Samfélagsmiðlar

„Áhugaleysi hjá ríkisvaldinu“

„Þetta er ekki góður tími til að hækka álögur," segir Rannveig Grétarsdóttir, eigandi hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar og stjórnarformaður Íslenska ferðaklasans. Hún gagnrýnir harðlega andvaraleysi stjórnvalda gagnvart ferðaþjónustunni. „Fókusinn er farinn," segir hún og óttast að Ísland verði orðið of dýrt haustið 2023.

Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Eldingar

Þegar staðið er og horft niður Ægisgarð við Reykjavíkurhöfn á góðviðrisdegi sést gjarnan ferðafólk hópast fyrir framan nýju söluskálana að kanna þá kosti sem eru í boði eða að það er á leið í ferðabátana sem liggja við landfestar. Hvalaskoðun á Faxaflóa og bátsferðir um Sundin blá virðist líflegur bissniss. Elding – Hvalaskoðun er leiðandi fyrirtæki í sinni grein, með mikil umsvif í Reykjavík og á Akureyri, auk þess að starfrækja Viðeyjarferjuna. Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Eldingar, á og rekur fyrirtækið með bróður sínum Sveini Ómari, sem er yfirvélstjóri og annast viðhald bátaflotans, sem er stór. Þau hafa verið í þessum rekstri frá árinu 2000 og þurft að þola marga ágjöf eins og aðrir í ferðaþjónustunni – nú síðast heimsfaraldur. Fyrir nokkrum árum var sala á fyrirtækinu undirbúin, og það ferli raunar langt komið, en þau ákváðu að falla frá þeim áformum. Eldingar-fjölskyldan var ekki tilbúin að selja.

Söluskáli Eldingar við ÆgisgarðMynd: ÓJ

„Þetta var ekki spurning um verð heldur um það hvað við vildum gera næstu árin. Okkur þótti þetta ekki vera rétti tímapunkturinn.”

Sumarið hefur verið þokkalegt, segir Rannveig, sérstaklega á Akureyri, en þar er tímabilið stutt. Í Reykjavík hefur bókunum fjölgað eftir því sem liðið hefur á sumarið. Hvalaskoðunarferðir kosta sitt en veik króna hjálpar upp á. Þá er mikill ferðavilji til staðar.

„Það hefur í raun verið erfitt að anna eftirspurn með þann mannskap sem við höfum. Svo hefur olíuverð hækkað. Það eru margar áskoranir.”

Miðar seldir í hvalaskoðun – Mynd: ÓJ

Það segir sem sagt ekki alla söguna að sjá margt ferðafólk niðri á Ægisgarði. 

„Nei, það segir ekki alla söguna. Þetta er öðruvísi en verið hefur. Við sitjum að hluta til uppi með gamalt verð. Búið var að gera samninga fyrir tímabilið en við vissum ekkert hvað myndi gerast. Við náðum að hækka aðeins í sumar, sem kemur á móti því sem búið var að semja um, en olían hefur hækkað um 30 prósent. Olían er okkar stærsti kostnaðarliður ásamt launum, sem við megum gera ráð fyrir að hækki í komandi kjarasamningum. Það hafa verið miklar kostnaðarhækkanir en tekjurnar ekki fylgt með. Þetta er eitthvað sem við þurfum að vinna okkur í gegnum.”

Elding er ekki ein um hituna í hvalaskoðunar- og sjávarnáttúruferðum úr Reykjavíkurhöfn, þar sem við Rannveig erum nú stödd um borð í Hafsúlu. Samkeppni hefur farið vaxandi. Rannveig segir að samkeppni sé auðvitað af hinu góða, allir þurfi að vanda sig meira, fleiri auglýsi og hvalaskoðunarferðirnar fái meiri athygli, en hætta sé á að menn verðleggi sig of lágt og eigi ekki fyrir kostnaði.

„Ég er ekki að segja að þetta sé raunin með þá sem eru að keppa við okkur en þetta gerist því miður. Fólk reynir að koma sér inn í greinina með lágt verð en áttar sig kannski ekki á öllum kostnaðarliðum. Þetta er auðvitað bara eitt verkefnanna sem við vitum af þegar við rekum fyrirtæki.”

Rannveig er auðvitað hugsi út af áhrifum utanaðkomandi þátta, eins og olíukostnaði, launahækkunum og verðbólgunni, en segir annað vekja mestar áhyggjur í hennar starfsgrein.

„Það alvarlegast sem hefur verið að gerast í sumar er að vegna þess hversu hratt var farið af stað eftir Covid-19 með lítinn mannafla þá höfum hjá hvalaskoðunarfyrirtækjunum verið að keyra fólkið okkar út. Þetta hefur komið í ljós í ágúst. Maður heyrir í bransanum að fólk er sent í frí af því að sumarið var erfitt. Það var ekki létt að stíga upp úr heimsfaraldrinum, þegar þú misstir kannski vinnuna ekki einu sinni heldur tvisvar, og fara svo hratt af stað í vor. Síðasta sumar var mikið að gera í stuttan tíma en nú samfelld pressa í þrjá mánuði. Það er rosaleg þreyta í fólki.”

Það er ýmislegt sem hafa má áhyggjur af í rekstri fyrirtækis í ferðaþjónustu eins og í öðrum greinum. Eitt af því sem hangir yfir er að endurgreiða þarf stuðningslánin sem ríkisvaldið beitti sér fyrir í heimsfaraldrinum meðfram því að veita styrki. Frestað var endurgreiðslum en að óbreyttu þarf að byrja að greiða af lánunum í vetur.

„Það mun reyna á. Hvernig eiga fyrirtækin að greiða af stuðningslánum á 18 mánuðum, standa við aðrar skuldbindingar og taka síðan á sig launahækkanir, hækkun á verði olíu? Þá er eins gott að veltan aukist! Þetta verður úrlausnarefni næstu mánaða, að gera áætlanir um þetta og semja við bankana. Vonandi framlengir ríkið ábyrgðir sínar á lánunum svo bankarnir geti gert sitt.”

Lánin og styrkirnir komu hvalaskoðunarfyrirtækjunum eins og mörgum öðrum í gegnum heimsfaraldurinn. Án þessara aðgerða hefði þurft að selja eignir – en þá hefðu fyrirtækin ekki verið tilbúin í endurreisnina sem hófst í sumar, segir Rannveig. 

„Stærstu áskoranir snúa að starfsfólkinu og auðvitað rekstrarumhverfinu almennt. Hættan er sú að það sama gerist nú og gerðist 2016. Þegar vel fer að ganga og eftirspurn er mikil þá hækka álögur, skattarnir hækka. Sami söngurinn hefst: Hvernig getum við fengið meira út úr hverjum ferðamanni? En þegar allt hækkar þá kemur að lögmálinu um framboð og eftirspurn. Það eru fleiri lönd en Ísland að velja á milli. Þetta er ekki góður tími til að hækka álögur. Við þurfum lengri tíma til að jafna okkur eftir Covid-19, sjá hvernig vinnst úr þessu áður en teknar eru ákvarðanir um frekari gjaldtökur. Það er alveg á hreinu.”

Bátar Eldingar í Reykjavíkurhöfn – Mynd: ÓJ

Rannveig er samt bjartsýn á möguleikana í hennar grein, hvalaskoðunar- og sjávarnáttúruferðum, en hún er einmitt forsvarsmaður Samtaka hvalaskoðunarfyrirtækja. Sóknarfæri séu víða, ekki síst á Austfjörðum og Vestfjörðum. Í þessum landshlutum sé sannarlega hægt að fjölga einhvers konar bátsferðum til náttúruskoðunar vegna mikils fuglalífs og fjölda hvala. Ferðamannastraumur sé vaxandi og tækifærin mörg. Mikilvægt sé hinsvegar á litlum stöðum úti á landi að heimamenn sjálfir eigi frumkvæði.

„Þetta er bara þannig bransi. Þú verður að leggja líf og sál í þetta, vera vakinn og sofinn í rekstrinum. Þannig var þetta á Húsavík, fyrirtækin byggð upp af sjómönnum, fólki sem þekkir til aðstæðna og hefur gaman af þessu og trú á að starfsemin komi sér vel fyrir samfélagið þar sem það býr.”  

Á Faxaflóa hefur mikið sést af hval síðustu sumur. Friðunarmörk voru færð út, hrefnuveiðar bannaðar innan þeirra, og hvort sem því var að þakka eða ekki þá fór strax að bera meira á hval, segir Rannveig. Raunar hafa engar hrefnuveiðar verið stundaðar síðustu þrjú árin. Svo ekki trufla þær hvalaskoðunina. Það eina sem spillir myndinni, að mati hvalaskoðunarfólks eins og Rannveigar í Eldingu, er að hvalveiðibátar Kristjáns Loftssonar dragi dauðar langreyðar þvert yfir friðunarsvæðið og inn í Hvalfjörð. Athygli vakti fyrr í sumar þegar Rannveig gagnrýndi hvalveiðarnar og þá linkind sem stjórnvöld sýna gagnvart Hval hf. – einkum afstöðu ráðherra ferðamála. Hún stendur við þau orð.

„Fyrir mér eru hvalveiðar eitthvað sem tilheyrir gamla tímanum. Þetta eru gamaldags veiðar sem alþjóðasamfélagið umber ekki. Veiðarnar sem slíkar hafa ekki bein áhrif á okkar ferðir en þær hafa það á söluna hér á Íslandi og orðspor okkar. Ég veit að hvalveiðarnar valda vandræðum í utanríkismálum okkar og á starf allra sem eru að flytja út vörur. Við í ferðaþjónustunni erum mikið úti á markaðnum að selja og fáum viðbrögð fólks. Það væri auðvitað frábært ef við gætum bara verið stolt af sögunni og Kristján Loftsson breytti hvalstöðinni í ferðamannastað.”

Hvalur 9 kemur leggst að bryggju í Hvalfirði með langreyði í sumarMynd: ÓJ

Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, ákvað að standa ekki með ferðaþjónustunni gegn hvalveiðunum og lýsti efasemdum um að þær hefðu áhrif

„Já, ég held að hún hafi bara ekkert fyrir sér í því. Hún segir veiðarnar byggðar á vísindalegum rannsóknum. Því er ég ekki sammála. Ég held að hún hafi bara ekki kynnt sér málin nóg vel.”

Áhrifin af hvalveiðum á stöðu hvalaskoðunar eru ekki skýr. Þau koma fram sem erfiðleikar, í óþægilegum skilaboðum, mótmælum og staðhæfingum um að fólk ætli ekki að koma á meðan hvalveiðar séu stundaðar hér og að hvalaskoðunarfyrirtækin eigi að vera enn harðari í sinni afstöðu.

„Þetta dregur úr gleðinni og er óþarft vesen. Svo er það náttúrulega sérkennilegt að sjá því haldið fram að með því að skjóta hvali getum við síðan veitt meiri fisk. Því miður halda margir að þetta sé svoleiðis, skilja ekki mikilvægi hvala fyrir lífríkið og í baráttunni við að binda kolefni.”

Ferðamálaráðherrann efast um að hvalveiðar skaði ferðaþjónustuna en myndi það gagnast greininni með beinum hætti ef Íslendingar lýstu því yfir að þeir væru hættir hvalveiðum, það væri bannað að skjóta hvali?

Já, það myndi gagnast okkur að sjálfsögðu. Það væri mikilvægt skref í umhverfis- og sjálfbærnimálum. Ísland væri að taka afstöðu. Stjórnvöld hafa ekki hleypt hvalaskoðunarfyrirtækjunum að borðinu hjá Alþjóða hvalveiðiráðinu, sem fjallar þó um hvalaskoðun og áhrif þeirra á hvali í heiminum. Ísland viðurkennir hinsvegar ekki að hvalaskoðun sé nýting. Okkar yfirlýsta stefna er að eina nýtingin á hval sé að skjóta hann. Þetta er gamaldags hugsunarháttur. Það sem verður að breytast er þessi hugsun innan stjórnkerfisins – að það eru til fleiri leiðir í að nýta hval en sú að drepa hann, og að það er kannski ekki besta leiðin til nýtingar.” 

Við hvalaskoðun þarf að vanda sig í umgengni við hvalina og íslensku hvalaskoðunarfyrirtækin hafa sett sér reglur um það hvernig eigi að nálgast dýrin, trufla þau sem minnst, hversu margir bátar megi koma að í einu. Auðvitað eru það beinharðir hagsmunir hvalaskoðunarfyrirtækjanna að fara að öllu með gát, trufla ekki hvalina að óþörfu eða raska lífríkinu. Svo er það hluti af umhverfisstefnu að lágmarka losun frá hvalaskoðunarbátunum. Rannveig segir að á síðustu árum hafi allra leiða verið leitað til að gera einmitt það, draga úr olíunotkun og minnka útblástur með íblöndunarefnum og betri vélum, stillingum á hraða og öðru. Í framtíðinni sé hinsvegar líklegt að hvalaskoðunarbátarnir noti gas í stað olíu – ekki rafmagn. Þá vantar innviði hér á Íslandi til að þessi umskipti geti orðið. 

Við horfum loks vítt yfir sviðið, ræðum stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi, og hvernig greinin þarf ævinlega að sanna tilverurétt sinn. Ferðaþjónusta virðist ekki hátt skrifuð í stjórnkerfinu þó að engin grein afli meiri gjaldeyristekna þegar allt er nokkurn veginn eðlilegt í heiminum.

„Fyrirtækin þurfa að ná áttum og ákveða hvernig þau ætla að halda áfram. Við getum ekki keyrt á sama fólkinu eins og við höfum gert í sumar – og viljum það heldur ekki. Ná verður nokkurs konar jafnvægi. Auðvitað gerum við það, notum næstu mánuði til að finna út úr hvernig við mönnum reksturinn áfram. Um leið viljum við halda í fólkið sem við höfum. Svo er það að koma rekstrinum í eðlilegt horf, borga af öllum þessum lánum, huga að umhverfismálum og fleiru. Það er úrvinnslutímabil framundan.“

Rannveig snýr sér síðan að ríkinu:

„Það er þetta áhugaleysi hjá ríkisvaldinu,“ segir hún og dæsir.

„Okkur líður þannig að fókusinn sé farinn. Nú sé ferðaþjónustan komin á fullt, erfiðleikarnir að baki, við búin að jafna okkur. En þetta gerist ekki á þremur mánuðum. Farið var í stefnumótun og mikla vinnu fyrir þremur árum en ekki er komin nein aðgerðaáætlun! Við höfum mjög kallað eftir aðgerðaáætlun en fáum lítil svör. Engin merki eru um það yfir höfuð að verið sé að vinna slíka áætlun.”

Þið virðist ekki tekin alvarlega.

„Nei, við erum ekki tekin alvarlega. Ennþá er það þannig að ekki er litið á okkur sem alvöru atvinnugrein. Auðvitað fannst manni að allir tækju okkur alvarlega þegar staðan var sú að ferðaþjónustan var orðin sú grein sem aflaði mestra gjaldeyristekna, síðan duttum við auðvitað niður í Covid-19, en við verðum það aftur. “

Þú lýsir eftir meiri alvöru hjá stjórnvöldum gagnvart ferðaþjónustunni?

„Já, meiri alvöru og staðfestu.”

En hvernig verður veturinn?

„Ég held að veturinn verði mjög góður, næsta sumar fínt, en svo gætum við lent í vandræðum af því að þá verðum við orðin of dýr. Allir með uppsafnaða þörf til að koma til Íslands horfa þá til annarra landa. Við lendum alltaf í því að verða of hrokafull – halda að við séum eina landið í heiminum.” 

Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …