Ferðamálastofa birtir upplýsingar um rekstur í ferðaþjónustunni og undirgreinum hennar, eftir landsvæðum og stærð fyrirtækja, á árunum 2015 til 2021 á Mælaborði ferðaþjónustunnar.
Á myndinni að ofan, sem Ferðamálastofa lætur fylgja með tilkynningu sinni, sést hversu mikill viðsnúningur varð í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja á síðasta ári. Hlutfall EBITDA af tekjum hefur ekki verið hærra frá árið 2015 og hlutfall hagnaðar eftir skatta var hærra í fyrra en metárin 2018 og 2019, þegar mun fleiri ferðamenn komu til landsins.
Þar sem fjármagnsgjöld voru fryst 2021, sem leiðir af að nettóhagnaður inniheldur ekki greiðslu þeirra, þá setur Ferðamálastofa fyrirvara við þessa útreikninga. „Slæm skuldastaða ferðaþjónustuyrirtækja sem Ferðamálastofu hefur áður fjallað um hefur því að öllum líkindum ekki batnað,“ segir í tilkynningu.
Í gagnagrunninum eru ársreikningar tæplega tvö þúsund fyrirtækja sem skila skattframtali sínu á Íslandi. Heildarfjöldi fyrirtækja í gagnagrunni Ferðamálastofu er um 2.500.