miðjarðarhafs vegna stríðsátaka, sem hafa mikil áhrif á flugsamgöngur, tilkynnir bandaríska flugfélagið Delta Air Lines um samstarf við Saudia Airlines, þjóðarflugfélag Sádi-Arabíu. Markmiðið er að fjölga ferðamöguleikum á milli Bandaríkjanna og Miðausturlanda. Um er að ræða samkomulag (codeshare agreement) um að deila áætlunum og útgefnum flugmiðum. Viðskiptavinir geta þá framvegis …