Samfélagsmiðlar

Staðurinn sem Íslendingar vilja halda fyrir sig

„Hér verða allir að geta talað íslensku af því að gestirnir eru íslenskir,” segir Tómas Kristjánsson, veitingamaður á Nauthóli, sem dregur til sín mikinn fjölda fastakúnna árið um kring. Nauthóll er bæði nærri miðborginni en um leið á afviknum stað. Erlendir túristar eru þar mjög sjaldséðir.

Nauthóll og Háskólinn í Reykjavík

TÚRISTI skaust í Nauthólsvík einn sólríkan vordag til að fræðast aðeins um rekstur þessa veitingastaðar, sem stendur fyrir ofan ylströndina. Margir fara á Nauthól akandi í hádeginu og fá sér snarl. Svo koma aðrir hjólandi eða gangandi, fá sér bita, kaffisopa eða svalandi drykk. Margir þekkja staðinn eftir að hafa sótt þar ráðstefnur eða fundi og notið þá veitinga í leiðinni. Hjónin Tómas Kristjánsson og Sigrún Guðmundsdóttir reka Nauthól ásamt Málinu, veitingaþjónustu Háskólans í Reykjavík, sem skapar rekstrinum ákveðna festu.

Við Tómas setjumst niður með sódavatn. Það eru fáir í veitingasalnum, allt íslenskir gestir – sem er óvenjulegt á veitingahúsi í Reykjavík.

Tómas á Nauthóli er þrautreyndur veitingamaður – MYND: ÓJ

„Þetta er bara almennur íslenskur veitingastaður. Við fáum ekki túrista hingað. Ætli 98 prósent gesta séu ekki Íslendingar. Það skiptir mig engu máli þó að komi 2 milljónir túrista til landsins. Hér hefur það ekkert að segja. Minn kúnnahópur er núna á Tenerife.”

Veitingasalurinn á Nauthóli á rólegu eftirmiðdegi – MYND: ÓJ

Einhver sagði mér sögu af erlendum ferðamanni sem bað Íslending um að benda sér á veitingastað þar sem heimafólkið borðaði. Nauthóll er svoleiðis staður. Það hlýtur þó einn og einn túristi að slæðast hingað.

„Jú, en í raun og veru er það svo skrýtið að þessi flotti staður er mjög fjarlægur útlendingum sem gista niðri í bæ. Það eru svo lélegar samgöngur hingað úr miðbænum. Ef þú ætlar að komast með strætó úr miðbænum þarftu fyrst að fara á BSÍ, skipta þar og taka vagn sem gengur hingað niður eftir. Það getur tekið viðkomandi um 40 mínútur að fara þessa leið. Svo er túristinn ekkert að leita að baðströnd í Reykjavík. En náttúran hér í kring, Nauthólsvíkin og Öskjuhlíðin, er frábær. Þess vegna er leiðinlegt að fá ekki hingað fleiri túrista.”

Flaggað í Nauthólsvík – MYND: ÓJ

Íslendingar eru líka túristar – í eigin borg – í eigin landi. 

„Þeir segja ekki frá staðnum. Þeim er mikið í mun að halda Nauthóli fyrir sig sjálfa. Ég get t.d. ekki haft enskumælandi fólk að þjóna hér í salnum. Hér verða allir að geta talað íslensku af því að gestirnir eru íslenskir.”

Nauthóll – MYND: ÓJ

Það er nú hressandi að tala við þig, Tómas. Flestir kollegar þínir keppast við að reyna að ná í útlendu túristana. Þú leggur ekki mikið á þig til þess.

„Nei, í raun og veru ekki svo mikið –  en þeir eru allir velkomnir. Ég hef reynt að vera í samskiptum við ferðaskrifstofur sem eru að flytja túrista til landsins, fólk í hvataferðum og öðrum slíkum ferðum, en það sem alltaf reynist vera hindrunin er það sama: Túristar vilja fara út að borða á kvöldin en hvernig eiga þeir að komast til baka niður í bæ? 

Hvað fær Íslendingurinn þá að borða hjá ykkur?

„Hann vill fá góðan fisk og fiskisúpu. Það er númer eitt – og góð salöt. Svo þarf hamborgarinn líka að vera í boði. Gott kaffi á eftir. Þú ferð ekki hingað „út að borða” heldur kemur þú til að „fá þér að borða.” Meira að segja á kvöldin kemur fólk langmest til að „fá sér að borða.” Vegna staðsetningarinnar þá koma gestirnir sjálfir akandi hingað og þá þyrfti a.m.k. annað tveggja í bílnum að sleppa því að fá sér í glas.

Fjölbreyttur matur á borðum – MYND: Nauthóll

Það vill enginn skilja bílinn eftir. Það er svo leiðinlegt að þurfa að sækja hann daginn eftir. Fólk fer „út að borða” niður í bæ og gerir þá gjarnan eitthvað fleira sér til skemmtunar í leiðinni. Um veisluþjónustuna gildir annað. Þá er fjölbreyttari matur útbúinn og við getum tekið á móti allt að 180 manns í einu.”

Veislusalurinn – MYND: Nauthóll

Hvaða hluti af rekstri ykkar skilar mestum tekjum?

„Það er veisluþjónustan, hún skilar mestri innkomu. En veitingastaðurinn er mjög vinsæll í hádeginu. Við fáum mjög marga fastakúnna, fólk frá hinum ýmsu fyrirtækjum sem kemur hingað að borða. Hér er gott aðgengi fyrir einkabíla og næg stæði. Þú þarft ekki að borga fyrir dýr bílastæði eins og í miðborginni. Sömu kúnnar úr viðskiptalífinu nota líka veislu- og fundasalina fyrir samkomur af ýmsu tagi.”

Veitingasalurinn – MYND: Nauthóll

Veitingamenn eru ekkert of sáttir við stöðu sína, miklar verðhækkanir þrengi að þeim, ekki sé tekið tillit til mikillar vaktavinnu í kjarasamningum, álögur séu of miklar, áfengisgjaldið of hátt. Hvernig horfir þetta við þér?

„Ég get ekki annað en tekið undir þetta. Staðan hefur versnað að undanförnu. Við getum ekki velt miklum verðhækkunum út í verðlagið. Þá koma gestirnir ekki. Við neyðumst til að finna einhvern meðalveg – hvernig sem manni tekst það nú. Verðlagið í landinu er okkur erfitt. Það mun ekkert breytast. Og áfram verða opnaðir nýir veitingastaðir – þrátt fyrir þetta. Á morgun kemur einhver sem er tilbúinn að freista gæfunnar. Það er eins með þennan rekstur eins og annan – sem betur fer.”

Sjálfur ertu búinn að vera lengi í þessum bransa. 

„Ég byrjaði að læra til þjóns 1987 og hef verið í eigin rekstri frá 1999. Á þessum tíma hef ég lært gríðarlega mikið, vann á mörgum veitingastöðum niðri í bæ. Þetta er lifandi og skemmtilegt starf. 

Og þér líður vel hér í sveitinni – í Nauthólsvík?

„Það er æðislegt að vera hérna. Við konan mín höfum núna rekið þetta í sjö ár, keyptum reksturinn af Múlakaffi sem byrjaði hér 2010. Háskólinn í Reykjavík á hinsvegar húsið sjálft.”

Sundkappi fer í sjóinn – MYND: ÓJ

Við skemmtum okkur við að tala um að Nauthóll sé úti í sveit, standi á afviknum stað – þó að hann sé fast við ylströndina og Háskólann í Reykjavík, nærri flugvellinum, spölkorn frá Vatnsmýri og miðborginni. En síðan kemur brú yfir Fossvog. Hún á væntanlega eftir að breyta miklu fyrir ykkur. Þá verður Nauthóll í alfaraleið.

„Jú, maður bíður eftir því. Vonandi kemur brúin sem fyrst. Hún skiptir sköpum fyrir þetta svæði. Vonandi fylgja nýjum stúdentagörðum meiri þjónusta og fleiri veitingastaðir. Það er nefnilega kannski eini gallinn við að vera hér í Nauthólsvík. Við erum ein. Það vantar fleiri staði til að draga að fólk.” 

Tómas horfir yfir Fossvog að Kársnesi – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …