Samfélagsmiðlar

Staðurinn sem Íslendingar vilja halda fyrir sig

„Hér verða allir að geta talað íslensku af því að gestirnir eru íslenskir,” segir Tómas Kristjánsson, veitingamaður á Nauthóli, sem dregur til sín mikinn fjölda fastakúnna árið um kring. Nauthóll er bæði nærri miðborginni en um leið á afviknum stað. Erlendir túristar eru þar mjög sjaldséðir.

Nauthóll og Háskólinn í Reykjavík

TÚRISTI skaust í Nauthólsvík einn sólríkan vordag til að fræðast aðeins um rekstur þessa veitingastaðar, sem stendur fyrir ofan ylströndina. Margir fara á Nauthól akandi í hádeginu og fá sér snarl. Svo koma aðrir hjólandi eða gangandi, fá sér bita, kaffisopa eða svalandi drykk. Margir þekkja staðinn eftir að hafa sótt þar ráðstefnur eða fundi og notið þá veitinga í leiðinni. Hjónin Tómas Kristjánsson og Sigrún Guðmundsdóttir reka Nauthól ásamt Málinu, veitingaþjónustu Háskólans í Reykjavík, sem skapar rekstrinum ákveðna festu.

Við Tómas setjumst niður með sódavatn. Það eru fáir í veitingasalnum, allt íslenskir gestir – sem er óvenjulegt á veitingahúsi í Reykjavík.

Tómas á Nauthóli er þrautreyndur veitingamaður – MYND: ÓJ

„Þetta er bara almennur íslenskur veitingastaður. Við fáum ekki túrista hingað. Ætli 98 prósent gesta séu ekki Íslendingar. Það skiptir mig engu máli þó að komi 2 milljónir túrista til landsins. Hér hefur það ekkert að segja. Minn kúnnahópur er núna á Tenerife.”

Veitingasalurinn á Nauthóli á rólegu eftirmiðdegi – MYND: ÓJ

Einhver sagði mér sögu af erlendum ferðamanni sem bað Íslending um að benda sér á veitingastað þar sem heimafólkið borðaði. Nauthóll er svoleiðis staður. Það hlýtur þó einn og einn túristi að slæðast hingað.

„Jú, en í raun og veru er það svo skrýtið að þessi flotti staður er mjög fjarlægur útlendingum sem gista niðri í bæ. Það eru svo lélegar samgöngur hingað úr miðbænum. Ef þú ætlar að komast með strætó úr miðbænum þarftu fyrst að fara á BSÍ, skipta þar og taka vagn sem gengur hingað niður eftir. Það getur tekið viðkomandi um 40 mínútur að fara þessa leið. Svo er túristinn ekkert að leita að baðströnd í Reykjavík. En náttúran hér í kring, Nauthólsvíkin og Öskjuhlíðin, er frábær. Þess vegna er leiðinlegt að fá ekki hingað fleiri túrista.”

Flaggað í Nauthólsvík – MYND: ÓJ

Íslendingar eru líka túristar – í eigin borg – í eigin landi. 

„Þeir segja ekki frá staðnum. Þeim er mikið í mun að halda Nauthóli fyrir sig sjálfa. Ég get t.d. ekki haft enskumælandi fólk að þjóna hér í salnum. Hér verða allir að geta talað íslensku af því að gestirnir eru íslenskir.”

Nauthóll – MYND: ÓJ

Það er nú hressandi að tala við þig, Tómas. Flestir kollegar þínir keppast við að reyna að ná í útlendu túristana. Þú leggur ekki mikið á þig til þess.

„Nei, í raun og veru ekki svo mikið –  en þeir eru allir velkomnir. Ég hef reynt að vera í samskiptum við ferðaskrifstofur sem eru að flytja túrista til landsins, fólk í hvataferðum og öðrum slíkum ferðum, en það sem alltaf reynist vera hindrunin er það sama: Túristar vilja fara út að borða á kvöldin en hvernig eiga þeir að komast til baka niður í bæ? 

Hvað fær Íslendingurinn þá að borða hjá ykkur?

„Hann vill fá góðan fisk og fiskisúpu. Það er númer eitt – og góð salöt. Svo þarf hamborgarinn líka að vera í boði. Gott kaffi á eftir. Þú ferð ekki hingað „út að borða” heldur kemur þú til að „fá þér að borða.” Meira að segja á kvöldin kemur fólk langmest til að „fá sér að borða.” Vegna staðsetningarinnar þá koma gestirnir sjálfir akandi hingað og þá þyrfti a.m.k. annað tveggja í bílnum að sleppa því að fá sér í glas.

Fjölbreyttur matur á borðum – MYND: Nauthóll

Það vill enginn skilja bílinn eftir. Það er svo leiðinlegt að þurfa að sækja hann daginn eftir. Fólk fer „út að borða” niður í bæ og gerir þá gjarnan eitthvað fleira sér til skemmtunar í leiðinni. Um veisluþjónustuna gildir annað. Þá er fjölbreyttari matur útbúinn og við getum tekið á móti allt að 180 manns í einu.”

Veislusalurinn – MYND: Nauthóll

Hvaða hluti af rekstri ykkar skilar mestum tekjum?

„Það er veisluþjónustan, hún skilar mestri innkomu. En veitingastaðurinn er mjög vinsæll í hádeginu. Við fáum mjög marga fastakúnna, fólk frá hinum ýmsu fyrirtækjum sem kemur hingað að borða. Hér er gott aðgengi fyrir einkabíla og næg stæði. Þú þarft ekki að borga fyrir dýr bílastæði eins og í miðborginni. Sömu kúnnar úr viðskiptalífinu nota líka veislu- og fundasalina fyrir samkomur af ýmsu tagi.”

Veitingasalurinn – MYND: Nauthóll

Veitingamenn eru ekkert of sáttir við stöðu sína, miklar verðhækkanir þrengi að þeim, ekki sé tekið tillit til mikillar vaktavinnu í kjarasamningum, álögur séu of miklar, áfengisgjaldið of hátt. Hvernig horfir þetta við þér?

„Ég get ekki annað en tekið undir þetta. Staðan hefur versnað að undanförnu. Við getum ekki velt miklum verðhækkunum út í verðlagið. Þá koma gestirnir ekki. Við neyðumst til að finna einhvern meðalveg – hvernig sem manni tekst það nú. Verðlagið í landinu er okkur erfitt. Það mun ekkert breytast. Og áfram verða opnaðir nýir veitingastaðir – þrátt fyrir þetta. Á morgun kemur einhver sem er tilbúinn að freista gæfunnar. Það er eins með þennan rekstur eins og annan – sem betur fer.”

Sjálfur ertu búinn að vera lengi í þessum bransa. 

„Ég byrjaði að læra til þjóns 1987 og hef verið í eigin rekstri frá 1999. Á þessum tíma hef ég lært gríðarlega mikið, vann á mörgum veitingastöðum niðri í bæ. Þetta er lifandi og skemmtilegt starf. 

Og þér líður vel hér í sveitinni – í Nauthólsvík?

„Það er æðislegt að vera hérna. Við konan mín höfum núna rekið þetta í sjö ár, keyptum reksturinn af Múlakaffi sem byrjaði hér 2010. Háskólinn í Reykjavík á hinsvegar húsið sjálft.”

Sundkappi fer í sjóinn – MYND: ÓJ

Við skemmtum okkur við að tala um að Nauthóll sé úti í sveit, standi á afviknum stað – þó að hann sé fast við ylströndina og Háskólann í Reykjavík, nærri flugvellinum, spölkorn frá Vatnsmýri og miðborginni. En síðan kemur brú yfir Fossvog. Hún á væntanlega eftir að breyta miklu fyrir ykkur. Þá verður Nauthóll í alfaraleið.

„Jú, maður bíður eftir því. Vonandi kemur brúin sem fyrst. Hún skiptir sköpum fyrir þetta svæði. Vonandi fylgja nýjum stúdentagörðum meiri þjónusta og fleiri veitingastaðir. Það er nefnilega kannski eini gallinn við að vera hér í Nauthólsvík. Við erum ein. Það vantar fleiri staði til að draga að fólk.” 

Tómas horfir yfir Fossvog að Kársnesi – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …

Clive Stacey hefur skipulagt ferðir fyrir Breta til Íslands í áratugi en ferðaskrifstofa hans, Discover the World, hefur fleiri áfangastaði á boðstólum. Og kannski sem betur fer, því nú hefur eftirspurn eftir Íslandsreisum dregist saman. „Í fyrsta sinn í 40 ára sögu fyrirtækisins höfum við selt fleiri ferðir til Noregs en til Íslands. Fyrirspurnum um …

Útibú Arion banka á Keflavíkurflugvelli lokaði í janúar og við fjármálaþjónustu í flugstöðinni tók Change Group sem hátti hagkvæmasta tilboðið í þennan rekstur í útboði sem Isavia efndi til í fyrra. Við þessa breytingu lagðist tímabundið niður sala á gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli þar sem Change Group hafði ekki fengið tilskilin leyfi til að sinna gjaldeyrisviðskiptum hér …

„Við erum hörkuánægð með þessa leið," segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, aðspurður áhugaverðar farþegatölur frá í Raleigh-Durham í Norður-Karólínu. Þær sýna að 5.443 farþegar nýttu sér ferðir Icelandair til og frá flugvellinum í mars sl. sem þýðir þoturnar hafi verið þéttsetnar í nánast hverri ferð enda var sætanýtingin 94 prósent að …

Árið 1990 voru 60 prósent allra viðskipta í smásöluverslunum í Danmörku lokið með greiðslu peningaseðla. Búðirnar tóku á þessum árum fúslega við krumpuðum peningaseðlum og gáfu til baka annað hvort með öðrum jafn sjúskuðum peningaseðlum eða nýstraujuðum seðlum beint úr hirslum Seðlabankans.  Í dag, rúmum þrjátíu árum síðar, enda einungis 9 prósent innkaupa með greiðslu peningaseðla. …