Tvöfalt fleiri ferðamenn komu til Japans í október en í september. Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, tilkynnti þann 11. október að landamærin yrðu opnuð að nýju og að vonir væru bundnar við að ferðaþjónustan hleypti nýju lífi í daufan efnahag landsins og styrkti jenið gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Gengi jensins hefur ekki verið lægra skráð gagnvart bandaríkjadollar í um aldarþriðjung.
Á þessu ári hefur aðeins ein og hálf milljón erlendra ferðamanna og gesta komið til Japans í samanburði við tæplega 32 milljónir árið 2019. Ríkisstjórnin hafði áætlað að 40 milljónir kæmu 2020, þegar Ólympíuleikar fóru fram fyrir tómum húsum. Nú eru ferðamenn sem sagt að koma hægt og rólega til baka. Hálf milljón kom í október og búist er við enn fleirum á næstu mánuðum.
Ríkisstjórn Japans hefur ákveðið að verja stórum fjárhæðum til að efla ferðþjónustuna að nýju. Starfsfólki fækkaði mjög í heimsfaraldrinum og erfitt hefur reynst að fá það til baka. En ekki er búist við því að ferðaþjónustan nái sér að fullu á strik fyrr en kínversku ferðamennirnir snúa aftur. Níu og hálf milljón kínverskra ferðamanna kom til Japans á metárinu 2019, eða um þriðjungur heildarfjölda ferðafólks í landinu. Enn gildir ferðabann í Kína vegna sóttvarnaráðstafana.
Mikill stígandi hefur hinsvegar verið í bókunum á Japansferðum meðal annarra asískra ferðamanna en Kínverja. Þar munar mest um ferðamenn frá Suður-Kóreu, Tævan, Hong Kong og Singapúr. Þetta fólk eygir ekki síst tækifæri á að nýta sér lágt gengi jensins.
Japanskar hafnir verða opnaðar fyrir komum skemmtiferðaskipa í mars næstkomandi og eru þegar bókaðar komur 166 skipa.