Samfélagsmiðlar

Forstjóri Icelandair um Play: „Við áttum von á mun sterkara uppgjöri“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, telur afkomu Play á þriðja ársfjórðungi ekki vera í takt við yfirlýsingar stjórnenda keppinautarins. Hann gerir ráð fyrir hóflegum vexti hjá Icelandair á næsta ári og telur spá um mikla fjölgun ferðamanna næstu ár ekki raunhæfa.

„Það er alltaf verið að ræða kostnað við rekstur flugfélaga og auðvitað er hann gríðarlega mikilvægur. En tekjumyndunin skiptir ennþá meira máli," segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Þrátt fyrir hagnað á þriðja ársfjórðungi og mettekjur þá hafa hlutabréfin í Icelandair lækkað að undanförnu. Á sama tíma hafa bréfin í Norwegian hækkað umtalsvert. Það félag skilaði þó hlutfallslega minni rekstrarhagnaði en þið. Er Icelandair undirverðlagt?

„Við einbeitum okkur að rekstrinum fyrst og  fremst. Það eru svo margir kraftar á þessum hlutabréfamarkaði sem hreyfa verðið. Til dæmis kom tilkynning frá stjórnvöldum [um aðgerðir vegna ÍL-sjóðs, innsk. blm.] á sama tíma og við birtum uppgjörið sem hafði áhrif á markaðinn. Okkar fókus er bara á að reka fyrirtækið eins vel og við getum. Ef okkur tekst það þá höfum við ekki áhyggjur að öðru og gerum ráð fyrir að hlutabréfaverðið muni hreyfast í takt við frammistöðu félagsins. Til lengri tíma þá er það reksturinn sem ræður mestu.” 

Nú eru þið ekki lengur eina flugfélagið á íslenska hlutabréfamarkaðnum því þar er Play líka. Þau birtu uppgjör í lok síðustu viku og niðurstaðan var verri en afkomuspá félagsins gerði ráð fyrir. Kom það þér á óvart?

„Við fylgjumst auðvitað mjög vel með okkar samkeppnisaðilum og ekki síst þeim sem eru skráðir á hlutabréfamarkað. Uppgjör Play kom okkur á óvart enda finnst okkur það ekki í samræmi við upplýsingagjöf flugfélagsins, hvort sem það var í kauphöllinni eða fjölmiðlum. Við áttum von á mun sterkara uppgjöri.“

Bogi vísar meðal annars til yfirlýsinga stjórnenda Play í tengslum við birtingu uppgjörs fyrir annan ársfjórðung, þann 22. ágúst. 

„Þá voru stjórnendur Play jákvæðir varðandi næstu vikur og mánuði og tveir af þremur mánuðum uppgjörstímabilsins liðnir. Endanleg niðurstaða kom því á óvart. Þau hjá Play höfðu líka margsinnis sagt að lausafjárstaðan þann 30. júní yrði sú lægsta sem myndi sjást. Þess vegna er rekstrarniðurstaðan og sú staðreynd að nú eigi að auka hlutafé ekki í neinum takti við það sem hafði komið fram.

Á hinn bóginn vitum við það auðvitað að aðstæður fyrir flugfélög eru krefjandi. Ekki síst í Norður-Evrópu þar sem mörg flugfélög eru í ákveðnum vandræðum, t.d. Flyr í Noregi sem nýlega var stofnað. Flyr er búið að fara í gegnum tvö hlutafjárútboð og það þriðja stendur yfir. Þeir sem settu fé í það félag hafa í dag tapað næstum öllu miðað við útboðsgengið í fyrirhuguðu útboði.“

Þotur Icelandair og Play á Keflavíkurflugvelli. MYND: ÓJ

Í uppgjöri Play var lögð mest áhersla á hversu lágur kostnaðurinn er á meðan hápunkturinn hjá ykkur voru tekjurnar. Hvort vegur þyngra, kostnaðurinn eða tekjurnar?

„Það er alltaf verið að ræða kostnað við rekstur flugfélaga og auðvitað er hann gríðarlega mikilvægur. En tekjumyndunin skiptir ennþá meira máli og það sem Icelandair hefur gert til margra ára er að byggja upp mjög sterkan tekjugrunn, t.d. sölu- og dreifikerfi, sambönd á mörkuðum og við önnur flugfélög. Þetta skiptir mjög miklu máli í því umhverfi sem við erum að vinna í núna. Kostnaðurinn er að hækka hjá okkur öllum og tekjurnar verða að hækka umfram það. Hjá okkur hefur það gengið eftir sem er mikilvægt. Þeir sterku innviðir sem eru á tekjuhliðinni, og við lögðum áherslu á hlutafjárútboðinu árið 2020, eru algjörlega að skila sínu núna. 

Það væri ekkert mál að fjölga sætunum um borð og leggja niður margt af því sem við erum að gera í þjónustunni og þannig lækka einingakostnaðinn. Það myndi samt skila sér í mun verri afkomu því það passar ekki við umhverfið sem við erum í.“

Þota Icelandair við flugstöðina í Raleigh-Durham. MYND: RDU

Ein af skýringum stjórnenda Play á verri afkomu í sumar var sú að vægi tengifarþega hafi verið of mikið. Rekstur ykkar byggir að miklu leyti á þessum hópi og það er reyndar líka þannig hjá Play. Er það raunin að tengifarþegar skili minni framlegð hjá ykkur?

„Nei, alls ekki. Það er ekki hægt að horfa á alla tengifarþega með sama hætti. Í leiðakerfi Icelandair eru um 700 tengimöguleikar og það er því ekki hægt að horfa á þá alla eins. Við erum með ákveðna stöðu á vissum mörkuðum þar sem við erum einfaldlega að bjóða upp á langbestu tengingarnar og bestu vöruna. Staðan er önnur annars staðar, tökum sem dæmi London og New York. Þar er framboð af beinu flugi mjög mikið og við því í allt annarri stöðu en á ýmsum öðrum leiðum, til að mynda í Raleigh því framboð á Evrópuflugi frá því svæði er mjög lítið. 

Snúum okkur þá að næsta ári. Hversu mikið munu umsvif Icelandair aukast?

„Ég myndi gera ráð fyrir því að við verðum með hóflegan vöxt á næsta ári eins og flugáætlunin sem við erum með í sölu núna gerir ráð fyrir. Ef við horfum á rekstrarumhverfið og það sem er í gangi í heiminum þá teljum við skynsamlegt að stíga varlega til jarðar hvað þetta varðar. Verðbólga á fleygiferð á öllum okkar mörkuðum. Nú í sumar og í haust nutum við uppsafnaðrar tveggja ára ferðaþarfar en ennþá er bókunarflæðið sterkt fram á næsta ár. Við gerum samt ráð fyrir að hækkandi verðbólga og vextir og eins stríðið í Úkraínu hafi áhrif til lengri tíma þó við séum ekki farin að sjá það ennþá.” 

Því er samt spáð að næsta ár verði metár í fjölda ferðamanna og hingað komi um 2,4 milljónir og fjöldinn fari upp í 3 milljónir árið 2025. Hefurðu trú á því að þetta gangi eftir? 

„Mér finnst þetta ekki raunhæf spá. Við verðum að horfa til þess að nú í sumar og haust var mikil uppsöfnuð eftirspurn að koma fram. Margir sem höfðu ekki ferðast í 2 ár og voru að nýta uppsafnaðan sjóð til ferðalaga. Sá sjóður verður ekki til staðar næsta sumar og á sama tíma eru hagkerfi víða um heim í verri stöðu en áður. 

Í ljósi þessa þá er það mikill kostur fyrir Icelandair að vera með sterkt sölu- og dreifingakerfi á mörgum mörkuðum þannig við getum hreyft okkur til eftir því sem við sjáum að eftirspurnin er til staðar.“

Nýtt efni

Þegar heimsfaraldurinn hófst í febrúar árið 2020 lækkaði gengi hlutabréfa í ferðaþjónustufyrirtækjum hratt og hjá Icelandair fór það niður um þrjá fjórðu fyrstu mánuðina eftir að landamærum var lokað til að hefta útbreiðslu veirunnar. Gengið hélt svo áfram að lækka fram á haustið þegar efnt til hlutafjárútboðs þar sem hver hlutur var seldur á 1 …

Aðdáun Indverja á vískíi er ekki ný af nálinni. Þó var það ekki fyrr en í kringum árið 2010 að framleiðandinn Amrut, sem var stofnaður árið 1948, kynnti Indian Single Malt viskí sem átti sérstaklega góðu gengi að fagna í Skotlandi, af öllum stöðum, áður en það hélt áfram til Bandaríkjanna þar sem það mæltist …

Ein leiðin til að sjá eigin augum hversu umsvifamikil atvinnugrein ferðaþjónustan er í landinu er að fara í morgunferð austur á Þingvelli, njóta þess að vera þar nánast einn dálitla stund og hlusta á fuglana syngja, fylgjast síðan með bílaflóðinu inn á stæðin við gestastofuna á Hakinu þegar klukkan fer að ganga tíu. Þá sér …

Norska flugfélagið Norwegian gerði upp annan ársfjórðung í gær en hlutabréf í félaginu féllu um 16 prósent í síðustu viku þegar afkomuspá ársins var lækkuð. Fjárfestar tóku þó uppgjör gærdagsins vel því bréfin hækkuðu um fimm af hundraði. Niðurstaðan hljóðaði upp á 477 milljónir norskra króna í hagnað fyrir skatt eða 6,1 milljarð íslenskra kr. …

Play mun fækka flugferðunum sínum til Norður-Ameríku um fjórðung í vetur í samanburði við þann síðasta líkt og FF7 greindi frá. Til viðbótar hefur félagið gert breytingar á flugáætlun sinni til Evrópu. Í sumum tilfellum fjölgar ferðunum en þeim fækkar í öðrum. Þannig gerir áætlunin fyrir september ráð fyrir tíu prósent færri ferðum en í …

Play er með fjóra áfangastaði Bandaríkjunum og einn í Kanada og býður félagið nú upp á daglegar ferðir til þeirra allra nærri allt árið um kring. Yfir vetrarmánuðina hefur Play þó dregið úr framboði en næsta vetur verður niðurskurðurinn meiri en áður. Næstkomandi nóvember er aðeins reiknað með 99 brottförum frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna og …

Nú í vikunni hafa mælingar í Noregi og Bandaríkjunum sýnt að verðlag í þessum tveimur löndum hjaðnar hraðar en greinendur höfðu reiknað með. Það sama er upp á teningnum í Svíþjóð en í morgun birti hagstofan þar í landi nýjar verðlagsmælingar sem sýna að verðbólga sl. 12 mánuði mælist nú 2,6 prósent. Ef vaxtakostnaður er …

Gengi hlutabréf í Icelandair hefur nú fallið um 61 prósent síðustu 12 mánuði og kostar hver hlutur í dag 86 aura. Í hlutafjárútboðinu sem efnt var til í september 2020, til að koma flugfélaginu í gegnum heimsfaraldurinn, var hluturinn seldur á 1 krónu. Stuttu eftir útboðið fór gengið eins langt niður og það er í …