Samfélagsmiðlar

Metár í danskri ferðaþjónustu

Útlit er fyrir að 2022 verði metár í danskri ferðaþjónustu. Forstjóri Ferðamálaráðs Danmerkur segir óvissu framundan en áfram verði sjálfbærni leiðarljósið. Markmiðið er að Danmörk verði umhverfisvænsti áfangastaðurinn í Norður-Evrópu 2030.

Ferðamenn við Litlu hafmeyna

Litla hafmeyjan dregur til sín stöðugan straum ferðamanna

Miðborg Kaupmannahafnar iðar af lífi á gamlársdegi. Íbúar og ferðamenn flykkjast í verslanir eftir aðföngum fyrir hátíðarhöld kvöldsins. Meðal þeirra staða sem höfðu opið var Glyptoteket og kunnu útlendir ferðamenn vel að meta það, stríður straumur fólks lá inn á safn gamla bruggarans, Carl Jacobsen. 

Litli dansari Edgar Degas er kominn í nýtt pils. Skemmtileg sýning á Glyptotekinu um starf forvarða – MYND: ÓJ

Enn meiri fjöldi var samankominn á matarmarkaðnum í Torvehallerne. Þar létu ferðamenn sig hafa það standa lengi í biðröð eftir smørrebrød og øl. Þeir kröfuharðari settust niður með ostrur og kampavín í tilefni áramótanna. Torvehallerne draga til sín um 115 þúsund Kaupmannahafnarbúa vikulega og margir voru þar í dag að kaupa eitthvert lostæti fyrir áramótaveisluna.

Ostrur og kampavín við Torvehallerne á gamlársdegi – MYND: ÓJ

Vinsældir Kaupmannahafnar sem ferðamannaborgar hafa aukist ár frá ári (ef við undanskiljum heimsfaraldurinn leiðinlega). Ekki þarf að hafa mörg orð um það við lesendur Túrista, sem geta eins og aðrir landsmenn valið um mikinn fjölda flugferða í hverri viku til gömlu höfuðborgarinnar við sundin.

Ferðamenn bisa með töskur á Vindebrogade – MYND: ÓJ

Það er uppgangur í danskri ferðaþjónustu og útlitið er gott, eins og fram kemur í nýársgrein Jan Olsen, forstjóra Ferðamálaráðs Danmerkur (VisitDanmark) á ferðavefnum Standby.dk. Hann segir ferðaþjónustuna efnahags- og samfélagslega mjög mikilvæga fyrir Danmörku. Tekjur af henni námu 139 milljörðum danskra króna árið 2019. Rúmir 56 milljarðar fóru í skatta og gjöld. Íslenskir lesendur mega margfalda þessar tölur með 20 ef það hjálpar til að skilja mikilvægið.

Jan Olsen – MYND: VisitDanmark

Jan Olsen leggur áherslu á að efnahagslegir hvatar stuðli að velgengni ferðaþjónustunnar. Það verði að kosta nokkru til í að auka þekkingu erlendis á kostum Danmerkur sem ferðamannalands. Hann þakkar sérstöku framlagi ríkisins í kjölfar kórónaveirufaraldursins að hægt var að auka markaðskynningu. Það hafi t.d. skilað sér í mikilli fjölgun gesta frá Þýskalandi og Hollandi. Það stefni í að 2022 verði metár í ferðaþjónustunni – slái við árinu 2019. 

Ferðamannabátur á Frederiksholms-skurði – MYND: ÓJ

Forstjóri Ferðamálaráðs Danmerkur segir hinsvegar óvissu vera framundan þegar horft er til ársins 2023. Enginn veit hvernig árásarstríð Rússa í Úkraínu þróast og það sama má segja um orkukreppuna, verðbólguna og lífskjararýrnun í Evrópu. Ferðaþjónustan hljóti að gjalda fyrir þetta ástand. 

Árið 2022 kemst þó ekki inn sögubækur danskrar ferðaþjónustu fyrir það eitt að ferðamennirnir hafi skilað sér vel eftir heimsfaraldurinn heldur líka fyrir straumhvörf hvað varðar opinbera sjálfbærnistefnu. Ekki er lengur einblínt á efnahagslegu áhrifin, vöxt og gistináttafjölda, heldur voru sett markmið í samfélags- og umhverfismálum.

Leiðsögumaður með ferðahóp á Ráðhústorgi á gamlársdegi – MYND: ÓJ

Í Danmörku er almennur skilningur meðal íbúa á mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarhag og þróun samfélaga vítt og breitt um landið. Ferðamennirnir bæta líf íbúanna á svo mörgum sviðum: Fleiri menningarviðburðir, fleiri veitingahús og verslanir. Fleira fólk og meiri neysla hefur áhrif á umhverfi og við þeim eru Danir að bregðast. 

Grammískasti staður í Danaveldi – MYND: ÓJ

Stefnan er sett á það markmið að Danmörk verði árið 2030 talin umhverfisvænsti áfangastaður í Norður-Evrópu. Við þessi áramót stendur Danmörk bæði Svíþjóð og Noregi að baki í þeim efnum. Ef takast á að minnka losun á CO2 um 70 prósent fyrir árið 2030 er eins gott að spýta í lófana. 

En í kvöld fagna Danir og gestir þeirra nýju ári, skála í kampavíni, eplasafa eða danskvand og segja:

Godt nytår!

Túristi sendir nýárskveðju úr Sankt Peders Stræde – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Ítalía var mesta vínframleiðsluland heims 2023 en þurfti að sætta sig við að sala dróst saman. Það var reyndar staðan hjá flestum vínframleiðsluþjóðunum. Nú liggja fyrir tölur frá helstu markaðslöndum ítalskra vínframleiðenda: Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Japan, en samanlagður útflutningur til þessara landa nemur 56 prósentum af heildinni. Til samanburðar vega þessi markaðslönd 50 prósent …

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að …

Play leitar nú fjárfesta sem vilja leggja félaginu til 1,4 milljarða króna í það minnsta. Stærstu hluthafarnir hafa gefið vilyrði sitt fyrir innspýtingu upp á 2,6 milljarða kr. en sú viðbót er háð því skilyrði að það safnist alla vega 4 milljarðar í nýtt hlutafé. Áður höfðu stjórnendur Play gefið út að þeir þyrftu þrjá …

Mikil umferð farþega var um evrópska flugvelli í janúar, víða fór farþegafjöldinn fram úr því sem var í sama mánuði 2019. Um 46 flugvöllum á Spáni, sem AENA starfrækir, var farþegafjöldinn 18,6 milljónir, sem er 10 prósentum fleiri en í janúar í fyrra. Flestir fóru um flugvöllinn í Madríd nú í janúar síðastliðnum, nærri 4,8 …

Það sem af er ári hefur hægt á eftirspurn á rafbílamarkaði heimsins og framleiðendur bregðast við með því að segja upp starfsfólki, minnka framleiðslukostnað og breyta áætlunum sínum. Þetta bakslag gæti seinkað orkuskiptum í vegasamgöngum.  Þýski gæðabílaframleiðandinn Mercedes-Benz tilkynnti í gær að markmiðum um rafbílavæðingu yrði frestað um fimm ár og sjá til þess að …

Stjórn Volvo Cars ætlar að láta af því verða að minnka hlutinn í sænska rafbílaframleiðandanum Polestar en áformin voru fyrst kynnt í byrjun þessa mánaðar. Fjárfestar tóku tíðindunum vel því hlutabréfin í Volvo hækkuðu í kjölfarið um fjórðung. Endurteknar hlutafjáraukningar Polestar hafa nefnilega haft neikvæð áhrif á gengi Volvo í kauphöllinni í Stokkhólmi samkvæmt frétt …

Notkun á sjálfbæru eldsneyti er besta leiðin til að draga hratt úr losun frá flugsamgöngum, segir Willie Walsh, framkvæmdastjóra Alþjóðasambands flugfélaga, IATA. Hann ræddi mikilvægi þess að minnka losun í ávarpi sínu á flugmálaráðstefnu Changi í Singapúr í vikunni.  Willie Walsh undirstrikaði í ávarpi sínu að flugheimurinn stefndi staðfastlega að kolefnishlutleysi árið 2050: „Við megum …

Vesturland er í útjaðri meginstraums erlendra ferðamanna sem koma til Íslands. Flestir eru þeir á Suðvesturlandi, fara Gullna hringinn og meðfram suðurströndinni - en auðvitað aka margir þeirra eftir Hringveginum í gegnum Borgarfjörð eða halda upp á Snæfellsnes - og áfram sem leið liggur til Vestfjarða með ýmsum útúrdúrum. Við ætlum sem sagt ekki að …