Samfélagsmiðlar

Óttast græðgisvæðinguna

Hörður Sigurbjarnarson og fjölskylda hafa starfrækt hvalaskoðunarfyrirtækið Norðursiglingu á Húsavík frá 1995. Hann óttast græðgisvæðingu í ferðaþjónustu.

Hörður Sigurbjarnarson hjá Norðursiglingu

Saga Norðursiglingar hófst með því að Knörrinn var keyptur og siglt var á þessum gamla, hljóðláta og eyðslugranna eikarbát um Skjálfanda. Farþegar fyrsta sumarið voru 1.760. Síðar bættist við bátur með 19. aldar reiða og þrjú önnur seglskip. 

„Íslendingar höfðu lítið eða ekkert sinnt strandmenningunni,” segir Hörður. Nú er það að breytast og Húsavík orðin höfuðborg hvalaskoðunar á landinu. 

Norðursigling á í dag tólf hvalaskoðunarbáta og eru ekki áform um að fjölga bátunum. Starfsmenn eru 50 til 60, auk þeirra sem vinna á veitingastaðnum Gamla Bauk, en rekstur staðarins er leigður út. Norðursigling er í grunninn fyrirtæki í eigu fjölskyldu Harðar og Friðriks Sigurðssonar en lífeyrissjóðir eru meðal hluthafa. 

Hvalaskoðunarferðir eru góð söluvara

Velgengnin kom Herði ekki á óvart. 

„Þetta var svo góð vara,” segir hann og talar eins og nútímalegur markaðsmaður um þá kosti sem ferðaþjónusta hans býður. Þetta er „vara” í skilningi ferðaþjónustunnar. „Það sem af er sumri er þetta mesti fjöldi sem við höfum fengið. Við erum ekki með Rússa, Indverja eða aðra Asíumenn en við erum ofarlega á blaði hjá evrópsku ferðafólki og svo eru það Bandaríkjamennirnir.” 

Auðvitað er magnað að eftirspurn eftir hvalaskoðun sé orðin meiri en hún var 2019. Hörður segir að auk þess sem ferðirnar séu orðnar þekktar sem góður og þrautreyndur ferðakostur þá skýrist velgengnin líka af því hversu vel hefur tekist að selja ferðir um Demantshringinn og að Norðurstrandarleiðin hafi verið vel markaðssett. 

En eigum við ekki að kvarta og biðja um fleiri ferðamenn beint inn á svæðið? 

„Ég nenni því ekki,” segir Hörður. „Akureyringar fá það sem þeir biðja um en við Þingeyingar aldrei það sem við biðjum um.” 

Nú hlæjum við báðir.

Ferðaþjónustan fari ekki sömu leið og sjávarútvegurinn

„Breyting” er ekki nógu stórt orð til að lýsa samanburði á því sem var 1995 og stöðunni núna. Hörður játar því. Við sameinumst um að það megi tala um byltingu. 

„Það er merkilegt að árið 2013 voru gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu orðnar meiri en af sjávarútvegi. Á sama tíma og hagnaðurinn af sjávarútveginum er innleystur ofan í örfáa vasa sjáum við að ferðaþjónustan er orðinn atvinnuvegur sem ber uppi gjaldeyrisöflun. Þá segi ég: Við skulum passa okkur. Græðgisvæðingin má ekki taka þetta yfir eins og gerðist með fiskimiðin.”

Hörður er ekki sáttur við hvernig komið er fyrir sjávarútveginum – hvernig arðurinn af honum hefur lent í fárra höndum. 

Ferðaþjónustan á ekki að fara sömu leið og sjávarútvegurinn, segir frumkvöðullinn á Húsavík. En hann hefur áhyggjur af fleiru, t.d verðlaginu: 

„Þetta er alltof dýrt. Við erum svakalega dýr. Verðlagið i landinu er skelfilegt. Maður veit ekki hvað markaðurinn þolir þetta háa verðlag lengi. Það dregur ekki úr fólki á þessu sumri því ferðaþorstinn er mikill. Svo vinnur það líka með Íslendingum að þeir Evrópubúar sem vilja hugsa um umhverfismálin sjá að það er frekar stutt að fljúga hingað. Þess vegna hefði ég viljað sjá meira af beinu flugi til Egilsstaða.”

Ekki nauðsynlegt að hafa opið allt árið

Hörður er bjartýnn á framtíð ferðaþjónustunnar. „Ef Íslendingar vanda sig við uppbyggingu innviðanna og gæta sín á fjöldatúrismanum, að þetta verði ekki Feneyjar. En aftur þetta: Ég óttast græðgisvæðingu.”

Hann telur að það verði ekki fjölskyldufyrirtækin sem leiði græðgisvæðinguna, heldur miklu frekar stórfyrirtækin. 

Mikið er talað um mikilvægi heilsársreksturs í ferðaþjónustu en Hörður tekur ekki undir að það sé eitthvert lögmál. „Ef sjávarútvegurinn hefði lagað sig að árstíðasveiflum værum við betur sett. Ef við ætlum að búa til færiband sem er alltaf á sama hraða alveg sama hvaða árstíð er þá gengur það ekki upp. Einhvern tímann verður fólk að hvíla sig. Þetta þurfa ekki endilega að vera 12 mánuðir ársins þar sem allt er á fullu.” 

Tímabilið hjá Norðursiglingu hefst í byrjun mars og endar í lok nóvember. Skýringin á því er auðvitað sú að lítið sést til hvala í mesta myrkrinu. 

Að vera í sátt við náttúruna

Hörður vill að við fylgjum takti náttúrunnar – og aftur varar hann við græðginni: 

„Það er t.d. alveg galið að í skjóli stjórnvalda séu enn veiddir hvalir til að þjóna hagsmunum eins manns, fjölskyldu sem fékk einkaleyfi frá ríkinu á tiltekinni auðlind.

Þetta er náttúrulega alveg galið.

Maður sér að græðgin er alls staðar við völd hjá okkur. Græðgin er líka svo vernduð af einhverri rannsóknaelítu, t.d. er búið að drepa nánast allan rjúpnastofninn með leyfi fræðimanna, sem gefa ráðherra álit og hann þorir svo ekki annað en að fylgja því áliti af ótta við óvinsældir. Sama er að segja um þessi svæði, Eyjafjörð og Skjálfanda, setja þarf reglur um umgengni. Þetta ættu að vera þjóðgarðar.”

Hörður segir metnaðarleysi eða getuleysi lýsa stjórnvöldum í þessum málum sem varða náttúruna og nýtingu hennar. 

„Við hreykjum okkur af því að vera mest og best á mörgum sviðum, þar á meðal í umhverfismálum af því að við eigum svo mikið af endurnýjanlegu rafmagni. En þetta varð ekki til vegna umhyggju okkar fyrir náttúrunni heldur af því að það er ódýrara að vinna rafmagn með þessum hætti en að nýta jarðefnaeldsneyti. Samt erum við meðal þeirra sem eru með hæsta kolefnisspor í heiminum á hvern íbúa!” 

Þá er komið að því að kveðja Hörð Sigurbjarnarson á pallinum heima hjá honum og horfa yfir Húsavíkurhöfn – sem iðar af hvalaskoðunarbátum og túristum. 

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …