Samfélagsmiðlar

Condor breytir öllu

Mikill fögnuður er í ferðaþjónustunni fyrir norðan og austan vegna ákvörðunar þýska flugfélagsins Condor um að hefja flug næsta sumar til Akureyrar og Egilsstaða.

María Sand Hjálmarsdóttir á Egilsstaðaflugvelli

„Þetta breytir öllu,” segir María Sand Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri ferðamála hjá Austurbrú. „Búið er að vinna að þessu lengi. Við notuðum heimsfaraldurinn til að skoða hlutina upp á nýtt. Þetta hefur verið mikil vinna síðastliðið ár með þýskum ferðaskrifstofum og flugfélögum. 

Við fundum að mikill áhugi var á því að fljúga til fleiri staða en Keflavíkur. Í augum margra ferðaskrifstofanna skipti ekki öllu máli hvar hringferðin um landið hæfist”

Condor er þriðja stærstu flugfélag í Þýskalandi, með höfuðstöðvar í Frankfurt, og mjög vinsælt meðal ferðafólks. Í maí á næsta ári bætist Ísland við sem áfangastaður félagsins og verða vikuleg flug til Akureyrar og Egilsstaða út október.

Túristi er staddur á Egilsstöðum, þar sem fólk er spennt yfir tíðindunum. Það var tómlegt á vel búnum Egilsstaðaflugvelli – en það breytist á næsta ári. Flug Condor gæti að auki dregið meiri umferð þangað austur og til Akureyrar.

Nýir möguleikar skapast

„Condor er mjög traust og gott félag og þetta á eftir að skapa ótrúlega mikla möguleika. Tugir milljóna manna eru á svæðinu í kringum Frankfurt. 81 flugfélag notar flugvöllinn í Frankfurt og þaðan er flogið til nærri 300 flugvalla um allan heim. 

Við viljum auðvitað auka umferðina yfir vetrartímann en eðlilegt er að Condor byrji á sumrinu. Þetta stóra flugfélag er í tengslum við mikinn fjölda ferðaþjónustufyrirtækja sem þegar eru byrjuð að bóka hjá okkur hér á Austurlandi næsta sumar. Í staðinn fyrir að þetta fólk komi í gegnum Keflavík þá mun það koma beint hingað til Egilsstaða. Auðvitað er þetta áætlunarflug og hver sem er getur bókað flug,” segir María. 

Hún segir að það skipti þá sem starfrækja hótel og gististaði mjög miklu máli að dvöl gestanna fyrir austan lengist, ekki þurfi þá að skipta daglega á rúmum. Þetta eigi líka eftir að hafa áhrif á fjárfesta. Nú fái fólk meiri trú á svæðinu og ný tækifæri í uppbyggingu skapist. „Við finnum mikinn áhuga og margir hafa samband við okkur hjá Austurbrú varðandi tækifæri í ferðaþjónustu.” 

Sjálfstraustið var að bila

María viðurkennir að hafa verið orðin dálítið lítil í sér, farin að efast um að eitthvað stórt gæti gerst. Sjálfstraustið hafi ekki alltaf verið til staðar. 

„Maður er alltaf að reyna að fá stórt fólk til að trúa á þessa möguleika. En það er ekki fyrr en núna sem við finnum alvöru kraft bæði frá yfirvöldum og ferðaskrifstofum.” Fólk sé hætt að spyrja mæðulega: Hvað er hægt að gera þarna? Nú komi ferðaskrifstofurnar til þeirra og biðji þau um að koma endilega á beinu flugi í landshlutann. 

Ætla má að flugtengingarnar við Akureyri og Egilsstaði lækki kostnað margra Þjóðverja og annarra af Íslandsferð. Þau sem hafa viljað vera lengur fyrir norðan og austan en algengast hefur verið hjá þeim sem hafa þurft að aka frá Keflavík eiga nú kost á að minnka aksturinn, fljúga beint norður eða austur og fara betur yfir minna svæði. 

Hringvegurinn er vinsæll en verkefni íslenskrar ferðaþjónustu síðustu áratugina hefur ekki síst verið að fá ferðafólkið til að fara út af honum, koma við á fleiri og fáfarnari stöðum. Með flugi Condor til Akureyrar og Egilsstaða opnast alveg nýir möguleikar. Ferðamaðurinn getur flogið til Akureyrar en heim aftur frá Egilsstöðum.

„Ég held að það geti orðið til nýr hringvegur, ný vinsæl leið. Lenda á Egilsstöðum, dvelja þar um slóðir einhverja daga, aka síðan til Akureyrar, fara þaðan Norðurstrandarleiðina og aftur til baka. Mér sýnist þetta borðleggjandi.”

Þroskastökk eftir harkið

En eru innviðir til staðar á Austurlandi til að taka við meiri umferð beint inn á svæðið? 

„Gistinýtingin er þegar góð yfir sumarið en hefur verið miklu minni á vorin og haustin. Mikil gróska er fyrir austan, margir byggðu upp þjónustu og afþreyingu í faraldrinum. Það má segja að þetta sé stökk í þroska. Fólk hefur ekki þorað að stökkva af stað. Nú blasir mjög ögrandi verkefni við ferðaþjónustufyrirtækjum hér og þau verða að standa í lappirnar, hafa trú á þessu. Við þurfum öll að standa saman. Ég held að innviðirnir séu til staðar. Við eigum mikið af vannýttum innviðum. En við munum fara af stað með mikla vöruþróun og ræða við þær ferðaskrifstofur sem sýna áhuga – ekki síst varðandi það hvað gera megi yfir vetrartímann.”

Áhuginn er það mikill hjá þýsku ferðaskrifstofunum að það hefur verið hægt að tengja þær beint við ferðaþjónustufyrirtækin fyrir austan og norðan. En það er mikil vinna framundan fyrir starfsfólk Austurbrúar, Markaðsstofu Norðurlands, og annara sem koma að skipulagi og aðstoð við ferðaþjónustuna. María segir að þau þurfi að fara á ferðasýningar og fundi í Þýskalandi og taka á móti blaðamönnum. Allt verði lagt í sölurnar. „Ferðaskrifstofurnar sem selja munu flest sætin finnst gott að Austurbrú og Markaðsstofa Norðurlands séu til staðar til að tengja þær við þjónustuaðila og til að miðla upplýsingum um hvaða möguleikar séu fyrir hendi.”

Ferðaþjónustan fyrir norðan og austan fær þessa þýsku vítamínsprautu næsta sumar og María viðurkennir að þetta séu kærkomin tíðindi.

„Það var farið að reyna á seigluna í fólki. Þetta er búið að vera hrikalegt hark. Margir hafa þurft að sjá um allt sjálfir en geta nú ráðið til sín fólk. Það sýnir auðvitað áhugann á svæðinu að þetta stóra flugfélag, Condor, velji að hefja Íslandsflug með því að velja Akureyri og Egilsstaði en ekki Keflavík. Það er eiginlega með ólíkindum. Þetta er stórt skref fyrir okkur.”

Nýtt efni

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …