Samfélagsmiðlar

„Menn verða að horfa lengra“

Íslensk ferðaþjónusta hefur náð sér betur á strik en víða þekkist segir aðalhagfræðingur Íslandsbanka. Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir tækifærin liggja út á landi en þá verði stjórnvöld að vinna með fyrirtækjunum. Það eigi til dæmis við um að halda veginum að Dettifossi opnum.

Horft yfir Pollinn af Leirunum. Kaldbakur í fjarska

„Útlendingurinn heldur áfram að bera okkur björg í bú,” sagði Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, á fundi bankans um efnahagshorfurnar, sem haldinn var í Hofi á Akureyri í gær. Þetta er fyrsti slíki fundurinn sem bankinn heldur norðan heiða eftir heimsfaraldur. Jón Bjarki vísaði þar til þess að á sama tíma og einkaneysla í landinu færi minnkandi og fyrirtækin og hið opinbera pökkuðu í vörn í fjárfestingarmálum myndu útflutningur og erlendir ferðamenn halda okkur á floti.

Fyrir höndum er hægari vöxtur, segir bankahagfræðingurinn, sem benti þó á að flestir gætu vænst þess að hafa það álíka gott og nú næstu tvö árin.

Jón Bjarki Bentsson – Mynd: ÓJ

Jón Bjarki segir ferðaþjónustu hér á landi hafa náð sér betur á strik eftir heimsfaraldur heldur en víðast þekktist. „Háönnin 2022 var í megindráttum svipuð og 2019,” sagði hann og bætti við að engin merki væru um bakslag vegna orkukreppunnar í Evrópu og óvissuástands í heimsmálum. Áfram væri áhugi á Íslandsferðum. Hinsvegar óttuðust margir þann möguleika að snögg breyting yrði á þessu. Veturinn væri því hjúpaður óvissu. Hinsvegar væri ekkert sem benti til annars en að áætlanir stæðust um að 1,7 milljónir ferðamanna kæmu til landsins á þessu ári.

Morgunn á Oddeyri. Hof í baksýn og strætó í bið við höfuðstöðvar BSO – Mynd: ÓJ

„Það merkilega í því er að hver þessara ferðamanna er að skila okkur meira en þeir gerðu fyrir faraldur.” Ferðafólkið hafi dvalið lengur og bandarískir túristar fyllt það tómarúm sem ferðafólk frá Asíu og Evrópulöndum skildi eftir. Bandaríkjamenn geri líka vel við sig , leigi bíla og sækist eftir mat og afþreyingu af dýrari sortinni. „Tekjurnar í ferðaþjónustunni verða því svipaðar í ár og þær voru 2019.” 

Aðalhagfræðingur Íslandsbanka viðurkennir að það sé erfitt að ráða í það við núverandi aðstæður hversu margir láta eftir sér að fara til Íslands – því vissulega væri viljinn til þess fyrir hendi. Þá gætum við Íslendingar heldur ekki tekið á móti miklu fleirum. Á háönninni hafi hótel á höfuðborgarsvæðinu og víðar verið fullbókuð.

„Það var nánast uppselt í júlí og ágúst,” sagði Jón Bjarki og benti á að ekki lægju fyrir áform um mikla uppbyggingu á hótelum umfram það sem verið væri að klára. Þó dæmi væru um uppbyggingu myndi töluverður tími líða þar til umtalsverðar breytingar yrðu á framboði á gistirými. Þá vantaði mannskap til að anna meiri fjölda ferðafólks. Að þessu samanlögðu gerir Íslandsbanki ráð fyrir að ferðamenn verði 2,0 milljónir á næsta ári og 2,2 árið 2024.

Jón Bjarki sagðist gera sér grein fyrir að margir innan greinarinnar væru bjartsýnni en þetta. Hinsvegar væri erfitt að sjá fyrir sér hraðari fjölgun miðað við núverandi aðstæður. Aðeins tvennt gæti breytt stöðunni: Jafnari dreifing ferðafólks yfir árið og meiri dreifing um allt land. „Það væri mikið gæfuspor að geta dreift ferðafólki betur um landið – bæði til að minnka álag á innviði á tilteknum svæðum og til að auka stöðugleika í greininni. 

Arnheiður Jóhannsdóttir – Mynd: ÓJ

En þá var komið að Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands, að reifa stöðu ferðamála á Norðurlandi á þessum morgunfundi Íslandsbanka. Hún sagðist bjartsýnni en Jón Bjarki og vísaði til þess að Norðurland hefði ekki verið uppselt. Þar væri rými fyrir fleira ferðafólk. 

Túristi settist niður með Arnheiði eftir morgunfundinn í Hofi og ræddi horfurnar á Norðurlandi.

„Ég er bjartsýn og held að í flestum spám sé verið að vanmeta stöðuna. Þetta byggi ég á upplýsingum frá ferðaskrifstofum og því sem við heyrum frá ferðamönnum. Síðan höfum við flugfélögin sem stýra því hversu margir koma til Íslands. Þau spyrja í sjálfu sér ekkert fyrirfram um það hvort hótel séu fyrir hendi. Það stefnir bæði í mikið flug um Keflavíkurflugvöll og líka hingað til Akureyrar. Þetta mun breyta stöðunni umtalsvert hjá okkur.”

Unnið er að viðbyggingu flugstöðvar á Akureyrarflugvelli – Mynd: ÓJ

Á morgunfundinum í Hofi sagði Arnheiður góðar horfur á að flogið verði í beinu flugi til átta til tíu áfangastaða. Þetta gæti þýtt 600 til 700 flugferðir í millilandaflugi um Akureyri með 40 til 50 þúsund farþega árið 2023. Framkvæmdastjórinn er augljóslega að tala um eitthvað meira en flug Niceair og Condor í vor.

„Já, við erum að tala um tengiflug Icelandair, sem þýðir að þú getir flogið um Keflavíkurflugvöll og beint til Akureyrar. Það gæti skilað okkur tugum þúsunda farþega frá Evrópu og Ameríku. Þetta byrjar í mars á næsta ári. Ef farþeginn kemur beint á Norðurland leiðir það til þess að gistinóttum fjölgar. Nú eru þær u.þ.b. tvær en gæti fjölgað í átta að meðaltali. Gistináttafjöldinn eykst verulega. Svo eru önnur flugfélög og ferðaskrifstofur að skoða málin varðandi flug til Akureyrarflugvallar. Það er ekkert staðfest sem ég get sagt frá – en jú, það er fleira framundan.”

Arnheiður talaði á fundinum í Hofi um bullandi tækifæri í hótelbyggingum á Akureyri. Hún segir að nú þegar sé skortur á gistirýmum yfir háönnina. 

„Við sjáum fram á að næsta sumar verði umfram eftirspurn eftir hótelplássi. Það er kominn ákveðinn tappi vegna þess að okkur vantar meira gistipláss. KPMG er að vinna að greiningu á þessu sem kynnt verður í nóvember. Þar á að koma fram hver þörfin er og hvernig hægt er að sjá fyrir sér þá nýtinguna framundan. Enn er líka skortur á vinnuafli. Okkur hefur ekki tekist að fá til baka alla útlendingana sem við þurfum til að halda ferðaþjónustunni á Norðurlandi gangandi. Það er klárt að það eru nokkrar fyrirstöður sem við þurfum að losna við.”

Athygli vakti á fundinum hversu einarðlega framkvæmdastjóri Markaðsskrifstofu Norðurlands gagnrýndi þá kerfislegu vangetu sem hindrar störf norðlenskrar ferðaþjónustu. Þessi gagnrýni beinist ekki síst að Vegagerðinni: 

„Það er galið að loka veginum að Dettifossi.”

Þarna endurómar Arnheiður það sem Túristi heyrði í sumar hjá fólki í ferðaþjónustu á Norðausturlandi. 

„Menn verða að horfa lengra – horfa norður og austur – sjá öll tækifærin sem eru þar. Ísland er ekki uppselt. Það er ekki staðan úti á landi. Við eigum áfangastaði sem geta tekið á móti miklum fjölda til viðbótar – ef opið er þangað. Ríki og sveitarfélög eru auðvitað stærstu ferðaþjónustuaðilarnir og verða að fara að vinna með fyrirtækjum í greininni. Þess vegna segi ég: Það er galið að loka veginum að Dettifossi, einu helsta náttúruundri álfunnar. Veginum er lokað þegar snjóa fer. Það er enginn fyrirsjáanleiki. Þetta er auðvitað galið út frá því að af þessum sökum er ekki hægt að markaðssetja Dettifoss og líka út frá öryggisástæðum. Ferðafólk keyrir að fossinum á litlum bílum og áttar sig ekki á hættunni. Við eigum mjög erfitt með að kynna erlendu ferðafólki núverandi stöðu á þessu svæði – í Demantshringnum.”

Er eitthvað verið að vinna í því að fá þessu breytt?

„Já, við erum að ræða við ráðherra samgöngu- og ferðamála varðandi þessi mál og ég bíð svara. Vonandi verður þetta leyst í vetur.“ 

Þú nefndir líka þörfina á bættri aðstöðu fyrir ferðafólks á leið sem nú er kynnt og er sannarlega áhugaverð – Norðurstrandarleiðinni. 

„Þar er mikil innviðauppbygging framundan. Leiðin er aðgengileg. Markmiðið er að skapa meiri verðmæti fyrir svæðið. Ég legg mikla áherslu á það. Við þurfum að sjá til þess að hver ferðamaður skili okkur sem mestu. Það gerum við með því að fá hann til að dvelja lengur, fá hann til að koma aftur, fá hann til að kaupa þjónustu á svæðinu.

Í stað fyrir að segja honum einfaldlega að skreppa í göngutúr á eigin vegum eigum við að taka hann í fangið og veit honum góða þjónustu. Þannig sköpum við virði fyrir ferðamanninn og okkur.” 

Horft til Kaldbaks og út Eyjafjörð frá Svalbarðsströnd – Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …

Almennu hlutafjárútboði Play lauk í gær og bárust tilboð upp á 105 milljónir króna en lagt var upp með að selja nýtt hlutafé fyrir allt að 500 milljónir króna. Þátttaka almennings í hlutafjáraukningu Play í nóvember 2022 var heldur ekki í takt við framboð. Þá lögðu stærstu hluthafar félagsins því til 2,3 milljarða króna. Það …

Bandarísk flugfélög hvetja Biden-stjórnina í Bandaríkjunum til að gefa ekki út fleiri flugleyfi fyrir kínverska keppinauta þeirra í flugi milli Kína og Bandaríkjanna. Vísað er til samkeppnishindrana sem flugmálayfirvöld í Kína beita erlend flugfélög. Reuters-fréttastofan greinir frá þessu. Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna gaf það út í febrúar að kínversk flugfélög gætu boðið allt að 50 flugferðir á …

Kynnisferðir, sem starfa undir vörumerkinu Icelandia, hafa gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Dive.is. Fyrir áttu Kynnisferðir 51% hlut í félaginu á móti Tobias Klose. Dive.is sérhæfir sig í köfunar- og snorklferðum í Silfru auk þess að bjóða upp á námskeið í köfun. Félagið leggur mikið uppúr upplifun viðskiptavina enda er það í efsta …

„Ég myndi halda að við værum stærsta flugfélagið fyrir þá sem eru að fljúga frá Íslandi," sagði Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, á kynningarfundi hlutafjárútboðs félagsins, á þriðjudaginn. Máli sínu til stuðnings sýndi hinn nýi forstjóri og fyrrum stjórnarformaður flugfélagsins glæru þar sem sjá mátti hvernig hlutdeild Play á heimamarkaði hefur aukist og farið upp …

Árið 2018 kynnti netverslunin Amazon nýjung á bandarískum smásölumarkaði: Amazon Just Walk Out-Stores. Verslunin var kynnt sem mikil bylting og í rauninni væri lausn Amazon framtíðarlausn fyrir aðrar smásöluverslanir. Maður skannaði símann sinn þegar gengið var inn í Just Walk Out-verslun Amazon, valdi þær vörur sem maður girntist, setti þær í innkaupakörfu og síðan gat …

MYND: ÓJ

Fyrir heimsfaraldur voru flugsamgöngur milli Íslands og Ítalíu litlar, takmörkuðust lengst af við sumarferðir til Mílanó. Á þessu hefur orðið mikil breyting því nú er hægt að fljúga héðan allt árið til Rómar og Mílanó og á sumrin eykst úrvalið enn frekar.  Ítölsku ferðafólki hefur fjölgað verulega í takt við þessar auknu samgöngur og var …

Sala á hreinum rafbílum frá þýska bílaframleiðandanum BMW jókst um 41 prósent á fyrsta fjórðungi ársins. Með söluaukningunni er vægi rafbíla hjá BMW, sem einnig framleiðir Mini, komið upp í 20 prósent hjá þýska framleiðandnum en hlufallið var 15 prósent fyrir ári síðan samkvæmt frétt Bloomberg. Á sama tíma hefur orðið samdráttur í sölu á …