Samfélagsmiðlar

Herbergið verður ekki þrifið í dag

Það verður sífellt algengara vestanhafs að hótelherbergi séu ekki þrifin daglega nema að gesturinn óskir þess og sé tilbúinn að greiða aukalega fyrir það. Margir gestir óska þess að fá að vera í friði með sitt dót og telja sig vera að leggja umhverfinu lið með því að hafna þrifum. Hótelin spara tilkostnað en verkalýðsfélög mótmæla.

Meðal þess sem Bandaríkjamenn upplifðu í upphafi Covid-19 var að mörg hótel þrifu aðeins herbergi við brottför gesta. Ekki var farið inn á herbergi á meðan á dvölinni stóð en þau þrifin þegar gestirnir voru farnir – og herbergin voru jafnvel látin standa auð í sólarhring áður en næstu gestum var hleypt inn. Svo kom auðvitað að því í faraldrinum að hótelunum var hreinlega lokað.

The New York Times segir frá því að nú þegar ferðalög séu hafin að nýju og búist sé við að nýtingarhlutfall á hótelum í Bandaríkjunum verði 64 prósent á þessu ári – aðeins tveimur prósentum undir því sem var fyrir faraldurinn – virðist dagleg herbergjaþrif ekki vera sjálfgefin frekar en fimm daga vinnuvika og prentaðir matseðlar á veitingahúsum. Heimurinn breyttist með Covid-19.

MYND: MK.S / Unsplash

Nú er svo komið að gestir á hótelum sem tilheyra keðjum á borð við Hilton, Marriot og Sheraton þurfa að biðja sérstaklega um það fyrirfram ef þeir vilja láta þrífa herbergi sín daglega á meðan dvöl stendur. Nú er sjaldgæft að þurrkað sé af og skipt um sængurver hjá gestum sem gista aðeins eina eða fáar nætur. Marriot sem er með 30 hótelkeðjur undir sínum væng og meira en átta þúsund hótel í 139 löndum kynnti þessa nýju háttu fyrir fjárfestum í síðasta mánuði. Nú þarf fólk að borga meira vilji það fá þjónustu sem áður þótti sjálfsögð. Aðeins á dýrustu hótelunum, eins og á Ritz-Carlton, verður ekki rukkað sérstaklega fyrir þessi daglegu þrif. Gestir borga líklega nóg samt fyrir herbergin. Í næsta flokki fyrir neðan verður áfram innifalið að lagað sé til á herbergjum. Það á við um hótel eins og á Sheraton og Le Méridien. Á ódýrari hótelunum þarf að borga sérstaklega fyrir það ef gestir vilja skipt sé á rúmum og herbergi þrifið. Hilton-keðjan ætlar að feta svipaða slóð – bjóða gestum að velja hversu mikið eigi að þrífa hjá þeim og borga í samræmi við þjónustustigið.

Þetta er svo sem ekkert nýtt. Um árabil hefur hótelgestum verið bent á að með því að hengja upp handklæði eftir sturtuna sé verið að hlífa náttúrunni við mengandi þvottaefnum og eitthvað hefur verið um það að gestum standi til boða að fá afslátt af mat og drykk ef þeir sætta sig á móti við minni herbergisþrif. Það sem skýrir þessa þróun er vaxandi kostnaður, skortur á starfsfólki, vaknandi umhverfisvitund – en líka það að stöðugt fleiri gestir vilja bara fá að vera ótruflaðir með sitt dót á hótelherberginu.

The New York Times hefur eftir Chekitan Dev, prófessor í hótelstjórnun við Cornell-háskóla, að þessar breytingar séu merki um fráhvarf frá verkefnadrifinni nálgun þegar farið var í verkin í fyrirfram ákveðinni rútínu yfir í það að mæta betur þörfum gestanna sjálfra – þjónustan sé mótuð af óskum þeirra. Með þessu móti megi fækka kvörtunum, auka ánægju og lækka kostnað. Þetta ætti að geta verið í allra þágu: þau sem vilji mikil þrif geti óskað þess, hinir sem vilji fá að vera í friði verði ekki truflaðir. Prófessorinn segir allt eins líklegt að í framtíðinni bjóðist að kaupa gistingu á herbergjum sem verði bara alls ekki þrifin á meðan dvalið er í þeim.

MYND: Morgan Lane / Unsplash

Augljóslega fellur fólki misvel við þessa nýju hætti, það kann því illa að þurfa að fara í lobbíið og biðja um klósettpappír eða að þrifið sé upp það sem sullað var niður, ruslakörfur tæmdar og hvað annað sem mætti nefna. Þá eru verkalýðsfélög hótelþerna og þeirra sem annast þrif á hótelum allt annað en sátt við þessa þróun, segja þetta árás á störfin. Ef dagleg þrif á hótelherbergjum heyrðu sögunni til myndu 39 prósent starfa hótelþerna í Bandaríkjunum hverfa og launatekjur upp á 5 milljarða dollara á ári hverfa. Verkalýðsfélög í mörgum borgum vestra beita nú afli sínu til að koma í veg fyrir að viðhalda daglegum herbergjaþrifum og hafa borgaryfirvöld víða fallist á þau sjónarmið og reyna að setja hótelum þær reglur að hverfa ekki frá fyrri háttum.

Fórnarlömb í þessari viðleitni hótela vestanhafs til að draga úr kostnaði – og hugmynda gesta um að fá að vera í friði með sitt drasl og óumbúna rúm – eru fátækar hótelþernur sem treystu á þessi störf og gerðu sér vonir um þjórfé fyrir vel unnið verk. 

MYND: Ashwini Chaudha / Unsplash
Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru mikilvæg tekjulind fjölmiðla allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 starfar samkvæmt íslenskum …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …