Samfélagsmiðlar

Akureyrarflug á dagskrá

Í vor hætti þýska flugfélagið Condor við flug til Akureyrar og rekstur Niceair stöðvaðist. Núna berast aftur á móti jákvæð tíðindi af millilandaflugi frá Akureyri.

Í vetur munu þotur Easyjet fljúga beint til Akureyrar frá Lundúnum.

Það var í mars árið 2012 sem breska lággjaldaflugfélagið easyJet hóf að fljúga til Íslands. Fyrst frá London en fljótlega bættust við ferðir frá fleiri breskum flugvöllum og með þessu stóraukna framboði á Íslandsflugi, á vegum stærsta lággjaldaflugfélags Bretlands, þá fjölgaði bresku ferðafólki hér á landi hratt.

Um leið breyttist ferðamynstrið því Bretar fóru að venja komur sínar til Íslands í miklu meira mæli yfir vetrarmánuðina. Árið 2012 komu álíka margir breskir ferðamenn hingað í febrúar og júlí en árið 2019 voru Bretarnir fleiri hér í febrúar en samanlagt yfir sumarmánuðina þrjá.

Breska flugfélagið hefur haft augastað á flugi til Akureyrar en líkt og Túristi greindi frá þá var áformum um að hefja flug norður sl. haust slegið á frest. Núna ætla stjórnendur Easyjet hins vegar að láta vaða með tveimur brottförum í viku frá London. Fyrsta ferð verður farin í lok október og verða ferðirnar í boði fram í lok mars.

„Akureyri er höfuðstaður Norðurlands, sem býður upp á frábæra möguleika fyrir ferðamenn og er stutt frá aðdráttaröflum náttúru, menningar og sögu. Gestir geta notið hvalaskoðunar, farið í gönguferðir, fylgst með Norðurljósum eða farið í böð á sama tíma og þau njóta útsýnisins sem svæðið býður upp á,“ segir í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands.

„Það má segja að nýr áfangastaður sé að verða til fyrir Breta með þessum flugferðum, einmitt á þeim árstíma þar sem rólegra hefur verið í ferðaþjónustu. Að sama skapi verður til spennandi valmöguleiki fyrir ferðalög heimafólks og annarra atvinnugreina, bæði til Bretlands en einnig í tengiflugi í gegnum Gatwick.

Góð reynsla var af því vetrarflugi sem boðið var upp á yfir vetrartímann fyrir nokkrum árum beint frá Bretlandi til Akureyrar. Ferðaþjónusta á Norðurlandi hefur unnið vel í vöruþróun og markaðssetningu og það er nú að skila sér. Búast má við allt að 1500 gistinóttum á viku yfir vetrartímann með þessari nýju flugleið. Því má vænta þess að flug easyJet breyti þróun ferðaþjónustu á Íslandi með beinu aðgengi að Norður- og Austurlandi,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, í tilkynningu.

Þotur Easyjet munu leggja í hann frá Akureyri rétt fyrir hádegi á þriðjudögum og laugardögum. Heimferðin frá London er á dagskrá rúmlega sjö á morgnana.

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …