Samfélagsmiðlar

Herbergið verður ekki þrifið í dag

Það verður sífellt algengara vestanhafs að hótelherbergi séu ekki þrifin daglega nema að gesturinn óskir þess og sé tilbúinn að greiða aukalega fyrir það. Margir gestir óska þess að fá að vera í friði með sitt dót og telja sig vera að leggja umhverfinu lið með því að hafna þrifum. Hótelin spara tilkostnað en verkalýðsfélög mótmæla.

Meðal þess sem Bandaríkjamenn upplifðu í upphafi Covid-19 var að mörg hótel þrifu aðeins herbergi við brottför gesta. Ekki var farið inn á herbergi á meðan á dvölinni stóð en þau þrifin þegar gestirnir voru farnir – og herbergin voru jafnvel látin standa auð í sólarhring áður en næstu gestum var hleypt inn. Svo kom auðvitað að því í faraldrinum að hótelunum var hreinlega lokað.

The New York Times segir frá því að nú þegar ferðalög séu hafin að nýju og búist sé við að nýtingarhlutfall á hótelum í Bandaríkjunum verði 64 prósent á þessu ári – aðeins tveimur prósentum undir því sem var fyrir faraldurinn – virðist dagleg herbergjaþrif ekki vera sjálfgefin frekar en fimm daga vinnuvika og prentaðir matseðlar á veitingahúsum. Heimurinn breyttist með Covid-19.

MYND: MK.S / Unsplash

Nú er svo komið að gestir á hótelum sem tilheyra keðjum á borð við Hilton, Marriot og Sheraton þurfa að biðja sérstaklega um það fyrirfram ef þeir vilja láta þrífa herbergi sín daglega á meðan dvöl stendur. Nú er sjaldgæft að þurrkað sé af og skipt um sængurver hjá gestum sem gista aðeins eina eða fáar nætur. Marriot sem er með 30 hótelkeðjur undir sínum væng og meira en átta þúsund hótel í 139 löndum kynnti þessa nýju háttu fyrir fjárfestum í síðasta mánuði. Nú þarf fólk að borga meira vilji það fá þjónustu sem áður þótti sjálfsögð. Aðeins á dýrustu hótelunum, eins og á Ritz-Carlton, verður ekki rukkað sérstaklega fyrir þessi daglegu þrif. Gestir borga líklega nóg samt fyrir herbergin. Í næsta flokki fyrir neðan verður áfram innifalið að lagað sé til á herbergjum. Það á við um hótel eins og á Sheraton og Le Méridien. Á ódýrari hótelunum þarf að borga sérstaklega fyrir það ef gestir vilja skipt sé á rúmum og herbergi þrifið. Hilton-keðjan ætlar að feta svipaða slóð – bjóða gestum að velja hversu mikið eigi að þrífa hjá þeim og borga í samræmi við þjónustustigið.

Þetta er svo sem ekkert nýtt. Um árabil hefur hótelgestum verið bent á að með því að hengja upp handklæði eftir sturtuna sé verið að hlífa náttúrunni við mengandi þvottaefnum og eitthvað hefur verið um það að gestum standi til boða að fá afslátt af mat og drykk ef þeir sætta sig á móti við minni herbergisþrif. Það sem skýrir þessa þróun er vaxandi kostnaður, skortur á starfsfólki, vaknandi umhverfisvitund – en líka það að stöðugt fleiri gestir vilja bara fá að vera ótruflaðir með sitt dót á hótelherberginu.

The New York Times hefur eftir Chekitan Dev, prófessor í hótelstjórnun við Cornell-háskóla, að þessar breytingar séu merki um fráhvarf frá verkefnadrifinni nálgun þegar farið var í verkin í fyrirfram ákveðinni rútínu yfir í það að mæta betur þörfum gestanna sjálfra – þjónustan sé mótuð af óskum þeirra. Með þessu móti megi fækka kvörtunum, auka ánægju og lækka kostnað. Þetta ætti að geta verið í allra þágu: þau sem vilji mikil þrif geti óskað þess, hinir sem vilji fá að vera í friði verði ekki truflaðir. Prófessorinn segir allt eins líklegt að í framtíðinni bjóðist að kaupa gistingu á herbergjum sem verði bara alls ekki þrifin á meðan dvalið er í þeim.

MYND: Morgan Lane / Unsplash

Augljóslega fellur fólki misvel við þessa nýju hætti, það kann því illa að þurfa að fara í lobbíið og biðja um klósettpappír eða að þrifið sé upp það sem sullað var niður, ruslakörfur tæmdar og hvað annað sem mætti nefna. Þá eru verkalýðsfélög hótelþerna og þeirra sem annast þrif á hótelum allt annað en sátt við þessa þróun, segja þetta árás á störfin. Ef dagleg þrif á hótelherbergjum heyrðu sögunni til myndu 39 prósent starfa hótelþerna í Bandaríkjunum hverfa og launatekjur upp á 5 milljarða dollara á ári hverfa. Verkalýðsfélög í mörgum borgum vestra beita nú afli sínu til að koma í veg fyrir að viðhalda daglegum herbergjaþrifum og hafa borgaryfirvöld víða fallist á þau sjónarmið og reyna að setja hótelum þær reglur að hverfa ekki frá fyrri háttum.

Fórnarlömb í þessari viðleitni hótela vestanhafs til að draga úr kostnaði – og hugmynda gesta um að fá að vera í friði með sitt drasl og óumbúna rúm – eru fátækar hótelþernur sem treystu á þessi störf og gerðu sér vonir um þjórfé fyrir vel unnið verk. 

MYND: Ashwini Chaudha / Unsplash
Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …