Samfélagsmiðlar

„Vinnum með fólk en ekki baunadósir“

Félag leiðsögumanna beitir sér af meiri hörku en áður gagnvart fyrirtækjum sem brjóta kjarasamninga. „Þessi fyrirtæki eru með einbeittan brotavilja, hlunnfara sitt fólk. Það bitnar um leið á viðskiptavinunum," segir Friðrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar. Hann ræðir við Túrista um hálfrar aldar baráttu félags leiðsögumanna fyrir viðurkenningu á mikilvægi starfa þeirra. Hann segir að það vanti virkara vinnustaðaeftirlit í ferðaþjónustunni.

Friðrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar

Árið 1972 var síldarævintýrinu lokið og skuttogaraöld hafin á Íslandi. Þetta var einsleitt samfélag 207 þúsund íbúa, atvinnulífið fábreytt – fáir útlendingar á ferli. Aðeins 68 þúsund ferðamenn komu til landsins þetta ár en þeim hafði fjölgað á hverju ári frá 1958. Þeir heimamenn sem tóku að sér að liðsinna erlendum ferðahópum voru gjarnan kallaðir túlkar eða fararstjórar, stundum bara gædar, en starfsheitið leiðsögumaður vann á. Flestir sinntu öðrum störfum meðfram leiðsögn, þetta var sumarvinna kennara og fleiri stétta. Þau voru innan við 30 sem komu saman á Hótel Loftleiðum 6. júní 1972 og stofnuðu Félag leiðsögumanna. Nú starfa um 900 manns innan Leiðsagnar, félags leiðsögumanna. Þessi félagafjöldi endurspeglar þær breytingar sem orðið hafa í íslenskri ferðaþjónustu en ef vel ætti að vera þyrftu leiðsögumenn að vera enn fleiri. Fyrir Covid-19-faraldurinn komu 2,3 milljónir ferðamanna til landsins og ekki er ólíklegt að um 1,7 milljónir komi á þessu ári – fljótlega verði fjöldinn svipaður og fyrir heimsfaraldur, ef heimsmálin og efnahagsástand leyfa.  

Ferðafólk á leið í skoðunarferð um Jökulsárlón – Mynd: ÓJ

Ferðaþjónusta var fremur léttvæg í þjóðarbúskapnum 1972 en hálfri öld síðar er hún orðin meginstoð. Félag leiðsögumanna er samt enn í tilvistarbaráttu, leitar fullrar viðurkenningar á mikilvægi starfa leiðsögumanna, að þörfin á menntun sé að fullu viðurkennd af hálfu hins opinbera og fyrirtækja sem starfa í greininni – og ekki síst að menntunin verði metin til launa.

Friðrik Rafnsson er formaður Leiðsagnar. Við sammæltumst um að hittast á kaffihúsi við Reykjavíkurhöfn. Miklu færri ferðamenn eru á rölti framan við gömlu verbúðirnar við Geirsgötu en í sumar. Komið er haust í ferðaþjónustunni og leiðsögumenn hafa loks tíma til að undirbúa 50 ára afmælisfögnuðinn, sem haldinn verður 12. nóvember í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur. Við Friðrik fáum okkur kaffi og spjöllum fyrst vítt og breitt um starf leiðsögumannsins og þær breytingar sem orðið hafa á síðustu árum. 

„Um það leyti sem ég byrjaði leiðsögn horfðu menn angistarfullir á tölurnar um fjölgun ferðafólks – hversu rosalegt það væri ef ferðamannafjöldinn færi fram úr íbúatölu landsins. Hvernig í ósköpunum yrði ráðið við það,” segir Friðrik og brosir við tilhugsunina. Þegar hann fór sína fyrstu túra sem leiðsögumaður á Íslandi, árið 1988, komu 128 þúsund ferðamenn til landsins. Íbúafjöldinn var 247 þúsund. Aldamótaárið 2000 komu tæplega 301 þúsund ferðamenn en íbúar landsins töldust 279 þúsund. Það var þó ekki fyrr en 2011 að ferðafólki á Íslandi fer að stórfjölga ár frá ári – alveg fram að heimsfaraldri.

Göngufólk undirbúið í Skaftafelli fyrir jökulgöngu – Mynd: ÓJ

„Ég hef eingöngu unnið við leiðsögn meðfram þýðingum í samfellt í 12 ár, frá 2010. Ég fer mikið um landið og í meginatriðum sýnist mér að vel gangi. Erlent vinnuafl er á hótelum og veitingastöðum af því að við ráðum augljóslega ekki við þetta sjálf, en það er mjög sjaldan að einhver vandræði skapist eða misskilningur verði. Miðað við það hversu mikil þenslan hefur verið þá gengur allt ótrúlega vel.”

Mikil fjölgun ferðafólks hefur auðvitað þýtt að fjölbreyttari flóra fólks kemur til landsins.

„Þetta er mjög mismunandi fólk – frá fáfróðu en mjög jákvæðu fólki, yfir í sérfræðihópa. Með skemmtiferðaskipunum kemur eldra fólk af ýmsu þjóðerni. Það hefur stundum lesið eitthvað um landið en veit lítið. Þykir landið spennandi. Því kemur á óvart hversu kalt er hér að sumrin. Yngra fólkið er miklu frekar vel að sér, kemur vegna þess að það hefur heyrt einhverja íslenska músík eða séð Game of Thrones. Margir koma mjög vel undirbúnir og þess vegna er eins gott að við leiðsögumenn förum sæmilega rétt með staðreyndir. Við fáum gesti sem gera miklar kröfur, jarðfræðinga og aðra sérfræðihópa. Ég var með hóp belgískra arkitekta í vor og þurfti að undirbúa mig mjög vel, hafa alla byggingarsöguna á hreinu. En þó ferðafólkinu fjölgi, og þá um leið eykst auðvitað fjölbreytnin í samsetningunni, er meginstefið samt alltaf það sama: Aðdáun á víðernum og villtri náttúrunni. Fólki líður eins og það hafi lent á tunglinu, er yfirleitt algjörlega heillað. Fólk kemst oft í annarlegt ástand. Stórborgarfólki þykir stórmerkilegt að ganga niður Almannagjá á malarstíg. Öll skilningavit eru þanin.”  

Leiðsögn fyrir framan Hallgrímskirkju – Mynd: ÓJ

Friðrik er sprottinn úr bókmenntaheiminum, mikilvirkur þýðandi úr frönsku. Hvað segir hann um þekkingu túristanna á söguarfi Íslendinga. Þekkja þeir Gunnar og Njál, Egil Skallagrímsson og þá kappa alla?

„Ég verð að hryggja lesendur Túrista með því að segja frá því að fólk verður oft tómlegt til augnanna þegar maður talar um Gunnar og Njál á Suðurlandi og Egil á Vesturlandi. Almennt þekkja erlendir ferðamenn ekki Íslendingasögurnar. Þetta er samt hluti af okkar arfleifð og handritin eru á heimsskrá UNESCO. Ég fer auðvitað stuttlega í gegnum menningarsögu landsins. Það er skylda.”

Tekst bókmenntamanninum þá ekki að vekja líf í augnsvip ferðafólksins með fyrirlestri um menningararfinn?

„Jú, það hressist þegar Björk og Arnaldur Indriðason koma til sögunnar.”

Leiðsögumaður með hóp á Geysissvæðinu – Mynd: ÓJ

Hvaða kostir prýða góðan leiðsögumann?

„Maður verður náttúrulega að hafa gaman af því að ferðast og eiga samskipti við fólk, vilja þjóna fólki og miðla af þekkingu sinni um land og menningu. Til viðbótar má nefna kurteisi og yfirvegun. Ég held líka að eyrun séu stórlega vanmetin líffæri í þessum bransa – að kunna að hlusta, skynja stemmninguna. Við hverju býst fólk? Hvernig er hópurinn?”

Þegar ferðamannastraumurinn til landsins var stríðastur fyrir heimsfaraldur vantaði töluvert upp á að við ættum nógu marga menntaða og reynda leiðsögumenn til að þjóna þessum fjölda. Þá var kallað til ófaglært fólk með litla reynslu til að hlaupa í skarðið.

Við Friðrik erum búnir með kaffið og höfum lokið þessari upphitun í spjallinu. Komið er að því að ræða það sem brennur heitast á leiðsögumönnum á hálfrar aldar starfsafmælinu.

Kaffið búið – Mynd: ÓJ

„Þegar allt rauk í gang aftur í vor komu veikleikar í samningum okkar í ljós. Margir reyndir leiðsögumenn höfðu fundið önnur störf, fastráðið sig á mun betri kjörum á öðrum vettvangi. Það hefur valdið miklum vandræðum í sumar hversu erfitt hefur verið að fá þjálfað og vant fólk til starfa. Framundan er að gera nýja kjarasamninga. Hækka verður launin til að fá fólkið til baka og bæta eins og hægt er ráðningarsambönd til að skapa meiri festu. Við vitum að þetta er enn að stórum hluta árstíðabundinn bransi. Því breytum við ekki auðveldlega en við þurfum að færast í þá átt að þetta verði fastráðningarsamband. Síðan vinnum við að svokölluðu raunfærnismati, sem felur í sér að þau sem ekki hafa fagmenntun, en vantar lítið upp á hana, fái viðurkenningu. Þá hvetjum við erlenda starfsmenn sem vinna við leiðsögn að hafa samband við félagið til að það geti aðstoðað þá við að sækja sér viðbótarmenntun á námskeiðum.”

Ekki liggja á lausu upplýsingar um það hversu margir erlendir leiðsögumenn koma til Íslands með ferðahópum eða hversu hátt hlutfall ferðahópa sem fara um landið nýtur leiðsagnar menntaðra og þjálfaðra leiðsögumanna. 

„Metnaðarfyllstu og bestu fyrirtækin láta okkur vita og lýsa sínum þörfum en því miður eru líka dæmi um hið gagnstæða, eins og hjá bílstjórum. Ég heyrði nýlega af bandarískum leiðsögumanni sem kom til landsins í fyrsta skipti og var á leið með hóp í kringum landið. Hann hafði ekki hugmynd um hvert hann var að fara en treysti algjörlega á bílstjórann að rata rétta leið og segja honum frá því hvar komið yrði við næsta dag. Þetta var í gegnum íslenskt rútufyrirtæki. Bílstjórinn var settur í vonlausa stöðu, gert að sinna starfi sem honum er ekki ætlað. Hér er ekki aðeins um að ræða gæðamál heldur líka öryggismál. Auðvitað þarf að efla vinnustaðaeftirlit í ferðaþjónustunni, fylgjast betur með því hvernig staðið er að verki. Við bendum lögreglu, skattayfirvöldum og eftirlitsaðilum á það sem okkur þykir undarlegt, bæði varðandi leiðsögn og akstur. Á ferðinni eru rútubílstjórar sem lenda undir ratsjánni, þykjast vera að aka með vinahópa en eru augljóslega ökuleiðsögumenn. Það er kolólöglegt.”

Leiðsögumaður segir frá landnáminu undir styttunni af Ingólfi Arnarsyni – Mynd: ÓJ

Hvað er í húfi ef leiðsögn er ekki í lagi. Eru það vörusvik?

„Settu þig í spor farþega sem er með leiðsögumann sem aldrei hefur aður komið til landsins. Já, þetta eru vörusvik. Þú ert kominn til landsins og treystir því að ökumaðurinn sé með öll réttindi og leiðsögumaðurinn viti nákvæmlega hvert hann er að fara, sé starfi sínu vaxinn. Aðstæður á meginlandi Evrópu eru allt aðrar. Hér erum við á hjara veraldar, allra veðra er von. Öryggisþátturinn verður sífellt mikilvægari. Þá er margt sem varðar náttúruvernd sem huga þarf að. Leiðsögumaðurinn biður fólk að ganga ekki yfir mosaþemburnar. Hlutverk leiðsögumanna hér er ólíkt því sem þekkist víða í kringum okkur.”

Varla er það einungis hlutverk Leiðsagnar að sjá til þess að þessir hlutir séu í lagi?

„Því miður þykir okkur vera dálítið andvaraleysi í þessum málum. Eftirlit af hálfu skattayfirvalda, lögreglunnar og Vinnueftirlitsins er því miður ekki nógu gott. Við höfum unnið að því með Samtökum atvinnulífsins og Samtökum ferðaþjónustunnar að bætt verði úr en vilji til að hafa skýrar og framkvæmanlegar reglur er ekki til staðar. Menn skjóta sér á bak við hugtök eins og athafnafrelsi – og nefna Evrópureglugerðir. Þetta er í betra horfi í löndunum í kringum okkur. Ef pólitískur vilji stendur til þess að frumskógarlögmálin gildi þá verður það þannig áfram. Ég trúi hinsvegar orðum Lilju Alfreðsdóttur, ferðamálaráðherra, og fleiri, að standa eigi vel að málum í þessari atvinnugrein sem orðin er ein af burðarstofum hagkerfisins. Við eigum að setja áveðinn gæðastaðal, gera kröfur til leiðsögumanna, erlendra og innlendra. Við viljum aðhald frá yfirvöldum. Það verður að efla menntun og þjálfun, ekki bara meðal leiðsögumanna, heldur almennt í ferðaþjónustunni.

Ísland er dýrt land og það mun ekki breytast. Huga á vel að gæðunum. Forríku fólki sem kemur hingað ofbýður að kaupa bjórsull á tvöþúsundkall en það væri sátt við að borga sömu fjárhæð fyrir góðan bjór. Sama á við um leiðsögn og annað í ferðabransanum. Gæðamálin eru númer eitt. Mér þykir sem margir séu of bundnir við Excel-skjalið, hugsi aðeins í hagtölum. Við vinnum með fólk en ekki baunadósir. Ef við stöndum okkur vel, eins og við raunar gerum oftast, þá getur ferðaþjónustan blómstrað vel og lengi.”

Framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans sagði einmitt í viðtali við Túrista að margir einblíndu um of á efnahagslega þáttinn, ætluðu bara að græða en pældu ekkert í því hvort samfélagið eða umhverfið biðu skaða af, en sjálfbærni væri ekki náð nema jafnvægi ríkti milli efnahags, samfélags og umhverfis. Tekur þú undir að huga verði betur að heildarmyndinni?

„Algjörlega. Það var talað um gullæði áður en Covid-19 skall á. Mikilli þenslu fylgdu vaxtarverkir. Menn afsökuðu gullgrafaraháttinn með því að segja að það væri bara svo erfitt að gera alla hluti vel. Við leiðsögumenn vorum mörg að vona að faraldurinn gæfi mönnum tilefni til að hugsa sinn gang, andrými gæfist til að endurskipuleggja málin. Jafnvel væri gott ef þau fyrirtæki sem hefðu staðið sig illa færu bara á hausinn, einhverjir jólasveinar hyrfu af sviðinu. Því miður hefur það ekki gerst. Mér sýnist sama mynstur haldast. Auðvitað ber að taka fram að 90 eða 95 prósent fyrirtækjanna standa sig vel, borga umsamin laun og gera allt eins og vera ber, eru metnaðarfull og sinna starfsfólki sínu og viðskiptavinum eins vel og þau geta. Svo eru nokkrir lukkuriddarar, fyrirtæki sem við stöndum í stappi við þessa dagana af því að við tökum harðar á þessum málum en áður. Þessi fyrirtæki eru með einbeittan brotavilja, hlunnfara sitt fólk og það bitnar um leið á viðskiptavinunum, farþegunum sem við þjónum. Því miður er ákveðinn hópur sem heldur þessu áfram. Eitt þessara fyrirtækja stærði sig af því nýverið að hafa endurskipulagt reksturinn og tekist að skera niður launakostnað um 30 prósent. Það var meginatriðið í því sem viðkomandi hrósaði sér af. Það þykir okkur ekki benda til mikils metnaðar gagnvart starfsfólki. Leiðsögn er annars vegar fagfélag, tæki til að efla menntun og fagmennsku félagsmanna, og hinsvegar stéttarfélag sem stendur vörð um hagsmuni félagsmanna í launamálum. Það yrði lítið úr ferðaþjónustunni ef ekki væru leiðsögumenn. Við höfum þess vegna farið fram af miklu meiri hörku en áður – ekki síst í ljósi þess að sumir virðast ætla að brjóta leikreglurnar áfram. Við héldum að þetta væri að færast í betra horf en úr því að svo er ekki höfum við þurft að kalla til lögfræðinga og taka fast á málum.”

Hvernig birtist þetta? Eru viðkomandi fyrirtæki hreinlega ekki að borga ekki réttmæt umsamin laun fyrir unna vinnu?

„Þetta birtist með ýmsum hætti. Sum fyrirtækin vilja ekki verkefnaráða fólk á tilgreindum launum heldur bjóða einhliða upp á að fólk gerist verktakar en reikna ekki með launatengdum gjöldum svo vinnan standi undir sér. Þetta er svokölluð gerviverktaka. Þarna er um að ræða einhliða ákvörðun: Annað hvort tekur þú þetta eða færð ekkert. Önnur fyrirtæki reikna út einhvers konar meðallaun og reyna að halda þeim sem allra lægstum, búa til eigin viðmið. Reynt er að komast hjá því að virða kjarasamninga en sem betur fer þá sætta Samtök atvinnulífsins sig ekki við að sínir félagsmenn hagi sér svona. Fyrirtæki utan samtakanna halda hinsvegar áfram að brjóta samninga. Þá er ekki önnur leið fær en að höfða mál.”

Maður skyldi ætla að samningsstaða ykkar á markaðnum væri sterk vegna skorts á leiðsögumönnum, allir fengju a.m.k. greitt samkvæmt kjarasamningum?

„Jú, það er ekki síst þess vegna sem þetta kemur manni á óvart. Í tveimur fyrirtækjanna sem um ræðir eru stjórnendur hreinlega á móti stéttarfélögum, hafa jafnvel bannað sínu fólki að ganga í Leiðsögn. Það er auðvitað lögbrot. Þetta eru auðvitað undantekningar. Við erum almennt í góðri stöðu og hér eru fyrirtæki sem yfirbjóða í vant fólk.”

Kajakróðri með leiðsögn lokið á Ísafirði – Mynd: ÓJ

Leiðsögumenn hafa í áratugi barist fyrir því að starfið verði lögverndað. Ætti að gera kröfur um að enginn sinni leiðsögn án tilskilinna viðurkenndra réttinda?

„Þetta hefur lengi verið baráttumál en er ekki á dagskrá núna. Vinna er í gangi um samræmingu menntunar leiðsögumanna. Yfirvöld vilja frekar fara þá leið og benda á að vindar séu ekki hagstæðir fyrir þá sem vilja lögvernda starfsgreinar. Frekar sé verið að létta á slíkum hömlum. Inn í þetta spila reglur um atvinnuréttindi innan EES. Við leggjum hinsvegar áherslu á að lögverndin sé um leið neytendavernd. Kannski eru aðrar leiðir mögulegar, eins og t.d. samræmd menntun og þess vegna eitthvert gæðaeftirlit ferðaþjónustunnar. Þetta mætti allt skoða. Aðalatriðið í okkar augum er að François frændi, eða bara hver sem er, geti ekki tekið næstu vél til Íslands og farið hring um landið sem leiðsögumaður. Það er stórhættulegt.”

Þú skiptir árinu í tvennt, sinnir leiðsögn á sumrin og þýðir síðan á veturna bókmenntir á frönsku yfir á íslensku. Þú ert menntaður í Frakklandi, heldur sterkum tengslum þangað, með hugann til hálfs í frönskum bókmenntum og menningu. Verður Íslendingurinn í þér engu að síður stoltur og upprifinn af því að skynja hrifningu útlendinga á Íslandi?

„Já, algjörlega. Þau gera stundum grín að mér, sérstaklega þegar kemur gott veður eftir rigningarkafla. Þá verður maður óskaplega stoltur. Nú nýlega var ég með bandarískan lúxushóp á Langjökli. Öllu var til tjaldað. Þarna um miðjan september vorum við í blankalogni, í 10 til 15 stiga hita. Við leiðsögumennirnir sögðum í sífellu: Sjáið hvað er gott veður! Ferðafólkið sagðist vera búið að átta sig á því að það væri heppið. Óþarfi væri að tönnlast á því. 

Svo lengi sem maður er stoltur af landinu sínu, hefur gaman af samskiptum við fólk og er að gefa af sér, þá helst maður í þessu.”

Mynd: ÓJ
Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …