Samfélagsmiðlar

Kjötbærinn til sölu?

Kødbyen eða Kjötbærinn er hverfi á Vesterbro í Kaupmannahöfn sem áratugum saman var miðstöð kjötiðnaðarins í borginni. Uppbygging í þessum bæjarhluta hófst í kringum 1930 en upp úr aldamótunum 2000 varð borgarstjórn Kaupmannahafnar ljóst að byggingarnar í Kjötbænum gætu kannski verið áhugaverðar fyrir aðra en slátrara. Margar eru byggingarnar friðaðar því þær eru sögulega mikilvægar og vegna sérstaks arkitektúrs þeirra.

Sú hugmynd kom fram að gera svæðið að nýjum menningarlegum brennipunkti innan borgarinnar og byrjaði borgarráðið þegar árið 2000 að vinna að því. Í dag hafa safnast saman í Kjötbænum mörg fyrirtæki sem geta talist til hins skapandi geira. Sérstaklega eru mörg veitingahús (Tommaborgarar, Warpigs, Dej Pizza, Pizzeria MaMeMi, PatePate, Kødbyens Fiskebar, Gaza Grill …), gallerí (V1, Gallery Poulsen og Bo Bjerggaard) og næturklúbbar (Jolene Bar, Baggen, KB3) í þessum borgarhluta. Kjötvinnsla er þó enn mikilvæg starfsemi í Kjötbænum og eru slátrarar enn að störfum. 

Svæðið er þekkt fyrir líflegt næturlíf þar sem Jolene, Bakken og fleiri næturklúbbar standa hlið við hlið. Vegna þess að byggingarnar eru friðaðar í Kjötbænum má ekki setja skilti á framhliðarnar og því getur oft verið erfitt að finna þá staði sem maður leitar að. Einnig hafa veitingahúsin og barirnir þurft að varðveita innréttingar frá slátraratíðinni og því eru staðirnir innan Kjötbæjarins oft ansi hráir. 

Undanfarna mánuði hefur sú umræða magnast að byggingarnar í Kjötbænum séu orðnar mjög niðurníddar og þurfi brátt að koma til víðtækra viðhaldsaðgerða. Samkvæmt mati sérfræðinga kosta slíkar aðgerðir um 1,1 milljarð danskra króna. Það eru engir smápeningar og þeir liggja ekki á lausu í borgarsjóði Kaupmannahafnar.

Hefur þessi umræða um viðhald og kostnað orðið til þess að margir velta fyrir sér hvort Kjötbærinn sé kannski til sölu. Fyrir tveimur árum sagði yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar, Sophie Hæstorp Andersen, að Kjötbærinn væri alls ekki til sölu, „maður selur ekki sál borgarinnar,“ en nú er kominn annar tónn í umræðuna. 

Jafnaðarmannaflokkur yfirborgarstjóra hefur nú ákveðið að þrýsta á fjármálasýslu borgarinnar að kanna hvort hægt sé selja Kjötbæinn. Byggingarnar eru orðnar svo hrörlegar að sumar þeirra hanga nánast saman á gaffateipi og skólplagnir svo laskaðar að heilsu fólks á svæðinu gæti stafað hætta af ástandinu. 

Peningar hafa ekki fundist til að ráðast í nauðsynlegar endurbætur og hafa hinir „bláu“ flokkar í borgarstjórn Kaupmannahafnar því ýtt á að Kjötbærinn verði settur á sölu. Menningar og tómstundaborgarstjóri, Kaupmannahafnar, Laura Rosenvinge, segist vera „opin fyrir öllum mögulegum lausnum á vandanum en það sé mikilvægt að þetta hverfi verði opið öllum Kaupmannahafnarbúum. Við notum þegar gífurlegar upphæðir í að reyna að halda þessum byggingum við og þetta eru peningar sem annars hefði verið hægt að nota í uppbyggingu leikskóla eða skóla. Allt er þetta spurning um forgangsröðun. Kjötbærinn er friðaður og því er ekki bara hægt að ákveða si svona að nú verði byggðar íbúðir. Við leggjum áherslu á að varðveita menningarlífið í þessu hverfi. En það kemur til greina að selja þetta allt til fjárfestingarsjóðs eða til góðgerðarsjóðs til að tryggja framtíð menningarlífsins.“

Hinn svokallaði hvíti hluti Kjötbæjarins, þar sem allar byggingarnar eru hvítar, var friðaður upp úr 1990 því húsin teljast mikilvæg verk innan hins alþjóðlega fúnksjonalisma í byggingarlist. Friðunin takmarkar mjög kaupendahópinn. Ekki eru margir peningasterkir aðilar sem eru áhugasamir um að eiga friðaðar byggingar. 

„Mér finnst það ekki fíaskó að eiga hverfi eins og Kjötbæinn þótt illa sé komið fyrir byggingum. Kjötbærinn er til mikillar gleði fyrir ótrúlega marga Kaupmannahafnarbúa. Í okkar augum er hann hluti af sál Kaupmannahafnar. En það er algjörlega ljóst að við þurfum að mynda okkur heildarsýn á hverfið og hvernig við viljum varðveita það,“ segir menningar og tómstundaborgarstjóri, Kaupmannahafnar.

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …