Samfélagsmiðlar

Er ekkert verið að framleiða?

Þegar allt er saman tekið hefur orkuframleiðslugeta Íslendinga aukist um ríflega 2,2 teravattstundir á síðustu 10 árum en þrátt fyrir það er því stöðugt haldið fram að ekki sé framleitt nóg, eins og Guðmundur Steingrímsson fer hér yfir í annarri grein af þremur og spyr: „En þá kemur auðvitað að hinni heimspekilegu, hagfræðilegu og félagssálfræðilegu spurningu sem blasir við: Hvað er nóg?"

Á Seyðisfirði. Sjávarútvegurinn og fiskiðnaðurinn þarf tryggara rafmagn - frá endurnýjanlegum orkugjöfum - MYND: ÓJ

Svolítið ber á því í umræðu um orkubúskap Íslendinga að því sé haldið fram að Íslendingar hafi framleitt sáralítið af nýrri grænni orku á undanförnum árum. Eins og minnst var á í síðustu grein um raforkuframleiðslu þjóðarinnar, skrifuð í því augnamiði að reyna að varpa ljósi á þessi mál öll, að þá lét til dæmis umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslendinga, Guðlaugur Þór Þórðarson, þau orð falla í umræðu á þingi í nóvember síðastliðnum að Íslendingar hafi gert „afskaplega lítið í að búa til græna raforku síðustu 15 ár.“

Þetta er athyglisverð yfirlýsing, og fleiri hafa sagt eitthvað svipað. En er þetta rétt? Skoðum málið. 

Af tölum Orkustofnunar að dæma jókst raforkuvinnsla Íslendinga úr tæpum 12 terawattstundum (TWst) árið 2007 í rúm 20 TWst árið 2022.  Það þýðir að á því 15 ára tímabili jókst raforkuframleiðsla Íslendinga um tæp 70 prósent. Fullyrðing Guðlaugs um að lítið hafi bæst við í grænni raforkuframleiðslu á Íslandi á undanförnum 15 árum virðist því alls ekki geta staðist. Ef farið er aðeins lengra aftur í tímann, til 2006, sýna tölurnar að raforkuframleiðslan hefur í raun meira en tvöfaldast, úr tæpum 10 TWst í 20. 

Til þess að allrar sanngirni sé gætt er mikilvægt að hafa í huga að í lok árs 2007 var stærsta virkjun Íslendinga, Kárahnjúkavirkjun, tekin í gagnið. Hún getur framleitt 4,8 TWst á ári af rafmagni, eða sem nemur allri orkunotkun eins af álverunum — í þessu tilviki Alcoa Fjarðaráls.  Það getur verið að ráðherra hafi átt við að síðan Káranhjúkavirkjun var ræst hafi sáralítið bæst við í raforkuframleiðslu á Íslandi. En er það þá rétt? 

Nei, ekki alveg. Ef Kárahnjúkavirkjun er tekin út úr jöfnunni kemur í ljós að raforkuframleiðsla Íslendinga síðastliðin 15 ár hefur samt aukist um einhver 20 prósent. Það er all nokkuð. Tölurnar tala sínu máli, og aðrar staðreyndir gera það líka. Skoðum verklegar framkvæmdir.

Nokkrar nýjar stórar, glæsilegar virkjanir og virkjanaviðbætur hafa verið teknar í gagnið á síðustu árum. Búðarhálsstöð var gangsett árið 2014, en hún getur framleitt um 0,6 TWst á ári, sem er u.þ.b. jafnmikið og öll heimilin þurfa. Þeistareykjastöð fyrir norðan var svo ræst árið 2017, en hún getur framleitt 0,738 TWst á ári (eða 738 gígawattstundir), eða sem nemur um allri almennri raforkunotkun heimilanna og sumarbústaðanna að auki. Ári síðar var svo Búrfellsstöð 2 gangsett, sem er vatnsaflsvirkjun á vegum Landsvirkjunar. Hún getur framleitt jafnmikla raforku og öll smásöluverslun, allir gististaðir og allir veitingastaðir á Íslandi nota, eða um 0,3 TWst.  Og svo nýverið hefur Reykjanesvirkjun, sem er gufuaflsvirkjun HS Orku, verið stækkuð. Að auki hafa þónokkrar smávirkjanir verið teknar í gagnið. 

Þegar allt er saman tekið hefur því orkuframleiðslugeta Íslendinga aukist um ríflega 2,2 TWst, einungis á síðustu 10 árum. Af þessu yfirliti að dæma virðist því vera nokkuð langsótt að halda því fram að ekki sé framleitt nóg. En þá kemur auðvitað að hinni heimspekilegu, hagfræðilegu og félagssálfræðilegu spurningu sem blasir við: Hvað er nóg?

Um og upp úr 2015 eða svo fór að bera á stefnumarkandi yfirlýsingum stjórnmálamanna og forsprakka í atvinnulífi um að á Íslandi yrði ekki byggð upp frekari stóriðja í anda álveranna þriggja. Ástæður voru nokkuð augljósar: Það var ekki til meiri raforka í svoleiðis verkefni. Og þeir sem mæltu hvað harðast fyrir sex álverum eða fleirum á Íslandi á sínum tíma hafa ekki flaggað þeim áformum að neinu marki á undanförnum árum. 

En hér varð þó svolítið áhugaverð þróun, sem hefur ef til vill ekki verið mikið rædd eða borin undir almenning. Miðað við aukninguna sem þó hefur orðið í raforkuframleiðslu mætti ætla að allt væri í stakasta lagi á Íslandi. Nóg til. Ríflega tvær terawattstundir til viðbótar ættu að fara langt með að nægja, í dágóðan tíma, fyrir heimilin, þjónustu og fjölbreyttan iðnað og rafvæðingu bílaflotans. Fyrst enginn stór aðili hefur komið til landsins og tekið allan strauminn — eins og til siðs hefur verið — er þá ekki nóg til og allir í góðu stuði?

Nei, því er ekki að heilsa. Eins og kemur fram í tölum Orkustofnunar og rakið var í síðustu grein hefur langstærsti hluti framleiðsluaukningarinnar á síðastliðnum árum runnið til gagnavera. Og vegna þess að hann hefur gert það, að þá er jú lítið eftir handa öðrum en þeim, af allri þessari aukningu. 

Ein leið til að leggja skilning í yfirlýsingar um að lítið hafi verið framleitt af grænni orku — sem stangast á við staðreyndirnar — er að benda á að orðið „lítið“ sé hér afstætt. Ef væntingarnar voru og eru meiri, þá telst þetta kannski lítið. En hvernig á þá að ákveða væntingarnar? Hvað viljum við? 

Ferðaþjónusta er orkudrifin atvinnugrein í leit að sjálfbærum lausnum – MYND: ÓJ

Hugsanlega stendur viljinn til þess að Íslendingar geti mætt sívaxandi eftirspurn eftir grænni orku betur. Eins og mál hafa þróast í heiminum, með sívaxandi áherslu á græna orku í stað jarðefnaeldsneytis vegna viðureignar við loftslagsvána, hefur eftirspurnin eftir grænni orku vaxið gríðarlega. Kannski naga margir sig í handabökin núna, sem hafa staðið að stefnumörkun þjóðarinnar í raforkumálum, yfir því að nú þegar sé búið að ráðstafa svona miklu af raforkunni. 

En þannig er það. Stóri lærdómurinn af þessu er sá að Íslendingar eiga ekki ótæmandi brunn af raforku. Ekki þarf að fletta blöðum langt aftur í tímann hins vegar til þess að finna kappnóg af gömlum yfirlýsingum alls konar fólks á Íslandi um að hér væri yfirdrifið nóg af raforku, ætíð. Engar áhyggjur þyrfti að hafa af því að hún yrði einhvern tímann uppurin. Sú trú var svo kannski ástæðan fyrir því að allt kapp var lagt á að afhenda raforkuna fáum stórnotendum á ákaflega hagstæðu verði í snatri. 

Ástandið núna er þá kannski svolítið eins og þynnka eftir fyllerí.  Við hefðum viljað fara hægar í sakirnar, gera betri áætlanir, gæta að okkur, í stað þess að fara svona geyst. Eða hvað? Margur spyr sig hvort hugsanlega hefði verið skynsamlegra að virkja minna og selja á hærra verði, fremur en að virkja svona mikið og fljótt og selja á lágu verði.

Einhvern tímann hefði verið gaman að ræða þá spurningu á Íslandi yfirvegað, en það skip er þó líklega farið. Nú blasir við að sparlega þarf að fara með þennan þjóðarauð. En er þjóðin þá komin á þann stað að það ríki beinlínis raforkuskortur? 

Umræðan um raforkuskort virðist vera nokkuð málum blandin. Í fyrsta lagi liggur jú fyrir að það skortir vissulega raforku til að mæta allri eftirspurn fyrirtækja, nýrrar stóriðju, gagnavera og annarra, stæði slíkt yfir höfuð til. Slík stefna væri alls ekki raunhæf, miðað við að orkuforðinn er jú takmarkaður. Ef ætlunin væri að mæta allri eftirspurn, þá væri auðvitað alltaf orkuskortur. 

Í hina röndina virðist umræðan um orkuskort vera nokkuð villandi, sérstaklega í ljósi þess að orkufyrirtækin hafa haft það sem meginreglu í sínum umsvifum að ráðast einungis í stórar virkjanaframkvæmdir þegar kaupandi að orkunni er fyrir hendi. Raforka hefur þannig verið framleidd upp í eftirspurnina. Það hefur ekki tíðkast að framleiða raforku bara svona til þess að eiga eitthvað uppá að hlaupa. Þess vegna er orkubúskapur þjóðarinnar ekki þannig að nú, eða nokkurn tímann áður, hafi verið hægt að segja að það sé til nóg af einhvers konar auka, óraðstafaðri, raforku. 

Hins vegar hefur oft verið til eitthvað sem heitir umframorka. Hún hlýst af því að stundum er mikið vatn í lónum vatnsaflvirkjana og hægt er að framleiða mun meiri raforku en sem nemur þeirri orku sem er að jafnaði seld, og tryggð, til fastra kaupenda.  Í stað þess að láta þessa umframorku renna til sjávar hefur Landsvirkjun tekist að gera úr henni söluvöru, sem er fyrirtak. Fyrirtæki, eins og fiskbræðslur, sem vinna árstíðarbundið og þurfa raforku hluta úr ári, hafa gert kaupsamninga um þessa ótryggu orku. Þessi fyrirtæki fá orkuna á lægra verði en ella, ef þessi orka er á annað borð til. 

Á undanförnum árum hefur staða lónanna verið þannig að þessi ótrygga orka, svokallaða, hefur ekki verið til. Þess vegna hafa fyrirtæki neyðst til að flytja inn olíu til að keyra sína starfsemi, sem er auðvitað hryggilegt í samfélagi sem stærir sig af hreinni orku. Það má segja að þetta sé á vissan hátt orkuskortur, en þó er réttara að segja að þetta sé skortur á ótryggri orku. Söluvaran „ótrygg orka“ hefur verið af skornum skammti. Og þess vegna er hún jú einmitt kölluð þetta: Ótrygg. 

Þegar fullyrt er á þingi og víðar að lítið hafi verið framleitt af nýrri grænni orku á undanförnum árum á Íslandi getur verið að fólk hafi þessi dæmi til hliðsjónar, af loðnubræðslum að brenna olíu í sjálfu landi hreinorkunnar.  En ef þetta er það sem átt er við með orkuskorti, að þá blasir líka við að það getur verið svolítið snúið að mæta honum með nýjum virkjunum.  Erfitt er að ímynda sér virkjun á vegum stóru veitufyrirtækjanna sem mætir bara eftirspurn eftir ótryggri orku á lágu verði. Ótrygga orkan er jú bara hliðarvara. 

Þannig að hér er úr vöndu að ráða. Hugsanlega munu þeir aðilar sem þurfa sveifluorku — fremur en að kaupa rafmagn í fastri áskrift — geta komið sér upp í meiri mæli sínum eigin grænu orkjugjöfum, eins og sólarorku eða vindorku, eða keyrt sínar rafstöðvar á lífdísil, vetni eða metani, í stað olíu. Hver veit? Tækninni vindur fram.

Í næstu grein spyrjum við: Er það virkilega rétt að ekki séu næg virkjunaráform fyrir hendi til þess að mæta fyrirsjáanlegri aukningu í raforkunotkun á Íslandi á næstu árum? 

Það er rafmögnuð spurning. Farið ekki langt. 


SMELLTU HÉR TIL AÐ BÓKA ÁSKRIFT. MEÐ FLEIRI ÁSKRIFENDUM VERÐUR FF7 ENN BETRI

Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …