Lissabon er mögnuð borg og þar er margt að sjá og upplifa en auðvitað er líka freistandi fyrir þau sem þangað koma að skoða dálítið meira af landinu í leiðinni, fara í suðurátt að sólarströndum Algarve eða í norður til annarrar stærstu borgar landsins, Porto.
Það tekur núna rétt um þrjár klukkustundir að ferðast með hraðlest milli borganna tveggja, frá Oriente-stöðinni í Lissabon á Campanhã-stöðina í Porto og fargjaldið fyrir fullorðinn aðra leið er 56 evrur. Nú er boðuð mikil breyting á lestarsamgöngum með nýrri hraðlestartengingu – eigum við að segja ofurlest – sem tekin verður í notkun eftir átta ár, eða 2030, ef áætlanir standast. Þá getur farþeginn þeyst á um 300 kílómetra hraða milli Lissabon og Porto, nær ekki að láta sér leiðast að ráði því ferðin mun aðeins taka klukkutíma og korter. Síðan er ætlunin að lengja þessa lestartengingu upp til Vigo á Spáni, en spænska ríkisstjórnin kynnti einmitt nýlega fyrirætlanir um nýjar hraðlestarlínur sem tengja eiga höfuðborgina Madríd við strandborgirnar Valencia og Alicante. Þau áform koma í framhaldi af nýrri hraðlestartengingu milli Barselóna og Madrídar. Ný framfaraöld er því hafin í lestarsamgöngum á Íberíuskaga.
Áætlaður kostnaður við nýju hraðlestartenginguna milli Lissabon og Porto er um 5 milljarðar evra. Gert er ráð fyrir að lestin komi við í Leiria, Coimbra, Aveiro og Gaia. Eins og áður sagði á síðan að halda áfram í norðurátt og tengjast hraðlestarkerfi Spánar. Markmið portúgölsku ríkisstjórnainnar er að auka samkeppnishæfni landsins með bættum samgöngum – draga að meiri erlenda fjárfestingu, en um leið er verið að bregðast við áskorunum í loftslagsmálum og styrkja byggð í landinu öllu. Þessi væntanlega hraðlestartenging meðfram Atlantshafsströnd Portúgals á örugglega eftir að vekja áhuga ferðafólks, sem þá getur ferðast á enn þægilegri máta en nú milli Lissabon og Porto – og bætt við skoðunarferð um vínræktardalinn magnaða Douro, bakgarð Porto.
Loftslagsmálin hafa aukið mjög áhuga og vilja ríkisstjórna víða um heim til að efla lestarsamgöngur. Hækkanir á verði eldsneytis eftir innrás Rússa í Úkraínu hefur ýtt undir viðleitni til að nýta betur lestarsamgöngur. Frakkar bönnuðu stutt innanlandsflug ef komast má með lest milli viðkomandi staða á innan við tveimur og hálfri klukkustund. Þá heppnaðist með ágætum tilraun Þjóðverja í sumar með því að bjóða lestarferðir á níu evrur.
Ekki þarf að hafa mörg orð til að sannfæra Portúgala um mikilvægi aðgerða vegna loftslagsbeytinga. Þjóðin er minnt á það nú á hverju sumri með miklum hitum og skógareldum að bregðast verður skjótt við.