Samfélagsmiðlar

Jólahrunið í fluginu vestanhafs og hörð viðbrögð stjórnvalda

Uppnámið sem varð vegna frammistöðu Southwest-flugfélagsins kringum hátíðarnar hefur dregið athygli ráðamanna vestanhafs að réttindum farþega og aukið vilja til að beita háum sektum. Stjórnvöld eru líka gagnrýnd fyrir lélegt eftirlit og flugfélögin fyrir að setja hagsmuni hluthafa ofar velferð farþega.

Think (NBC)

Vefsíða Think (NBC)

Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna hefur tilkynnt að það stefni að því að beita þau flugfélög hærri sektum sem brotið hafa gegn réttindum farþega og draga þannig úr líkum á því að ástandið sem skapaðist fyrir hátíðarnar endurtaki sig.

Southwest-flugfélagið aflýsti um 16 þúsund flugferðum frá 22. til 29. desember og meira en milljón farþega urðu strandaglópar og farangur hrúgaðist upp á flugvöllum. Samgönguráðherra alríkisstjórnarinnar, Pete Buttigieg, lýsti því yfir að brugðist yrði hart við brotum félagsins á réttindum farþega sem sátu eftir með sárt ennið á flugvöllum hér og þar við misgóðar aðstæður um jólin. 

Það virðist mikil alvara í fyrirætlunum samgönguráðuneytisins, sem segir á heimasíðu sinni að ætlunin væri að flugfélög, ferðaskrifstofur og aðrir bera ábyrgð, yrðu beittir sektum ef í ljós kæmi að viðkomandi hefðu brotið gegn neytendarétti og séð yrði til þess að fyrirtæki gætu ekki litið á þessar háu sektir einfaldlega sem eðlilegan hluta af því að eiga viðskipti. Með þessu er verið að segja að mjög hart verði tekið á því ef flugfélög axla ekki ábyrgð sína gagnvart farþegum. Upplýsingafulltrúi Hvíta hússins fullyrti í vikunni að samgönguráðuneytið myndi beita Southwest sektum ef flugfélagið viki sér undan því að greiða þann kostnað sem aflýsingar og tafir hafa valdið. 

Fréttasíða WSJ
Vefsíða WSJ 28. desember 2022

Eftir á að koma í ljós hvort Southwest og önnur flugfélög eigi eftir að greiða himinháar sektir. Hingað til hafa þau oftast komist upp með að greiða aðeins hluta af þeim kröfum sem settar hafa verið fram á hendur þeim. Hefur samgönguráðuneyti alríkisstjórnarinar lagt til að reglur um neytendavernd verði hertar til muna. Buttigieg hafði frumkvæði að viðræðum við flugfélögin á síðasta ári um aukin réttindi farþega. Samþykktu flest þeirra að farþegar ættu rétt á mat og gistingu ef ferðir féllu niður. Bandarikin eru sannarlega komin skemur en Evrópuríkin í neytendarétti.

Réttur farþega gagnvart flugfélögum virðist nú kominn ofar á forgangslista stjórnmála í Bandaríkjunum eftir ósköpin sem gengu á kringum jólin á nýliðnu ári. Fullyrt hefur verið að jólahrunið hjá Southwest sé mesta hneyksli í þjónustusögu bandarískra flugfélaga. Þetta ástand sem skapaðist í innanlandsfluginu vestra kom þó ekki öllum á óvart.

William J. McGee, flugmálablaðamaður og þekktur talsmaður neytenda, sem beitt hefur sér sérstaklega gagnvart því að flugfélög axli meiri ábyrgð og sinni viðskiptavinum sínum betur, segir að þjónustuhrun Southwest hafi verið algjörlega fyrirsjáanlegt vegna áralangrar vanrækslu og lélegs eftirlits af hálfu samgönguráðuneytisins. Á umræðuvefnum Think, sem er á vegum NBC-fréttastöðvarinnar, segir McFee að flugfélögum sé ofar í huga að sjá til þess að hluthafar fái greiddan arð af bréfum sínum og stjórnendur launauppbætur heldur en að bæta innviði og kosta nauðsynlega endurnýjun á úreltum tæknibúnaði og vaktakerfum, sem starfsfólk Southwest hafi áður varað við að þyrfti að lagfæra. Jólahrunið snúist ekki um vont veður eða einungis um frammistöðu Southwest heldur um vangetu flugfélaga til að mæta álaginu: skorti á starfsfólki, flutningsgetu, þekkingu og tækni.

Kjarninn í máli William J. McGee er að það gangi auðvitað ekki að flugfarþegar hafi minni réttindi en neytendur gagnvart flestum öðrum þjónustugeirum. 

Mynd: Southwest
Nýtt efni

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …