Samfélagsmiðlar

Portúgal vill ekki verða Disneyland

Ríkisstjórn Portúgals hefur tilkynnt um aðgerðir til að bregðast við húsnæðiskreppu í landinu. Verð á íbúðum og leiguverð hefur hækkað mjög vegna eftirspurnar ferðamanna og fjáfesta. Takmörk verða sett á leyfi fyrir Airbnb-íbúðum. Forsætisráðherrann vill ekki að borgir landsins verði einskonar Disneyland.

Lissabon

Horft yfir Alfama-hverfið í Lissabon

Portúgalar eru mjög háðir ferðaþjónustu en fá nú að kenna á neikvæðum hliðum mikillar sóknar erlendra ferðamanna eftir íbúðarhúsnæði. Íbúarnir sjálfir verða í vaxandi mæli undir í samkeppni um íbúðir á viðráðanlegu verði – hvort sem er til að kaupa eða leigja. Verðið hefur rokið upp. Efnaminna fólk situr eftir með sárt ennið.

Þetta er kunnugleg saga – gömul og ný. 

Ferðamenn fylla öll farartæki í Lissabon – MYND: ÓJ

Stjórnvöld í Portúgal hafa nú kynnt ýmsar ráðstafanir sem ætlað er að bæta úr húsnæðisástandinu. Ekki síst er ætlunin að hemja þau áhrif sem erlendir auðmenn hafa á portúgalska húsnæðismarkaðnum. Ákveðið hefur verið að hætta útgáfu leyfa fyrir nýjum Airbnb-íbúðum og svonefndra gullinna vegabréfsáritana (golden visas) sem veitt hafa sterkefnuðu fólki búsetuheimild í landinu gegn fjárfestingu eða peningaframlagi.

Á útsýnisstað í miðborg Lissabon – MYND: ÓJ

Þessi gullbryddaða fjárfestingaáætlun – miðuð að ríku fólki, sem fær búseturétt að launum fyrir fjárfestingu í landinu, hefur verið mjög umdeild. Árið 2021 voru samþykktar um 10 þúsund beiðnir um gullnar áritanir í Portúgal. Á síðasta áratug hefur hún skilað Portúgölum um níu milljörðum evra í tekjur. Samfélagslegur kostnaður á móti hefur hinsvegar verið mikill. Hinir gullslegnu útlendingar hafa nefnilega ekki fjárfest ýkja mikið í nýjum atvinnutækifærum í Portúgal heldur fyrst og fremst í húsnæði sem svo stendur autt langtímum saman á meðan margt heimafólk er á hrakhólum. 

Íbúar spjalla í eftir langan dag í Alfama-hverfinu – MYND: ÓJ

António Costa, forsætisráðherra Portúgals, hefur greint frá því að ríkið muni taka yfir húsnæði í eigu stóreigenda og framleigja á markaði til fimm ára. Um 900 milljónum evra verður varið í þessu skyni. Þá verður gripið til ýmissa aðgerða sem stuðla eiga að auknu framboði á húsnæði til íbúðar, einfalda á leyfisveitingar til húsbygginga, byggja á íbúðir til leigu, vinna gegn húsnæðisbraski og aðstoða fjölskyldur í fjárhagsvanda.

António Costa, forsætisráðherra Portúgals – MYND: Stjórnrráðsvefur Portúgals

Áætlað er að Airbnb-íbúðir séu um 60 prósent alls íbúðarhúsnæðis í Santa Maria Maior-hverfinu í miðborg Lissabon. „Aðdráttarafl borga okkar má ekki breyta þeim í einskonar Disneyland. Engin borg varðveitir einkenni sín ef hún hrekur burt íbúana,” segir António Costa. 

Ástæður húsnæðiskreppunnar í Portúgal eru margþættar og flóknar. Stærsta vandamálið er lág laun í landinu og lítil verðmætasköpun á mælikvarða Vestur-Evrópu. Húsnæðisskortur er viðvarandi og hefur sú viðleitni til að draga að fjársterka útlendinga og treysta á eflingu ferðaþjónustunnar dýpkað vandann enn frekar. Ofan á þetta hefur síðan bæst mikil verðbólga sem mælist nú 8,3 prósent. 

Ferðafólk á ferðinni í báðar áttir – MYND: ÓJ

Segja má að Portúgal sé fórnarlamb eigin velgengni í ferðaheiminum. Þetta land sem er svo ríkt af menningu og náttúrufegurð, mildu veðri árið um kring og hagstæðu verðlagi, er eftirsóknarvert í augum margra útlendinga sem auðveldlega geta skákað efnaminni heimamönnum í sókn eftir húsnæði og öðrum gæðum landsins. Það sama hefur gerst víða við Miðjarðarhafið.

Gata í Alfama-hverfinu – MYND: ÓJ

Leigubraskarar brugðust við þessari vaxandi og þungu sókn fjársterkra útlendinga inn á portúgalska húsnæðismarkaðinn með því að segja upp föstum leigusamningum við íbúa – en breyttu svo íbúðunum þannig að þær hæfðu til skammtímaleigu hjá Airbnb eða öðrum sambærilegum fyrirtækjum.

Portúgalska ríkisstjórnin ætlar nú að bregðast við þessu. 

Horft yfir miðborg Lissabon – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Heimsferðir, Úrval Útsýn, Plúsferðir og Sumarferðir hafa gengið frá samningi við Neos flugfélagið um leiguflug til allra áfangastaða ferðaskrifstofanna í sumar og fram á næsta ár. Þetta ítalska flugfélagið hefur um árabil flogið farþegum ferðaskrifstofanna út í heim. Í tilkynningu segir að ný flugvél með þráðlausu neti verði nýtt í ferðirnar og flugtímarnir séu miðaðir …

Þeir fjárfestar sem tóku þátt í hlutafjáraukningu Play hafa nú fengið hluti sína afhenta og þar með ríflega tvöfaldaðist fjöldi útgefinna hluta í flugfélaginu við opnun Kauphallarinnar í morgun. Um leið fór markaðsvirði félagsins úr 3,9 milljörðum í 8,5 milljarða. Í hlutafjárútboðinu var hver hlutur seldur á 4,5 krónur og markaðsgengi gömlu bréfanna var það …

MYND: ÓJ

Í fyrra flugu 2,2 milljónir ferðamanna frá Keflavíkurflugvelli og ný hagspá Landsbankans gerir ráð fyrir 2,3 milljónum ferðamanna í ár og þeim fjölgi svo um 100 þúsund á næsta ári og aftur á því þarnæsta. Spá Ferðamálastofu er í nærri sama takti því samkvæmt henni verða ferðamennirnir í ár 2,4 milljónir í ár og 2,6 …

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …