Samfélagsmiðlar

Bandarísk flugfélög undir smásjá

Búist er við að fjöldi flugfarþega í Bandaríkjunum á þessu ári verði álíka og 2019, áður en Covid-19-faraldurinn skall á. Þessi viðsnúningur lofar auðvitað góðu fyrir flugfélög vestra en auðveldlega gæti slegið í bakseglin ef ekki tekst að mæta með sóma þessari eftirspurn og koma í veg fyrir miklar seinkanir eða aflýsingu flugferða.

Beðið flugs

Bataferlið í bandarískum flugheimi frá lokum heimsfaraldursins hefur ekki verið áfallalaust. Nokkrum sinnum á þessu tímabili hafa flugsamgöngur stöðvast og flugfélögin uppskorið mikla reiði og angist fólks sem þurft hefur að dúsa langtímum saman á flugstöðvum eða að farangur hefur orðið viskila við það.

Stjórnmálamenn og neytendasamtök hafa auðvitað brugðist við þessu fyrir hönd sinna umbjóðenda og gagnrýnt flugfélögin harkalega fyrir vangetu og klúður. Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna hefur sótt að flugfélögunum um að bæta farþegum tjón vegna seinkana og aflýstra flugferða – og líka krafist meira gagnsæis í því hvernig flugfargjöld eru reiknuð. Þetta hefur verið meðal helstu áherslumála Pete Buttigieg, samgönguráðherra alríkisstjórnarinnar. 

Ef flugfélögunum í Bandaríkjunum tekst illa upp við að sinna sumartraffíkinni 2023 og allt fer í hnút eins og gerðist í vetur þá eykst þrýstingur á löggafann og eftirlitsstofnanir um að beita sér gegn þeim af meiri hörku. Sama er að segja um FAA, bandarísku flugmálastjórnina, sem ábyrg er fyrir flugumferðarstjórn sem brugðist hefur ítrekað á nýliðnum árum – oftast vegna tækniörðugleika sem rekja má til úrelts búnaðar eða skorts á uppfærslum. 

Í biðstofu flugvallar – MYND: Mohamad Ilham-Fauzan / Unsplash

„Flugfélögin verða undir smásjá og ég tel að þau hafi ekki efni á að lenda aftur í samskonar vandræðum og síðasta sumar,“ hefur The New York Times eftir William J McGee hjá American Economic Liberties Project, samtök sem stunda rannsóknir og beita sér fyrir umbótum fyrir neytendur vestra. Hafa samtökin mjög gagnrýnt samþjöppun í flugheiminum. „Þessar stöðugu frestanir á flugferðum á síðustu stundu, sem gjarnan voru skýrðar með því að skortur væri á starfsfólki, voru óásættanlegar. Flugfélögunum verður ekki stætt á því að láta þetta endurtaka sig. Það myndi hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir þau.“

Flugvél United tekur á loft frá flugvellinum í Houston – MYND: Henry Siismets / Unsplash

Nú hafa forráðamenn flugfélaga og flugmálayfirvalda í Bandaríkjunum staðhæft að gerðar hafi verið nauðsynlegar umbætur til að koma í veg fyrir jafn miklar truflanir á flugi og orðið hafa á síðustu misserum. Minni líkur séu á því að ringulreið skapist í fluginu og allt eigi vonandi eftir að ganga vel.

Flugumferðin fer nú vaxandi vestanhafs með hverri viku sem líður. Á mörgum flugvallanna er búist við að farþegafjöldinn fari umtalsvert fram úr því sem hann var í fyrrasumar. Þetta á t.d. við um flugvellina í New York, Los Angeles, Houston, Denver og Seattle. Flugfélögin segjast hafa búið sig undir meiri ferðaáhuga með því að nota stærri flugvélar – en fækka ferðum á móti til að einfalda umferðina, ráða miklu fleira starfsfólk og hafa betri gætur á merkjum um að umferðartruflun sé yfirvofandi. Tíminn verður svo að leiða í ljós hvernig til tekst.

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …