Samfélagsmiðlar

Stjörnukokkur fer upp í himinhvolfin til að elda dýrindisrétti fyrir sex geimferðamenn

MYND: Space Perspective

Rasmus Munk kemur frá Jótlandi, nánar tiltekið bænum Randers. Þegar Rasmus var fimmtán ára hætti hann í skóla. Skólinn var ekki hans staður. Í stað þess að mæta á morgnana og setjast á skólabekk var það litla skellinaðran hans sem fékk alla athygli drengins. Í huga hins fimmtán ára gamla Rasmusar var það „eiginlega bara tvennt sem framtíðin bauð upp á; að gerast bifvélavirki eða ganga til liðs við mótorhjólagengið í bænum,“ eins og hann sagði í viðtali við dönsku pressuna. En fyrir algera tilviljun fékk Rasmus vinnu í eldhúsi á hóteli í Randers og þaðan var ekki aftur snúið. „Ég veit ekki hvað gerðist því ég er alinn upp á heimili þar sem hvorki er áhugi á matargerð eða neinu sem endar á list. En ég féll alveg fyrir matargerðarlistinni.“

Þrátt fyrir þennan bakgrunn ákvað Rasmus að loknu kokkaprófi, þá 23 ára gamall, að taka lestina frá Vejle og alla leið til Kaupmannahafnar með það fyrir augum að opna veitingastað. Hann vissi svo sem ekki hvernig honum ætti að takast að búa til veitingahús í höfuðborginni en nafnið hafði hann alla vega á hreinu: Alchemist, skyldi veitingastaðurinn hans heita.

Það kostaði unga manninn blóð svita og tár að koma sínum eigin veitingahúsi á lappirnar. Rasmus hafði sem betur er tekið með sér hamar, bor og sög frá Randers og fullur bjartsýni leigði hann húsnæði og hóf sjálfur að innrétta matsölustað þar sem pláss var fyrir 12 manns í sæti. Allt gekk eins og best var á kostið. Maturinn hjá Rasmus þótti lostæti og hróður hans og Alkemistans spurðist hratt út meðal matgæðinga í Kaupmannahöfn. Það var svo árið 2017 að milljarðamæringurinn Lars Seier Christensen, sem þá hafði nýlega selt hlut sinn í Saxobanka, kom að máli við Rasmus og vildi að þeir opnuðu í sameiningu nýjan Alchemist þar sem allt var stærra, meira og betra en áður hafði þekkst í veitingahúsarekstri í Kaupmannahöfn. Rasmusi þótti þetta góð hugmynd.

Litli Alkemistinn lokaði og nú hófst undirbúningur að nýjum stað sem átti að opna tveimur árum síðar í risastóru húsnæði á Refshalsøen: 2.200 fermetrar, 30 manna starfslið, þar af 15 kokkar. Þetta var nýi Alkemistinn. Svo kom að því. Þann 4. júlí árið 2019 opnuðu risavaxnar bronsdyr nýja staðarins – dyrnar eru 4 metra háar og 3 metra breiðar, hannaðar af myndlistarmanninum Maria Rubnika – og á fjórum mínútum var allt uppselt og 6.500 manns á biðlista til að fá borð á þessum umtalaða veitingastað. 

„Metnaðurinn er gífurlegur. Við ætlum að vera áhrifaríkasti veitingastaður í heimi – eða ætti maður að segja frumlegasti staður í heimi,“ sagði Rasmus Munk í viðtali í tilefni af opnun staðarins. Alþjóðlegir matgagnrýnendur áttu ekki orð til að lýsa hrifningu sinni. Stjörnuregn frá öllum heimsins fjölmiðlum og orð eins og „töfrar“ „og algjörlega óviðjafnanlegt“ voru notuð. Áhugamenn um framúrstefnulega matargerðarlist komu fljúgandi langt að á einkaþotum sínum og það tók nýja Alkemistann ekki nema sjö mánuði að hlotnast tvær Michelinstjörnur.  

Úr stefnulýsingu Alchemist – MYND: Alchemist Holistic Cuisine Manifest

Nú er Rasmus Munk orðinn einn eftirsóttasti matreiðslumeistari í heimi og í hverri viku fær hann ný tilboð um að taka þátt í alls kyns spennandi uppákomum. Tilboðin eru svo mörg að hann nær ekki einu sinni að svara þeim öllum. En fyrir nokkrum vikum barst tölvupóstur frá Bandaríkjunum sem fór eiginlega framhjá Rasmusi Munk, en fjölmiðlafulltrúi Alkemistans var nógu vakandi til að lesa tölvupóstinn. Bréfið var frá fyrirtæki sem kallar sig SpaceVIP og sérhæfir sig í að þróa það sem af sumum hefur verið kallað geimtúrismi. Hugmynd þeirra hjá SpaceVIP er að senda sex gesti út í geim í hylki sem skotið er upp með geimskutlu gegn 70 milljóna króna greiðslu á mann. Og það mikilvægasta: Á meðan geimhylkið Neptune svífur í vetnisfylltum loftbelg 30 km yfir jörðinni á Rasmus að bera fram dýrindis máltíð sem hann hefur eldað fyrir geimgestina. Útsýnið ætti ekki að vera af verri endanum á meðan gestirnir njóta máltíðar stjörnukokksins.

Það eru bandarísku fyrirtækin SpaceVIP og Space Perspective sem standa á bak við þessa geimferð sem verður farin frá Flórída árið 2025. Ferðin á að taka sex klukkutíma frá því lagt er upp frá Flórída og þar til geimhylkið svífur niður og lendir í sjónum. 

„Ég hef verið heillaður af geimnum síðan ég heimsótti Planetariet í Kaupmannahöfn þegar ég var á skólaferðalagi með bekknum mínum frá Randers. Það var í fyrsta sinn sem mér fannst ég vera lentur í algjörlega nýrri veröld. Áhrifin af þessu ferðalagi hef ég nýtt við matargerðina hjá Alkemistanum. Þegar mér bauðst að vera með til að skapa gastrónómískt ævintýri úti í geimnum, ásamt fremstu vísindamönnum heims og færustu hönnuðum, fannst mér ég ekki geta annað en orðið við þessari áskorun þrátt fyrir að ég þjáist af mikilli lofthræðslu,“ sagði Rasmus Munk í samtali við JyllandsPosten. 

Í veitingahúsinu á Refshalsøen er undirbúningur þegar hafinn og starfsliðið er að þróa matseðil fyrir geimferðina sem byggir á endurtúlkun á síðustu sextíu árum í geimrannsóknum og þeim áhrifum sem rannsóknirnar hafa haft á þróun heimsins – bæði á vísindalegu plani og heimspekilegu.

Maturinn sem Rasmus Munk leggur á borð fyrir gestina sex á að túlka þessa sögu með aðferðum matargerðarinnar.

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …