Samfélagsmiðlar

Metár í danskri ferðaþjónustu

Útlit er fyrir að 2022 verði metár í danskri ferðaþjónustu. Forstjóri Ferðamálaráðs Danmerkur segir óvissu framundan en áfram verði sjálfbærni leiðarljósið. Markmiðið er að Danmörk verði umhverfisvænsti áfangastaðurinn í Norður-Evrópu 2030.

Ferðamenn við Litlu hafmeyna

Litla hafmeyjan dregur til sín stöðugan straum ferðamanna

Miðborg Kaupmannahafnar iðar af lífi á gamlársdegi. Íbúar og ferðamenn flykkjast í verslanir eftir aðföngum fyrir hátíðarhöld kvöldsins. Meðal þeirra staða sem höfðu opið var Glyptoteket og kunnu útlendir ferðamenn vel að meta það, stríður straumur fólks lá inn á safn gamla bruggarans, Carl Jacobsen. 

Litli dansari Edgar Degas er kominn í nýtt pils. Skemmtileg sýning á Glyptotekinu um starf forvarða – MYND: ÓJ

Enn meiri fjöldi var samankominn á matarmarkaðnum í Torvehallerne. Þar létu ferðamenn sig hafa það standa lengi í biðröð eftir smørrebrød og øl. Þeir kröfuharðari settust niður með ostrur og kampavín í tilefni áramótanna. Torvehallerne draga til sín um 115 þúsund Kaupmannahafnarbúa vikulega og margir voru þar í dag að kaupa eitthvert lostæti fyrir áramótaveisluna.

Ostrur og kampavín við Torvehallerne á gamlársdegi – MYND: ÓJ

Vinsældir Kaupmannahafnar sem ferðamannaborgar hafa aukist ár frá ári (ef við undanskiljum heimsfaraldurinn leiðinlega). Ekki þarf að hafa mörg orð um það við lesendur Túrista, sem geta eins og aðrir landsmenn valið um mikinn fjölda flugferða í hverri viku til gömlu höfuðborgarinnar við sundin.

Ferðamenn bisa með töskur á Vindebrogade – MYND: ÓJ

Það er uppgangur í danskri ferðaþjónustu og útlitið er gott, eins og fram kemur í nýársgrein Jan Olsen, forstjóra Ferðamálaráðs Danmerkur (VisitDanmark) á ferðavefnum Standby.dk. Hann segir ferðaþjónustuna efnahags- og samfélagslega mjög mikilvæga fyrir Danmörku. Tekjur af henni námu 139 milljörðum danskra króna árið 2019. Rúmir 56 milljarðar fóru í skatta og gjöld. Íslenskir lesendur mega margfalda þessar tölur með 20 ef það hjálpar til að skilja mikilvægið.

Jan Olsen – MYND: VisitDanmark

Jan Olsen leggur áherslu á að efnahagslegir hvatar stuðli að velgengni ferðaþjónustunnar. Það verði að kosta nokkru til í að auka þekkingu erlendis á kostum Danmerkur sem ferðamannalands. Hann þakkar sérstöku framlagi ríkisins í kjölfar kórónaveirufaraldursins að hægt var að auka markaðskynningu. Það hafi t.d. skilað sér í mikilli fjölgun gesta frá Þýskalandi og Hollandi. Það stefni í að 2022 verði metár í ferðaþjónustunni – slái við árinu 2019. 

Ferðamannabátur á Frederiksholms-skurði – MYND: ÓJ

Forstjóri Ferðamálaráðs Danmerkur segir hinsvegar óvissu vera framundan þegar horft er til ársins 2023. Enginn veit hvernig árásarstríð Rússa í Úkraínu þróast og það sama má segja um orkukreppuna, verðbólguna og lífskjararýrnun í Evrópu. Ferðaþjónustan hljóti að gjalda fyrir þetta ástand. 

Árið 2022 kemst þó ekki inn sögubækur danskrar ferðaþjónustu fyrir það eitt að ferðamennirnir hafi skilað sér vel eftir heimsfaraldurinn heldur líka fyrir straumhvörf hvað varðar opinbera sjálfbærnistefnu. Ekki er lengur einblínt á efnahagslegu áhrifin, vöxt og gistináttafjölda, heldur voru sett markmið í samfélags- og umhverfismálum.

Leiðsögumaður með ferðahóp á Ráðhústorgi á gamlársdegi – MYND: ÓJ

Í Danmörku er almennur skilningur meðal íbúa á mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarhag og þróun samfélaga vítt og breitt um landið. Ferðamennirnir bæta líf íbúanna á svo mörgum sviðum: Fleiri menningarviðburðir, fleiri veitingahús og verslanir. Fleira fólk og meiri neysla hefur áhrif á umhverfi og við þeim eru Danir að bregðast. 

Grammískasti staður í Danaveldi – MYND: ÓJ

Stefnan er sett á það markmið að Danmörk verði árið 2030 talin umhverfisvænsti áfangastaður í Norður-Evrópu. Við þessi áramót stendur Danmörk bæði Svíþjóð og Noregi að baki í þeim efnum. Ef takast á að minnka losun á CO2 um 70 prósent fyrir árið 2030 er eins gott að spýta í lófana. 

En í kvöld fagna Danir og gestir þeirra nýju ári, skála í kampavíni, eplasafa eða danskvand og segja:

Godt nytår!

Túristi sendir nýárskveðju úr Sankt Peders Stræde – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …

Verðlag í evrópskum matvöruverslunum var almennt hærra í nýliðnum apríl en það var á sama tíma í fyrra. Íbúar í Tékklandi, Litháen, Ungverjalandi, Slóveníu og Finnlandi borga þó minna í dag fyrir mat og drykk en þeir gerðu á fyrra samkvæmt nýrri verðmælingu á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í Tyrklandi hækkar verðlag hratt og fór …

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …