Samfélagsmiðlar

Forstjóri Icelandair um Play: „Við áttum von á mun sterkara uppgjöri“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, telur afkomu Play á þriðja ársfjórðungi ekki vera í takt við yfirlýsingar stjórnenda keppinautarins. Hann gerir ráð fyrir hóflegum vexti hjá Icelandair á næsta ári og telur spá um mikla fjölgun ferðamanna næstu ár ekki raunhæfa.

„Það er alltaf verið að ræða kostnað við rekstur flugfélaga og auðvitað er hann gríðarlega mikilvægur. En tekjumyndunin skiptir ennþá meira máli," segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Þrátt fyrir hagnað á þriðja ársfjórðungi og mettekjur þá hafa hlutabréfin í Icelandair lækkað að undanförnu. Á sama tíma hafa bréfin í Norwegian hækkað umtalsvert. Það félag skilaði þó hlutfallslega minni rekstrarhagnaði en þið. Er Icelandair undirverðlagt?

„Við einbeitum okkur að rekstrinum fyrst og  fremst. Það eru svo margir kraftar á þessum hlutabréfamarkaði sem hreyfa verðið. Til dæmis kom tilkynning frá stjórnvöldum [um aðgerðir vegna ÍL-sjóðs, innsk. blm.] á sama tíma og við birtum uppgjörið sem hafði áhrif á markaðinn. Okkar fókus er bara á að reka fyrirtækið eins vel og við getum. Ef okkur tekst það þá höfum við ekki áhyggjur að öðru og gerum ráð fyrir að hlutabréfaverðið muni hreyfast í takt við frammistöðu félagsins. Til lengri tíma þá er það reksturinn sem ræður mestu.” 

Nú eru þið ekki lengur eina flugfélagið á íslenska hlutabréfamarkaðnum því þar er Play líka. Þau birtu uppgjör í lok síðustu viku og niðurstaðan var verri en afkomuspá félagsins gerði ráð fyrir. Kom það þér á óvart?

„Við fylgjumst auðvitað mjög vel með okkar samkeppnisaðilum og ekki síst þeim sem eru skráðir á hlutabréfamarkað. Uppgjör Play kom okkur á óvart enda finnst okkur það ekki í samræmi við upplýsingagjöf flugfélagsins, hvort sem það var í kauphöllinni eða fjölmiðlum. Við áttum von á mun sterkara uppgjöri.“

Bogi vísar meðal annars til yfirlýsinga stjórnenda Play í tengslum við birtingu uppgjörs fyrir annan ársfjórðung, þann 22. ágúst. 

„Þá voru stjórnendur Play jákvæðir varðandi næstu vikur og mánuði og tveir af þremur mánuðum uppgjörstímabilsins liðnir. Endanleg niðurstaða kom því á óvart. Þau hjá Play höfðu líka margsinnis sagt að lausafjárstaðan þann 30. júní yrði sú lægsta sem myndi sjást. Þess vegna er rekstrarniðurstaðan og sú staðreynd að nú eigi að auka hlutafé ekki í neinum takti við það sem hafði komið fram.

Á hinn bóginn vitum við það auðvitað að aðstæður fyrir flugfélög eru krefjandi. Ekki síst í Norður-Evrópu þar sem mörg flugfélög eru í ákveðnum vandræðum, t.d. Flyr í Noregi sem nýlega var stofnað. Flyr er búið að fara í gegnum tvö hlutafjárútboð og það þriðja stendur yfir. Þeir sem settu fé í það félag hafa í dag tapað næstum öllu miðað við útboðsgengið í fyrirhuguðu útboði.“

Þotur Icelandair og Play á Keflavíkurflugvelli. MYND: ÓJ

Í uppgjöri Play var lögð mest áhersla á hversu lágur kostnaðurinn er á meðan hápunkturinn hjá ykkur voru tekjurnar. Hvort vegur þyngra, kostnaðurinn eða tekjurnar?

„Það er alltaf verið að ræða kostnað við rekstur flugfélaga og auðvitað er hann gríðarlega mikilvægur. En tekjumyndunin skiptir ennþá meira máli og það sem Icelandair hefur gert til margra ára er að byggja upp mjög sterkan tekjugrunn, t.d. sölu- og dreifikerfi, sambönd á mörkuðum og við önnur flugfélög. Þetta skiptir mjög miklu máli í því umhverfi sem við erum að vinna í núna. Kostnaðurinn er að hækka hjá okkur öllum og tekjurnar verða að hækka umfram það. Hjá okkur hefur það gengið eftir sem er mikilvægt. Þeir sterku innviðir sem eru á tekjuhliðinni, og við lögðum áherslu á hlutafjárútboðinu árið 2020, eru algjörlega að skila sínu núna. 

Það væri ekkert mál að fjölga sætunum um borð og leggja niður margt af því sem við erum að gera í þjónustunni og þannig lækka einingakostnaðinn. Það myndi samt skila sér í mun verri afkomu því það passar ekki við umhverfið sem við erum í.“

Þota Icelandair við flugstöðina í Raleigh-Durham. MYND: RDU

Ein af skýringum stjórnenda Play á verri afkomu í sumar var sú að vægi tengifarþega hafi verið of mikið. Rekstur ykkar byggir að miklu leyti á þessum hópi og það er reyndar líka þannig hjá Play. Er það raunin að tengifarþegar skili minni framlegð hjá ykkur?

„Nei, alls ekki. Það er ekki hægt að horfa á alla tengifarþega með sama hætti. Í leiðakerfi Icelandair eru um 700 tengimöguleikar og það er því ekki hægt að horfa á þá alla eins. Við erum með ákveðna stöðu á vissum mörkuðum þar sem við erum einfaldlega að bjóða upp á langbestu tengingarnar og bestu vöruna. Staðan er önnur annars staðar, tökum sem dæmi London og New York. Þar er framboð af beinu flugi mjög mikið og við því í allt annarri stöðu en á ýmsum öðrum leiðum, til að mynda í Raleigh því framboð á Evrópuflugi frá því svæði er mjög lítið. 

Snúum okkur þá að næsta ári. Hversu mikið munu umsvif Icelandair aukast?

„Ég myndi gera ráð fyrir því að við verðum með hóflegan vöxt á næsta ári eins og flugáætlunin sem við erum með í sölu núna gerir ráð fyrir. Ef við horfum á rekstrarumhverfið og það sem er í gangi í heiminum þá teljum við skynsamlegt að stíga varlega til jarðar hvað þetta varðar. Verðbólga á fleygiferð á öllum okkar mörkuðum. Nú í sumar og í haust nutum við uppsafnaðrar tveggja ára ferðaþarfar en ennþá er bókunarflæðið sterkt fram á næsta ár. Við gerum samt ráð fyrir að hækkandi verðbólga og vextir og eins stríðið í Úkraínu hafi áhrif til lengri tíma þó við séum ekki farin að sjá það ennþá.” 

Því er samt spáð að næsta ár verði metár í fjölda ferðamanna og hingað komi um 2,4 milljónir og fjöldinn fari upp í 3 milljónir árið 2025. Hefurðu trú á því að þetta gangi eftir? 

„Mér finnst þetta ekki raunhæf spá. Við verðum að horfa til þess að nú í sumar og haust var mikil uppsöfnuð eftirspurn að koma fram. Margir sem höfðu ekki ferðast í 2 ár og voru að nýta uppsafnaðan sjóð til ferðalaga. Sá sjóður verður ekki til staðar næsta sumar og á sama tíma eru hagkerfi víða um heim í verri stöðu en áður. 

Í ljósi þessa þá er það mikill kostur fyrir Icelandair að vera með sterkt sölu- og dreifingakerfi á mörgum mörkuðum þannig við getum hreyft okkur til eftir því sem við sjáum að eftirspurnin er til staðar.“

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …